Í portinu í Skeljanesi. Georg TF2LL á trukknum með löngu kerruna; búinn að afferma turneiningarnar.

Georg Magnússon, TF2LL hafði flutt turneiningarnar (sem TF3T gaf félaginu síðla ágústmánaðar) til frágangs heim í Borgarfjörð (þar sem hann hefur góða verkstæðisaðstöðu) skömmu eftir að félagið fékk einingarnar afhentar.

Þann 23. nóvember flutti hann einingarnar síðan aftur í Skeljanes og var þá búinn að gera turninn upp.  Því til viðbótar hafði hann smíðað sérstaka veggfestingu sem gerir mögulegt að fella turninn.

Georg hafði ætlað sér að ganga frá veggfestingunni til að undirbúa það að reisa turninn, en þá kom í ljós að nýlega hafði verið flutt og sett niður járnadót og bárujárnsplötur á staðinn sem hindraði þá vinnu (sbr. myndir). En nýi turninn verður settur niður eilítið austar en áður var fyrirhugað (í næsta girðingarbili við hliðina) til að geta fellt turninn með loftnetinu á – í norður (inn í portið).

Nærri þeim stað þar sem félagið hefur fengið leyfi til að reisa nýja turninn eru m.a. númerslausar bifreiðar sem þarna hafa verið lengi. Ennfremur er kofaskrifli þar líka. Bæði bílarnir og kofinn hindra nokkuð aðgengi að staðnum. Georg telur hinsvegar, að verði kofinn færður séu okkur allir vegir færir ásamt því að færa járnadótið og bárujárnsplöturnar sem nefndar eru að ofan um 20-30 metra.

Miðvikudaginn 23. nóvember var því ekki unnið neitt á staðnum, annað en að afferma turneiningar, veggfestingar, „hard-line“ fæðilínu, balun og stýrikapal, auk sjórnkassans fyrir Pro.Sis.Tel rótorinn. Það dót var flutt til geymslu í QSL herbergi félagsins.

Turninn er nú samsettur í tveimur fimm metra löngum einingum og lítur út eins og nýr. Nánast öllum boltum var skipt út. Og, búið er að ganga frá rótornum á sinn stað á þar til gerða festingu (sem Georg smíðaði), auk þess sem hann smíðaði allt í kringum nýja topplegu (þar fyrir ofan).

Sérstakar þakkir til Georgs fyrir alla þessa vinnu og ekki síst, vönduð og fagleg vinnubrö gð.

Stjórn ÍRA.

Turneiningarnar tvær (5m hvor) eins og nýjar. Að baki Georgs glittir í rótorinn og toppleguna.
Járnadótið og bárujárnsplöturnar sem getið er um að ofan.
Myndin sýnir aðstæðurnar betur úr fjarlægð.
Myndin er af nýju veggvestingunni. Ljósmyndir: TF3JB.

Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram.

Sunnudag 27. október kl. 11:00 verður Jónas Bjarnason, TF3JB með umræðuþema á sunnudagsopnun: „Nýjungar í HF stöðvum á markaði fyrir radíóamatöra“.

Viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki um kl. 12 á hádegi, en húsið er opnað kl. 10:30.

Rúnstykki með kaffinu og vínarbrauð frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

Kristján Benediktsson TF3KB byrjar erindi sitt “Skipulag alþjóðasamtaka radióamatöra” fimmtudaginn 24. nóvember.

Kristján Benediktsson, TF3KB mætti í Skeljanes 24. nóvember með erindið: „Skipulag alþjóðasamtaka radíóamatöra“.

Hann byrjaði erindið með því að fjalla stuttlega um frumkvöðla radíótækninnar og helstu áhrifavalda og útskýrði vel bakgrunn og þróun á því umhverfi sem við þekkjum í dag sem grundvöll tíðnimála radíóamatöra og stjórnun málaflokksins, þ.e. Alþjóðafjarskiptasambandið (ITU) og svæðisbundnu fjarskiptasamböndin, þ.á.m. það evrópska, CEPT.

Hann kynnti skilgreiningu amatörradíóþjónustunnar í alþjóðaradíóreglugerð ITU (RR) og benti m.a. á nokkrar greinar sem fjalla um þau mál, þ.á.m. að gerðar eru kröfur um lágmarkskunnáttu í radíótækni, radíósamaskiptum og reglugerðum sem þarf að uppfylla til að öðlast amatörleyfi. Þessar kröfur hafa sterka réttarstöðu samkvæmt alþjóðasamningum.

