Morsnámskeiðið sem verið hefur í haust heldur áfram á fimmtudögum kl. 19.00 í vetur.  Þetta er kjörið tækifæri einnig fyrir þá sem eitthvað kunna og vilja gjarnan auka við hraðann.  Axel Sölvason er óþreyttur að halda áfram. Næsti tími er á fimmtudaginn 29. október í félagsheimili ÍRA og ef þáttaka verður góð eru hugmyndir uppi um að bæta við öðrum tíma. 73Guðmundur, TF3SG

Októberhefti CQ TF (4. tbl. 2009) er nú komið út í forútgáfu.  Blaðið má finna á vefslóðinni http://dev.ira.is/wp-content/uploads/2016/09/cqtf_27arg_2009_04tbl.pdf á ÍRA spjallinu.  Smellið á framangreinda slóð til að opna síðuna með blaðinu á PDF formi.  Athugið að eingöngu félagar ÍRA hafa aðgang að þessari vefslóð.

Lesendur geta komið ábendingum um villur eða athugasemdum til ritstjóra, ef einhverjar eru, fram til 24. okt.  Ritstjóri gerir lagfæringar eftir því sem þarf og við verður komið.  Að því loknu verður endanleg útgáfa blaðsins vistuð á netinu og fjölfölduð.

73 – Kristinn Andersen, TF3KX, ritstjóri CQ TF
Netfang:  tf3kx@simnet.is, GSM:  825-8130

Nú fer námskeið til undirbúnings radíóamatörprófs á vegum félagsins Íslenskir radíóamatörar að hefjast.
Námskeiðið er ætlað öllum sem áhuga hafa á að afla sér leyfis hjá Póst- og Fjarskiptastofnun sem radíóamatörar.

Námskeiðið hefst þann 22. október kl 20:30 með kynningarkvöldi um hvað mun fara fram á námskeiðinu. Kennsla hefst svo þriðjudaginn 27. október kl 20:00.
Kynningarkvöldið mun fara fram í aðstöðu félags Íslenskra Radíóamatöra í Skeljanesi.

Námskeiðið hefur vefsíðu þar sem tilkynningar og ýtarupplýsingar tengdar námskeiðinu verður að finna.

Kennt verður svo í Flensborgarskóla. Kennt verður tvisvar í viku, þriðjudags og fimmtudagskvöld frá kl. 20:00.
Gengið er inn norðanmeginn í Flensborgarskóla. Sjá nánar á vefsíðu námskeiðsins.

Námskeiðið stendur í um 8 vikur og stefnt er á að ljúka því með prófi fyrir jól. Námskeiðið er að mestu bóklegt.

Námskeiðsgjaldið er 12þús kr. og er innifalið í því öll kennslugögn.

Áhugsamir eru beðnir um að mæta á kynningarkvöldið og ganga frá skráningu á námskeiðið.

Frá vinstri: Annika Wahlström (OH2HSJ) og Ronja Gibson.

Undirritaður átti þess kost að heimasækja aðalstöðvar finnskra radíóamatöra á ferð þar í landi í síðustu viku (7. október s.l.) Félagið heitir fullu nafni Suomen Radioamatööriliito ry en yfirleitt er skammstöfunin SRAL notuð. SRAL rekur skrifstofu við Kaupinmaenpolku 9 í Helsinki og þangað er u.þ.b. 15 mín. ferð með leigubíl úr miðbænum. Skrifstofan er opin daglega frá kl. 12:00-17:00, en á föstudögum er opið kl. 12:00-14:00.

SRAL hefur rúmgott húsnæði til afnota sem þeir deila með einu af sjö fyrirtækjum í Finnlandi sem selja tæki og búnað til radíóamatöra (Suomen Radioamatööritarvike OY; SRAT). Húsnæðið býður upp á aðstöðu fyrir bóka- og tímaritasafn og aðstöðu til að halda námskeið, auk þess sem klúbbstöðin OH2A hefur aðsetur á staðnum. Við upphaf ferðar hafði ég ekki búist við að hafa aflögu tíma til að heimsækja SRAL og því ekki tilkynnt sérstaklega um ferðir mínar fyrirfram þannig að ekki gafst tækifæri til viðræðna við formann þeirra eða aðra stjórnarmenn að þessu sinni.

