Hluti nemenda sem sat próf til amatörleyfis í félagsaðstöðunni við Skeljanes í maí 2011.


Alls skráðu sig 15 manns í fyrirhugað próf til amatörleyfis án undangengins námskeiðs, sem auglýst var á heimasíðu Í.R.A. nýlega. Stjórn félagsins hefur nú borist jákvæð umsögn prófnefndar félagsins hvað varðar prófhald laugardaginn 28. apríl. Prófað verður bæði á íslensku og ensku. Í.R.A. hefur, í framhaldi, farið þess formlega á leit við Póst- og fjarskiptastofnun að prófið verði haldið þann dag.

Félagið býður hér með upp á sérstakt kynningarkvöld föstudaginn 30. mars kl. 20:30 í félagsaðstöðu Í.R.A. Sagt verður frá fyrirkomulagi prófs og hvert námsefnið er. Fjölrituð eintök verða á boðstólum. Nýirpróftakar eru sérstaklega hvattir til að koma. Fyrirspurnum má beina á ira hjá ira.is

Félagsheimili ÍRA

TF3JA, Jón Þóroddur Jónsson

N1ZRN, Joseph

TF2SUT, Samúel Þór

 

 

 

 

 

 

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í félagsaðstöðunni við Skeljanes fimmtudaginn 29. mars kl. 20:30.

Erindið verður þrískipt og í flutningi þeirra Jóns Þórodds Jónssonar, TF3JA; Joseph Timothy Foley, N1ZRN/TF og Samúels Þórs Guðjónssonar, TF2SUT. (Joseph mun flytja sinn hluta á ensku).

1. Þróun APRS ferilvöktunar á Íslandi og framtíðauppbygging gagnvart notum í neyðarfjarskiptum
2. “APRS tracker and telemetry” (Ferilvöktun og hæfni til fjarmælinga)
3. APRS og árangursrík not þess við sendingar frá TF3CCP úr loftbelg HR nýlega


Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar eru í boði félagsins.

Vinna við aprílhefti CQ TF hefst eftir helgina, en á sunnudag, 25. marz, er frestur til að skila efni í blaðið eða hafa samband við ritstjóra um efni sem kann að vera á leiðinni.

Allt efni um amatör radíó er vel þegið, s.s. frásagnir, greinar, myndir eða einfaldlega ábendingar um efni sem væri áhugavert.

73 – Kiddi, TF3KX – ritstjóri CQ TF
Netfang: cqtf@ira.is GSM 825-8130

CQ World-Wide WPX keppnin á SSB fer fram helgina 24.-25. mars næstkomandi.Keppnin hefst kl. 00:00 á laugardag og lýkur á sunnudagskvöld kl. 23.59. Keppt er á öllum böndum, þ.e. 1.8 til 28 MHz. Í einmenningskeppninni (e. single operator) eru alls 7 keppnisriðlar í boði.

Markmið keppninnar er að hafa sambönd við kallmerki með eins mörg mismunandi forskeyti og frekast er unnt (TF1, TF2 o.s.frv.). Í WPX keppnunum er gerður greinarmunur á stigagjöf eftir böndum, þ.e. QSO á milli meginlanda (e. continents) á 28, 21 og 14 MHz gefa 3 stig og QSO á 7, 3.5 og 1.8 MHz gefa 6 stig.

Þótt um sé að ræða tveggja sólarhringa keppni er vakin athygli á að keppendur í einmenningsflokkum þurfa að taka sér 12 klst. hvíld að lágmarki (sjá nánar í reglum). Í þessari keppni er notað raðnúmer sambanda á eftir kóða fyrir læsileika og styrk, t.d. 59-001. Þegar náð er 1000 samböndum er haldið áfram, þ.e. 1001 o.s.frv. (en ekki byrjað á ný á 001).

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW

Heimasíða keppninnar, vefslóð: http://www.cqwpx.com/

Reglur keppninnar, vefslóð: http://www.cqwpx.com/rules_2012.pdf

Stöðvar sem kynnt hafa um þátttöku, vefslóð: http://www.ng3k.com/misc/wpxs2012.html

Í tengslum við 8. EVE Online Fanfest hátíð tölvuleikjaframleiðandans CCP sem haldin verður í Reykjavík dagana 22.-24. mars n.k. ætla nokkrir nemendur í Háskólanum í Reykjavík að senda upp „geimskip” hangandi neðan í loftbelg. Eitthvað skemmtilegt verður í loftbelgnum en það sem snýr að radíóamatörum er að þeir hafa áhuga á að nota APRS til að ferilvakta flugið.

