ÍRA barst jákvætt svar frá Fjarskiptastofu (FST) þann 7. desember við ósk félagsins um endurnýjun heimildar til notkunar tíðnisviðsins 1850-1900 kHz vegna þátttöku í alþjóðlegum keppnum á almanaksárinu 2024. Heimildin nær til eftirtalinna keppna:

CQ 160 metra keppnin á CW – 26.-28. janúar 2024.
ARRL International DX keppnin á CW – 17.-18. febrúar 2024.
CQ 160 metra keppnin á SSB – 23.-25. febrúar 2024.
ARRL International DX keppnin á SSB – 2.-3. mars 2024.
CQ WW WPX keppnin á SSB – 30.-31. mars – 2024.
CQ WW WPX keppnin á CW – 25.-26. maí 2024.
IARU HF World Champinship keppnin á CW/SSB 13.-14. júlí 2024.
CQ WW DX keppnin á SSB 26.-27. október 2024.
CQ WW DX keppnin á CW 23.-24. nóvember 2024.
ARRL 160 metra DX keppnin 7.-8. desember 2024.

G-leyfishafar hafa heimild til að nota fullt afl, allt að 1kW. N-leyfishafar njóta sömu tíðniréttinda, en aflheimild miðast við mest 10W.

Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur forgang til notkunar tíðna á þessu tíðnibili. Um þessa notkun gilda sömu kröfur og gilda fyrir tíðnisviðið 1810-1850 kHz í reglugerð, en aukin skilyrði Fjarskiptastofu eru eftirfarandi: Aflheimild er einvörðungu veitt þann tíma sem tilgreindar alþjóðlegar keppnir standa yfir.

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til PFS á hrh@fst.is eða fst@fst.is Það nægir að senda eina umsókn sem þar með gildir fyrir allar 10 keppnirnar á árinu 2024.

Stjórn ÍRA.

Ljósmynd úr fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi.

Uppfærð DXCC staða TF kallmerkja er miðað við 4. desember 2023. Sautján TF kallmerki eru með virka skráningu. Að þessu sinni hefur staða sex kallmerkja verið uppfærð frá fyrri lista: TF1A, TF2LL, TF3G, TF3JB, TF3Y og TF4M.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A kemur inn með fyrstu DXCC Satellite viðurkenninguna á Íslandi. Þetta er 14. DXCC viðurkenning Ara sem hafði þessar fyrir:  DXCC Mixed, Phone, RTTY/Digital, 80M, 40M, 30M, 20M, 17M, 15M, 12M, 10M, DXCC Challenge og 5BDXCC. Hamingjuóskir til Ara Þórólfs með þessa glæsilegu DXCC stöðu.

Þess má geta, að aðeins 10 leyfishafar á Norðurlöndunum eru handhafar DXCC Satellite viðurkenningarinnar: Í Svíþjóð (6), Finnlandi (2), Noregi (1) og nú á Íslandi (1).

Alls hafa [a.m.k.] 25 íslensk kallmerki sótt um og fengið DXCC viðurkenningar til þessa dags.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Andrés Þórarinsson, TF1AM mætir í Skeljanes fimmtudagskvöldið 7. desember með erindið: „Útbreiðsla á metrabylgju innanlands“.

Andrés ætlar m.a. að sýna sambönd sem hann hefur haft í Páskaleikunum og VHF/UHF leikunum undanfarin ár. Og ræða hvers vegna þau gangi á sumum löngum leiðum og öðrum ekki. Og loks að velta því fyrir sér hvort það eru fleiri staðir sem hugsanlega má ná samböndum frá í leikunum.

QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum í hólfin. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Meðfylgjandi mynd af Andrési TF1AM var tekin 14. október sl. í ferð ÍRA til að skoða fjarskiptasafn Sigga Harðar TF3WS að Skógum undir Eyjafjöllum. Ljósm. TF3GZ.

CQ World Wide DX CW keppnin fór fram helgina 25.-26. nóvember. Keppnisgögn fyrir 9 TF kallmerki í fjórum keppnisflokkum voru send inn, þar af ein viðmiðunardagbók.

Bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) liggja fyrir frá keppnisnefnd samkvæmt áætlaðri stöðu í viðkomandi keppnisflokki yfir heiminn og yfir Evrópu. Endanlegar niður stöður verða birtar í júníhefti CQ tímaritsins 2024.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, HÁAFL.
TF3SG – 2.534.250 heildarpunktar; nr. 65 yfir heiminn; nr. 22 í Evrópu.
TF8SM – 42.834 heildarpunktar, nr. 417 yfir heiminn; nr. 147 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, LÁGAFL.
TF/OU2I – 2.392.796 heildarpunktar; nr. 23 yfir heiminn; nr. 9 í Evrópu.
TF3EO – 491.620 heildarpunktar; nr. 121 yfir heiminn; nr. 65 í Evrópu.
TF3VS – 101.232 heildarpunktar; nr. 499 yfir heiminn; 272 í Evrópu.
TF8KY – 9.750 heildarpunktar; nr. 1108 yfir heiminn; nr. 601 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, LÁGAFL, AÐSTOÐ
TF3DC – 246.675 heildarpunktar; nr. 368 yfir heiminn; nr. 218 í Evrópu.

FJÖLMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, LÁGAFL
TF3W – 829.452 heildarpunktar; nr. 18 yfir heiminn; nr. 17 í Evrópu.

VIÐMIÐUNARDAGBÓK.
TF3JB.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Kort EI8IC sýnir svæðaskiptingu heimsins í 40 CQ svæði.

Viðburður Jónasar Bjarnasonar, TF3JB „Kynning: POTA, SOTA, VOTA, WWFF og IMW“ sem halda átti sunnudaginn 3. desember kl. 11:00 frestast af óviðráðanlegum ástæðum.

Beðist er velvirðingar á þessari breytingu.

Næsta opnun félagsaðstöðunnar verður fimmtudag 7. desember. Þá mætir Andrés Þórarinsson, TF1AM í Skeljanes með erindið: „Útbreiðsla á metrabylgju innanlands“.

Stjórn ÍRA.

Laugardaginn 2. desember var sérstök móttaka fyrir nýja leyfishafa sem sem tóku þátt í námskeiði ÍRA til amatörprófs haustið 2023 og náðu prófi Fjarskiptastofu til amatörleyfis þann 11. nóvember s.l. Flestir hafa nú fengið úthlutað kallmerki hjá stofnuninni.

Arnar Þór Egilsson, 270 Mosfellsbæ – TF3ATE.
Gísli Guðnason, 270 Mosfellsbæ – TF6MK.
Greppur Torfason, 225 Álftanesi – TF7ZF.
Jón Svan Grétarsson, 270 Mosfellsbæ – TF3JS.
Jónas I. Ragnarsson, 200 Kópavogi – TF3JIR.
Pier Kaspersma, 221 Hafnarfirði – TF3PKN.
Valdimar Óskar Jónasson, 210 Garðabæ – TF1LT.
Þorkell Máni Þorkelsson, 113 Reykjavík (á eftir að sækja um kallmerki).
Þór Eysteinsson, 101 Reykjavík – TF3TE.
Þröstur Ingi Antonsson, 251 Suðurnesjabæ – TF1TX.

Dagurinn hófst á morgunkaffi kl. 10:30 í salnum þar sem Jónas Bjarnason, TF3JB fór yfir helstu þætti í starfsemi ÍRA, m.a. aðstöðu félagsins í Skeljanesi, fræðsludagskrá, fundi og námskeið (þ.m.t. til amatörprófs), heimasíðu, FaceBook síður, félagsritið CQ TF, ársskýrslu, árlega fjarskiptaviðburði, alþjóðlegar keppnir, endurvarpa, stafvarpa, radíóvita, gervihnattafjarskipti og helstu innanlandstíðnir á HF, VHF og UHF. Undir dagskrárliðnum fór fram afhending fjarskiptadagbóka með kallmerkjum leyfishafa og afhending ítarefnis, þ.e. valdar greinar sem birst hafa í CQ TF.

Kristján Benediktsson, TF3KB tók síðan við og flutti glærukynningu um alþjóðastarf radíóamatöra, m.a. IARU, NRAU og ITU, auk þess að sýna bandskipan fyrir HF böndin á IARU Svæði 1.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS flutti næst glærukynningu um Logger32 rafræna dagbókarforritið. Undir dagskrárliðnum var dreift QSL kortum og rætt um mikilvægi þess að ganga frá skráningu á QRZ.COM.

Að því búnu fluttu menn sig upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA á næstu hæð þar sem Óskar Sverrisson, TF3DC og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS tóku við hópnum.

