Kallmerki radíóamatöra.

TF er alþjóðlegt forskeyti fyrir Ísland samkvæmt úthlutun Alþjóða fjarskiptastofnunarinnar, ITU. Kallmerki radíóamatöra eru gefin út af Fjarskiptastofu til þeirra sem staðist hafa próf til amatörleyfis. Hvert kallmerki er einstakt því engir tveir radíóamatörar í heiminum hafa sama kallmerki og er amatör radíó eina áhugamálið sem hefur réttarstöðu samkvæmt alþjóðasamningum.

Öll íslensk kallmerki hefjast á bókstöfunum TF, síðan kemur tölustafur sem er valkvæður og viðskeyti sem getur verið með einum, tveimur eða þremur bókstöfum. Til eru örfá kallmerki með fjórum bókstöfum í viðskeyti, t.d. TF3WARD og TF3YOTA sem eru sérúthlutunanir til rekstrar sameiginlegrar stöðvar hjá Íslenskum radíóamatörum (ÍRA).

Fyrir 22. desember 2017 hafði tölustafurinn í íslenskum kallmerkjum landfræðilega merkingu. Dæmi: Tölustafurinn 3 í kallmerkinu TF3IRA gaf til kynna skráða staðsetningu stöðvar í Reykjavík eða nágrenni. Það fyrirkomulag var afnumið með reglugerð nr. 1306/2017 um breytingu á reglugerð um starfsemi radíóáhugamanna nr. 348/2004.


Til leiðbeiningar fyrir þá sem leita að lausu kallmerki.

  • Til grundvallar eru gögn frá Fjarskiptastofu.
  • Kallmerki sem ekki eru skráð skoðast almennt laus til úthlutunar.
  • Fljótlegt er að fletta í gegnum listann til að skoða stöðuna eftir viðskeytum sem eru feitletruð.
  • Einnig er auðvelt að kanna hvort tiltekið viðskeyti er laust, t.d. með því að velja „Control F“ á lyklaborðinu.
  • Ef spurningar vakna má leita álits félagsins með því að senda tölvupóst til ira@ira.is
  • Gerður er fyrirvari um mögulegar villur.
  • Eftirfarandi listi var uppfærður 12. desember 2023.
  • Kallmerkjaskrá: (smellið hér)