Hann kynnti vel og útskýrði skipulag alþjóðasamtaka landsfélaga radíóamatöra, International Amateur Radio Union, IARU og skiptinguna í svæði I, II og III sem er sama skipting og innan ITU. Hann útskýrði aðdraganda að stofnun IARU árið 1925 og mikilvægi samtakanna í að tryggja og viðhalda hagsmunum okkar samhliða því að vinna að framtíðarsýn fyrir áhugamálið. Kristján kom einnig inn á grunngildin sem vinna IARU hefur mótast af alla tíð síðan.

Kristján opnaði okkur sýn inn í viðamikil störf IARU og þau verkefni sem við þekkjum úr nærumhverfinu, þ.e. innan okkar svæðis (Svæðis 1) þar sem starfsemin er byggð upp á vinnu fastanefnda, starfshópa og embætta með aðgreind verksvið. Hann útskýrði einnig uppbyggingu starfsins innan svæðisins, m.a. ráðstefnur sem eru haldnar á þriggja ára fresti og svokallaða „millifundi“ sem haldnir eru mitt á milli þeirra.

Sérstakar þakkir til Kristjáns fyrir vel flutt, fróðlegt, yfirgripsmikið og vandað erindi. Kristján bauð upp á spurningar og svaraði samhliða flutningi erindisins (og á eftir) sem kom mjög vel út. Umræður héldu áfram eftir lok erindisins fram undir kl. 23 þegar staðurinn var yfirgefinn.

Alls mættu 19 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Fram kom m.a. að landfræðileg svæðaskipting ITU og IARU er sú sama.
Kristján útskýrði undirbúningsvinnu sem fram fer m.a. hjá IARU vegna tíðniákvörðunarráðstefnu ITU (WRC) sem fram fer 2023.
Mathías Hagvaag TF3MH, Kristján Benediktsson TF3KB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Georg Kulp TF3GZ.
Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Georg Kulp TF3GZ. Ljósmyndir: TF3JB.

Vetrardagskráin heldur áfram. Á fimmtudag, 24. nóvember er tvennt í boði í Skeljanesi.

Kl. 17: Námskeiðið „Fyrstu skrefin“.
Óskar Sverrisson, TF3DC leiðbeinir. Áhugasamir skrái sig tímanlega hjá Óskari í síma 862-3151.

Kl. 20:30: Erindið „Skipulag alþjóðasamtaka radíóamatöra“.
Kristján Benediktsson, TF3KB flytur.

QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Hans Konrad Kristjánsson TF3FG sótti námskeið hjá Óskari Sverrissyni TF3DC í Skeljanesi 10. nóvember s.l. Konni var ánægður með námskeiðið og sagði að það sé mjög nytsamlegt fyrir mann eins og hann að fá innsýn í fjarskiptin á böndunum eins og þau fara fram í dag, en hann sagðist t.d. lítið hafa fylgst með innleiðingu á tölvum í áhugamálið frá 1986. Og nú, þegar hann væri tilbúinn til að fara í loftið á ný hafi m.a. verið áhugavert að kynnast stafrænum tegundum útgeislunar, s.s. FT8, auk þess sem rafrænar fjarskiptadagbækur séu nauðsyn. Ljósmynd: TF3JB.
Kristján Benediktsson TF3KB . Myndin var tekin í eitt af mörgum skiptum sem hann hefur flutt erindi um alþjóðamál radíóamatöra í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JON.

CQ World Wide DX CW keppnin fer fram helgina 26.-27. nóvember.

Markmiðið er að ná eins mörgum samböndum og hægt er við aðra radíóamatöra um allan heim – í eins mörgum löndum (DXCC einingum) og á eins mörgum CQ svæðum og frekast er unnt. Keppt er á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Þetta er stærsta alþjóðlega morskeppni ársins; 48 klst. og engin tímatakmörk og í boði eru yfir 60 mismunandi keppnisflokkar.

Stjórn félagsins hvetur félagsmenn til þátttöku og að skila inn radíódagbókum að henni lokinni. Alls var skilað dagbókum fyrir 9 TF kallmerki til keppnisstjórnar í fyrra (2021).

