,

Stöðutaka í morsi fer fram á laugardag

Guðmundur Sveinsson, TF3SG

Stefán Arndal, TF3SA

Næsti viðburður á vetrardagskrá félagsins er stöðutaka í morsi, sem fram fer
laugardaginn 13. október kl. 15:00-17:00 í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi.
Stefán Arndal, TF3SA og Guðmundur Sveinsson, TF3SG, annast viðburðinn.

Þeir sem eiga eftir að skrá þátttöku geta sent töluvpóst á Guðmund. Tölvupóstfang
hans er: dn (hjá) hive.is eða hafa samband við hann í síma 896-0814. Líkt og áður
hefur komið fram, er stöðutakan fyrir alla leyfishafa, þ.e. jafnt fyrir þá sem eru rétt
að byrja sem og þá sem lengra eru komnir.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að nýta sér þetta tækifæri.

,

Skínandi góður laugardagur í Skeljanesi

Þetta var eins og besta einkakennsla sagði Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og var mjög ánægður.

Laugardaginn 6. október mætti Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, með hraðnámskeið (sýnikennslu) í Skeljanes fyrir þá félagsmenn sem vildu læra á loftnetsgreininn MFJ-269. Alls mættu 10 félagar í félagsaðstöðuna stundvíslega kl. 10 árdegis. Vilhjálmur Þór hóf dagskrána á vel fram settum fræðilegum inngangi. Hann skeiðaði síðan léttilega í gegnum spurningar viðstaddra og þegar kom að því að sýna notkun MFJ-269 loftnetsgreinisins, voru allir með á getu tækisins.

Sumir höfðu með sér sína eigin loftnetsgreina (TF2WIN). Aðrir sögðust sjá eftir því að hafa ekki tekið sína með sér þegar á staðinn var komið. Fram kom, að það eru ótrúlega fjölbreyttar mælingar sem má gera með þessu tiltölulega ódýra mælitæki.

Áhugavert er að geta þess, að símtöl bárust til stjórnarmanna strax í eftirmiðdaginn í gær og áfram í dag (sunnudag) frá félagsmönnum sem ýmist sögðust hafa gleymt viðburðinum, sofið yfir sig eða verið uppteknir. Sama óskin kom fram hjá þeim öllum: „Hvenær verður þetta endurtekið hjá Villa?” Námskeiðinu lauk laust eftir kl. 13. Frábær dagur og skínandi vel heppnaður!

Taflan var mikið notuð hjá TF3DX og sagðist hann hlakka til þess dags þegar félagið hefði efni á að fjárfesta í 2-3 hvítum tússtöflum til viðbótar við þessa einu sem væri allt of lítil.

Vilhjálmur Þór TF3DX notaði m.a. þetta heimatilbúna 1/4-? GP metrabylgjuloftnet í kennslunni.

Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN sýndi fyrirhyggju og kom með sinn loftnetsgreini á staðinn og sagðist bara ánægður með að sitja aftarlega. Sagði að þar væri meiri ró og næði enda nóteraði hann hjá sér flest af því sem Vilhjálmur Þór sagði.7

Nýjar vínarbrauðslengjurnar frá Björnsbakaríi á Seltjarnarnesi voru heitar úr ofninum þegar þær komu í hús í Skeljanesi. Vart þarf að taka það fram að þær gengu vel út.

,

Spennandi tilraunir á VHF og UHF á laugardegi

Loftnet félagsins á Garðskaga er af gerðinni Workman UVS-300 frá OPEC. Ljósmynd: TF8SM.

Líkt og kunnugt er, var Kenwood endurvarpi félagsins sem var tengdur við TF8RPH á Garðskaga fluttur þann 9. september s.l. til TF1RPH í Bláfjöllum og skipt út fyrir stöðina þar sem varð fyrir eldingu.

Í því augnamiði að nota aðstöðuna á Garðskaga til tilrauna uns til nýr endurvarpi verður tengdur, gerðu þeir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Sigurður Smári Hreinsson, TF8SM ferð í vitavarðarhúsið á Garðskaga í dag, þann 6. október, og tengdu Kenwood TM-D700A VHF/UHF sendi-/móttökustöð við VHF/UHF húsloftnet félagsins á staðnum (sem áður var tengt við TF8RPH).

