Á myndinni má sjá hluta nemenda sem mættu til prófs til amatörleyfis laugardaginn 28. maí 2011.

Líkt og verið hefur til kynningar hér á heimasíðunni s.l. tvær vikur, er hugmyndin að bjóða upp á að haldið verði próf til amatörleyfis þann 28. apríl n.k. án undanfarandi námskeiðs, að því tilskyldu að næg þátttaka fáist. Vakin er athygli á, að skráning er opin til og með 16. mars n.k. Áhugasamir geta skráð nafn sitt á “ira hjá ira.is”. Fyrirspurnum má jafnframt beina á sama töluvpóstfang.

Forsaga málsins er, að stjórn Í.R.A. samþykkti á fundi sínum þann 17. febrúar s.l., að fenginni jákvæðri umsögn prófnefndar félagsins, að kanna með áhuga á þátttöku í prófi til amatörleyfis án undanfarandi námskeiðs. Til viðmiðunar sem prófdagur, er áðurnefndur 28. apríl n.k.

Tilskilið er að næg þátttaka fáist. Verði svo, mun félagið bjóða upp á sérstakt kynningarkvöld námsefnis. Komi fram áhugi á þeim fundi, kemur til greina að boðið verði upp á dæmatíma og yfirferð eldri prófa, nemendum til undirbúnings.

Næsta reglulegt námskeið til amatörprófs verður haldið á hausti komanda og er miðað við að kennsla hefjist í þriðju viku september.

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar H.Í. í Leirvogi. Mælingar hafa verið gerðar frá 1957.

Töluverðar truflanir hafa verið í segulsviðinu s.l. sólarhring (6.-7. mars) sbr. meðfylgjandi línurit.
Á línuritunum má sjá stöðuna frá hádegi 6. mars til hádegis 7. mas. Skilyrðaspár benda til að truflanir geti haldið eitthvað áfram.

Efsta línuritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttan styrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna. Z og H eru sýnd í einingunum nanotesla (nT), en D er sýnt í gráðum sem reiknast sólarsinnis frá norðri um austur upp í 360°. Ef D er t.d. 346° merkir það að misvísun áttavitans í Leirvogi er 346° til austurs eða 14° til vesturs (360-346 = 14). Meðalmisvísun á Reykjavíkursvæðinu er um 2° meiri til vesturs og væri þá um 16° V í þessu dæmi.

Gögn eru endurnýjuð á tíu mínútna fresti. Sjá nánar vefslóð: http://www.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html

Til fróðleiks er birt mynd hér fyrir neðan af vefsíðunni: http://www.solen.info/solar/
Á myndinni má sjá áhugaverð línurit fyrir þróunina tímabilið frá 12. nóvember 2011 til 7. mars 2012. Áhugavert er að sjá fjölda sólbletta fara vel upp á ný (í tæpl. 110), auk þess sem “flúxinn” er einnig að ná vel upp (í tæplega 140).

Hustler G6-144B loftnetið sem tengt er við TF1RPB.

Í undirbúningi er, strax og veður gefst, að setja upp á ný endurvarpsstöð félagsins í Bláfjöllum. TF1RPB („Páll”) hefur nú verið úti í rúmlega 4 mánuði eftir að stagfesta á háum tréstaur sem hélt uppi loftneti fyrir stöðina slitnaði í ofviðri seint í október s.l. Það olli því að staurinn féll til jarðar og brotnaði. Í framhaldi var hann fjarlægður af umsjónaraðila á staðnum.

Félagið hefur í millitíðinni fengið inni fyrir endurvarpann á öðrum stað og fyrir loftnetið á öðrum staur (ekki langt frá þeim fyrri). Erfitt veðurfar undanfarið hefur seinkað verkefninu.

Stöðin hafði verið QRV frá 17. ágúst 2010, þegar nýtt loftnet frá New-Tronics, af gerðinni Hustler G6-144-B, var sett upp. Við sama tækifæri var endurvarpinn sjálfur endurnýjaður og sett upp stöð af Zodiac RT-400 gerð, ásamt nýjum “cavity” síum.

Kristinn Andersen, TF3KX.

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 8. mars n.k. Þá kemur Kristinn Andersen, TF3KX í Skeljanesið og nefnist erindi hans: QRP kvöld; heimasmíði og notkun QRP senda.

Kristinn mun bæði hafa til sýnis heimasmíðaða QRP senda og keypta, m.a. frá Elecraft. Hann bendir á að það gæti verið skemmtilegt að félagsmenn sem eiga QRP tæki (heimasmíðuð og önnur) taki þau með sér á fimmtudagskvöld.

Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30 og hvetur stjórn Í.R.A. félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagssjóðs.

ARRL International DX keppnin 2012 á SSB verður haldin um komandi helgi, dagana 3.-4. mars. Keppnin er tveggja sólarhringa keppni og hefst á miðnætti á laugardeginum (kl. 00:00) og lýkur á sunnudagskvöld kl. 23:59. Keppnin fer fram á öllum böndum, þ.e. frá 160-10 metra.

