Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 7. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Yngvi Harðarson, TF3Y, í Skeljanes með erindið „Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum“.

Eins og flestir radíóamatörar þekkja, torvelda truflanir/suð í móttöku í fjarskiptum á stuttbylgjunni (og neðar í tíðnisviðinu) því stundum, að menn nái samböndum. Þetta er þó mismunandi eftir hverfum í þéttbýli, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Yngvi mun m.a. taka til umfjöllunar raunveruleg dæmi, bæði frá eigin QTH og annarra leyfishafa, sem sendu honum spurningar við undirbúning erindisins.

Þetta er áhugavert efni og eru félagsmenn hvattir til að mæta tímanlega.

Stjórn ÍRA.

Yngvi Harðarson TF3Y í heimsókn hjá Georg Magnússyni TF2LL í Borgarfirði í apríl fyrra (2018). Ljósmynd: Vilborg Hjartardóttir.

Fyrsta sambandið á milli íslenskra radíóamatöra um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið fór fram í dag, sunnudaginn 3. nóvember, kl. 12 á hádegi. Það var á milli þeirra Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A og Valgeirs Péturssonar, TF3VP.

Valgeir byrjaði að hlusta á tunglið með 120cm diskloftneti þann 17. september en varð svo QRV í gær, 2. nóvember. Hann notar m.a. PlutoSDR transverter og 3 magnara, 40db magnara og svo 2 x 3W sem gefa honum um 3W í sendingu. Hann notar venjulegt LNB fyrir sjónvarp fyrir móttöku.

Hamingjuóskir til þeirra félaga með fyrsta „íslenska“ sambandið um Es’hail/Oscar 100.

https://youtu.be/Tr0icqAnSMA

Námskeiðið „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ verður endurtekið í Skeljanesi 7. og 14. nóvember n.k. Ath. að nú er það haldið á fimmtudegi kl. 17-19, bæði kvöldin.

Námskeiðið er hugsað til að aðstoða menn við að byrja í loftinu, hvort heldur þeir eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf eða eldri leyfishafar. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið. Farið verður í loftið á CW, SSB, RTTY eða FT8, allt eftir óskum þátttakenda.

Í boði er að menn taki með sér eigin búnað og fái kennslu á hann. Fimmtudaginn viku síðar (14. nóvember) verður framhald þar sem nemendur ráða ferðinni og spyrja spurninga eftir að hafa prófað sig áfram í millitíðinni.

Ath. að fjöldi er takmarkaður og námskeiðið er frítt. Áhugasamir beðnir um að skrá sig sem fyrst hjá leiðbeinanda, Óskari Sverrissyni, TF3DC, í síma 862-3151.

Námskeiðið er að þessu sinni haldið í fjórða skipti og eru menn hvattir til að nýta sér þetta vinsæla námskeið. Myndin hér að ofan var tekin á fyrsta námskeiðinu sem haldið var 17. nóvember 2018. Eins og sjá má, var mikið fjör. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Óskar Sverrisson TF3DC, Mathías Hagvaag TF3MH og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 31. október.

Nýjustu tímaritin, góður félagsskapur, kaffi og meðlæti.

Ný sending af QSL kortum er komin í hús.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Frá vinstri: Kristján Benediktsson TF3KB, Yngvi Harðarson TF3Y, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Reynir Björnsson TF3JL og Jón Björnsson TF3PW. Myndin var tekin á Arduino grunnnámskeiði 6. apríl 2019. Ljósmynd: TF3JB.

Svokallaður „opinn laugardagur“ var endurtekinn í dag, 26. október. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes kl. 10 árdegis og hugmyndin var að hafa opið til kl. 14 – en tíminn leið hratt og fóru þeir síðustu ekki úr húsi fyrr en um kl. 16:30.

Hluti morgunsins fór í kynningu, en síðan aðstoðaði Ari menn við að fara í loftið frá TF3IRA um Es’Hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið. Flestir (sem fóru í loftið) prófuðu hljóðnemann, en ekki var notað mors eða stafrænar tegundir útgeislunar að þessu sinni.

Umsagnir eins og „spennandi“, „skemmtilegt“ og „hvenær hittumst við næst“ heyrðust á ganginum þegar húsinu var lokað. Alls mættu 11 félagar og 2 gestir í Skeljanes þennan heiðskíra og frostmilda fyrsta vetrardag í Reykjavík.