Ein tilraunauppsending fór nýlega fram og var “SPOT” notað til að ferilvakta belginn. Í það skiptið fór belgurinn í boga yfir Ísland og endaði í hafinu miðja vegu milli Færeyja og Íslands. Það sem kom á óvart var að SPOT sendi engar upplýsingar á miðkafla leiðarinnar, engin skýring hefur enn fengist á því en einhverjum datt í hug að hugsanlega væri ferilvöktunin ekki höfð virk í SPOT-
kerfinu eftir vissa hæð og ofar, af öryggisástæðum.

Meginverkefni okkar radíóamatöra er í raun að tryggja að núverandi APRS kerfi verði virkt og fram kom hugmynd um að nýta loftnetið sem ætlað fyrir samskipti við gervihnetti í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi fyrir APRS á meðan á fluginu stendur. Undirritaður gerir ráð fyrir að sjá um að tengja TF3RPG við loftnetið og áætlar að tengja lágsuðsmagnara við stöðina til að auka næmni hennar. Væntanlega verða fleiri úr APRS hópnum í Skeljanesi þegar flugið fer fram og verður opið fyrir alla félagsmenn að koma og fylgjast með. TF3ARI er með áætlanir á prjónunum um að keyra austur fyrir fjall og vera með stafapétur/I-gátt í bíl og auka þannig enn frekar möguleika þess að ferilvöktunin takist vel.

Loftbelgurinn fer mjög hratt upp og nær líkast til um 30-35 km hæð og þess vegna verulegar líkur á að bæði TF3RPG og TF8TTY nái sendingum hans megnið af flugtímanum.

HR hópurinn ætlar ekki að láta loftbelginn fljúga mjög lengi kannski í um það bil tvo tíma og þá eru líkur á að hann fari um 300 km frá upphafsstað, í hvaða átt er kannski ekki alveg vitað núna en líkur á að hann fari svipaða leið og í fyrsta tilraunafluginu.

Verkefnið er spennandi og upplagt tækifæri fyrir sem flesta sem áhuga hafa á APRS að fylgjast með og jafnvel setja upp eigin búnað, stafpétra eða I-gáttir, til dæmis væri virkilega áhugavert að sjá hvort Akureyri gæti náð einhverjum hluta leiðarinnar.

(Samantekt: Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA).

Næsti viðburður á yfirstandandi vetrardagskrá félagsins er sýning DVD-heimildarmyndar frá DX-leiðangrinum T32C til Austur-Kiribati í Kyrrahafi fimmtudaginn 22. mars kl. 20:30.

Leiðangurinn var QRV dagana 27. september til 24. október s.l. og náðust alls 213.169 QSO sem er mesti fjöldi sambanda sem náðst hefur í einum leiðangri hingað til. Guðmundur Sveinsson, TF3SG, er sýningarstjóri kvöldsins og mun hann kynna myndina sem er í boði Brynjólfs Jónssonar, TF5B, sem gaf félaginu mynddiskinn og eru honum færðar bestu þakkir.

Sýningin hefst stundvíslega kl. 20:30 í Skeljanesi. Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

Frá erindi Vilhjálms Þórs Kjartanssonar TF3DX. Með honum á myndinni er Höskuldur Elíasson TF3RF.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, flutti erindið Hvernig reiknar IARU forritið sviðsstyrk og öryggismörk amatörsendinga? þann 15. mars í félagsaðstöðunni við Skeljanes.

Erindið var mjög áhugavert, vel flutt og veitti framúrskarandi góða innsýn í umfjöllunarefnið út frá fræðilegum forsendum og beitingu í reynd. Um 30 félagsmenn og gestir sóttu erindið og stóðu umræður fram undir kl. 23.

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

Frá vinstri: Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Höskuldur Elíasson TF3RF, Benedikt Guðnason TF3TNT, Bjarni Sverrisson TF3GB og Gísli G. Ófeigsson TF3G.

