Á næsta fimmtudag 26. nóvember, mun Kristján Benediktsson, TF3KB halda erindi í félagsheimili Í.R.A. og gera grein fyrir skipulagi alþjóðasamtaka amatöra IARU, hinna ýmsu svæðissamtaka eins og IARU svæði 1 og norrænu samtökunum NRAU, og aðild Í.R.A. að þessu starfi.  Gert er ráð fyrir að erindi Kristjáns hefjist upp úr kl. 20.15.  Það er margt spennandi að gerast í samtökum amatöra erlendis.  Kristján er manna fróðastur og getur miðlað af áratuga reynslu sinni af samskiptum sínum við félaga erlendis.

73

Guðmundur, TF3SG

TF3DX náði Japan á 160 m úr bíl á CW

Góðir félagar!

Veit einhver til þess að haft hafi verið 160 m QSO við Japan héðan úr bíl, eða annað álíka langt?

Undanfarið hef ég loks verið að klára breytingu á bílloftnetinu mínu og smíða til þess gerðan tjúner. Ekki síst til að geta hlustað úr bílnum á 160 m á stöðum þar sem suðið er minna en víðast í Reykjavík og heima hjá mér. Ekki seinna vænna að ná í skottið á þessu einstaka sólblettalágmarki, sem kannski kemur aðeins einu sinni á virkri æfi amatörs.

Ég keyrði út að Gróttu í kvöld til að prófa, og kallaði CQ DX á 1823 kHz CW. Eftir nokkur skipti svaraði JA7FUJ með vel læsilegt merki, ég gaf honum 569 og fékk 559 til baka. Ég sagði honum að ég væri með 100 W og “whip ant”, sem hann kvittaði fyrir.

Á eftir kallaði UA9FGR í Asiatic Russia, annan DX utan Evrópu hafði ég ekki.

Eftir þetta hlustaði ég eftir Japönum sem Evrópa var að hafa samband við, til að fá hugmynd um skilyrðin. Þau voru ekki sérlega góð, aðeins 2 voru með svo góð merki að ég las þá auðveldlega. Aðrir voru misilla læsilegir og marga heyrði ég bara alls ekki þó þeir fengju gott RST í Evrópu. Þegar TF4M kom á bandið kl. 21:30 tók hann 4 QSO, að ég held, við Japan. Ég heyrði engan þeirra. Þó suðið væri nógu daufara þarna úti á nesi en inni í bænum til að gera gæfumuninn fyrir notagildi bandsins, var það samt nóg til að kæfa veik merki.

Loftnetið er sett saman með “byssustingstengi” svo það er lítið mál að skipta á styttri topp fyrir umferðina, og/eða taka út spóluna.

Á 160 m fæ ég út 2,1 – 2,4 A RF eftir því hvaða samsetningu ég nota í stönginni.

73, Villi TF3DX

Takk strákar!
Það er komin staðfesting á tölvupósti, sem ég set hér með, m.a. vegna þess að þýðingin er nokkur gestaþraut sem ég gæti þegið hjálp með! En ég held að það yrði lítið úr okkur ef við þyrftum að spreyta okkur á Japönsku.

Hello.
Thank you for QSO for today. I was able to hear your signal surely, and to confirm it. None of JA seems to have been calling though CQ was put out after of me. I was surprised with mobile of 100W. Moreover, I thought pedeshon of the island with/M because I was.
Please send right or wrong of the photograph because my mail address is OK.
JA7FUJ

73, Villi TF3DX

Verkefnið undirbúið. Frá vinstri: TF3IGN, TF3PPN, TF3AO og TF3SG.

Loksins kom gott veður í Reykjavík og hentugur tími (sunnudaginn 1. nóvember 2009) til að ljúka þeirri vinnu við SteppIR loftnetið sem hófst fyrir réttum 2 mánuðum, þ.e. 30. ágúst s.l. Í dag var straumsnúran fyrir Alfa Spid rótorinn endurnýjuð og hún spennt eftir nýjum burðarstreng í nokkurri fjarlægð frá þeim eldri (en fæðilínan og straumsnúran fyrir SteppIR loftnetið deila áfram eldri burðarstrengnum). Nýtt fyrirkomulag tryggir, að truflanir sem áður voru vegna nálægðar straumsnúranna og fæðilínunnar, hverfa. Hustler 6BTV margbanda loftnetsstöngin var jafnframt yfirfarin. Niðurstaða dagsins: Vel heppnað verk, góður félagsskapur og SteppIR loftnetið nú að fullu nothæft. (TF2JB og Gunnar Svanur Hjálmarsson tóku ljósmyndir).