Frá því skömmu eftir hádegi í dag (6. október) hefur TM-700A stöðin þannig unnið frá Garðskaga sem krossband endurvarpi í tengslum við TF1RPB í Bláfjöllum. Þetta þýðir, að þegar merki er sent út á tíðninni 434.500 MHz, er það áframsent á tíðninni 145.150 MHz (frá Garðskaga) sem opnar viðtæki TF1RPB í Bláfjöllum og sendir merkið út á 145.750 MHz. Að sama skapi, þegar merki er sent inn á TF1RPB er það móttekið á Garðskaga og sent út á tíðninni 434.500 MHz. Í báðum tilvikum er notuð CTCSS tónlæsing á 88,5 riðum. Eins og áður hefur komið fram, er hægt að hlusta á fjarskiptin á þessum tíðnum þótt stöð eða viðtæki sé ekki búið tónlæsingarbúnaði.

Hugmyndin er, að þessi uppsetning verði í gangi um óákveðinn tíma í tilraunaskyni. Það er TF3ARI sem lánar stöðina og TF8SM sem lánar aflgjafann. Stjórn Í.R.A. lýsir yfir ánægju sinni með framtak þeirra félaga og hvetur félagsmenn til að taka þátt í þessu spennandi verkefni.

Endurvarpinn TF1RPB hefur aðstöðu í þessu stöðvarhúsi í Bláfjöllum. Ljósmynd: TF3ARI.

Kenwood TM-D700A VHF/UFH sendi-/móttökustöðin.

,

TF3DX verður með sýnikennslu á laugardag

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX

Næsti viðburður á vetrardagskrá félagsins verður haldinn í félagsaðstöðunni á morgun, laugardaginn 6. október og hefst kl. 10:00 árdegis. Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, mætir í Skeljanes og heldur hraðnámskeið (sýnikennslu) fyrir þá sem eiga eða vilja læra á loftnetsgreininn MFJ-269. Námskeiðið miðast við byrjendur en einnig verður svarað spurningum frá þeim sem eru lengra komnir.

Félagar mætum stundvíslega! Meðlæti frá frá Björnsbakaríi verður í boði með kaffinu.

MFJ-269 loftnetsgreinir félagsins.

MFJ-269 loftnetsgreinirinn vinnur í tíðnisviðinu frá 1.8 MHz til 170 MHz annars vegar, og tíðnisviðinu 415 MHz til 470 MHz, hins vegar. Tækið er búið innbyggðum rafhlöðum til nota á vettvangi (t.d. úti við loftnet) sem og í fjarskiptaherbergi innanhúss (tengt við utanáliggjandi 12 volta spennugjafa). Til ráðstöfunar eru m.a. sveifluvaki með breytanlegri tíðni, tíðniteljari, tíðnimargfaldari, 12 bita A-D breytir og sérhæfður forritanlegur örgjörvi til mælinga. Með tækinu má gera margvíslegar mælingar á loftnetum og RF sýnvarviðnámi, þ.á.m. að mæla rafsegulfjarlægð til skammhleyptrar eða opinnar fæðilínu, töp í kóax fæðilínum og til mælinga á standandi bylgjum. Tækið er hannað til greiningar á 50 ? loftnetum og fæðilínum, en mælir hvaða sýndarviðnámsgildi sem er á bilinu 5-600 Ohm.

(Ljósmyndir: TF3LMN).

,

1. fundur starfshóps Í.R.A. um neyðarfjarskipti

Jón Þóroddur Jónsson TF3JA neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A. og formaður starfshóps félagsins um neyðarfjarskipti við setningu fundarins þann 1. október ásamt Sigurði Óskari Óskarssyni TF2WIN.

Fyrsti fundur starfshóps sem skipaður var af stjórn Í.R.A. þann 17. f.m. til að gera tillögur um neyðarfjarskiptastefnu félagsins var haldinn í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 1. október s.l. Fundin sátu Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A. og formaður starfshópsins; Sigurður Óskar Óskarsson, TF3WIN, fulltrúi stjórnar Í.R.A.; Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY; Jón Svavarsson, TF3LMN; og Jónas Friðgeirsson, TF3JF. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI, er einnig í starfshópnum, en var fjarstaddur vegna vinnu. Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður Í.R.A. sat fundinn. Fram kom í inngangsræðu hans, að stjórn félagsins væntir mikils af störfum hópsins og óskaði hann viðstöddum góðs gengis í vinnu sinni.

