Próf til amatörréttinda var haldið laugardaginn 10. apríl s.l. í Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Alls sátu níu nemendur prófið; af þeim náðu sjö fullnægjandi árgangri til N eða G leyfis. Prófað var í rafmagns- og radíótækni svo og í viðskiptaháttum og reglum. Prófnefnd Í.R.A. sá um framkvæmd prófsins fyrir hönd Póst- og fjarskiptastofnunar.

Stjórn Í.R.A. óskar nýjum leyfishöfum til hamingju með árangurinn.

TF2JB

Árlegur flóamarkaður Í.R.A. var haldinn að morgni sunnudagsins 11. apríl. Tæplega 30 félagsmenn og gestir lögðu leið sína í Skeljanesið á milli kl. 10-12. Í boði var ýmislegt “girnilegt” amatördót, s.s. loftnet, viðtæki, mælitæki, sveiflusjár (og aukahlutir af ýmsum gerðum), íhlutir, s.s. stórir hverfiþéttar og fleira nytsamlegt. Félagið bauð upp á ný vínarbrauð frá Mosfellsbakaríi. Hér á eftir fylgja nokkrar ljósmyndir.

Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN, skoðar Realistic DX-300 viðtæki frá Radio Shack.

S. Smári Hreinsson, TF8SM (nær) og Páll B. Jónsson, TF8PB.

Viðtækin, sveiflusjáin og Yaesu YS-2000 standbylgju-/aflmælirinn seldust strax.

Haraldur Þórðarson, TF3HP, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS og Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN.

Guðmundur Sveinsson, TF3SG og Halldór Christensen, TF3GC.

TF2JB

Mælitækin uppsett til bráðabirgða í smíðaaðstöðu félagsins. Ljósmynd TF2JB.

Stefán Þórhallsson, TF3S, færði félaginu nýlega að gjöf veglegt safn mælitækja til nota í nýju smíðaaðstöðunni sem sett var upp s.l. haust á 2. hæð í félagsaðstöðunni (í sama herbergi og TF QSL Bureau hefur aðstöðu). Forsaga málsins er sú, að Stefán (sem er einn af heiðursfélögum Í.R.A.) kom fram með þá ágætu tillögu á póstlista félagsins skömmu eftir aðalfundinn í maí í fyrra, hvort ekki væri tilvalið fyrir félagið að koma upp vísi að smíðaaðstöðu þar sem menn gætu t.d. komið með stöðvar sínar og aukahluti og notið leiðsagnar þeirra sem eru reynslumeiri ef smávægilegar bilanir væru að gera mönnum lífið leitt – eða jafnvel, fengið aðstoð við einföld verk eins og að setja í krystalsíur í tæki o.s.frv.

Niðurstaða málsins varð, að stjórn félagsins tók málið upp strax að loknum breytingum í fjarskiptaherbergi TF3IRA og var þá ráðist í framkvæmdir við að koma upp vísi að smíðaaðstöðu í “QSL herberginu”. Þegar þetta er skrifað á aðeins eftir að setja upp hillur og ákveða nánar með uppsetningu mælitækjanna. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá um hvaða mælitæki er að ræða ásamt tegunarupplýsingum um þau.

Mælitæki Gerð Framleiðandi Framl. nr.
10 MHz Oscilloscope CS-1012 Trio, Japan 4110107
Frequency Counter FC-756 Trio, Japan 4090075
AM/FM Signal Generator PM-5320 Philips, Eindoven D-348
FM Signal Generator 202-B Booton Radio Corp., USA 2842
Decade Condenser DC-1 Heathkit, USA n/a
Decade Resistance CR-1 Heathkit, USA n/a
Volt/Ohm Multimeter WV-98C Senior RCA, USA n/a
RF Vacum Tube Volt Meter n/a RCA, USA n/a
Crystal Controlled Microvolt Generator 191-X Hickok, USA n/a
Load Resistor, 50 Ohm; 0-3000 MHz 634-N Mc. Jones Electronics, USA n/a

Við sama tækifæri færði Stefán félaginu jafnframt nokkuð magn innbundinna bóka og tímarita sem voru í eigu föður hans, Þórhalls Pálssonar, TF5TP (sk).

Stjórn Í.R.A. þakkar Stefáni Þórhallssyni, TF3S, heilan hug og rausnarlega gjöf.

Síðari gjöfin til félagsins sem skýrt verður frá við þetta tækifæri er, að þann 25. mars s.l. kom félagsmaður okkar Guðlaugur Ingason, TF3GN, færandi hendi í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes. Hann færði félaginu að gjöf innbundið hefti af 15. tbl. Útvarpstíðinda frá septembermánuði 1946. Í heftinu er m.a. viðtal við Einar Pálsson, TF3EA, fyrsta formann Í.R.A. en félagið hafði skömmu áður verið stofnað, þ.e. 14. ágúst 1946. Fjölmargt áhugavert kemur fram í viðtalinu, og m.a. að stofnfélagar Í.R.A. hafi verið 140 talsins og að á þeim hálfa mánuði sem liðinn var þegar viðtalið var tekið, hafi bæst við 30 félagsmenn. Heftið er vandlega innbundið af Guðlaugi sjálfum.