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Heimasíða keppninnar: https://www.cqww.com/
Keppnisreglur: https://www.cqww.com/rules.htm

ÍRA hefur borist jákvætt svar frá Fjarskiptastofu við ósk félagsins um endurnýjun heimildar til notkunar tíðnisviðsins 70.000-70.250 MHz. Núverandi heimild sem framlengd var 7.12.2020 [til 2 ára] rennur út 31.12.2022 n.k. Heimildin hefur nú verið endurnýjuð til næstu 2 ára, þ.e. til 31.12.2024.

Eftirfarandi skilyrði eru lögð til grundvallar:

(1) Hámarksbandbreidd er 16 kHz. Engin skilyrði hvað varðar mótun; (2) hámarks útgeislað afl er 100W; (3) heimildin er með þeim fyrirvara að komi til truflana á annarri fjarskiptastarfsemi verður að hætta sendingum strax og (4) kallmerki skal notast í upphafi og lok fjarskiptasambands og með viðeigandi reglulegu millibili á meðan fjarskiptasamband varir.

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til FST fyrir nýtt tveggja ára tímabil á hrh@fjarskiptastofa.is  Það nægir að senda eina umsókn sem gildir fyrir bæði árin, þ.e. 2023 og 2024.

Stjórn ÍRA.

Nýrri sendi-/móttökustöðvar radíóamatöra eru gjarnan útbúnar til fjarskipta í 50 og 70 MHz tíðnisviðunum. Þ.á.m. er ICOM IC-7700 sem myndin er af.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS mætti á „sófasunnudag“ í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 20. nóvember. Umræðuþema var: „Íslenskir amatörar í prentmiðlum í gegnum tíðina“. Um var að ræða þriðju sunnudagsopnunina af fimm á yfirstandandi vetrardagskrá.

Vilhjálmur hefur skoðað, farið yfir og leitað að upplýsingum um radíóamatöra hér á landi sem birst hafa í prentmiðlum frá því í byrjun síðustu aldar. Um er að ræða dagblöðin en auk þess mörg tímarit, t.d. í Útvarpstíðindum, Vikunni, Æskunni, Skátablaðinu, Sjómannablaðinu Víkingi og fl.

Fram kemur furðu mikill fróðleikur í þessum miðlum og ótrúlega margt sem viðstaddir höfðu ekki vitað af eða séð áður. Til dæmis er mikið um skrif í kringum stofnun ÍRA 1946 og setningu fyrstu reglugerðarinnar 1947. Og viðtöl við einstaka radíóamatöra (karla og konur) í gegnum tíðina, bæði í dagblöðunum og bæjarfréttablöðum, t.d. á Akranesi og í Hafnarfirði.

Vilhjálmur flutti efnið með afbrigðum vel. Í fyrsta skipti var notaður skjávarpi á sófasunnudegi, sem kom vel út því hann birti myndir af blaðaúrklippum og [jafnvel] heilum opnum þar sem slíkt var í boði. Vilhjálmur hefur kynnt sér efnið vel og gat í mörgum tilvikum tengt saman efni sem var til umfjöllunar á þessum vettvangi um tiltekið árabil.

Sérstakar þakkir til Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS fyrir áhugaverða, skemmtilega og ekki síst afar fróðlega og „lifandi“ yfirferð um „sögu radíóamatöra“ í meir en 100 ár í íslenskum prentmiðlum. Alls mættu 10 félagsmenn og 1 gestur þennan regnmilda sunnudagsmorgun í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS byrjar flutning í Skeljanesi 20. nóvember. Í fyrsta skipti var notaður skjávarpi á “sófasunnudegi”.
Frá vinstri: Jónas Bjarnason TF3JB, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Erling Guðnason TF3E, Mathías Hagvaag TF3MH og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Kristján Benediktsson TF3KB, Erling Guðnason TF3E og Mathías Hagvaag TF3MH.
Mathías Hagvaag TF3MH, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Vel kom út að nota skjávarpa, samanber myndina hér að ofan. Ljósmyndir: TF3JB og TF3KB.

Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram.

Sunnudag 20. nóvember kl. 11:00 verður Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS með umræðuþema á sunnudagsopnun: „Íslenskir amatörar í prentmiðlum í gefnum tíðina“.

Viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki um kl. 12 á hádegi, en húsið er opnað kl. 10:30.

