Mathías Hagvaag TF3MH QSL stjóri TF ÍRA QSL Bureau fór yfir og kynnti framlagt efni.

Mathías Hagvaag, TF3MH og Jónas Bjarnason, TF3JB mættu á „sófasunnudag“ í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 12. mars. Umræðuþema var: „Allt um QSL kort“ og var 15 bls. PowerPoint skjali dreift við upphaf fundar.

Farið var yfir framlagt efni sem skiptist í nokkra stutta kafla. M.a. sögulegan þátt þar sem kom fram að radíóamatörar hófu að senda QSL kort þegar árið 1916 og að QSL þjónusta hefur verið í boði á vegum ÍRA í 75 ár (frá 1948). Jafnframt var útskýrt hvernig QSL Bureau landsfélaga radíóamatöra um allan heim virka.

Mathías skýrði vel hvernig setja á upp QSL kort og hvaða lágmarksupplýsingar eru nauðsynlegar til að kort séu gild. Hann kom einnig inn á kortanotkunina, m.a. hvernig best er að svara og sækja staðfestingar. Einnig var farið yfir hvernig svara á kortum frá hlusturum. Ennfremur var töluvert rætt um hlutverk  „QSL Manager“ sem eru leyfishafar sem taka að sér að annast svör fyrir hönd annarra radíóamatöra á kortabeiðnum.

Mörg góð „komment“ og spurningar leiddu til skemmtilegra umræðna sem stóðu allt til kl. 13:15 þegar húsið var yfirgefið. Alls mættu 11 manns (7 félagar og 4 gestir) í Skeljanes þennan ágæta sunnudagsmorgun í 9°C frosti í sólríkri norðanátt í vesturbænum í Reykjavík. Þakkir til TF3SB fyrir ljósmyndir.

Frá vinstri: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Ægir Þór Ólafsson TF2CT, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Mathías Hagvaag TF3MH.
Forsíða PowerPoint skjals sem lagt var fram til grundvallar umræðna á fundinum.

Næsta tölublað CQ TF, 2. tölublað ársins 2023, kemur út 2. apríl n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Skilafrestur efnis er til 20. mars. Netfang: saemi@hi.is

Félagskveðjur og 73,

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA
ritstjóri CQ TF

Í samræmi við starfsáætlun stjórnar ÍRA og að höfðu samráði við Prófnefnd og Umsjónarmann námskeiða, hefur verið ákveðið að kanna áhuga á þátttöku í námskeiði til amatörprófs.

Fyrirhugað er að námskeiðið hefjist 27. mars n.k. og ljúki með prófi Fjarskiptastofu 27. maí. Kennt verður þrjá daga í viku í staðnámi og fjarnámi, kl. 18:30-21:30. Námskeiðið er öllum opið og eru ekki gerðar kröfur um sérstaka menntun eða undirbúning.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang hjá “ira hjá ira.is”. Ath. að skráningu fylgir engin skuldbinding – en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um fyrirhugaðan fjölda nemenda.

Fyrirspurnum má beina á sama tölvupóstfang.

Skráning er opin til 24. mars n.k. Félagið setur þann fyrirvara um námskeiðshald, að lágmarksþátttaka fáist.

Reykjavík 10. maí 2023,

Stjórn ÍRA.

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/12/Kynning-2022.pdf

Ný vetrardagskrá ÍRA heldur áfram.  

Næsti viðburður verður í boði 12. mars kl. 11:00; svokallaður „sófasunnudagur á messutíma“. Þeir Mathías Hagvaag, TF3MH og Jónas Bjarnason, TF3JB verða með umræðuþemað: „Allt um QSL kort“.

Húsið opnar kl. 10:30 en viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki um kl. 12 á hádegi.

Að venju verða vínarbrauð í boði með kaffinu frá Björnsbakaríi og rúnstykki með skinku og osti. En ekki verður einvörðungu lagað „Lavazza“ kaffi heldur verður einnig te í boði – en nýr hraðsuðuketill félagsins sem var „vígður“ á fimmtudagskvöld hefur hefur þegar öðlast vinsældir.

