MÁLEFNI ENDURVARPA RÆDD Í SKELJANESI
Skeljanesi fimmtudag 23. nóvember 2023. Fyrirlesari kvöldsins var Benedikt Guðnason, TF3TNT sem kynnti framtíðarsýn endurvarpamála fyrir íslenska radíóamatöra. Erindið hófst kl 20:30 og var hið fróðlegasta. Kaffi og meðlæti var á borðum sem endranær.
Fram kom að fyrirtæki Benedikts annast FM senda útvarpsstöðva um allt land og hefur skapað sér aðstöðu í fjölda fjarskiptastöðva sem eru á fjallatoppum. Önnur þjónusta í þessum fjarskiptastöðvum er fyrir Tetra, björgunarsveitir, Neyðalínuna, ferðaklúbbinn 4×4 og fleiri. Benedikt sagði, að fyrirtæki hans hefði keypt amatörendurvarpa sem áður voru í eigu Ólafs, TF3ML og eru í rekstri fyrir radíóamatöra. Að auki ætti hann til fleiri slíka.
Hann kynnti eftirfarandi framtíðarsýn: (a) Færa endurvarpan á Mýrum upp á Strút sem er vestan Langjökuls í góðri hæð. Þannig fengist ólíkt betra samband um vestanvert landið en með núverandi staðsetningu á Mýrum; (b) Setja nýjan endurvarpa upp á Þrándarhlíðarfjalli innst í Skagafirði en þaðan er samband bæði á Strút og á núverandi endurvarpa á Vaðlaheiði. (c) Einnig, að setja upp nýjan endurvarpa á Háfell vestan við Vík í Mýrdal sem hefur samband við Bláfjöll og gæti náð austur í Öræfi. (d) Tengja Búrfell með „link“ við Bláfjöll en Búrfell fyllir í skugga á suðurlandi þar sem Bláfjöll nást ekki. Með þessum hætti fengist afbragðs 2 m. samband um stóran hluta landsins, bæði með þjóðvegum og um hálendið. (e) Þá er austurland eftir, en það mætti setja endurvarpa á Gagnheiði og finna leið til að tengja hann við Vaðlaheiði. Þessi áætlun öll er stórhuga og myndi gjörbreyta sambandi radíóamatöra um allt land til hins betra.
Var gerður góður rómur að erindi Benedikts og hann fékk fjölda fyrirspurna sem hann svaraði greiðlega. Ein spurning snéri að kostnaði en Benedikt sagði að kostnaður vegna uppsetningar yrði á hans vegum, en ÍRA yrði að vera aðili að þessu verkefni öllu til þess að aðstaðan fengist án kostnaðar.
Að erindi loknu snéru menn sér að spjalli og kaffidrykkju, og það var rætt og skrafað alveg til kl. 22:30 þegar stallari blikkaði ljósum til merkis um að nú væri komið kvöld. Héldu fundarmenn heim á leið glaðir í bragði. Þetta var afbragðs stund. Það var ánægjulegt að sjá nýútskrifaða amatöra mæta hressa og káta og taka þátt í umræðu og þeim var vel tekið. Alls mættu 26 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.
F.h. stjórnar,
Andrés Þórarinsson, TF1AM
varaformaður ÍRA
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!