TF3AO gætir að ástandi 6BTV margbanda loftnetsstangarinnar.

TF3SNN og TF3BG strekkja nýja burðarstrenginn í samvinnu við TF3AO og TF3PPN.

TF3PPN uppi í turninum og TF3SNN í stiga við skorsteininn.

Fræðslukvöld fimmtudag um EZNEC loftnets herminn.
Á fimmtudaginn 29 október mun Guðmundur Löve, TF3GL segja frá og halda fræðsluerindi  um EZNEC forritið.  Nokkur forrit eru til sem herma eftir loftnetum en óhætt er að segja að EZNEC hefur í seinni tíð náð töluverðri útbreiðslu.  Erindi Guðmundar mun hefjast rétt uppúr kl. 20.00 í félagsheimili ÍRA.

73

Guðmundur, TF3SG

Morsnámskeiðið sem verið hefur í haust heldur áfram á fimmtudögum kl. 19.00 í vetur.  Þetta er kjörið tækifæri einnig fyrir þá sem eitthvað kunna og vilja gjarnan auka við hraðann.  Axel Sölvason er óþreyttur að halda áfram. Næsti tími er á fimmtudaginn 29. október í félagsheimili ÍRA og ef þáttaka verður góð eru hugmyndir uppi um að bæta við öðrum tíma. 73Guðmundur, TF3SG

Októberhefti CQ TF (4. tbl. 2009) er nú komið út í forútgáfu.  Blaðið má finna á vefslóðinni http://dev.ira.is/wp-content/uploads/2016/09/cqtf_27arg_2009_04tbl.pdf á ÍRA spjallinu.  Smellið á framangreinda slóð til að opna síðuna með blaðinu á PDF formi.  Athugið að eingöngu félagar ÍRA hafa aðgang að þessari vefslóð.

Lesendur geta komið ábendingum um villur eða athugasemdum til ritstjóra, ef einhverjar eru, fram til 24. okt.  Ritstjóri gerir lagfæringar eftir því sem þarf og við verður komið.  Að því loknu verður endanleg útgáfa blaðsins vistuð á netinu og fjölfölduð.

73 – Kristinn Andersen, TF3KX, ritstjóri CQ TF
Netfang:  tf3kx@simnet.is, GSM:  825-8130

 

Nú fer námskeið til undirbúnings radíóamatörprófs á vegum félagsins Íslenskir radíóamatörar að hefjast.
Námskeiðið er ætlað öllum sem áhuga hafa á að afla sér leyfis hjá Póst- og Fjarskiptastofnun sem radíóamatörar.

Námskeiðið hefst þann 22. október kl 20:30 með kynningarkvöldi um hvað mun fara fram á námskeiðinu. Kennsla hefst svo þriðjudaginn 27. október kl 20:00.
Kynningarkvöldið mun fara fram í aðstöðu félags Íslenskra Radíóamatöra í Skeljanesi.

Námskeiðið hefur vefsíðu þar sem tilkynningar og ýtarupplýsingar tengdar námskeiðinu verður að finna.

Kennt verður svo í Flensborgarskóla. Kennt verður tvisvar í viku, þriðjudags og fimmtudagskvöld frá kl. 20:00.
Gengið er inn norðanmeginn í Flensborgarskóla. Sjá nánar á vefsíðu námskeiðsins.

Námskeiðið stendur í um 8 vikur og stefnt er á að ljúka því með prófi fyrir jól. Námskeiðið er að mestu bóklegt.

Námskeiðsgjaldið er 12þús kr. og er innifalið í því öll kennslugögn.

Áhugsamir eru beðnir um að mæta á kynningarkvöldið og ganga frá skráningu á námskeiðið.

Frá vinstri: Annika Wahlström (OH2HSJ) og Ronja Gibson.

