Mikilvægt er að leyfishafar sem hafa áhuga á að stunda fjarskipti í 70.000-70.250 MHz tíðnisviðinu (á 4 metrum) sendi beiðni þess efnis til Póst- og fjarskiptastofnunar áður en sendingar eru hafnar.

Póstfang er:  hrh hjá pfs.is  eða pfs hjá pfs.is  Tilgreina skal, að sótt sé um heimild fyrir nýtt tímabil, 1.1.2021.-31.12.2022.

Eftirfarandi skilyrði eru lögð til grundvallar:

(1) Hámarksbandbreidd er 16 kHz. Engin skilyrði hvað varðar mótun; (2) hámarks útgeislað afl er 100W; (3) heimildin er með þeim fyrirvara að komi til truflana á annarri fjarskiptastarfsemi verður að hætta sendingum strax og (4) kallmerki skal notast í upphafi og lok fjarskiptasambands og með viðeigandi reglulegu millibili á meðan fjarskiptasamband varir.

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 20. maí frá kl. 20:00. Ákvörðun um opnun byggir á heimild í reglugerð heilbrigðisráðherra um tilslökun á samkomuhaldi á tímabilinu 10.-26. maí n.k.

Grímuskylda er í húsnæðinu ásamt þeirri kvöð að leitast verði við að halda nálægðarmörkum. Aðgangur að herbergi QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga og fjarskiptaherbergi verður lokað.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornarradid.is/library/04-Raduneytin/Heilbrigdisraduneytid/ymsar-skrar/Regluger%c3%b0%20um%20takm%c3%b6rkun%20%c3%a1%20samkomum%20vegna%20fars%c3%b3ttar%2010.%20ma%c3%ad.pdf

Töluvert hefur bæst við af radíódóti á milli opnunarkvölda (uppi og niðri). Myndin er af borðinu uppi í fundarsalnum. Mynd: TF3JB.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 9.-15. maí 2021. Samskonar samantektir voru gerðar í janúar, febrúar og apríl.

Alls fengu 16 TF kallmerki skráningu. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW), tali (SSB) og fjarvélritun (RTTY) á 4, 6, 15, 17, 20, 30, 40 og 60 metrum.

Kallmerki fær skráningu þegar erlendur leyfishafi [eða hlustari] hefur haft samband við [eða heyrt í] TF kallmerki. Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/  Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á:

TF1A——-FT8 á 6 metrum.
TF1EIN——FT8 á 6 og 60 metrum.
TF1OL——-FT8 á 20 metrum.
TF1VHF—- CW á 4 og 6 metrum.
TF2MSN—-FT4, FT8 og SSB á 4, 20, 40 og 60 metrum.
TF3AO——RTTY á 20 metrum.
TF3DT——-FT8 á 15 og 40 metrum.
TF3JB——–CW og FT8 á 17 og 30 metrum.
TF3MH——FT8 á 17 og 30 metrum.
TF3VE——-FT8 á 6 metrum.
TF3VG——-FT8 á 6 metrum.
TF3VS——-FT8 á 40 metrum.
TF4M——-CW á 20 metrum.
TF5B———FT8 á 17 og 30 metrum.
TF8KY——-FT8 á 6 metrum.
TF8SM——FT8 á 4 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Myndin sýnir glæsilega fjarskiptaaðstöðu Brynjólfs Jónssonar TF5B á Akureyri. Ljósmynd: TF5B.

Áhugaverð skilyrði hafa verið undanfarna daga á HF böndunum og ofar. Sólblettafjöldi stendur í 24 í dag og flux‘inn er 74 þegar þetta er skrifað 14. maí.

TF stöðvar hafa haft mikið af góðum DX samböndum á HF og var Kyrrahafið t.d. galopið snemma í morgun á 14 MHz, auk þess sem Evrópa hefur meira og minna verið opin undanfarna daga á 50 MHz og 70 MHz böndunum.

Góðum skilyrðum er spáð áfram.

Glæsilegt 6 staka LFA Yagi loftnet Hrafnkels Sigurðssonar TF8KY á 50 MHz er frá InnovAntennas. Ljósmynd: TF8KY.

Í síðasta mánuði (apríl) voru liðin 5 ár frá því ICOM setti IC-7300 stöðina fyrst á markað. Samkvæmt upplýsingum á netinu er hún nú mest selda HF sendi-/móttökustöðin fyrir radíóamatöra í heiminum í dag. Stöðin er einnig mest selda HF stöðin frá upphafi hér á landi, en a.m.k. 129 eintök af þessari gerð hafa verið keypt til landsins.

Vakin er athygli á nýjustu uppfærslu hugbúnaðar fyrir IC-7300 sem m.a. er kynnt á heimasíðu Richard, KØPIR; „Firmware V1.40“. Þar er ágæt umfjöllun um helstu nýjungar, sem hafa líkað mjög vel.

