Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi ÍRA 2016

1. gr.

Heiti félagsins er “Íslenskir radíóamatörar”, ÍRA. Félagið er íslensk deild í IARU, alþjóðasamtökum
radíóamatöra, svæðissamtökunum IARU Region 1, og norrænum samtökum radíóamatöra, NRAU.

2. gr.

Heimili félagsins er í Reykjavík. Póstfang ÍRA er „Pósthólf 1058, 121 Reykjavík”.

3. gr.

Markmið félagsins eru að:
1. Gæta hagsmuna radíóamatöra í hvívetna.
2. Efla kynningu og samstarf meðal radíóamatöra innanlands og utan.
3. Stuðla að færni félagsmanna og góðum venjum í radíóviðskiptum.
4. Hvetja til viðbúnaðar sem mætti gagnast í neyðarfjarskiptum.
5. Efla amatörradíó sem leið til sjálfsþjálfunar á tæknisviðinu.
6. Hvetja til tæknilegra og vísindalegra rannsókna og uppgötvana á sviði radíófjarskipta.
7. Örva radíóíþróttir meðal radíóamatöra.
8. Þróa amatörradíóþjónustuna sem verðmæta þjóðarauðlind.
9. Stuðla að öflugri æskulýðsstarfsemi og kynningu á amatörradíói á meðal ungs fólks.

4. gr.

Merki félagsins er tígullaga og er lengri hornalína tígulsins lóðrétt. Mynd merkisins er tákn loftnets, spólu, þéttis og grunntengingar, raðtengt, svo og stafirnir ÍRA. Grannur rammi fylgir útbrún merkisins.

FÉLAGAR

5. gr.

Allir áhugamenn um radíótækni sem vilja starfa í samræmi við markmið félagsins geta gerst félagar, enda hafi umsækjandi um inngöngu kynnt sér þau og lýst sig samþykkan þeim. Inntökubeiðni í félagið skal vera skrifleg og sendist stjórninni ásamt árgjaldi. Þó greiði þeir sem sækja um inngöngu í félagið eftir 1. september ár hvert, aðeins hálft árgjald. Afgreiðsla inntökubeiðna liggur niðri milli 1. janúar og fyrsta fundar nýkjörinnar stjórnar.

6. gr.

Stjórnarfundur getur kjörið heiðursfélaga með samþykki allra stjórnamanna. Honum skal afhent skjal því til staðfestingar. Heiðursaðild varir svo ævilangt. Í félagatali skal ætíð telja upp alla heiðursfélaga frá upphafi í sérstakri skrá.

7. gr.

Ef brot félagsmanns á lögum eða reglum skaðar hagsmuni amatörhreyfingarinnar, eða hann á annan hátt vinnur gegn markmiðum félagsins, getur stjórnin mælst til þess með bréfi að hann segi sig úr félaginu. Bréfið skal afhenda honum sjálfum eða senda í staðfestum ábyrgðarpósti. Uni viðkomandi ekki þeim málalokum skal hann tilkynna það skriflega innan 6 vikna. Þá skal strax fela nefnd þriggja síðustu formanna félagsins, sem ekki eiga aðild að stjórn, að kynna sér málavöxtu sem best frá báðum hliðum og kveða upp úrskurð um brottvikningu eður ei. Hann skal birtur viðkomandi og öðrum félagsmönnum ásamt rökstuðningi. Sé bréfi stjórnar ekki sinnt tekur úrsögn sjálfkrafa gildi. Fáist ekki þrír fyrrverandi formenn í nefndina skal leita í hóp varaformanna, þá ritara, gjaldkera og meðstjórnanda, og telja upp í greinargerð nefndar nöfn og ástæður þeirra sem ekki fengust. Einu gildir þótt maður sé ekki félagi þá stundina, enda hafi brottför hans úr félaginu ekki borið að samkvæmt ákvæðum þessarar greinar. Hverfi maður úr félaginu samkvæmt ákvæðum þessarar greinar þarf samþykki félagsfundar til að hann fái inngöngu á ný, enda hafi tillögu þess efnis sérstaklega verið getið í skriflegu fundarboði.

GJÖLD

8. gr.

Félagsgjöld miðast við fjárhagsár félagsins. Makar félagsmanna og þeir sem eru 67 ára og eldri greiða hálft gjald. Námsmenn yngri en 24 ára greiða ekki félagsgjald. Stjórn getur veitt afslátt af félagsgjöldum félaga sem búa við erfiðar fjárhagslegar aðstæður. Undanþegnir greiðslu eru heiðursfélagar. Gjalddagi er 1. apríl ár hvert og eindagi 1. júlí. Fjárhæð félagsgjalda skal ákveðin á aðalfundi viðkomandi árs. Þegar félagsgjöld tveggja ára eru fallin ógreidd í eindaga er stjórn skylt að taka viðkomandi félagsmann af skrá að undangenginni bréflegri aðvörun. Skuld hans skal afskrifuð í bókhaldi félagsins.