Undirritaður átti þess kost að heimasækja aðalstöðvar finnskra radíóamatöra á ferð þar í landi í síðustu viku (7. október s.l.) Félagið heitir fullu nafni Suomen Radioamatööriliito ry en yfirleitt er skammstöfunin SRAL notuð. SRAL rekur skrifstofu við Kaupinmaenpolku 9 í Helsinki og þangað er u.þ.b. 15 mín. ferð með leigubíl úr miðbænum. Skrifstofan er opin daglega frá kl. 12:00-17:00, en á föstudögum er opið kl. 12:00-14:00.

SRAL hefur rúmgott húsnæði til afnota sem þeir deila með einu af sjö fyrirtækjum í Finnlandi sem selja tæki og búnað til radíóamatöra (Suomen Radioamatööritarvike OY; SRAT). Húsnæðið býður upp á aðstöðu fyrir bóka- og tímaritasafn og aðstöðu til að halda námskeið, auk þess sem klúbbstöðin OH2A hefur aðsetur á staðnum. Við upphaf ferðar hafði ég ekki búist við að hafa aflögu tíma til að heimsækja SRAL og því ekki tilkynnt sérstaklega um ferðir mínar fyrirfram þannig að ekki gafst tækifæri til viðræðna við formann þeirra eða aðra stjórnarmenn að þessu sinni.

Á hinn bóginn var ánægjulegt að hitta fyrir þær Anniku (OH2HSJ) og Ronju á skrifstofu SRAL. Annika er framkvæmdastjóri félagsins og sér m.a. um félagsblaðið Radioamatööri (sem kemur út mánaðarlega), heimasíðu félagsins, almannatengsl og síðast en ekki síst samskipti við félagsmenn. (Það kom m.a. fram að pabbi hennar er leyfishafi en ég gleymdi að skrifa kallmerki hans hjá mér). Hin stúlkan, Ronja, er í hálfu starfi hjá SRAL og er einmitt á námskeiði til amatörprófs um þessar mundir og vonast til að verða orðinn leyfishafi fyrir áramót. Annika bað fyrir góðar kveðjur til þeirra Önnu, TF3VB og Völu Drafnar, TF3VD – en hún hafði verið með þeim á vel heppnaðri ráðstefnu SYLRA (Scandinavian YL Radio amateurs) í Osló í byrjun september s.l.

Undirritaður mun gera heimsókninni betri skil í CQ TF.

73 de TF2JB.

Uppgjör TF útileika fór fram í félagsheimili Í.R.A. 24. september s.l.  Kristinn Andersen, TF3KX kynnti úrslit og færði sigurvegara verðlaun og þátttökuviðurkenningu.  Allir þátttakendur sem skiluðu inn radíódagbók fengu afhenta viðurkenningu.  Sigurvegari TF útileikana í ár er Henry Arnar Hálfdansson, TF3HRY og færir stjórn Í.R.A. honum bestu hamingjuóskir fyrir frábæra frammistöðu. Kristinn Andersen varð annar þetta árið.

Stjórn Í.R.A. færir einnig öllum þeim sem komu að undirbúningi, úrvinnslu gagna og undirbúningi verðlaunaveitingar TF útileikanna 2009 bestu þakkir fyrir mikið og vel unnið starf.

Ljósmyndara, Jóni Svavarssyni, TF3LMN, eru færðar bestu þakkir fyrir ljósmyndir.

73 Guðmundur, TF3SG

Frá vinstri: Kristinn, TF3KX; Jónas, TF2JB; Ársæll, TF3AO; Sigurður, TF2WIN; Guðmundur, TF3SG; Henry, TF3HRY; og Jón Þóroddur, TF3JA. Ljósmynd: TF3LMN.

Varaformaður systurfélags okkar í Noregi (NRRL) Lennart, LA1BP, heimsótti Í.R.A. 24. september s.l. Hann er á ferð hér á landi á eigin vegum. Meðfylgjandi ljósmynd var tekið í félagsaðstöðunni við Skeljanes við það tækifæri.

Frá vinstri: TF3RF, LA1BP, TF3AO, TF3BG, TF3JA og TF3SA. Ljósmynd: TF3LMN.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA. Frá vinstri (standandi): TF2JB og TF3HP. Sitjandi: TF3SG og LA1BP. Ljósmynd: TF3LMN.