Vefslóð:  https://www.k0pir.us/icom-7300-firmware-v1-40-3-big-improvements/

Félagsaðstaða ÍRA verður lokuð fimmtudaginn 13. maí sem er uppstigningardagur.

Næsti opnunardagur í Skeljanesi verður fimmtudaginn 20. maí n.k.

Stjórn ÍRA.

Vinnuhópur ungra radíóamatöra innan IARU Svæðis 1 hefur kynnt nýjung í ungmennastarfinu. Um er að ræða sérstakar 12 klst. „YOTA keppnir” sem verða haldnar í maí, júlí og desember ár hvert og eru opnar öllum radíóamatörum.

Fyrsta keppnin verður haldin laugardaginn 22. maí n.k. frá kl. 08:00-19:59 á morsi (CW) og tali (SSB) á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.

Skilaboð eru RS(T) + aldur.  Sambönd innan Evrópu gefa 1 punkt og utan Evrópu 3 punkta. Fjöldi margfaldara ræðst af aldri í samböndunum. Sjá nánar keppnisreglur með því að smella á myndina fyrir neðan.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ, ungmennafulltrúi ÍRA, segir að alla hlakki mjög mikið til 22. maí n.k. og hún vonast til að sem flestar TF stöðvar taki þátt. Hún verður sjálf QRV á SSB frá Hollandi þar sem hún hefur fengið úthlutað eigin kallmerki, PA2EQ.

Námskeið ÍRA til amatörprófs hófst 22. mars s.l. Vegna samkomutakmarkana þurfti fljótlega að fresta kennslu. Hins vegar [að öllu óbreyttu] hefst kennsla aftur mánudaginn 10. maí n.k. samkvæmt uppfærðri dagskrá.

Að beiðni ÍRA, hefur Póst- og fjarskiptastofnun fallist á að fresta prófdegi til laugardagsins 5. júní n.k.

Líkt og verið hefur frá árinu 2013 mun prófið að öllum líkindum fara fram í Háskólanum í Reykjavík, en það verður staðfest þegar nær dregur.

Stjórn ÍRA.

Frá setningu námskeiðs ÍRA til amatörprófs í félagsaðstöðunni í Skeljanesi 22. mars s.l. Ljósmynd: TF3JB.

Heimir Konráðsson TF1EIN var QRV á 6 metrum í hádeginu í dag, 5. maí. Hann var þá nýbúinn að setja upp nýtt sambyggt stefnuvirkt loftnet fyrir 50 MHz og 70 MHz, þegar skilyrðin opnuðust á 6 metrum niður til Evrópu.

Loftnetið er 9 elementa Yagi frá EAntenna, gerð 5070-OWA9. Það er 4 el. á 6 m. og 5 el. á 4 m. Ávinningur: Annars vegar 9,13 dBi og hins vegar 10,26 dBi. Bóma: 3,55 m. og þyngd: 7 kg.

Sambönd Heimis á 6 metrunum í dag veita vísbendingu um að „DX vertíðin“ sé að hefjast á 50 MHz, en 70 MHz byrja gjarnan að opnast síðar.

.

Ljósmynd: Heimir Konráðsson TF1EIN.

Nýtt loftnet TF1EIN er sambyggt 9 elementa Yagi net fyrir 50/70 MHz tíðnisviðin frá EAntenna, gerð 5070-OWA9. Ljósmynd: TF1EIN.

Erling Guðnason TF3E varð QRV um Es‘hail 2 / Oscar 100 gervitunglið í lok apríl. TF3E er fjórða íslenska kallmerkið sem er virkjað til að vinna um gervitunglið, en fyrir eru TF1A, TF3VP og TF3IRA.

Erling notar Adalm-Pluto SDR 10 mW sendi-/viðtæki fyrir 60 MHz til 3,8 GHz. Hann notar tvo RF magnara þar fyrir aftan sem gefa honum út allt að 20W á 2,4 GHz. Hann er með tvö diskloftnet, 40 cm fyrir sendingu og 60 cm fyrir viðtöku.

Erling sagði í dag (4. maí) að hann væri mjög ánægður með búnaðinn sem tryggir honum sambönd allan sólarhringinn við amatörstöðvar um heiminn. Í dag var hann t.d. búinn að hafa sambönd við stöðvar í ZS, VU og 4X, auk Evrópulanda. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A var Erlingi innan handar við frágang og uppsetningu búnaðar. TF3E áformar að uppfæra búnaðinn frekar á næstunni.

Til vinstri: TF3E virkjar TF3IRA um Oscar 100 gervitunglið frá TF3IRA 19. október 2019. Ljósmynd: TF3JB.

Diskloftnetin eru fest fyrir utan gluggan á íbúðinni í Álftamýri í Reykjavík. 60 cm diskurinn (neðri) er fyrir viðtöku og 40 cm diskurinn (efri) er fyrir sendingu. Ljósmynd: TF3E.