Sunnudagsopnanir (stundum nefndar „sófasunnudagar“) hafa verið skýrðar á þann veg að um sé að ræða fyrirkomulag menntandi umræðu á messutíma sem er hugsuð sem afslöppuð, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra leðursófasettinu og ræða amatör radíó og tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni leiðir umfjöllun og svarar spurningum.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Um er að ræða PowerPoint erindi og verða glærur til afhendingar útprentaðar.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri ÍRA QSL Bureau, tilkynnti á aðalfundi félagsins 19. febrúar s.l. um væntanlega hækkun á gjaldskrá stofunnar vegna hækkunar verðskrár Póstsins þann 1.1.2023.

Forsendur hafa nú verið skoðaðar og hefur QSL stjóri ákveðið að kostnaður fyrir hvert QSL kort hækki frá og með 1. apríl 2023 úr 12 krónum í 14 krónur.

Gjaldskrá QSL stofunnar hefur verið óbreytt frá 1. desember 2021.

Stjórn ÍRA.

Mathías Hagvaag QSL stjóri TF-ÍRA QSL Bureau í herbergi QSL stofunnar í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Öll viðtækin fjögur yfir netið voru inni þegar prófað var síðdegis þann 7. mars.

Bjargtangar: http://bjarg.utvarp.com/
Galtastaðir í Flóa: http://floi.utvarp.com/
Perlan í Öskjuhlíð: http://perlan.utvarp.com/#freq=24915000,mod=usb,secondary_mod=ft8,sql=-150
Raufarhöfn: http://raufarhofn.utvarp.com/

Stjórn ÍRA.

Hvíta örin bendir á loftnet viðtækisins Í Perlunni. Ljósmynd: TF3CZ.

YB DX RTTY Worldwide keppnin fer fram 11. mars; hefst kl. 00:00 á laugardag og lýkur kl. 23:59 sama dag. Hún fer fram á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum á RTTY. https://rtty.ybdxcontest.com/

SARL Field Day Worldwide keppninfer fram 11.-12 mars; hefst kl. 08:00 á laugardag og lýkur kl. 10:00 á sunnudag. Hún fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum á morsi, tali og á stafrænum mótunum. http://www.sarl.org.za/public/contests/contestrules.asp

SKCC Weekend Sprintathon Worldwide keppnin fer fram 11.-12. mars; hefst kl. 12:00 á laugardag og lýkur kl. 24:00 á sunnudag. Hún fer fram á 160, 80, 40, 20, 15, 10 og 6 metrum á morsi. http://www.skccgroup.com/operating_activities/weekend_sprintathon/

EA PSK63 Worldwide keppnin fer fram 11.-12. mars; hefst á laugardag kl. 12.00 og lýkur á sunnudag kl. 12:00. Hún fer fram á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum á PSK63. http://concursos.ure.es/en/eapsk63/bases/

South America 10 Meter Worldwide keppnin fer fram 11.-12. mars; hefst á laugardag kl. 12:00 og lýkur á sunnudag kl. 12:00. Hún fer fram á 10 metrum á morsi og tali. http://sa10m.com.ar/wp/rules/

AGCW QRP Worldwide keppnin fer fram 11. mars; hefst kl. 14:00 á laugardag og lýkur kl. 20:00 sama dag. Hún fer fram á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum á morsi. https://www.agcw.de/contest/qrp/

Stew Perry Topband Challenge Worldwide keppnin fer fram 11.-12. mars; hefst kl. 15:00 á laugardag og lýkur kl. 15.00 á sunnudag. Hún fer fram á 160 metrum á 160 metrum. http://www.kkn.net/stew/

TESLA Memorial HF Worldwide keppnin fer fram 11.-12. mars; hefst kl. 18:00 á laugardag og lýkur kl. 05:59 á sunnudag. Hún fer fram á 80 og 40 metrum á morsi. http://www.radiosport.yu1srs.org.rs/HFTeslaMemorial/index.php/rules

FIRAC HF Worldwide keppnin fer fram 12. mars; hefst kl. 07:00 á sunnudag og lýkur kl. 19:00 sama dag. Hún fer fram á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum á morsi. http://www.firac.de/FIRAC_HF_CONTEST_E.pdf

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 2. mars.

Umræður voru á báðum hæðum, menn hressir og TF3IRA var í loftinu á 40M CW og 20M SSB.

Mikið var rætt um loftnet og skilyrðin á böndunum. Rætt um DX-leiðangra, m.a. um 3B7M sem er QRV um þessar mundir frá Agalega og St. Brandon. En 3B7 er nr. 55 á lista ClubLog yfir eftirsóttustu DXCC einingarnar.