Þeir Óskar og Vilhjálmur fóru m.a. yfir mors (CW), tal (SSB), fjarritun (RTTY) og stafrænar tegundir útgeislunar (FT8/FT4) og sýnd fjarskipti á SSB og FT8. Fjallað var um hvernig sambönd eru höfð og um staðfestingar; þ.á.m. QSL kort og Logbook of The World (LoTW). Sérstaklega var fjallað um hefðir í fjarskiptum radíóamatöra og hvernig farið er í loftið, m.a. í DX. Ennfremur rætt um bandskipan og viðurkenningar radíóamatöra og komið inn að almenn skilyrði til fjarskipta í stuttbylgjunni frá Íslandi með tilliti til hnattstöðu landsins. Að lokum var aftur farið niður í sal og mikið rætt.

Þakkir til nýrra leyfishafa fyrir að mæta á staðinn. Ennfremur þakkir til Jónasar Bjarnasonar TF3JB, Kristjáns Benediktssonar TF3KB, Óskars Sverrissonar TF3DC,  Vilhjálms Í. Sigurjónssonar TF3VS og Jóns Björnssonar TF3PW. Þegar klukkan var að verða 15:00 var húsið yfirgefið. Ánægjulegur og vel heppnaður dagur.

Nýir leyfishafar – verið velkomnir í loftið!

Stjórn ÍRA.

Frá vinstri: Jónas Bjarnason TF3JB, Þröstur Ingi Antonsson TF1TX, Valdimar Óskar Jónasson TF1LT, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS (standandi), Gísli Guðnason TF6MK, Óskar Sverrisson TF3DC (standandi), Jónas Ingi Ragnarsson TF3JIR, Þór Eysteinsson TF3TE, Greppur Torfason TF7ZF og Kristján Benediktsson TF3KB.
Kristján Benediktsson flutti greinargott erindi um alþjóðastarf radíóamatöra.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS kynnti Logger32 dagbókarforritið.
Óskar Sverrisson TF3DC og Jón Björnsson TF3PW.
Þór Eysteinsson TF3TE og Jónas Ingi Ragnarsson TF3JIR (bak í myndavél) og Óskar Sverrisson TF3DC.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS sýndi mönnum einfaldan RF útsláttarmæli (e. RF sniffer) sem afhjúpar ef RF straumur berst til baka inn í fjarskiptaherbergið. Aðrir á mynd frá vinstri: Greppur Torfason TF7ZF, Valdimar Óskar Jónasson TF1LT, Gísli Guðnason TF6MK, Þór Eysteinsson TF3TE, Þröstur Ingi Antonsson TF1TX og Jónas Ingi Ragnarsson TF3JIR. Ljósmyndir: TF3DC, TF3JB og TF3PW.

Fyrirlesari kvöldsins fimmtudaginn 30. nóvember var Njáll H. Hilmarsson, TF3NH meðstjórnandi í stjórn ÍRA. Njáll vinnur hjá Brimrúnu sem útvegar skipum hvers konar tæknibúnað, m.a. radara, dýptarmæla, ferilvöktun, Inmarsat-C fjarskipti, MF/HF/VHF talstöðvar og hvað annað sem skip þarf. Öll þessi tæki eru samtengd og senda gögn um skipið og í land með ýmsum hætti. Njáll annast tengingu tækja og fjarskipti hvers konar og er vel sjóaður í tölvusamskiptum sambærilegum þeim sem amatörar nota eins og PSK og FT8/FT4. 

Erindið Njáls, „Sérhæfð þróun hugbúnaðar fyrir fjarskipti radíóamatöra“ hófst kl 20:30 og fjallaði um hugbúnað sem Njáll hefur þróað fyrir Windows og þróar áfram. Hugsunin er að kerfið virki að nokkru leyti eins og hugbúnaðarkerfið GNU-Radio sem er SDR hugbúnaður en oftast notaður á Linux. Njáll hefur meiri hugmyndir og kynnti til sögunar kerfi sem hann skrifar í Jai forritunarmálinu og samanstendur af mörgum grunnkerfum hugbúnaðarviðtækja.

Njáll sýndi hvernig má hlekkja kerfin saman, þannig að móttekið merki flytjist frá einu kerfi til annars, allt frá hlustun frá hljóðkorti og til afmótunar. Mörg amatörtæki eru með innbyggðu hljóðkorti og þá má lesa gagnastraum þaðan; en svo eru önnur tæki með IQ útgang sem geta send allt að 1Gb straum til viðtakanda. Það gefur kost á að hlusta á afar vítt tíðnisvið. Allt þetta sýndi Njáll og meira til.  Erindið var allt hið fróðlegasta. Sjá má vinnu hans á slóðinni https://github.com/njallzzz/dsp_tools

Að erindi loknu sýndi Njáll ljósmyndir af Furuno gervihnattadiski sem Samherji gaf ÍRA í október s.l. Þessir diskar eru mótordrifnir og geta fylgt gervihnetti í veltingi.  Þessi diskur er fyrir K-bandið og vinnur á um 14GHz en hugmyndin er að fá diskinn og allan búnað til að vinna á 3 cm amatörbandinu sem er á 10GHz.

