Nordics On The Air in Norway Easter 2020a YOTA sub-regional ham camp – open for all youngsters

Um páskana verða hinar árlegu “Nordics on the air” ungmennabúðir radíóamatöra haldnar 10.-13. apríl 2020. Við bjóðum ungmennum frá öllum Norðurlöndunum að taka þátt! Helgin verður smekkfull af skemmtilegri dagskrá. Ég var eini Íslendingurinn sem fór á seinasta ári og eignaðist mjög góða vini frá hinum Norðurlöndunum. Það eina sem mér þótti leiðinlegt var að ég þurfti að fara heim.

Hvað gerum við?  Dagskráin snýst helst um eða tengist radíó amatörstarfi á einn eða annan hátt. Við kynnum nýliða fyrir áhugamálinu en það verður líka dagskrá fyrir lengra komna. Það verður hið vel þekkta “Alþjóðakvöld” þar sem allir koma með góðgæti frá sínu eigin landi og allir þátttakendur fá tækifæri til að fara í loftið á LA1YOTA; með eða án aðstoðar frá reyndari leyfishafa (ef þess er óskað).

Hvar?  Helgin fer fram á Camp Killingen, Killingsholmen, sem er lítil eyja suðvestur af Ósló. Tjaldbúðirnar (verðum samt innanhúss) eru á sunnanverðri eyjunni, þar sem við verðum meira og minna út af fyrir okkur, umkringd náttúrunni.

Við viljum fá þig!  NOTA eru ungmennabúðir fyrir ungmenni, skipulagt af ungmennum og ykkur er öllum boðið að taka þátt. Ef þú hefur áhuga á að hitta önnur ungmenni sem hafa áhuga á því að fikta með tæki og tól, að tala í talstöðvar, vita hvernig neyðarfjarskipti eða internetið virkar, jafnvel sjónvarpsútsendingar og hvernig símar tala saman í gegnum bæði gervihnetti og símamöstur, eða bara hvernig á að byggja sinn eigin búnað, prufa hann, læra hvernig morskóði virkar og af hverju hann var notaður o.fl. – -þá ENDILEGA sæktu um og taktu þátt! Ég vil fá sem flesta Íslendinga með mér!

Markmiðið með þessu er að virkja ungmenni í áhugamálinu og fá þá til að kynna sér það betur heimafyrir og jafnvel kynnast fleiri ungmennum sem þau geta…nördast með.

ATH: ÞAÐ ÞARF EKKI að hafa amatörleyfi til að taka þátt og sækja um, við viljum bara að þú hafir metnað fyrir áhugamálinu og viljir kynna þér það betur!

Umsóknarferli í gegnum landsfélag IARU Svæðis 1  IARU (samtök landsfélaga radíóamatöra á Svæði 1) er styrktaraðili þessara búða og skilgreinir ungmenni sem fólk á aldrinum 15-26 ára, undanþágur eru – og hafa verið gerðar – fyrir þátttakendur sem hafa ekki komið áður, t.d. fyrir þátttakendur sem eru nýir í áhugamálinu og frá smærri landsfélögun eins og ÍRA. Ég sjálf er 28 ára og fór í fyrsta skipti 27 ára. En það hafa verið krakkar allt niður í 13 ára að taka þátt. Það er eitthvað fyrir alla.

Þeir sem hafa áhuga á að sækja um þurfa að senda umsóknir í gegnum ungmennafulltrúa ÍRA á ira@ira.is. Tekið er á móti umsóknum frá 9. janúar til 9. Febrúar. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður þannig að best er að sækja um sem fyrst. Ef þú ert ekki félagi í ÍRA skaltu taka það fram í tölvupóstinum og við kippum því í liðinn.

Gjöld og frekari upplýsingar  Það er táknrænt þáttökugjald upp á 20 evrur / 200 NOK fyrir fullt fæði og gistingu. Frekari upplýsingar verða sendar til þátttakenda rétt eftir umsóknarfrestinum lýkur.

Aðrar fyrirspurnir skulu sendast til nota@nrrl.no

73 og vonumst til að sjá ykkur í Noregi í apríl!
Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, ungmennafulltrúi ÍRA.
The Nordic NOTA organizing team

ÍRA barst staðfesting frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) í dag, 8. janúar 2020, um heimild til notkunar tíðnisviðsins 1850-1900 kHz vegna þátttöku í tilgreindum alþjóðlegum keppnum á almanaksárinu 2020. Heimildin nær til eftirtalinna keppna:

CQ World-Wide 160 metra keppnin, CW, 24.-26. janúar.
ARRL DX keppnin, CW, 15.-16. febrúar.
CQ World-Wide 160 metra keppnin, SSB, 21.-23. febrúar.
ARRL DX keppnin, SSB, 7.-8. mars.
CQ WPX keppnin, SSB, 28.-29. mars.
CQ WPX keppnin, CW, 30.-31. maí.
IARU HF World Championship keppnin, CW/SSB, 11.-12. júlí.
CQ World-Wide DX keppnin, SSB, 24.-25. október.
CQ World-Wide DX keppnin, CW, 28.-29. nóvember.
ARRL 160 metra keppnin, CW  4.-6. desember.

Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur heimild til notkunar nokkurra tíðna á þessu tíðnisviði. Um þessa notkun gilda sömu kröfur og gilda fyrir tíðnisviðið 1810-1850 kHz í reglugerð, en aukin skilyrði Póst- og fjarskiptastofnunar eru eftirfarandi: (a) Heimildin er einvörðungu veitt þann tíma sem tilgreindar alþjóðlegar keppnir radíóamatöra standa yfir (sjá að ofan); (b) G-leyfishafar hafa heimild til að nota fullt afl, allt að 1kW. N-leyfishafar njóta sömu tíðniréttinda, en aflheimild þeirra miðast við mest 10W.

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til PFS á hrh@pfs.is eða pfs@pfs.is eins og áður.

Þátttakendur sem stóðust próf Póst- og fjarskiptastofnunar þann 14. desember s.l., eru allir komnir með kallmerki. Listinn er í stafrófsröð:

Árni Helgason, TF4AH, Patreksfirði.

Björgvin Víglundsson, TF3BOI, Reykjavík.

Eiður K. Magnússon, TF1EM, Reykjavík.

Gunnar B. Pálsson, TF2BE, Reykjavík.

Pétur Ólafur Einarsson, TF3POE, Reykjavík.

Sigurður Kolbeinsson, TF8TN, Reykjavík.

Sveinn Aðalsteinsson, TF1SA, Reykjavík.

Þorsteinn Björnsson, TF4TB, Kópavogi.

Stjórn ÍRA óskar viðkomandi til hamingju og býður þá velkomna í loftið.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 9. janúar.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

QSL stjóri félagsins tæmir pósthólfið á miðvikudag, flokkar innkomnar QSL sendingar og gerir klár fyrir opnun á fimmtudagskvöld.

Þá ætlar Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS, að koma með Zastone Z218 25W 2M/70CM bílstöðina sína og hafa til sýnis yfir kaffinu.

Stjórn ÍRA.

Wilhelm Sigurðsson TF3AWS heldur á Zastone Z-218 25W bílstöðinni fyrir 2M/70CM böndin. Myndin var tekin þegar hann kom með stöðina í Skeljanes. Eftir það hafa menn verið að spyrjast fyrir um tækið og þar sem hann áformar að setja stöðina í vinnubílinn gefst tækifæri á fimmtudagskvöld að skoða gripinn. Með Wilhelm á myndinni eru þeir Jón Guðmundsson TF3LM og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. LJósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 9. janúar.

Áramótakveðjur,

Stjórn ÍRA.

Vetrarmynd frá Skeljanesi. LJósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Gleðilegt nýtt ár með þökkum fyrir góð samskipti á liðnum árum.

Nú styttist í janúarhefti CQ TF.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 12. janúar n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á nýju ári 2020.
Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 9. janúar n.k.

Jólakaffi ÍRA 2019 var haldið í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 19. desember og var það síðasta opnunarkvöld okkar í Skeljanesi á þessu ári. Félagsaðstaðan opnar næst fimmtudaginn 9. janúar 2020.

Í boði var rjómaterta frá Reyni bakara í Kópavogi, stundum kennd við Hressingarskálann í Reykjavík. Brauðterta með rækjusalati frá veisluþjónustu Jóa Fel, hátíðakleinur frá Kökugerð HP á Selfossi, hvít jólaterta og brún jólaterta frá tertugalleríi Myllunnar, jólasmákökur með súkkulaðibitum frá Kökum og tertum; 17 sortum, Göteborgs jólapiparkökur, danskar rommkúlur frá Danish Bakery, piperkökuhringur og smáhringir (kleinuhringir) frá Bakarí Sandholt og súkkulaðirúlluterta frá Meyers Bageri í Kaupmannahöfn.

Kvöldið heppnaðist vel. Alls mættu 32 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta veðurstillta og fagra vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 19. desember. Mynd frá árlegu jólakaffi ÍRA sem hófst stundvíslega kl. 20:00.
Alltaf hressir. Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Georg Kulp TF3GZ og Mathías Hagvaag TF3MH.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Höskuldur Elíasson TF3RF og Ágúst H. Bjarnason TF3OM.
Sigurður Kolbeinsson TF3-066 (fremst til vinstri), Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Ársæll Óskarsson TF3AO, Georg Magnússon TF2LL, Bjarni Sverrisson TF3GB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Benedikt Sveinsson TF3T og Jón Björnsson TF3PW (lengst til hægri).
Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Bendikt Sveinsson TF3T og Baldur Þorgilsson TF3BP.
Heimir Konráðsson TF1EIN (fjær), Baldvin Þórarinsson TF3-033, Óskar Sverrisson TF3DC og Ari Þórólur Jóhannesson TF1A.
Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Björn Þór Hrafnkelsson TF8TY, Mathías Hagvaag TF3MH, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Vilhjálmur Í. Sigurjónson TF3VS.
Björgvin Víglundsson TF3BOI, Eiður Kristinn Magnússon TF3-071, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Jón Björnsson TF3PW.
Bjarni Sverrisson TF3GB, Kristján Benediktsson TF3KB, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Myndir: TF3JB.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, setti TF3YOTA í loftið frá fjarskiptaherbegi TF3IRA í Skeljanesi 19. desember. Fyrst á 14 MHz og þegar skilyrði hurfu á því bandi skipti hún yfir á gervihnattastöð félagsins til fjarskipta um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, VHF stjóri félagsins, aðstoðaði Elínu og birti m.a. skemmtilegt myndskeið af fjarskiptunum á Facebook.