Fundurinn stóð í um tvær klukkustundir. Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, sagðist vera mjög ánægður með þennan fyrsta fund. Menn hafi verið áhugasamir og margt áhugavert hafi komið fram sem lofi góðu um framtíðarvinnu starfshópsins. Næsti fundur er boðaður að þremur vikum liðnum. Sjá nokkrar ljósmyndir frá fundinum hér fyrir neðan.

Henry Arnar Hálfdánarson TF3HRY, Jón Þóroddur Jónsson TF3JA og Sigurður Óskarsson TF2WIN.

Jón Svavarsson TF3LMN.

Jónas Friðgeirsson TF3JF.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI gat ekki setið fundinn, en hér fylgir mynd af kappanum.

,

Glæsileg niðurstaða hjá TF2RR

Á myndinni má sjá hluta af loftnetum Georgs Magnússonar TF2LL sem TF2RR notaði í CQ WW RTTY keppninni. Á turninum eru OptiBeam 18-6 fyrir 40-10 metra böndin og OptiBeam 1-80 fyrir 80 metrana. Turninn er 28 metra hár, að stærstum hluta heimasmíðaður. Ljósmynd: TF3JB.

Fyrstu ætlaðar niðurstöður (e. claimed results) í CQ World-Wide RTTY keppninni sem haldin var helgina 29.-30. september s.l., eru komnar á netið. Samkvæmt þeim upplýsingum sem þegar liggja fyrir, eru vísbendingar um, að TF2RR kunni að verða í einu af fimm efstu sætunum yfirheiminn í sínum keppnisflokki. TF2RR hafði alls 3.040 QSO og 3.805.097 heildarstig. Þetta er
glæsilegur árangur og líklega sá besti sem náðst hefur frá TF stöð í alþjóðlegri RTTY keppni hingað til!

Unnið var frá vel útbúinni stöð Georgs Magnússonar, TF2LL, í Borgarfirði og keppti TF2RR í fleirmenningsflokki, á öllum böndum (80-40-20-15-10 metrum), hámarksafli, aðstoð. Að sögn Guðmundar Inga Hjálmtýssonar, TF3IG, forseta klúbbsins, voru skilyrðin mjög góð fyrri dag keppninnar, eða allt fram á seinnipart sunnudagsins þegar truflana tók að gæta í fareindahvolfinu.

Til upplýsingar skal þess getið, að TF2RR (og TF3RR) eru kallmerki Radíóklúbbsins radíó refir, sem fengu úthlutað kallmerkjum fyrir rúmum 2 árum. Félagsmenn eru: Ársæll Óskarsson TF3AO, Georg Magnússon TF2LL, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Haraldur Þórðarson TF3HP og Jón Gunnar Harðarson TF3PPN, auk Andrésar Þórarinssonar TF3AM, sem nýlega gekk til liðs
við refina.

Stjórn Í.R.A. óskar þeim félögum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

__________


Frestur til að skila keppnisdagbókum til keppnisnefndar CQ rennur út á miðnætti á föstudag. Þá má gera ráð fyrir að flestar dagbækur verði komnar fram, en samkvæmt nýjum reglum geta keppnisstöðvar sótt um allt að 30 daga frest til að skila keppnisgögnum. Fylgjast má með upplýsingum um innsend gögn í keppninni á vef keppnisnefndar CQ tímaritsins á vefslóð: http://www.cqwwrtty.com/logs_received.shtml

,

Vetrardagskráin gildir til 13. desember n.k.

Úr félagsstarfinu. Unnið við AlfaSpid rótor SteppIR 3E Yagi loftnets TF3IRA þann 4. febrúar 2012.

Yfirstandandi vetrardagskrá Í.R.A. sem nær til 13. desember n.k. var kynnt á fjölmennum fundi í Skeljanesi s.l. fimmtudag, 27. september. Jónas Bjarnason TF3JB formaður félagsins, kynnti dagskrána og kom m.a. fram hjá honum, að 21 viðburður er í boði og að alls koma 17 félagar að verkefninu.