ICNIPRcalc forrit IARU Svæðis 1 nefnist ICNIRPcalc V1.01. Auðvelt er að setja ýmsar breytur inn í forritið, m.a. tíðni, tegund loftnets, mismunandi afl og láta forritið reikna örugga fjarlægð frá loftneti í sendingu. Forritið veitir leyfishöfum dýrmæta vísbendingu hvað varðar útgeislunarhættu.

ICNIRPcalc V1.01 má sækja á eftirfarandi vefslóð: http://www.iaru-r1.org/index.php?option=com_content&view=article&id=860:new-version-of-icnirpcalc-now-for-download-&catid=43:emc&Itemid=95

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX.

Næsta fimmtudagserindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í Skeljanesi fimmtudaginn 15. mars kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX og nefnist erindið: Hvernig reiknar IARU forritið sviðsstyrk og öryggismörk amatörsendinga?

Vilhjálmur mun kynna uppfærða útgáfu ICNIPRcalc forrits IARU Svæðis 1 sem nefnist ICNIRPcalc V1.01 sem nú er boðið á ensku, frönsku og þýsku. Auðvelt er að setja ýmsar breytur inn í forritið, m.a. tíðni, tegund loftnets, mismunandi afl og láta forritið reikna örugga fjarlægð frá loftneti í sendingu og mun Vilhjálmur taka fyrir dæmi og skýra raunverulegar aðstæður.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar eru í boði félagsins.

Sækja má nýju V1.01 útgáfuna á eftirfarandi vefslóð:

http://www.iaru-r1.org/index.php?option=com_content&view=article&id=860:new-version-of-icnirpcalc-now-for-download-&catid=43:emc&Itemid=95

Myndin sýnir hluta nemenda er sátu próf til amatörleyfis fyrir tveimur árum í Fjölbrautaskólanum í Hafnarfirði.

Skráningu í próf til amatörleyfis lýkur föstudaginn 16. mars næstkomandi. Áhugasamir geta skráð nafn sitt á “ira hjá ira.is”. Fyrirspurnum má jafnframt beina á sama töluvpóstfang. Hugmyndin er, að bjóða upp á próf í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi laugardaginn 28. apríl n.k. án undanfarandi námskeiðs, að því tilskyldu að næg þátttaka fáist.

Fáist næg þátttaka, mun félagið bjóða upp á sérstakt kynningarkvöld námsefnis. Komi fram áhugi á þeim fundi, kemur til greina að boðið verði upp á dæmatíma og yfirferð eldri prófa, nemendum til undirbúnings.

Áformað er að bjóða upp á næsta reglulegt námskeið til amatörprófs á hausti komanda og er miðað við að kennsla hefjist í þriðju viku septembermánaðar.


A.m.k. í einu tilviki, virðist sem staðfestingarpóstur um skráningu hafi ekki borist frá félaginu. Félagið mun því senda út í dag, sunnudaginn 11. mars, tölvupóst til allra sem þegar eru skráðir. Hafi menn ekki fengið slíkan tölvupóst kl. 18:00 í dag, eru þeir vinsamlegast beðnir að senda nýja skráningu á ira hjá ira.is

Undirbúningur fyrir þátttöku TF3W í RDXC keppninni 2011 í félagsaðstöðu Í.R.A. Frá vinstri: Óskar Sverrisson TF3DC, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Benedikt Sveinsson TF3CY, Stefán Arndal TF3SA og Sigurður R. Jakobsson TF3CW. Ljósm.: Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA.

19. alþjóðlega RDXC keppnin verður haldin á vegum SSR helgina 17.-18. mars n.k. Í boði eru 10 keppnisriðlar á öllum böndum, 160m-10m. Keppnin er „sólarhringskeppni” sem hefst á hádegi laugardaginn 17. mars. Heimilt er að keppa á morsi, tali eða báðum tegundum útgeislunar (e. mixed). Skipst er á RS(T) og raðnúmeri sem hefst á 001, en rússneskar stöðvar gefa upp RS(T) og tveggja bókstafa „oblast” kóða. Frestur til að skila inn keppnisdagbókum er til 1. apríl n.k. Nánari upplýsingar um keppnina má sjá á vefslóðinni: http://www.rdxc.org/asp/pages/rulesg.asp

TF3W var QRV í keppninni 2011 frá félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Þátttaka var bæði á morsi og tali. Heildarárangur var tæpar 2,3 milljónir stiga eða 1783 QSO sem tryggði 35. sæti yfir heiminn í „MOST” flokki stöðva utan Rússlands. Þátttakendur voru: Benedikt Sveinsson, TF3CY; Guðmundur Sveinsson, TF3SG; Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA; Óskar Sverrisson, TF3DC; Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN; Stefán Arndal, TF3SA; Sveinn Guðmundsson, TF3T; og Yngvi Harðarson, TF3Y.