Markmið keppninnar er að hafa eins mörg QSO og mögulegt er á þessum tveimur sólarhringum við aðrar amatörstöðvar í Bandaríkjunum og Kanada. Mest er hægt að hafa 63 margfaldara á einu bandi.

Hvert ríki í Bandaríkjunum og hvert fylki í Kanada telja. Öll ríki í Bandaríkjunum gilda þannig sem margfaldarar nema KH6 og KL7 en “District of Columbia, DC” kemur inn sem margfaldari í keppninni.

Í Kanada gilda fylkin: NB (VE1, 9); NS (VE1); QC (VE2); ON (VE3); MB (VE4); SK (VE5); AB (VE6); BC (VE7); NWT (VE8); NF (VO1); LB (VO2); NU (VYØ); YT (VY1); og PEI (VY2). Frestur til að skila inn keppnisdagbókum er til 3. apríl n.k.

Vefslóð fyrir keppnisreglur: http://www.arrl.org/files/file/Contest%20Rules%20PDFs/2012/2012-ARRLDX-Rules-V4.pdf

Frumvarp nr. 1.23 um nýtt amatörband í tíðnisviðinu 472-479 kHz hlaut jákvæða umfjöllun á WRC 2012 ráðstefnunni í Genf í gær, þann 13. febrúar. Frumvarpið verður því með í heildarpakkanum sem lagður verður fyrir til endanlegrar samþykktar á föstudag, sem er síðasti dagur ráðstefnunnar.

Ef allt gengur eftir, mun hið nýja band verða heimilað á víkjandi grundvelli. Hámarksútgangsafl miðast við 1W (EIRP) en leyfishafar í löndum, þar sem landfræðileg lega er umfram 800 km frá tilgreindum þjóðlöndum, munu geta sótt um heimild fyrir allt að 5W (EIRP)

Alþjóðleg radíófjarskiptaráðstefna ITU, WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) hófst í Genf þann 23. janúar og lýkur n.k. föstudag, 17. febrúar. Sérfræðingar Póst- og fjarskiptastofnunar sækja ráðstefnuna fyrir hönd Íslands.

Upplýsingar um ráðstefnuna má sjá á eftirfarandi vefslóð: http://www.itu.int/ITU-R/index.asp?category=conferences&rlink=wrc-12%3C=en

Kristján Benediktssonm TF3KB

Fimmtudagserindið þann 23. febrúar var í höndum Kristjáns Benediktssonar, TF3KB og nefndist það Ráðstefnan í IARU Svæði 1 árið 2011; helstu niðurstöður. Á þriðja tug félagsmanna mættu í félagsaðstöðuna í Skeljanesi.

Í umfjöllun sinni, lýsti Kristján uppbyggingu aðþjóðastarfs radíóamatöra. Hann fór vel yfir feril og þróun umræðunnar innan hreyfingarinnar og tók dæmi um faglega og færsæla lausn mála þann tíma sem hann hefur annast embætti tengiliðar Í.R.A. í alþjóðastarfinu, auk þess að fjalla sérstaklega um niðurstöður ráðstefnu IARU Svæðis 1 sem haldin var í Suður-Afríku í ágústmánuði s.l.

Kristján fjallaði að lokum um helstu niðurstöður alþjóðlegrar radíófjarskiptaráðstefnu I.T.U., WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) sem varða radíóamatöra og lauk þann 17. febrúar s.l. í Genf. Þar ber hæst, nýtt amatörband á heimsvísu í tíðnisviðinu 472-479 kHz.

Stjórn Í.R.A. þakkar Kristjáni Benediktssyni, TF3KB, fyrir vel heppnað og áhugavert erindi.

Fram kom m.a. hjá Kristjáni, að þegar er hafinn undirbúningur að frumvarpi um nýtt
amatörband á 5 MHz, sem gæti verið tekið til umfjöllunar á WRC-2015 eða 2018.

Frá prófdegi 23. janúar 2010.

Nokkrir einstaklingar hafa sett sig í samband við félagið að undanförnu og skýrt frá áhuga sínum þess efnis, að fá tækifæri til að sitja próf til amatörleyfis án undangengis námskeiðs. Stjórn Í.R.A. samþykkti á fundi sínum s.l. föstudag (að fenginni jákvæðri umsögn prófnefndar félagsins) að kanna þennan áhuga frekar. Til viðmiðunar sem prófdagur, er laugardagurinn 28. apríl n.k. Tilskilið er að næg þátttaka fáist.

Áhugasamir eru beðnir um að skrá nafn sitt og tölvupóstfang á “ira hjá ira.is”. Fyrirspurnum má jafnframt beina á sama töluvpóstfang.

Skráning verður opin til og með 16. mars n.k. Fáist næg þátttaka, mun félagið bjóða upp á sérstakt kynningarkvöld námsefnis. Komi fram áhugi á þeim fundi, kemur til greina að boðið verði upp á dæmatíma og yfirferð eldri prófa, nemendum til undirbúnings.