Rúnstykki með kaffinu og vínarbrauð frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

.

.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY mætti í Skeljanes 17. nóvember með erindið „Fjarhlustun á HF með Airspy+DiscoverySDR“.

Keli hefur haft verulegar truflanir í viðtöku merkja heima í Vogum, einkum á lægri böndunum. Í baráttu við truflanirnar, gerði hann tilraunir með margskonar vírloftnet, lárétt, lóðrétt, há og lág. Að auki rammaloftnet, m.a. RAØSMS (WellGood loop), „Wideband Active Loop“ með formagnara frá LZ1AQ og heimasmíðuð rammaloftnet (e. active loops), auk þess að prófa QRM Eliminator frá WiMO.

Sumar tilraunir skiluðu árangri. Til dæmis voru mörg dæmi þess að rammanetin gerðu ólesanleg merki vel læsileg. Mest hjálp var af þeim á merkjum á stökkbylgju (e. sky wave) innanlands. QRM Eliminator tækið náði stundum að að bæta S/N hlutfallið verulega, en ekki voru gerðar tilraunir með uppsetningu á sérstöku „truflanaloftneti“ (e. auxiliary antenna). Niðurstaðan af þessum tilraunum varð sú, að e.t.v. væri best að færa móttökuna á annan stað.

Það gekk eftir þegar Keli fékk aðstöðu fyrir Airspy+DiscoverySDR viðtæki (0.5-31 MHz, auk 60-260 MHz) í húsnæði við Elliðavatn. Þar prófaði hann ýmis vírloftnet og beina (e. router). Þar til á þessu ári (2022) virkaði það fyrirkomulag þokkalega þar sem það gerði honum kleift að hafa mörg QSO. Fyrirkomulag var þó ekki gallalaust í fyrstu m.a. vegna seinkunar (e. latency), auk þess sem móttaka átti til að frjósa.

Fyrirkomulagið var endurskoðað í sumar og þegar búið var að fella út feril merkisins í gegnum skýið (e. tunnelling) og breytt var um hugbúnað í SDR++ („cross-platform and open source SDR software“) náðist mikið betri stöðugleiki (hvarf út uppsöfnuð seinkun), þ.e. einfaldlega er smellt á „connect“ og viðtaka hefst.

Erindið var vel unnið og afar fróðlegt. Það var byggt upp á skyggnusýningu (glærum) þar sem inn á milli sýnt myndskeið með hljóðskrám sem var afar áhugavert. Þegar Keli byrjaði erindið leyfði hann okkur að sjá og heyra merki á viðtækinu heima í Vogum á 40 metrum. Móttakan var hreint út sagt ólæsileg. Þannig að hann hefur fundið lausn truflununum og getur nú verið QRV á böndunum innanlands og í DX þegar honum hentar. Keli sagði að lokum það hafi verið verst hvað tilraunirnar hafi tekið mikinn tíma frá því að vera í loftinu en niðurstaðan væri mjög ásættanleg.

Sérstakar þakkir til Hrafnkels Sigurðssonar, TF8KY fyrir vandað, vel samsett, skemmtilegt og afar fróðlegt erindi. Skyggnur og hljóðskrár verða settar á heimasíðu ÍRA. Alls mættu 33 félagar og 1 gestur á erindið í Skeljanesi þetta milda vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY byrjar flutning erindi sínu í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 17. nóvember.
Ein af mörgum skyggnum Kela. Á myndinni má sjá góðan árangur á viðtöku merkja á 40 metra bandinu yfir netið. Með skyggnunni fylgdi hljóðskrá.
Óskar Sverrisson TF3DC, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY og Georg Kulp TF3GZ.
Fremst á mynd: Yngvi Harðarson TF3Y og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM. Fjær: Benedikt Sveinsson TF3T, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG og Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN.
Kristján Benediktsson TF3KB og Andrés Þórarinsson TF1AM.
Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Sigmundur Karlsson TF3VE.
Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK sýndi félagsmönnum nýja “magnetíska lúppu” frá Looper Systems af gerðinni “MLA-T PRO V.4 New Version” fyrir 160, 80, 60 og 40 metrana.
Fremst: Sigmundur Karlsson TF3VE, Mathías Hagvaag TF3MH, Benedikt Sveinsson TF3T og Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK. Fjær: Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Benedikt setti loftnetsgreininn á loftnetið til prufu. Ljósmyndir: TF3JB.