Alls mættu 27 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í mildu rigningarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS. Fjær: Mathías Hagvaag TF3MH, Jón Björnsson TF3PW, Andrés Þórarinsson TF1AM og Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.
Jón Björnsson TF3PW, Andrés Þórarinsson TF1AM og Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.
Sigurður Smári Hreinsson TF8SM og Jón E. Guðmundsson TF8KW.
Mathías Hagvaag TF3MH. Fjær: Björgvin Víglundsson TF3BOI.
Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Njáll H. Hilmarsson TF3NH og Jón Svavarsson TF3JON skoða 2 metra heimaloftnet (tvípól).
TF3JON og TF3NH mæla VHF tvípólinn með nýjum NanoVNA loftnetsgreini Njáls. Ljósmyndir: TF3JB.

Ný vetrardagskrá ÍRA fyrir tímabilið mars-maí 2023 er tilbúin.

Dagskráin hefst á myndakvöldi í Skeljanesi, fimmtudaginn 9. mars og lýkur með erindi fimmtudaginn 25. maí n.k.

Alls verða 20 viðburðir í boði í flutningi 16 félagsmanna. Um er að ræða 8 erindi, 5 laugardagsopnanir, sunnudagsopnun, 3 námskeið og myndakvöld, auk þess sem páskaleikarnir koma inn (7.-9. apríl) og flóamarkaður að vori (7. maí).

Þakkir til allra sem koma að verkefninu.

Stjórn ÍRA.

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/03/VETRARDAGSKRA-IRA-2023.pdf

Ný stjórn félagsins, sem kjörin var á aðalfundi ÍRA 2023, kom saman á 1. fundi 2. mars og skipti  með sér verkum. Skipan embætta starfsárið 2023/24 er eftirfarandi:

Jónas Bjarnason TF3JB, formaður.
Andrés Þórarinsson, TF1AM varaformaður.
Georg Kulp, TF3GZ ritari.
Jón Björnsson TF3PW, gjaldkeri.
Njáll H. Hilmarsson, TF3NH meðstjórnandi.
Sæmundur Þorsteinsson TF3UA, varamaður.
Heimir Konráðsson TF1EIN, varamaður.

Stjórn ÍRA.

.

Frá fyrsta fundi nýrrar stjórnar ÍRA starfsárið 2023/24 þann 2. mars 2023. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA varastjórn, Njáll H. Hilmarsson TF3NH meðstjórnandi, Heimir Konráðsson TF1EIN varastjórn, Andrés Þórarinsson TF1AM varaformaður, Jónas Bjarnason TF3JB formaður, Jón Björnsson TF3PW gjaldkeri, Georg Kulp TF3GZ ritari og Guðmundur Sigurðsson TF3GS fráfarandi ritari. Ljósmynd: TF3JON.

SSB hluti ARRL International DX keppninnar 2023 verður haldinn 4.-5. mars n.k. Keppnin stendur í tvo sólarhringa; hefst á miðnætti á laugardag og lýkur á sunnudagskvöld kl. 23:59.

Markmiðið er að hafa eins mörg QSO og mögulegt er við aðrar stöðvar radíóamatöra í Bandaríkjunum og Kanada.

Hvert ríki í Bandaríkjunum og hvert fylki í Kanada telja. Öll ríki í Bandaríkjunum gilda þannig sem margfaldarar (nema KH6 og KL7) en “District of Columbia, DC” kemur inn sem margfaldari í keppninni.

Í Kanada gilda fylkin: NB (VE1, 9); NS (VE1); QC (VE2); ON (VE3); MB (VE4); SK (VE5); AB (VE6); BC (VE7); NWT (VE8); NF (VO1); LB (VO2); NU (VYØ); YT (VY1); og PEI (VY2).

Frestur til að skila inn keppnisdagbókum er 7 sólarhringar eftir að keppni lýkur.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Vefslóð fyrir upplýsingar um keppnina og keppnisreglur: http://www.arrl.org/arrl-dx

.

Myndin er af nýju Elecraft K4D 100W “All Mode” stöðinni sem vinnur á 160-6 metrum.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 2. mars frá kl. 20 til 22 fyrir félagsmenn og gesti.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin.

Nýjustu tímaritin liggja frammi. Kaffiveitingar.

Nokkuð hefur bæst við af radíódóti.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Sigmundur Karlsson TF3VE hressir í Skeljanesi í nóvember 2022.