Á hinn bóginn var ánægjulegt að hitta fyrir þær Anniku (OH2HSJ) og Ronju á skrifstofu SRAL. Annika er framkvæmdastjóri félagsins og sér m.a. um félagsblaðið Radioamatööri (sem kemur út mánaðarlega), heimasíðu félagsins, almannatengsl og síðast en ekki síst samskipti við félagsmenn. (Það kom m.a. fram að pabbi hennar er leyfishafi en ég gleymdi að skrifa kallmerki hans hjá mér). Hin stúlkan, Ronja, er í hálfu starfi hjá SRAL og er einmitt á námskeiði til amatörprófs um þessar mundir og vonast til að verða orðinn leyfishafi fyrir áramót. Annika bað fyrir góðar kveðjur til þeirra Önnu, TF3VB og Völu Drafnar, TF3VD – en hún hafði verið með þeim á vel heppnaðri ráðstefnu SYLRA (Scandinavian YL Radio amateurs) í Osló í byrjun september s.l.

Undirritaður mun gera heimsókninni betri skil í CQ TF.

73 de TF2JB.

Uppgjör TF útileika fór fram í félagsheimili Í.R.A. 24. september s.l.  Kristinn Andersen, TF3KX kynnti úrslit og færði sigurvegara verðlaun og þátttökuviðurkenningu.  Allir þátttakendur sem skiluðu inn radíódagbók fengu afhenta viðurkenningu.  Sigurvegari TF útileikana í ár er Henry Arnar Hálfdansson, TF3HRY og færir stjórn Í.R.A. honum bestu hamingjuóskir fyrir frábæra frammistöðu. Kristinn Andersen varð annar þetta árið.

Stjórn Í.R.A. færir einnig öllum þeim sem komu að undirbúningi, úrvinnslu gagna og undirbúningi verðlaunaveitingar TF útileikanna 2009 bestu þakkir fyrir mikið og vel unnið starf.

Ljósmyndara, Jóni Svavarssyni, TF3LMN, eru færðar bestu þakkir fyrir ljósmyndir.

73 Guðmundur, TF3SG

Frá vinstri: Kristinn, TF3KX; Jónas, TF2JB; Ársæll, TF3AO; Sigurður, TF2WIN; Guðmundur, TF3SG; Henry, TF3HRY; og Jón Þóroddur, TF3JA. Ljósmynd: TF3LMN.

Varaformaður systurfélags okkar í Noregi (NRRL) Lennart, LA1BP, heimsótti Í.R.A. 24. september s.l. Hann er á ferð hér á landi á eigin vegum. Meðfylgjandi ljósmynd var tekið í félagsaðstöðunni við Skeljanes við það tækifæri.

Frá vinstri: TF3RF, LA1BP, TF3AO, TF3BG, TF3JA og TF3SA. Ljósmynd: TF3LMN.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA. Frá vinstri (standandi): TF2JB og TF3HP. Sitjandi: TF3SG og LA1BP. Ljósmynd: TF3LMN.

Stjórn ÍRA þakkar öllum sem þátt tóku í TF útileikum 2009 og færir jafnframt sigurvegara TF útileikanna í ár, Henry Arnari Hálfdanssyni, TF3HRY, heillaóskir fyrir frábæran árangur. Henry var með 755.200 stig, í flokki MF/HF-ER. Í öðru sæti var Kristinn Andersen, TF3KX með 638.115 stig, í flokki MF/HF-ER.  Benedikt Sveinsson, TF3BNT var efstur í flokki MF/HF-RA með 70.000 stig. Stjórn ÍRA vill senda þeim sem komu að undirbúningi
útileika, úrvinnslu gagna og gerð viðurkenningarskjala sérstakar þakkir. 73, Guðmundur, TF3SG

Frá vinstri: Kristinn, TF3KX; Jónas, TF2JB; Ársæll, TF3AO; Sigurður, TF2WIN; Guðmundur, TF3SG; Henry, TF3HRY; og Jón Þóroddur, TF3JA. Ljósmynd: TF3LMN.

TF2JB

Afhending viðurkenninga fyrir TF útileikana 2009. Fimmtudaginn 24. september 2009.

Fimmtudaginn 24. september nk. verða afhentar viðurkenningar fyrir þátttöku í TF útileikunum 2009.  Kristinn, TF3KX, mun fara yfir þátttöku og stigagjöf útileikanna. Stigahæstu mönnum verða afhentar viðurkenningar og að auki fá allir þátttakendur sem skiluðu inn radíódagbókum viðurkenningar fyrir þátttökuna.  Fundurinn verður í félagsheimili ÍRA og hefst kl. 20.00.