Meðal nýjunga er, að nú verður í fyrsta skipti boðið upp á stöðupróf í morsi sem er í umsjá þeirra Stefáns Arndal TF3SA og Guðmundar Sveinssonar TF3SG. Að auki verða verða 7 fimmtudagserindi, 4 sunnudagsopnanir, 3 hraðnámskeið, árlegur flóamarkaður og sýning nýrrar DVD heimildarmyndar frá DX-leiðangrinum
til Malpelo Island, HKØNA, í febrúar 2012. Vetrardagskránni lýkur síðan með veglegu jólakaffi Í.R.A. þann 13. desember.

,

Úrslit í VHF leikunum og TF útileikunum 2012

Guðmundur Löve, TF3GL.

Bjarni Sverrisson, TF3GB.

Þá er komið að úrslitum og afhendingu verðlauna og viðurkenninga í VHF leikunum 2012 og TF útileikunum 2012. Athöfnin fer fram í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 4. október n.k. og hefst stundvíslega kl. 20:30.

Guðmundur Löve TF3GL umsjónarmaður VHF leikanna mun kunngjöra úrslit í 1. VHF leikunum og veita verðlaun. Síðan mun Bjarni Sverrisson TF3GB umsjónarmaður TF útileikanna kunngjöra útslit í 32. útileikunum og veita verðlaun.

Félagar, mætum stundvíslega!

Stjórn Í.R.A.

,

Vel heppnaður SteppIR dagur í Skeljanesi

SteppIR 3E Yagi loftnet TF3IRA. Ef vel er að gáð, má sjá að “reflectorinn” (stakið fjærst á myndinni) hallar niður til vinstri samanborið við hin stökin. Þetta var meðal þess sem lagfært var í Skeljanesi.

dag, laugardaginn 29. september, mætti hópur vaskra manna í Skeljanes. Á dagskrá voru eftirtalin verkefni:

  • Að skipta út festingu loftnetsins við rörið á turninum (e. boom to mast) fyrir nýja sem gerð er fyrir erfiðar veðuraðstæður.
  • Að fara yfir samsetningar á bómu loftnetsins til að lagfæra sig/halla á “reflector” stakinu (sem greina má á myndinni að ofan).
  • Að vatnsverja tengingar á AlfaSpid RAK rótor loftnetsins, en frá þeim hafði verið gengið til bráðabirgða í júlí s.l.
  • Að festa snúru í ónotaða talíu efst í turninum sem notuð verður fyrir uppsetningu loftneta á lægri tíðnum fyrir TF3IRA.

Dagurinn gekk framúrskarandi vel og í svölu veðri en kyrru tókst að ljúka ofangeindum verkefnunum á aðeins nokkrum klukkustundum. Í lok dags, var það samdóma álit viðstaddra, að SteppIR 3E Yagi loftnet félagsins sé nú tilbúið fyrir válynd veður vetrarins. Verkefni dagsins voru unnin undir öruggri  verkstjórn Benedikts Guðnasonar TF3TNT stöðvarstjóra TF3IRA. Aðrir sem hjálpuðu til voru þeir Sigurður R. Jakobsson TF3CW, Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33 og Jónas Bjarnason TF3JB. Sjá nokkrar ljósmyndir af framkvæmdum
dagsins hér fyrir neðan.

Turninn felldur og unnið að undirbúningi þess að skipta út “boom to mast” festingunni.

TF3TNT losar gömlu festinguna. Sumir boltarnir snérust í sundur strax og tekið var á þeim.

Benedikt TF3TNT gengur frá nýju festingunni. TF3-Ø33 og TF3CW slá á létta strengi og aðstoða.

Bendikt gengur frá endurtengingu og vatnsvörn tengikassa AlfaSpid RAK rótorsins.

Báðar samsetningarnar á bómu loftnetsins voru styrktar með 4 nýjum gegnumgangandi boltum.

Í fjarskiptaherbergi TF3IRA að loknum aðgerðum dagsins. TF3CW staðfesti að SteppIR’inn vinnur vel.

,

Vel heppnaður kynningarfundur í Skeljanesi

Frá kynningarfundi á vetrardagskrá Í.R.A. í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 27. september.