STJÓRN

9. gr.

Stjórnina skipa: Formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Stjórnin hefur umboð aðalfundar til að stýra félaginu og sjá um samskipti við yfirvöld og önnur samtök. Stjórnin skiptir með sér verkum og setur aðstoðarmenn með skriflegri tilskipun. Þessu skal lokið svo fljótt sem auðið er og tilkynnt félagsmönnum. Einnig skal tilkynna skipun stjórnar til Póst- og fjarskiptastofnunar, IARU og NRAU Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Hann er talsmaður félagsins. Varaformaður gegnir störfum formanns í forföllum hans. Hann sinnir starfsáætlun og framkvæmd hennar. Ritari sér til þess að bréfleg erindi fái afgreiðslu, sinnir fundargerðum og heldur gögnum til haga. Skrifi aðrir í nafni félagsins er þeim skylt að láta ritara í té eintak. Ritari sér til þess að afrit af fundargerðum og erindum sem varða marga liggi jafnóðum fyrir í félagsheimili. Gjaldkeri innheimtir félagsgjöld, varðveitir sjóði og annast greiðslur í samráði við stjórn. Gjaldkeri heldur rétt félagatal á hverjum tíma og varðveitir eldri skrár. Hann sér um útgáfu félagatals. Varamenn sitja stjórnarfundi í forföllum. Segi stjórnarmaður af sér milli aðalfunda tekur varamaður við og gengur sá fyrir sem flest atkvæði hlaut á aðalfundi, ella ræður hlutkesti. Tveir stjórnarmenn geta boðað til stjórnarfundar án atbeina formanns sjái þeir ástæðu til.

KOSNINGARÉTTUR OG KJÖRGENGI

10. gr.

Einungis skuldlausir félagar hafa kosningarétt og kjörgengi. Skylt er að veita árgjöldum viðtöku við upphaf fundar sé þess óskað.

11. gr.

Frambjóðendur til formanns skulu hafa G leyfi. Aðrir frambjóðendur til stjórnar skulu vera leyfishafar eða eiga minnst þrjú ár að baki í félaginu.

12. gr.

Í málum sem varða lagabreytingar, leyfisveitingar og próf hafa einungis leyfishafar atkvæðisrétt.

13. gr.

Félagi sem á óhægt um vik að sækja fund af ástæðum sem fundurinn tekur gildar, getur falið öðrum félaga með jafnmikinn eða meiri kosningarétt, að fara með atkvæði sitt í tilteknu máli, þó ekki stjórnarkjöri. Þá skal skriflegt umboð þar að lútandi lagt fyrir til samþykktar í upphafi fundar. Enginn getur farið með fleiri umboð en eitt.

FÉLAGSFUNDIR

14. gr.

Stjórn boðar til almennra félagsfunda. Henni er skylt að gera það ef 12 leyfishafar hið minnsta æskja þess. Boða skal til félagsfunda með a.m.k. viku fyrirvara nema í algerum neyðartilfellum. Rita skal fundargerð félagsfundar og birta með sama hætti og fundargerð aðalfundar.

15. gr.

Félagsfundur getur ályktað um mál en ákvörðun er á valdi stjórnar eða aðalfundar. 11

16. gr.

Stjórn skal leitast við að gefa félagsmönnum kost á því að taka þátt í félagsfundum, þ.m.t. aðalfundi, á Internetinu. Félagsmenn skulu tilkynna stjórn um áhuga sinn á því að taka þátt í félagsfundi á Internetinu innan tveggja daga frá boðun fundarins. Sá sem tekur þátt í fundi með fjarfundarbúnaði getur undir liðnum ‚könnuð umboð‘ tilnefnt trúnaðarmann á fundinum til að árita skrifleg skjöl t.d. atkvæðaseðla meðan á fundi stendur og skal fundarstjóri taka við tilnefningunni.

AÐALFUNDUR

17. gr.

Aðalfund skal halda ár hvert á tímabilinu frá 15. feb.–15. mars. Aðalfundur er löglegur ef til hans er boðað með tölvupósti og auglýsingu á heimasíðu félagsins. Jafnframt skal senda þeim félagsmönnum skriflegt fundarboð sem ekki hafa skráð netfang hjá félaginu eða hafa sent stjórn félagsins skriflega ósk þess efnis. Fundarboð skal birta eða póstleggja eigi síðar en þrem vikum fyrir fundardag.

18. gr.

Ef liðnir eru 18 mánuðir frá síðasta aðalfundi geta 12 leyfishafar sem þá höfðu kosningarétt, boðað til aðalfundar, enda riti allir undir fundarboðið með fullu nafni og kallmerki.

19. gr.

Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir:

 1. Kosinn fundarstjóri.
 2. Kosinn fundarritari.
 3. Könnuð umboð.
 4. Athugasemdir við fundargerð síðasta aðalfundar, ef einhverjar hafa borist, ræddar og bornar undir atkvæði.
 5. Formaður gefur skýrslu um starfsemi félagsins.
 6. Aðrir embættismenn gefa skýrslu um starfsemi sinna embætta.
 7. Gjaldkeri leggur fram reikninga félagsins til samþykktar.
 8. Lagabreytingar.
 9. Stjórnarkjör.
 10. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
 11. Ákvörðun árgjalds.
 12. Önnur mál.
20. gr.

Fjárhagsár félagsins skal vera frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Skoðunarmenn reikninga skulu hafa rannsakað bókhald félagsins og kannað eignir áður en gjaldkeri leggur fram reikninga. Að rannsókn lokinni undirrita þeir reikningana og láta þess getið að þeir undirriti sem skoðunarmenn reikninga. Komist þeir að raun um að bókhaldið sé ekki rétt, skulu þeir láta þess getið og rita stutta greinargerð til skýringar.

21. gr.

Stjórnarkosningar skulu vera leynilegar og ræður einfaldur meirihluti.

22. gr.

Fyrst skal kjósa formann til eins árs í senn. Næst skal kjósa tvo stjórnarmenn til tveggja ára. Þá skal kjósa til eins árs í stað aðalmanna sem forfallast. Loks skal kjósa tvo varamenn.

23. gr.

Fundargerð aðalfundar skal birta í fyrsta CQ TF eftir aðalfund. Berist ekki athugasemdir við hana frá neinum er sat fundinn innan 6 mánaða frá birtingu telst fundargerðin rétt, annars skulu athugasemdir kynntar með fundarboði næsta aðalfundar og úrskurðar sá aðalfundur með einfaldri atkvæðagreiðslu um það hvort fundargerð skuli breytt.

PRÓFNEFND

24. gr.

Hlutverk prófnefndar félagsins er að: (1) Halda próf sem ÍRA er falin umsjón með. (2) Veita upplýsingar um prófkröfur og námsefni. Í prófnefnd sitja 5 menn, G-leyfishafar að meirihluta, skipaðir af stjórn. Til að stuðla að festu í störfum nefndarinnar skal skipta út einum manni á ári hið mesta. Nefndin velur sér formann.

EMC NEFND
25. gr.

Hlutverk EMC-nefndar félagsins (e. Electro Magnetic Compatibility) er að: (1) Vera félagsmönnum til aðstoðar um EMC málefni, þ.á.m. truflanir. (2) Fjalla um EMC mál fyrir hönd félagsins sem geta komið frá Póst- og fjarskiptastofnun, IARU eða öðrum. (3) Starfa með stjórnvöldum að úrlausn EMC mála sem tengjast radíóamatörum, óski þau slíks samstarfs. (4) Stuðla að fræðslu félagsmanna um EMC. Í EMC nefnd sitja þrír menn skipaðir af stjórn. Til að stuðla að festu í störfum nefndarinnar skal skipta út einum manni á ári hið mesta. Nefndin velur sér formann.

QSL ÞJÓNUSTA

26. gr.

Reka skal QSL-þjónustu fyrir félagsmenn. QSL stjóri er skipaður af stjórn og fer með fjármál þjónustunnar. Reksturinn skal kostaður af hóflegu gjaldi á útsend kort.

CQ TF OG VEFUR

27. gr.

Félagið skal halda úti blaði með heitinu CQ TF. Minniháttar útgáfu blaðsins má auðkenna sem fréttabréf. Stjórn skipar ritstjóra. Hann sér til þess að haldið sé saman tveimur söfnum blaðanna, annað aðgengilegt félagsmönnum en hitt í vörslu ritstjóra á hverjum tíma.

28. gr.

Félagið skal halda úti vefsíðu með heitinu „ira.is“. Stjórn skipar vefstjóra. Hann sér til þess að efni vefsins sé uppfært eftir þörfum og aðgengilegt félagsmönnum á hverjum tíma.

GILDISTAKA OG BREYTINGAR

29. gr.

Félagslögum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda hafi frumvarp að nýjum eða breyttum greinum borist stjórn félagsins fyrir 15. janúar og verið dreift með aðalfundarboði. Þó getur aðalfundur samþykkt breytingar á félagslögum, sem fram koma á fundinum, séu a.m.k. 88% fundarmanna samþykkir. Breytingartillögur sem fram koma á aðalfundi skulu einungis varða þær tillögur er þar liggja fyrir og nauðsynlegar afleiðingar þeirra. Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntum áhrifum þeirra. Sé ætlunin að lagabreyting hafi víðtækari áhrif en eingöngu á félagslögin sjálf, svo sem ógildi sérstakar aðalfundarályktanir eða sérstakar samþykktir fyrri aðalfunda skal sérstaklega vísað til þeirra í viðkomandi breytingartillögu og greinargerð.

30. gr.

Félagslög skal birta í blaði félagsins CQ TF og á vefsvæði félagsins og öðlast gildi þegar í stað. Sérstakar samþykktir og ályktanir aðalfunda eða félagsfunda skal birta með sama hætti.