Stjórn Í.R.A. þakkar Guðlaugi Ingasyni, TF3GN, heilan hug og áhugaverða gjöf.

Guðlaugur Ingason, TF3GN, afhendir Guðmundi, TF3SG, varaformanni Í.R.A. gjöfina. Ljósmynd: TF3JA.

TF2JB

Félagsmaður okkar, Gunnar Leifur Guðmundsson, TF3LG, lést á Skírdag þann 1. apríl s.l. Fregnir þessa efnis bárust félaginu frá bróðursyni hans, Guðmundi Gunnarssyni, TF3GG. Leifur varð tæplega 82 ára að aldri.

Leifur var handhafi leyfisbréfs nr. 17 og félagsmaður í Í.R.A. um áratuga skeið. Hann starfaði fyrir félagið og sat m.a. í prófnefnd Í.R.A. í nær tvo áratugi, þ.e. frá 1979-1997. Þá sat í varastjórn félagsins í tvö tímabil, þ.e. frá 1979-1980 og 1980-1981. Leifur var virkur radíóamatör þar til síðustu ár er heilsa hans leyfði ekki virka þátttöku.

Stjórn Í.R.A. sendir fjölskyldu hans hugheilar samúðarkveðjur vegna fráfalls hans.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður Í.R.A.

Með tilvísan til 16. gr. félagslaga er hér með boðað til aðalfundar Í.R.A. laugardaginn 22. maí 2010. Fundurinn verður haldinn í Yale fundarsal Radisson Blu hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík og hefst stundvíslega kl. 13:00. Dagskrá er samkvæmt 18. gr. félagslaga.

Bent er á, að samkvæmt ákvæði í 26. gr. laganna þurfa tillögur að lagabreytingum að berast stjórn félagsins fyrir 15. apríl n.k. Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntanlegum áhrifum þeirra

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður Í.R.A.

Félagið Íslenskir Radíóamatörar heldur í samstarfi við Póst- og fjarskiptastofnun próf til amatörréttinda laugardaginn 10. apríl. Haldið verður bæði próf í rafmagns- og radíótækni svo og viðskiptaháttum- og reglum.

Prófið verður haldið í Flensborgarskóla og hefst kl. 10:00 að morgni. Fyrst verður rafmagns- og radíótæknihlutinn lagður fyrir svo prófið í viðskiptaháttum- og reglum.

Áhugsamir eru beðnir um að láta Hrafnkel TF3HR (he@klaki.net) vita af væntanlegri þátttöku sinni.

 TF4M

Í aprílhefti tímaritsins “CQ Ham Radio Japan” 2010 er 4 blaðsíðna umfjöllun um Vilhjálm Þór Kjartansson, TF3DX og virkni hans á 160 metrunum, m.a. um virkni sem TF3DX/M og mynd af QSL korti til JA7FUJ sem Vilhjálmur sendi til staðfestingar sambandi þeirra sem hann hafði úr bílnum. Greinin er að stofni til lík þeirri sem birtist í 1. tbl. CQ TF 2010, en ljósmyndir eru fleiri ásamt mynd af XYL; Guðrúnu, TF3GD.

Þar á eftir fylgir samantekt (eftir Vilhjálm) sem skýrir hversu erfitt er í raun að hafa samband á milli TF og JA á 160 metrunum.

TF2JB

Minni á morsnámskeið í kvöld klukkan 19.00 með Axel Sölvasyni, TF3AX. Áherslan er á að hlusta og taka á móti morsi og skrifa niður stafi. Námskeiði er hugsað fyrir þá sem eru að byrja að læra mors og fyrir þá sem vilja ná færni í að taka á móti morsi og skrifa niður. Námskeiðið er öllum opið.

73
Guðmundur, TF3SG

Skilafrestur efnis í aprílhefti CQ TF er nk. sunnudag, 28. marz.  Lesendur blaðsins eru hvattir til að senda greinar, myndir eða ábendingar um áhugavert efni til ritstjóra.

73 – Kristinn Andersen, TF3KX – ritstjóri CQ TF
Austurgötu 42, 220 Hafnarfjörður

E-mail: tf3kx@simnet.is.  GSM: 825-8130.

Í samráði við Axel Sölvason, TF3AX hefur verið ákveðið að framlengja og halda áfram með morsnámskeið.  Áherslan verður á að hlusta og skrifa niður stafina og hefst fyrsta kenslu-stundin næstkomandi fimmtudag 25. mars, klukkan 19.00.  Námskeiðið er öllum opið og verður sniðið að þeim sem mæta, fullt tillit verður tekið til byrjenda og þeim veitt kennsla og leiðsögn.  Þeir byrjendur sem þess óska geta fengið lánaða æfingalykla.  Gert er ráð fyrir að kennsla fari fram sunnudagsmorgna.

73

Guðmundur, TF3SG