VHF-leikar 2017 innskráning / uppfært 27.6.2021 / TF3JB / Ath. að nýjustu uppfærslur eru birtar á heimasíðu ÍRA þegar tilkynnt er um viðburðinn.

TF VHF-leikarnir eru hugarfóstur áhugamanna um langdræg VHF-fjarskipti, en draga dám af sambærilegum leikum sem mikilla vinsælda njóta í Bretlandi, Bandaríkjunum og víðar. VHF-leikarnir eru leikar en ekki keppni, þótt stigafjöldi geti vissulega verið mælikvarði á ástundun, búnað, útsjónarsemi og heppni!

Hér á síðunni getur að líta tillögur að leikreglum og keppnistilhögun, en tilgangur VHF-leikanna er að örva áhuga og hæfni íslenskra radíóamatöra hvað varðar notkun VHF- og UHF-stöðva og eflingu fjarskipta frá þeim innanlands. Jafnframt er hugmyndin að leikarnir geti verið mönnum til nokkurrar ánægju við sameiningu útivistar, ferðalaga og amatörradíós.

VHF-leikarnir eru alls ekki hreinræktaðir útileikar, og ekki fást færri stig fyrir heimastöðvar eða stöðvar tengdar rafveitu heldur en burðarstöðvar. Því er engu síðra að taka þátt úr stöðvum í heimahúsum og sumarbústöðum, því fjallageitur með handstöðvar og ökumenn með bílstöðvar þurfa oftar en ekki almennileg loftnet á hinum endanum til að ná í gegn.

Reglur

1. Almennt

Öllum leyfishöfum er heimil þátttaka í TF-TF-samböndum. Þátttaka Íslendinga frá útlöndum og sambönd við þá frá TF er einnig heimil, en stig eru reiknuð með annarri aðferð en gildir um TF-TF-sambönd (sjá 6. kafla um stigagjöf).

2. Tímasetning

Keppnin fer fram fyrri hluta júlímánaðar. Hafa má sambönd frá kl. 18 á föstudegi til kl 18 á sunnudegi, en sex þriggja klukkustunda löng aðalþátttökutímabil “níu til tólf” eru alla dagana sem hér segir:

 • föstudag kl 0900-1200 og 2100-2400
 • laugardag kl 0900-1200 og 2100-2400
 • sunnudag kl 0900-1200 og 2100-2400

Þó má hafa samband hvenær sem er innan tímaramma keppninnar og engin takmörk eru á lengd þátttökutíma miðað við höfð QSO.

3. Sambönd

Heimilt er að nota hvers kyns hjálp við að koma á samböndum, svo sem sked, samskipti á HF, gegnum endurvarpa eða jafnvel símleiðis! Markmiðið er að teygja tæknina eins langt og aðstæður leyfa, og á VHF getur gert gæfumuninn að ná broti um fjallsegg eða speglun af fjallshlíð, sé ekki sjónlína á milli. Eftirfarandi takmarkanir gilda:

 • Sex sambönd er hámarksfjöldi sambanda við sömu stöð á sama bandi. Séu fleiri en sex slík sambönd skráð í radíódagbók, er aðeins tekið tillit til sex stigahæstu sambandanna.
 • Samband við sömu stöð á sama bandi telst gilt svo fremi að a.m.k. sex klst. séu liðnar frá fyrra sambandi.
 • Einungis bein sambönd gilda til stiga, en ekki sambönd um endurvarpa með sendibúnaði (þ.e. að auðvitað er heimilt að nota endurkast, bylgjubrot og bylgjusvignun).
4. Skilaboð

Upplýsingar sem skiptzt er á eru:

 • Kallmerki
 • Staðsetning í gráðum með tveimur aukastöfum en án kommu, t.d. 6413 / 2196 fyrir 64,13°N / 21,96°V
 • QSO númer, þ.e. raðnúmer sambands

Samband telst þá og því aðeins fullgilt að báðar stöðvar hafi náð ofangreindum upplýsingum rétt.

5. Bönd

Nota má öll VHF og hærri amatörbönd, sem heimil eru skv. reglugerð og leyfisbréfi þátttakenda. Ekki er leyfilegt að hafa svokölluð “crossband”-sambönd, þar sem stöð A er RX eða TX á öðru bandi en stöð B, þótt “split operation” sé vissulega heimiluð innan sama bands.

 1. 6 metrar – aðalkalltíðnir 51.500 og 51.550 MHz (50.500 til vara, einkum SSB/CW)
 2. 4 metrar – fyrir þá sem hafa viðeigandi útbúnað og sérstakt leyfi PFS til útsendinga á 70.000-70.200 MHz
 3. 2 metrar – aðalkalltíðnir 144.500 og 144.550 MHz (144.300 til vara, einkum SSB/CW)
 4. 70 cm – aðalkalltíðnir 435.500 og 435.550 MHz (433.300 til vara, einkum SSB/CW)
 5. hærri bönd

Sjá nánar um tíðni-, afl- og mótunarheimildir amatöra á síðunni http://www.ira.is/tidnisvid/

6. Stigagjöf
Útreikningur

Stig eru reiknuð fyrir viðskipti við stöð ef fullgilt QSO næst við hana skv. skilgreiningunni að framan (liður 4). Reiknireglan er:

 • Fyrir sambönd innan TF er stigafjöldi reiknaður einvörðungu eftir fjarlægð milli stöðva í km í öðru veldi. VHF-leikarnir eru því ekki kallsvæða- eða kallmerkjakeppni og engir eiginlegir margfaldarar í boði.
 • Fyrir sambönd frá TF til Íslendinga erlendis eða öfugt (TF-DX eða DX-TF) reiknast stig samkvæmt tíðninni í MHz öðru veldi (efri mörk bandsins) sem sambandið var á.

