,

Samráðsfundur með Póst- og fjarskiptastofnun

Líkt og skýrt var frá á þessum vettvangi þann 7. júlí s.l., kallaði Póst- og fjarskiptastofnun nýlega eftir samráði við hagsmunaaðila um nýja tíðnistefnu til næstu fjögurra ára, 2011-2014. Skjal stofnunarinnar þessa efnis, auk sérstaks umræðuskjals um farnetsþjónustur og úthlutun tilheyrandi tíðnisviða, hefur verið til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar frá 1. júlí s.l. og er frestur gefinn til að skila umsögnum og athugasemdum til 19. ágúst n.k.

Efni tíðnistefnunnar sem sérstaklega varðar radíóamatöra, er birt í kafla 6.11 (á bls. 27) í eftirfarandi texta: “6.11 Radíóáhugamannaþjónusta. Þjónusta fyrir radíóáhugamenn (radíóamatöra) er viðurkennd af hálfu ITU með formlegri þjónustuskilgreiningu í fjarskiptareglum og sérstaklega úthlutuðu tíðnisviði fyrir þá. Það er mat PFS að auka þurfi fræðslu og eftirlit með þessari þjónustu og meta hvort ástæða sé til að endurskoða hámarkssendistyrk sem leyfður er í þéttbýli Þá verður metið hvort ástæða er til að gera kröfur um tiltekna lágmarksfjarlægð loftnets frá íbúðarhúsnæði m.t.t. alþjóðlegra viðmiða”.

Á þeim tíma sem liðinn er frá kynningu PFS, hefur stjórn Í.R.A. fjallað um þau fjögur meginatriði tíðnistefnunnar sem snerta radíóamatöra, þ.e. mat stofnunarinnar um þörf á aukinni fræðslu, aukið eftirlit, hvort ástæða sé til að endurskoða hámarkssendistyrk í þéttbýli og lágmarksfjarlægð loftnets frá íbúðarhúsnæði. Í framhaldi umfjöllunar um þessi atriði, var formlega fjallað um málið á stjórnarfundi sem haldinn var í félaginu þann 19. júlí s.l. og samþykkt, að óska eftir samráðsfundi með fulltrúum stofnunarinnar. Sérstakur samráðsfundur var síðan haldinn með fulltrúum Póst- og fjarskiptastofnunar þann 16. ágúst s.l., þar sem m.a. var farið yfir framangreind meginatriði. Stjórn Í.R.A. er þeirrar skoðunar að fundurinn hafi verið mjög gagnlegur og þjónað tilgangi sínum í því að efla skilning hjá báðum aðilum. Nánar verður gerð grein fyrir fundinum í næsta tölublaði CQ TF sem kemur út í september n.k.

Tíðnistefnu PFS má nálgast á þessum hlekk: http://www.pfs.is/default.aspx?cat_id=112&module_id=220&element_id=3259

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

thirteen − six =