Ólafur Björn Ólafsson, TF3ML

Ólafur B. Ólafsson, TF3ML og Kari Hämynen, OH7HXH, settu nýtt fjarlægðarmet innan IARU Svæðis 1 þann 4. mars 2012 þegar þeir höfðu samband á SSB yfir norðurljósabeltið (e. aurora) á 50 MHz. Fjarlægðin er alls 2.522 km.

Ólafur átti reyndar fyrra metið í þessum flokki, sem hefur staðið óbreytt frá árinu 2000, þegar hann hafði samband við ES2QM. Fjarlægðin þá var alls 2.335 km.

Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu IARU Svæðis 1, IARU Region 1 VHF/UHF/SHF/EHF DX records. Vefslóð: http://www.ham.se/vhf/dxrecord/dxrec.htm

Stjórn Í.R.A. óskar Ólafi B. Ólafssyni, TF3ML, til hamingju með þennan glæsilega árangur.

Kristinn Andersen TF3KX flutti erindi um QRP í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 8. mars 2012.

Kristinn Andersen, TF3KX, flutti fimmtudagserindið þann 8. mars og nefndist það QRP kvöld; heimasmíði og notkun QRP senda. Erindið var bæði áhugavert og bráðskemmtilegt og þurftu félagsmenn margs að spyrja. Um 30 félagsmenn og gestir mættu í félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

Kristinn fjallaði m.a. um alþjóðlegar skilgreiningar á QRP afli og QRPp afli sem er mest 5W annars vegar, og 1w hins vegar. Til fróðleiks lék hann upptöku af sendingu á morsi frá 4U1UN í New York í Bandaríkjunum, þar sem fyrst var sent stutt merki á 100W, síðan á 10W, þá á 1W og loks á 0,1W. Sérlega áhugavert var að heyra hversu læsilegt merkið var í öllum dæmunum, meira að segja á 0,1W í restina.

Kristinn fjallaði einnig um samspil QRP sendiafls og tíðna, þ.e. hve hærri amatörböndin í stuttbylgjusviðinu geta gefið góða raun og tiltölulega auðveld fjarskipti um þúsundir kílómetra. Hann fjallaði einnig um mikilvægi góðra loftneta þar sem þeim verður komið við, en bent jafnframt á eigin reynslu í notkun færanlegra stöðva innanlands (og erlendis) og notkun QRP afls með tiltölulega einföldum loftnetsbúnaði, ca. 10 metra löngum vír.

Stjórn Í.R.A. þakkar Kristni Andersen, TF3KX, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi og Jóni Svavarsyni, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

Kristinn heldur á vinsælum QRP tækjum sem keypt eru ósamsett frá Elecraft; gerðum K1 og K2.

QRP tæki og búnaður sem félagsmenn komu með og var til sýningar í fundarhléi.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS sýndi m.a. nýja Juma TRX2 sendi-/viðtækið sem hann hefur nýlokið smíði á og er 10W á morsi og tali á 160-10m. Haraldur Þórðarson TF3HP sýndi m.a. heimasmíðaðan sendi á PSK 31. Erling Guðnason TF3EE sýndi m.a. Yaesu FT-817 5W sendi-/viðtæki sem vinnur á morsi og tali á 160-10m, auk 6m, 2m og 70cm. Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX sýndi m.a. hinn fræga “Eldspýtnastokk” sem er 100mW morssendir, heimasmíðaðan “spýtumorslykil” og Elecraft K1 5W sendi-/viðtæki sem vinnur á morsi og tali á 4 böndum. Halldór Christensen TF3GC sýndi m.a. senda frá nýliðatímabili sínu á 80 og 15 metrum. Loks sýndi Kristinn Andersen TF3KX Elecraft K2 10W sendi-/móttökustöðina sem vinnur á morsi og tali á 160-10m.

Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX kom með “eldspýtustokkinn” fræga sem inniheldur morssendi.