Þótt ekki sé um að ræða hefðbundna margfaldara, má segja að duldir margfaldarar felist í stigagjöfinni:

 • Þar sem fjarlægð í kílómetrum í öðru veldi telur til stiga, er slíkt ígildi svæðamargfaldara
 • Nota má fleiri en eitt mode (FM, SSB, CW, PSK o.s.frv.) og draga að jafnaði lengra eftir því sem merkið er bandmjórra, og er slíkt einnig ígildi margfaldara fyrir að höndla fleiri modes en t.d. aðeins FM
 • Fyrir TF-DX- eða DX-TF-sambönd fást stig í hlutfalli við deyfingu bylgju með tíðni (í stað fjarlægðar), sem er ígildi fjarlægðarmargfaldara
Dæmi

Heyrzt hefur um staði þar sem ótrúleg sambönd hafa náðzt: Frá Öxnadalsheiði til Reykjavíkur á tali, og jafnvel af Sprengisandi í bæinn á morsi. Í þessum tilfellum er líklegast um að ræða bylgjubrot yfir fleiri en einn sérlega heppilega staðsetta fjallstinda á leiðinni. Sjá hér að neðan nokkur rauhæf dæmi um sambönd:

 • Samband úr Reykjavík út á Garðsskaga (36,9 km) væri þannig: Frá 6413 / 2193 til 6408 / 2268: 36,9*36,9 = 1362 stig
 • Frá sömu stöð í Reykjavík og allt til Laugarvatns (58,8 km, gerlegt á SSB úr bíl við góða stöð í bænum): Frá 6413 / 2193 til 6421 / 2073: 58,5*58,5 = 3457 stig
 • Frá stöð við Brjánslæk á Barðaströnd til Reykjavíkur (auðvelt á FM með bylgjubroti um Snæfellsnesfjallgarð, 161 km leið): Frá 6550 / 2319 til 6413 / 2193: 161*161 = 25921 stig

Það er til mikils að vinna að ná í landa okkar í Skandinavíu á 2 metrum og öfugt. TF-leikar gætu jafnvel unnizt af DX-stöð í fyrsta sinn! Dæmi um stig fyrir slík sambönd:

 • Frá stöð á Íslandi við stöð Íslendings erlendis (eða öfugt) á 50.500 MHz:  52*52 = 2704 stig
 • Frá stöð á Íslandi við stöð Íslendings erlendis (eða öfugt) á 145.500 MHz: 146*146 = 21.316 stig

Gangi ykkur vel!

Viðaukar

Viðauki 1: Reikniregla TF-TF-sambönd

Eftirfarandi hornafræðiformúla finnur kílómetrafjölda milli stöðva, hefur í annað veldi og rúnnar í næstu heiltölu. Þessi tala (P) er stigafjöldi viðkomandi sambands:

P = int( ( acos(cos(d°N frá) * cos(d°V frá) * cos(d°N til) * cos(d°V til) + cos(d°N frá) * sin(d°V frá) * cos(d°N til) * sin(d°V til) + sin(d°N frá) * sin(d°N til)) * 6378,16 ) 2 + 0,5)

Ath. að þátttakendur þurfa ekki að reikna þetta sjálfir, en þó er þetta reiknað sjálfkrafa í til þess gerðu Excel-loggskjal (sjá viðhengi)

Fjarlægð í öðru veldi stendur í hlutfalli við deyfingu á afli radíóbylgju, og gefur þannig góða mynd af frammistöðu í “fjarlægðakeppni” sem þessari. Með öðrum orðum gefur tvöföldun á fjarlægð fjórföldun á punktafjölda; þreföldun gefur níföldun o.s.frv.

Reglan er því í raun einföld þrátt fyrir flókna formúlu: Koma sér eins langt í burtu frá viðmælandanum og kostur er!

Viðauki 2: Reikniregla TF-DX- eða DX-TF-sambönd

Fyrir sambönd til eða frá Íslandi og út fyrir landsteinana dugir ekki að nota sömu fjarlægðarreglu og fyrir TF-TF-sambönd. Því er reiknireglan einfaldlega tíðni í MHz í öðru veldi rúnnað í næstu heiltölu,

P = int( tíðni MHz 2 + 0,5 )

Þar sem tíðni MHz er hæsta leyfilega amatörtíðni á viðkomandi bandi, til að koma í veg fyrir að eltast þurfi við hæstu tíðnir innan bands til að ná sem flestum stigum.