Vel heppnaður kynningarfundur nýrrar vetrardagskrár var haldinn í félagsaðstöðunni í Skeljanesi í gær, þann 27. september. Á fundinum var einnig opin málaskrá þar sem í boði er fyrir félagsmenn að ræða félagsstarfið við stjórn. Þrátt fyrir hvassviðri og rigningu í höfuðborginni mættu yfir 30 félagsmenn á fundinn auk gesta. Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður, annaðist kynningu dagskrár og Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ, gjaldkeri, stjórnaði opinni málaskrá.

Jónas Bjarnason TF3JB þakkaði sérstaklega þeim fjölmörgu félagsmönnum sem lagt hafa hönd á plóg.

Fram kom hjá formanni, að alls er 21 viðburður í boði á þessum fyrrihluta vetrardagskrárinnar (á starfsárinu) sem stendur yfir frá 27. september til 13. desemberog að alls 17 félagar koma að verkefninu. Meðal nýjunga má nefna, að í fyrsta skipti verður boðið upp á stöðupróf í morsi sem er í umsjá þeirra Stefáns Arndal, TF3SA og Guðmundar Sveinssonar, TF3SG. Annars verða sjö fimmtudagserindi, fjórar sunnudagsopnanir, þrjú hraðnámskeið, árlegur flóamarkaður og sýning nýrrar DVD heimildarmyndar frá DX-leiðangrinum til HKØNA. Vetrardagskránni lýkur síðan með veglegu jólakaffi Í.R.A. þann 13. desember.

Kjartan H. Bjarnason TF3BJ sagðist leggja mikla áherslu á að félagarnir hefðu tækifæri til að gefa stjórn félagsins umsögn og ábendingar um að félagið væri á réttri leið.

Fram kom m.a. hjá gjaldkera, að dagskrárliðurinn “opin málaskrá” er hugsaður til umræðna um það sem efst er á baugi hjá stjórn félagsins og til að fá umsögn og umræður félaganna um þau mál og um hver önnur þau mál sem menn óska að ræða. Umræður voru m.a. um endurvarpa félagsins, væntanlegt námskeið til amatörprófs (eftir áramót), nýtt tíðnisvið á 472-479 kHz, endurnýjun á sérstökum heimildum á 1850-1900 kHz, 5 MHz og 70 MHz. Þá var rætt um verkefni tveggja starfshópa sem nýlega voru skipaðir á vegum félagsins til umfjöllunar um neyðarfjarskiptastefnu Í.R.A. og um fjaraðgang. Loks kom félagsritið CQ TF til umfjöllunar hvað varðar þá ákvörðun stjórnar að hætta að prenta blaðið vegna mikils kostnaðar (sem menn voru sammála).

Kjartan sýndi PowerPoint glærur með yfirliti um helstu mál sem eru á döfinni hjá Í.R.A. um þessar mundir.

Kaffiveitingar á fundinum voru frá Björnsbakaríi á Seltjarnarnesi og líkuðu þær mjög vel.

Vetrardagskráin verður sett fljótlega til birtingar á rafrænu formi inn á heimasíðu félagsins. Stjórn Í.R.A. þakkar Jóni Svavarssyni, TF3LMN, fyrir meðfylgjandi ljósmyndir sem teknar voru á fundinum. Þá er ónefndum félagsmanni þakkað, sem færði félaginu að gjöf meðlæti með kaffinu þetta fimmtudagskvöld.

,

Fréttir úr Skeljanesi

1) Vetrardagskrá Í.R.A. fyrir október-desember verður kynnt 27. september n.k.
2) Námskeið til amatörprófs er fyrirhugað í febrúar-maí n.k.
3) Nýr VHF Manager Í.R.A.
4) Starfshópur til að gera tillögur um neyðarfjarskiptastefnu Í.R.A.
5) Starfshópur til að gera tillögur um stefnumótun Í.R.A. um fjaraðgang.
6) TF3W verður QRV í SSB hluta SAC keppninnar 2012.

Frá vel heppnuðum kynningarfundi vetrardagskrárinnar sem haldinn var þann 15. september 2011.