YOTA verkefnið hófst í fyrra (2018) og verður starfrækt í desember ár hvert. Það er hugsað til að auka áhuga ungs fólks á amatör radíói. Verkefnið er á vegum IARU Svæðis 1 og eru öll landsfélög radíóamatöra innan Svæðisins þátttakendur (auk landsfélaga á Svæðum 2 og 3).

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, er ungmennafulltrúi félagsins og YOTA verkefnisstjóri ásamt Árna Frey Rúnarssyni, TF8RN. Þau áforma að virkja kallmerkið á sem flestum HF böndum (eftir skilyrðum) út mánuðinn, auk sambanda um OSCAR-100 gervitunglið.

Elín Sigurðardóttir TF2EQ við hljóðnemann á TF3YOTA í sambandi um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið. Ljósmynd: TF3JB.

Áramótasending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) fer að þessu sinni fram í janúar 2020. Þá verða öll kort sem borist hafa til stofunnar (þ.á.m. til smærri staða) póstlögð til kortastofa systurfélaganna um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2019/20 verður fimmtudagskvöldið 9. janúar 2020. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar. Gjaldskrá er óbreytt, 10 krónur á kort, sama hvert sem er í heiminum.

17. desember 2019,

73,

Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

Alls náðu átta einstaklingar prófi til amatörleyfis sem haldið var á vegum Póst- og fjarskiptastofnunar, laugardaginn 14. desember í Háskólanum í Reykjavík.
Þeir eru:

Árni Helgason, Patreksfirði.
Björgvin Víglundsson, Reykjavík.
Eiður K. Magnússon, Reykjavík.
Gunnar B. Pálsson, Reykjavík.
Pétur Ólafur Einarsson, Reykjavík.
Sigurður Kolbeinsson, Reykjavík.
Sveinn Aðalsteinsson, Reykjavík.
Þorsteinn Björnsson, Kópavogi.

Stjórn ÍRA óskar þeim til hamingju og býður þá velkomna í loftið.

Fjórða og síðasta sunnudagsopnun á vetrardagskrá félagsins var í boði sunnudaginn 15. desember. Jónas Bjarnason, TF3JB, mætti í Skeljanes og fjallaði um helstu niðurstöður radíótíðniráðstefnu Alþjóða fjarskipta-sambandsins ITU, WRC-19, sem lauk þann 22. nóvember s.l.

Farið var sérstaklega yfir samþykkt ráðstefnunnar um 50 MHz bandið. Hún er stigskipt (eins og við var búist), þ.e. 44 þjóðríki á Svæði 1 munu veita leyfishöfum ríkjandi aðgang á 500 kHz (á 50-54 MHz) og 26 ríki munu veita ríkjandi aðgang að öllu sviðinu.  Öll þjóðríki í Svæði 1 hafa samþykkt að veita radíóamatörum víkjandi aðgang að 50-52 MHz. Aðrar þjónustur sem fyrir voru með úthlutun í Svæði 1 og Svæði 3 munu halda fyrri heimildum. Núverandi ríkjandi aðgangur radíóamatöra að 50-54 MHz í Svæðum 2 og 3 helst óbreyttur.

Nánari útfærsla á 50 MHz tíðnisviðinu fer nú fram hjá hverju aðildarríkja ITU á næstu misserum. Fram kom, að ÍRA hefur þegar sett sig í samband við Póst- og fjarskiptastofnun vegna útfærslu tíðnisviðsins hér á landi.

Farið var ennfremur yfir önnur tíðnisvið, m.a. 5 GHz og 47 GHz og undirbúning næstu radíótíðniráðstefnu (WRC-23) með tilliti til 1240-1300 MHz tíðnisviðsins, sem kann að verða í hættu þá. Hann skýrði jafnframt frá þeim rástöfunum sem IARU hefur þegar hafið undirbúning á til að verja tíðnisviðið. Ennfremur var fjallað um WPT heimildir (e. Wireless Power Transmission) sem geta haft áhrif á fjarskipti radíóamatöra á HF böndunum (og á tíðnisviðum þar fyrir neðan).

Alls mættu 8 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þennan frostfagra og sólríka sunnudagsmorgun.