Fyrirhugað er að boðið verði upp á næsta reglulegt námskeið til amatörprófs á hausti komanda og er miðað við að það hefjist í þriðju viku septembermánaðar.

Vakin er athygli félagsmanna á tveimur skjölum með Power Point glærum sem nýlega hafa verið sett inn á heimasíðu félagsins. Þetta eru annars vegar, glærur frá fimmtudagserindi Bjarna Sigurðssonar, sérfræðings hjá Póst- og fjarskiptastofnun, “Geislunarhætta í tíðnisviðum radíóamatöra” sem flutt var þann 8. desember s.l. og hins vegar, glærur frá sunnudagserindi Ársæls Óskarssonar, TF3AO, “Að byrja RTTY keppnisferilinn” sem flutt var þann 19. nóvember s.l.

Vefslóð: http://www.ira.is/itarefni/

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, virkjaði félagsstöðina TF3W í ARRL International DX keppninni á morsi, sem haldin var 18.-19. febrúar. Sigurður keppti í einmenningsflokki á öllum böndum, fullu afli. Niðurstaða: 2.675 QSO og 243 margfaldarar eða nær 2 milljónir heildarstiga. Þessi niðurstaða er ótrúlega góð þegar tekið er tillit til bilana í búnaði og truflana í segulsviðinu á sunnudeginum.

Band (metrar)

QSO (fjöldi)

Margfaldarar (fjöldi)

160

2

2

80

58

28

40

358

49

20

828

58

15

1134

59

10

294

47

(Alls 2.674 QSO og 1.949.346 heildarstig).


Miklar truflanir í segulsviðinu á sunnudag lokuðu nánast á fjarskipti á öllum böndum (K-gildi 9). Af þeirri ástæðu var QSO hlutfall á milli daga 80% á laugardeginum og 20% á sunnudeginum, þrátt fyrir 35 klst. viðveru í keppninni. (Til skýringar: K-gildi 5 og yfir flokkast sem segulstormur).

Í annan stað reyndist Harris 110 RF magnari félagsins bilaður. Bilunin hafði þau áhrif, að minnka þurfti afl stöðvarinnar í 30-50W á 40, 80 og 160 metrum. Á 10, 15 og 20 metrum reynist unnt að keyra hann í nokkurn tíma á 700W en síðan datt hann út ca. á 5 mín. fresti niður í u.þ.b. 60W (í miðri sendingu).

Stjórn Í.R.A. þakkar Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW, fyrir virkjun félagsstöðvarinnar svo og öðrum félagsmönnum er lögðu hönd á plóg undanfarnar tvær vikur við að gera TF3W QRV á öllum böndum, frá 10-160m.

Kristján Benediktsson, TF3KB

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í félagsaðstöðunni við Skeljanes fimmtudaginn 23. febrúar n.k. Þá kemur Kristján Benediktsson, TF3KB, og nefnist erindi hans: Ráðstefnan í IARU Svæði 1 árið 2011; helstu niðurstöður.

Kristján hefur jafnframt orðið góðfúslega við ósk félagsins um að fjalla stuttlega um helstu niðurstöður alþjóðlegu radíófjarskiptaráðstefnu ITU, WRC-12 (World Radiocommunication Conference 2012) sem varða radíóamatöra og lauk s.l. föstudag, 17. febrúar í Genf.

Erindið hefst stundvíslega kl. 20:30 og hvetur stjórn Í.R.A. félagsmenn til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar verða í boði félagssjóðs.

Benedikt Sveinsson TF3CY og Sigurður R. Jakobsson TF3CW

ARRL International DX morskeppnin stendur yfir helgina 18.-19. febrúar. Sigurður R. Jakobsson, TF3CW starfrækir félagsstöðina TF3W í keppninni í einmenningsflokki á öllum böndum, fullu afli. Undirbúningur
fyrir keppnina hefur staðið yfir undanfarnar tvær vikur og voru m.a. sett upp sérstök loftnet fyrir 80 metrana og 160 metrana vegna keppninnar.

80 metra loftnetið er 21 metra hátt færanlegt stangarloftnet og 160 metra loftnetið er 18 metra hátt færanlegt stangarloftnet, búið topphatti. Guðmundur Sveinsson, TF3SG, lánaði 80 metra loftnetið, en Sigurður lánaði Spiderbeam stöngina. Sjá myndir af loftnetunum neðar á síðunni.

New-Tronics Hustler 5-BTV loftnet félagsins er notað á 40 metrum í keppninni og SteppIR 3E 3 staka Yagi loftnet félagsins er notað á 20, 15 og 10 metrum. Keppnin er 48 klst. keppni og lýkur henni á sunnudagskvöld kl. 23:59.

Færanlegt stangarloftnet TF3SG fyrir 80 metrana er á bílastæðinu við Skeljanes.

Stangarloftnetið með topphattinum fyri 160 metrana er staðsett á bárujárnsveggnum í Skeljanesi.