Á eftir voru kaffiveitingar og gott spjall.  Alls mættu 22 félagar og 1 gestur á þessa ágætu kvöldstund.

F.h. stjórnar,

Andrés Þórarinsson, TF1AM
varaformaður ÍRA

Njáll H. Hilmarsson TF3NH byrjaði stundvíslega kl. 20:30.
Mynd úr fundarsal.
Baldur Sigurðsson TF6-009, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Mathías Hagvaag TF3MH.
Kristján Benediktsson TF3KB og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Andrés Þórarinsson TF1AM.
Einar Kjartansson TF3EK og Greppur Torfason TF7ZF. Ljósmyndir: TF1AM og TF3GZ.

Njáll H. Hilmarsson, TF3NH mætir í Skeljanes fimmtudagskvöldið 30. nóvember með erindið: „Sérhæfð þróun hugbúnaðar fyrir fjarskipti radíóamatöra“.

Njáll hefur verið að forrita hugbúnað fyrir DSP (e. Digital Signal Processing/Stafræn Mótun Merkja) sem er hugsaður til að senda skilaboð m.a. á HF. Um er að ræða stafræna mótun merkja, svokallað „Pipelines“ sem margir þekkja úr UNIX eða LINUX stýrikerfinu (e. Inter-Process Communication). Einfaldaður hugbúnaður sem er notaður í staðinn fyrir „GNU Radio“.

Eftir kaffihlé mun Njáll segja okkur frá rausnarlegri gjöf sem barst til félagsins þann 12. október s.l. Um er að ræða mótordrifna Furuno Model KU-100 gervihnattadiska [í kúlum] ásamt sérhæfðum stjórnkössum.

QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum í hólfin. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Félagsstöðin TF3W var virkjuð í CQ World Wide DX CW keppninni sem fór fram 25.-26. nóvember.

Stöðin var QRV frá kl. 09 á laugardag til kl. 16 á sunnudag. Alls voru höfð 1503 sambönd á sex böndum.

Bráðabirgðaniðurstöður (e. score before checking): 829.452 punktar. Keppt var í flokknum: „MULTI-OP ONE ASSISTED ALL LOW“

Skilyrði voru ágæt til að byrja með en versnuðu á meðan segulstormur gekk yfir á laugardag. Á sunnudag höfðu skilyrðin þó jafnað sig að mestu. Alex Senchurov, UT4EK og Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA virkjuðu stöðina. Sérstakar þakkir til þeirra beggja.

A.m.k. átta TF kallmerki heyrðust í loftinu í keppninni eða voru skráð á þyrpingu (e. cluster). Það eru: TF3DC, TF3EO, TF3JB, TF3SG, TF3VS, TF3W, TF8KY og TF/OU2I.

Stjórn ÍRA.

Alex UT4EK virkjar TF3W í Skeljanesi sunnudag 26. nóvember.
Samantektartafla sýnir bráðabirgðaniðurstöður.

Erindi Elínar Sigurðardóttur, TF2EQ: „Ungmennastarf YOTA í IARU Svæði 1“ sem er skráð á fræðsludagskrá ÍRA sem sunnudagsopnun kl. 11:00 á morgun, sunnudag 26. nóvember – frestast.

Meginástæða eru fyrirhugaðar breytingar á ungmennastafinu innan Svæðis 1.

Erindi Elínar færist því yfir á Fræðsludagskrá ÍRA vorið 2024.

Ofangreindu til staðfestingar,

Stjórn ÍRA.

Elín Sígurðardóttir TF2EQ í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Hún mun m.a. virkja TF3YOTA frá Skeljanesi í næsta mánuði (desember).

Skeljanesi fimmtudag 23. nóvember 2023. Fyrirlesari kvöldsins var Benedikt Guðnason, TF3TNT sem kynnti framtíðarsýn endurvarpamála fyrir íslenska radíóamatöra. Erindið hófst kl 20:30 og var hið fróðlegasta.  Kaffi og meðlæti var á borðum sem endranær. 

