,

FRÓÐLEGT ERINDI TF3NH Í SKEJANESI.

Fyrirlesari kvöldsins fimmtudaginn 30. nóvember var Njáll H. Hilmarsson, TF3NH meðstjórnandi í stjórn ÍRA. Njáll vinnur hjá Brimrúnu sem útvegar skipum hvers konar tæknibúnað, m.a. radara, dýptarmæla, ferilvöktun, Inmarsat-C fjarskipti, MF/HF/VHF talstöðvar og hvað annað sem skip þarf. Öll þessi tæki eru samtengd og senda gögn um skipið og í land með ýmsum hætti. Njáll annast tengingu tækja og fjarskipti hvers konar og er vel sjóaður í tölvusamskiptum sambærilegum þeim sem amatörar nota eins og PSK og FT8/FT4. 

Erindið Njáls, „Sérhæfð þróun hugbúnaðar fyrir fjarskipti radíóamatöra“ hófst kl 20:30 og fjallaði um hugbúnað sem Njáll hefur þróað fyrir Windows og þróar áfram. Hugsunin er að kerfið virki að nokkru leyti eins og hugbúnaðarkerfið GNU-Radio sem er SDR hugbúnaður en oftast notaður á Linux. Njáll hefur meiri hugmyndir og kynnti til sögunar kerfi sem hann skrifar í Jai forritunarmálinu og samanstendur af mörgum grunnkerfum hugbúnaðarviðtækja.

Njáll sýndi hvernig má hlekkja kerfin saman, þannig að móttekið merki flytjist frá einu kerfi til annars, allt frá hlustun frá hljóðkorti og til afmótunar. Mörg amatörtæki eru með innbyggðu hljóðkorti og þá má lesa gagnastraum þaðan; en svo eru önnur tæki með IQ útgang sem geta send allt að 1Gb straum til viðtakanda. Það gefur kost á að hlusta á afar vítt tíðnisvið. Allt þetta sýndi Njáll og meira til.  Erindið var allt hið fróðlegasta. Sjá má vinnu hans á slóðinni https://github.com/njallzzz/dsp_tools

Að erindi loknu sýndi Njáll ljósmyndir af Furuno gervihnattadiski sem Samherji gaf ÍRA í október s.l. Þessir diskar eru mótordrifnir og geta fylgt gervihnetti í veltingi.  Þessi diskur er fyrir K-bandið og vinnur á um 14GHz en hugmyndin er að fá diskinn og allan búnað til að vinna á 3 cm amatörbandinu sem er á 10GHz.

Á eftir voru kaffiveitingar og gott spjall.  Alls mættu 22 félagar og 1 gestur á þessa ágætu kvöldstund.

F.h. stjórnar,

Andrés Þórarinsson, TF1AM
varaformaður ÍRA

Njáll H. Hilmarsson TF3NH byrjaði stundvíslega kl. 20:30.
Mynd úr fundarsal.
Baldur Sigurðsson TF6-009, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Mathías Hagvaag TF3MH.
Kristján Benediktsson TF3KB og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Eiður Kristinn Magnússon TF1EM og Andrés Þórarinsson TF1AM.
Einar Kjartansson TF3EK og Greppur Torfason TF7ZF. Ljósmyndir: TF1AM og TF3GZ.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

five + twenty =