1. Vetrardagskrá Í.R.A. fyrir tímabilið október-desember 2012.
Vetrardagskrá Í.R.A. fyrir tímabilið október-desember 2012 verður kynnt fimmtudaginn 27. september n.k. Fundur hefst stundvíslega kl. 20:30 og mun Andrés Þórarinsson, TF3AM,varaformaður, kynna dagskrána sem samanstendur af alls 21 viðburði. Áhugaverðar nýjungar verða í boði að þessu sinni en alls koma 17 félagsmenn að verkefninu. Hugmyndin er, að á síðari hluta fundarins verði opin málaskrá undir stjórn Kjartans H. Bjarnasonar, TF3BJ, gjaldkera.

Hluti nemenda sem sat próf til amatörleyfis í félagsaðstöðunni við Skeljanes í maí 2011.

Benedikt Guðnason, TF3TNT

3. Nýr VHF stjóri Í.R.A.
Á stjórnarfundi þann 17. september, var samþykkt samhljóða að skipa Benedikt Guðnason, TF3TNT, VHF Manager Í.R.A. Embættið hefur ekki verið skipað um skeið, en stjórn félagsins er þeirrar skoðunar að með aukinni virkni í þessum tíðnisviðum, m.a. með tilkomu vel heppnaðra VHF leika 2012, sé kominn
tími til að skipa í embættið. Stjórn Í.R.A. býður Benedikt Guðnason, TF3TNT, velkomin til starfa og óskar honum farsældar í starfi.


4. Starfshópur til að gera tillögur neyðarfjarskiptastefnu Í.R.A.
Á stjórnarfundi þann 17. september, var samþykkt að skipa sérstakan starfshóp til að gera tillögur um neyðarfjarskiptastefnu félagins. Þeir sem skipaðir eru í starfshópinn:

Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A., formaður.
Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN, fulltrúi stjórnar.
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI.
Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY.
Jón Svavarsson, TF3LMN.
Jónas Friðgeirsson, TF3JF.


5. Starfshópur til að gera tillögur um stefnumótun Í.R.A. um fjaraðgang.
Á stjórnarfundi nr. 4/2012-2013 þann 17. september, var var samþykkt, að skipa sérstakan starfshóp er geri tillögur um stefnumótun félagsins hvað varðar fjaraðgang, að teknu tilliti til alþjóðlegrar leiðsagnar sem er til mótunar um þessar mundir. Þeir sem skipaðir eru í starfshópinn:

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX.
Kristján Benediktsson, TF3KB.
Yngvi Harðarson, TF3Y.

Sigurður R. Jakobsson TF3CW notaði kallmerkið TF2CW í síðustu SAC keppni frá QTH’i TF2LL.

6. TF3W verður QRV í SSB hluta SAC keppninnar.
Stöðvarstjóri TF3IRA hefur samþykkt að Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, virkji félagsstöðina í SSB hluta SAC keppninnar 2012 sem haldin verður helgina 13.-14. október n.k. Notað verður keppniskallmerki félagsins, TF3W.

(Höfundar ljósmynda: Mynd 1: TF3LMN. Mynd 2: TF3JB. Mynd 3: TF3LMN. Mynd 4: Björg, XYL TF3CW).

,

CQ WW RTTY keppnin 2012 er um helgina

CQ World-Wide RTTY keppnin 2012 fer fram um helgina og hefst laugardaginn 29. september. Keppnin er 48 klst. keppni, hefst á miðnætti á laugardag og lýkur tveimur sólarhringum síðar. Þetta er ein af helstu alþjóðlegum RTTY keppnum í heiminum og gera spár ráð fyrir að allt að 20 þúsund radíóamatörar muni taka þátt; en sá fjöldi skilar reyndar ekki allur keppnisdagbókum.

Reglur eru um flest líkar þeim sem gilda í CW og SSB keppnum CQ tímaritsins, en eru þó í nokkrum meginatriðum ólíkar. Sem dæmi, fer RTTY keppnin ekki fram á 160 metrum. Einnig eru margfaldarar ólíkir sem og stigagjöf. Sjá nánar reglur keppninnar eru á þessari vefslóð: http://www.cqwwrtty.com/rules.htm

Þess má geta til viðbótar, að CQ gerir þær kröfur í öllum keppnum á þeirra vegum frá og með október í ár, að skila beri gögnum til keppnisnefndar innan 5 sólarhringa eftir að keppni lýkur. Samkvæmt því er síðasti skila dagur í CQ WW RTTY keppninni 2012 þann 5. október n.k.