Fram kom að fyrirtæki Benedikts annast FM senda útvarpsstöðva um allt land og hefur skapað sér aðstöðu í fjölda fjarskiptastöðva sem eru á fjallatoppum. Önnur þjónusta í þessum fjarskiptastöðvum er fyrir Tetra, björgunarsveitir, Neyðalínuna, ferðaklúbbinn 4×4 og fleiri. Benedikt sagði, að fyrirtæki hans hefði keypt amatörendurvarpa sem áður voru í eigu Ólafs, TF3ML og eru í rekstri fyrir radíóamatöra. Að auki ætti hann til fleiri slíka. 

Hann kynnti eftirfarandi framtíðarsýn: (a) Færa endurvarpan á Mýrum upp á Strút sem er vestan Langjökuls í góðri hæð. Þannig fengist ólíkt betra samband um vestanvert landið en með núverandi staðsetningu á Mýrum; (b) Setja nýjan endurvarpa upp á Þrándarhlíðarfjalli innst í Skagafirði en þaðan er samband bæði á Strút og á núverandi endurvarpa á Vaðlaheiði.  (c) Einnig, að setja upp nýjan endurvarpa á Háfell vestan við Vík í Mýrdal sem hefur samband við Bláfjöll og gæti náð austur í Öræfi. (d) Tengja Búrfell með „link“ við Bláfjöll en Búrfell fyllir í skugga á suðurlandi þar sem Bláfjöll nást ekki. Með þessum hætti fengist afbragðs 2 m. samband um stóran hluta landsins, bæði með þjóðvegum og um hálendið. (e) Þá er austurland eftir, en það mætti setja endurvarpa á Gagnheiði og finna leið til að tengja hann við Vaðlaheiði. Þessi áætlun öll er stórhuga og myndi gjörbreyta sambandi radíóamatöra um allt land til hins betra.

Var gerður góður rómur að erindi Benedikts og hann fékk fjölda fyrirspurna sem hann svaraði greiðlega.  Ein spurning snéri að kostnaði en Benedikt sagði að kostnaður vegna uppsetningar yrði á hans vegum, en ÍRA yrði að vera aðili að þessu verkefni öllu til þess að aðstaðan fengist án kostnaðar. 

Að erindi loknu snéru menn sér að spjalli og kaffidrykkju, og það var rætt og skrafað alveg til kl. 22:30 þegar stallari blikkaði ljósum til merkis um að nú væri komið kvöld.  Héldu fundarmenn heim á leið glaðir í bragði.  Þetta var afbragðs stund.  Það var ánægjulegt að sjá nýútskrifaða amatöra mæta hressa og káta og taka þátt í umræðu og þeim var vel tekið. Alls mættu 26 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

F.h. stjórnar,

Andrés Þórarinsson, TF1AM
varaformaður ÍRA

Benedikt Guðnason TF3TNT byrjaði erindið stundvíslega kl. 20:30 og sýndi margar glærur og myndir.
Frá vinstri: Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Benedikt Sveinsson TF3T, Óskar Sverrisson TF3DC, Pier Albert Kaspersma TF3PKN, Greppur Torfason TF7ZF, Þröstur Ingi Antonsson TF1TX, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Mathías Hagvaag TF3MH.
Hrafnkell Sigurðsson TF8KY og Einar Kjartansson TF3EK.
Þröstur Ingi Antonsson TF1TX, Valdimar Óskar Jónasson TF1LT og Mathías Hagvaag TF3MH. Fjær: Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Kristján Benediktsson TF3KB og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA.
Georg Kulp TF3GZ og Valdimar Óskar Jónasson TF1LT. Ljósmyndir: TF1AM.

Benedikt Guðnason, TF3TNT mun halda erindi í Skeljanesi fimmtudag 23. nóvember: „VHF/UHF endurvarpar; framtíðarsýn“.

Benedikt óskaði eftir áheyrn stjórnar ÍRA á fundi þann 19. október s.l. Þar tilkynnti hann, að fyritæki hans, Radio s.f. hafi keypt endurvarpa sem voru í eigu Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML af dánarbúinu.

Hann tilkynnti stjórn jafnframt, að þessi kaup hafi ekki í för með sér neinar breytingar; hans hugsun sé að byggja endurvarpakerfið frekar upp út um landið. Hann sagðist ennfremur vilja leita til félagsins með áframhaldandi góða samvinnu eins og Ólafur [TF3ML] heitinn hafi notið. Fram kom, að hann á m.a. þrjá nýja ICOM VHF endurvarpa á lager sem hann hugsar sér að setja upp á nýjum stöðum.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta í félagsaðstöðuna á fimmtudag. Erindi Benedikts hefst kl. 20:30. Kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.