73

Guðmundur, TF3SG

Móttaka verður í Kiwanishúsinu Geysi í Mosfellsbæ fyrir alla radíóamatöra n.k. laugardag 12. september kl.14.00. Aðkoma að húsinu er við Köldukvísl. Ljóst er að þetta verður hið mesta gaman, boðið verður upp á kaffi og kökur. Í fyrra voru fyrirlestrar og sett upp loftnet. Stefnt er að því að endurtaka þá frábæru uppákomu sem skapaðist þá. Tilkynnt verður um dagskrá og væntanlega fyrirlestra síðar.

Tengiliðir eru Guðmundur Ingi, TF3IGN og Andrés TF3AM

73

Guðmundur, TF3SG

Það var hress hópur sem hittist í félagsaðstöðu Í.R.A. s.l. sunnudag (30. ágúst). Hópur-1 tók að sér að skoða rótorinn við SteppIR loftnetið og var turninn m.a. felldur. Það voru þeir Sveinn Bragi, TF3SNN; Jón Gunnar, TF3PPN; Jón Ingvar, TF1JI; Yngvi, TF3Y; Bjarni, TF3GB; og Matthías, TF3-035. Hópur-2 tók að sér málningarvinnu innandyra. Það voru þeir Guðmundur, TF3SG; og Baldvin, TF3-033. (Jónas, TF2JB, fór út í bakarí og keypti sérbökuð vínarbrauð og tebollur með súkkulaðirönd til að hafa með kaffinu og tók nokkrar ljósmyndir).

Jón Gunnar, TF3PPN uppi í turninum.

Guðmundur, TF3SG með stóru rúlluna.

Baldvin, TF3-033 með litlu rúlluna.

Turninn felldur. Bjarni, TF3GB og Matthías, TF3-035 fylgjast með Sveini Braga, TF3SNN.

TF2JB

Nú fer að líða að útgáfu næsta heftis félagsblaðsins okkar, CQ TF. Kallað er eftir efni, ábendingum og hugmyndum að efni í blaðið. Vilja lesendur sjá aðrar áherzlur í efni eða í framsetningu? Ritstjóri þiggur með þökkum allar ábendingar og efni. Lokafrestur fyrir efni í næsta blað er sunnudagurinn 20. september.

Kveðjur frá ritstjóra…

Kristinn Andersen, TF3KX
Austurgötu 42, 220 Hafnarfjörður

Netfang: tf3kx@simnet.is
GSM: 825-8130

Stjórn og prófnefnd Í.R.A. héldu sameiginlegan fund þann 18. ágúst s.l. Til umræðu var m.a. núverandi fyrirkomulag námskeiða til amatörprófs og reynslan af námskeiðum undanfarinna ára. Margt kom til umræðu, svo sem lengd námskeiða, en að mati prófnefndar þurfa þau að vera a.m.k. 8 vikur. Menn voru ennfremur sammála um að stefnt verði að því að haldin verði a.m.k. 2 námskeið á ári, þ.e. vor og haust. Á fundinum var dreift bókinni Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatörasem Vilhjálmur Sigurjónsson, TF3VS, þýddi. Í umræðum kom fram að prófnefnd fagnar framtakinu og styður heilshugar að bókin verði hluti af námsefni á námskeiði til amatörprófs. Fundurinn þótti takast mjög vel og er stefnt að því að hittast aftur innan tíðar.

Stjórn Í.R.A. er jafnframt ánægja að skýra frá því að Hrafnkell Eiríksson, TF3HR, hefur tekið að sér skólastjórn námskeiðs til amatörprófs sem haldið verður á næstunni (þ.e. nú í haust). Hrafnkell hefur mikla reynslu af skipulagningu á námskeiðum félagsins og hlotið góða umsögn nemenda. Félaginu er því mikill akkur af liðsinni hans. Nánar verður skýrt frá dagsetningum og öðrum upplýsingum um námskeiðið hér á heimasíðunni á næstunni.

Myndatexti:
Frá vinstri: Kristján Benediktsson, TF3KB, prófnefnd; Vilhjálmur Sigurjónsson, TF3VS, prófnefnd; Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM, prófnefnd (standandi); Kristinn Andersen, TF3KX, prófnefnd (standandi); Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, prófnefnd; Jónas Bjarnason, TF2JB, formaður; Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN, meðstjórnandi (standandi); Guðmundur Sveinsson, TF3SG, varaformaður; og Erling Guðnason, TF3EE, gjaldkeri. Ljósmynd: Jón Svavarsson, TF3LMN.