ÍRA hefur borist jákvætt svar frá Fjarskiptastofu (FST) í dag 18. nóvember við ósk félagsins um endurnýjun heimildar til notkunar tíðnisviðsins 1850-1900 kHz vegna þátttöku í alþjóðlegum keppnum á almanaksárinu 2023. Heimildin nær til eftirtalinna keppna:

CQ WW 160 metra keppnin á CW – 27.-29. janúar 2023.
ARRL International DX keppnin á CW – 18.-19. febrúar 2023.
CQ WW 160 metra keppnin á SSB – 24.-26. febrúar 2023.
ARRL International DX keppnin á SSB – 4.-5. mars 2023.
CQ WW WPX keppnin á SSB – 25.-26. mars – 2023.
CQ WW WPX keppnin á CW – 27.-28. maí 2023.
IARU HF World Champinship keppnin á CW/SSB 8.-9. júlí 2023.
CQ WW DX keppnin á SSB 28.-29. október 2023.
CQ WW DX keppnin á CW 25.-26. nóvember 2023.
ARRL 160 metra DX keppnin 1.-3. desember 2023.

Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur forgang til notkunar tíðna á þessu tíðnibili. Um þessa notkun gilda sömu kröfur og gilda fyrir tíðnisviðið 1810-1850 kHz í reglugerð, en aukin skilyrði Fjarskiptastofu eru eftirfarandi:

Heimild er einvörðungu veitt þann tíma sem tilgreindar alþjóðlegar keppnir standa yfir.

G-leyfishafar hafa heimild til að nota fullt afl, allt að 1kW. N-leyfishafar njóta sömu tíðniréttinda, en aflheimild miðast við mest 10W.

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til PFS á hrh@fjarskiptastofa.is  Það nægir að senda eina umsókn sem þar með gildir fyrir allar 10 keppnirnar á árinu 2023.

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi.

Ný vetrardagskrá félagsins heldur áfram á fimmtudag, 17. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY með erindið: „Fjarhlustun á HF með Airspy+DiscoverySDR“.

Hrafnkell mun m.a. fjalla um reynslu af uppsetningu og notkun viðtækis yfir netið með aðra staðsetningu [en heima] m.a. til að auðvelda DX vinnu á lægri böndunum vegna truflana á heima QTH.

Félagsmenn eru hvattir til að láta erindi Kela ekki fram hjá sér fara. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Stjórn ÍRA.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY í glæsilegu fjarskiptaherberginu heima í Vogum. Ljósmynd: TF1AM.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 7-13. nóvember 2022.

Alls fengu 22 TF kallmerki skráningu. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW), tali (SSB), fjarritun (RTTY) og AM og FM. Bönd: 6, 10, 12, 15, 17, 20, 30, 40, 60 og 80 metrar.

Kallmerki fær skráningu þegar leyfishafi [eða hlustari] hefur haft samband við [eða heyrt í] TF kallmerki. Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/ Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

TF1AFT8 á 10 metrum
TF1EINSSB of FT8 á 15 og 60 metrum
TF1EMFT8 á 10, 30 og 80 metrum
TF1VHFCW á 6 metrum
TF2CTFT8 og FT4 á 10 metrum
TF2MSNSSB og FT4 á 10 og 15 metrum
TF3AORTTY Á 10, 15 og 20 metrum
TF3EOCW á 12 metrum
TF3IGFT4 á 10 og 20 metrum
TF3IRACW á 40 metrum
TF3JBFT4 á 10 metrum
TF3PKNSSB á 10 og 15 metrum
TF3PPNFT8 og RTTY á 15 og 20 metrum
TF3TKNSSB á 15 metrum
TF3UACW á 10 metrum
TF3VESSB, FT4 og FT8 á 10, 12 og 40 metrum
TF3TSSB á 15 metrum
TF4WDSSB á 80 metrum
TF5BFT8 á 40 metrum
TF7DHPSSB á 80 metrum
TF8KWSSB, AM og FM á 10 og 80 metrum
TF8SMCW á 12 metrum
Benedikt Sveinsson TF3T var virkur á SSB á 15 metrum vikuna 7.-13. nóvember. Myndin var tekin í glæsilegri fjarskiptaaðstöðu hans við Stokkseyri (TF3D). Ljósmynd: TF3T.