Stjórn ÍRA þakkar Ara fyrir vel heppnaðan viðburð.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A notaði góðan tíma til að fræða menn um í hverju fjarskipti um gervitungl væru helst frábrugðin fjarskiptum á HF böndunum. Menn kunnu vel að meta upplýsingarnar og spurðu margra spurninga.
Jón G. Guðmundsson TF3LM var áhugasamur og tók sín fyrstu sambönd um tunglið.
Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN var einnig að taka sín fyrstu sambönd um OSCAR 100. “Þetta er skemmtilegt…” sagði Sigurður.
Eftir kaffiveitingar í hádeginu, var talað um að gaman væri að sjá líka borðskjá við ICOM IC-7610 HF stöðina (eins og er við KENWOOD TS-2000 gervihnattastöðina). Þannig að þá var einfaldlega hafist handa og drifið í því. Frá vinstri: Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.
Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A leggja síðustu handtökin á tengingu borðskjánna við ICOM IC-7610 stöðina. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Anna Henriksdóttir TF3VB og Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD mættu í Skeljanes fimmtudaginn 24. október og sögðu ferðasögu þeirra og Elínar Sigurðardóttur TF2EQ á SYLRA fundinn í Noregi 6.-8. september s.l.

Þær stöllur sögðu frá ferðinni í máli og myndum og tókst afburða vel upp. Ferðasagan var fróðleg, skemmtileg, krydduð léttum húmor og veitti góða innsýn í heim kvenamatöra.

Í ferðinni var m.a. haldið upp á 20 ára afmæli SYLRA, boðið upp á erindisflutning, farið í heimsókn til Morokulien og klúbbstöðin LG5LG virkjuð, farið á sögusafnið á herragarðinum í Eidsvoll (þar sem stjórnarskrá Noregs var samin 1814), farið skoðunarferð til Charlotteborg (í Svíþjóð) og margt fleira.

Þær Anna, Vala og Elín voru í hópi 26 YL‘s frá 9 þjóðlöndum. Næsta SYLRA ráðstefna verður haldin eftir tvö ár (2021) í Finnlandi,

Vel var klappað í lok erindisins. Alls mættu 24 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta vel heppnaða fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 24. október. Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD og Anna Henriksdóttir TF3VB sögðu ferðasöguna frá SYLRA fundinum í Noregi í september s.l. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Frá vinstri: Baldvin Þórarinsson TF3-033, Kristján Benediktsson TF3KB, Óskar Sverrisson TF3DC og Jónas Bjarnason TF3JB. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Frá vinstri: Óskar Sverrisson TF3DC og Kristján Benediktsson (aftast). Fremst til vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Valtýr Einarsson TF3VG , Yngvi Harðarson TF3Y og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Frá vinstri: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Yngvi Harðarson TF3Y (snýr baki), Baldvin Þórarinsson TF3-033, Anna Henriksdóttir TF3VB og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Að loknum vel heppnuðum erindisflutningi. Frá vinstri: Guðrún Hannesdóttir TF3GD, Anna Henriksdóttir TF3VB og Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.

Við endurtökum „opinn laugardag“ á morgun, 26. október kl. 10-14 – sérstaklega fyrir þá félagsmenn sem ekki  gátu ekki mætt í Skeljanes s.l. laugardag – en að sjálfsögðu eru allir velkomnir!

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætir í Skeljanes og kynnir búnað, tækni og tól til fjarskiptanna og aðstoðar félagsmenn við að fara í loftið gegnum Es’Hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið á tali, morsi og stafrænum tegundum útgeislunar.

Menn voru sammála um s.l. laugardag, að þessi fjarskipti væru sérstök upplifun; sterk merki, engar truflanir og góður DX.

Félagsmenn eru hvattir til að koma við í Skeljanesi og fara í loftið. Kaffi verður á könnunni.

Stjórn ÍRA.

Stefán Arndal TF3SA hafði fyrstu samböndin á morsi um gervitunglið frá TF3IRA (og frá Íslandi) s.l. laugardag. Ljósmynd: TF3JB.

Næsti viðburður á vetrardagskrá ÍRA er að þær Anna Henriksdóttir TF3VB og Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD heimsækja okkur í Skeljanes fimmtudaginn 24. október.

Þær segja okkur ferðasöguna frá SYLRA fundinum í Lillestrøm 6.-8. september s.l., í máli og myndum. Þar voru þær stöllur í hópi 26 annarra YL‘s frá 9 þjóðlöndum og virkjuðu m.a. LG5LG í Morokulien.

Félagsmenn fjölmennið, dagskráin hefst stundvíslega kl. 20:30. Vandaðar kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

Anna Henriksdóttir TF3VB og Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD. Myndin var tekin í október í fyrra í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.

CQ World Wide DX SSB keppnin 2019 verður haldin 26.-27. október. CQ WW er 48 klst. keppni og hefst kl. 00:00 á laugardag og lýkur kl. 23:59 á sunnudag.

Keppnin fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Í boði eru fjölmargir keppnisriðlar, bæði fyrir einmennings- og fleirmenningsþátttöku (sjá reglur).

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum góðs gengis.

Keppnisreglur: https://www.cqww.com/rules.htm
Heimasíða keppninnar: http://www.cqww.com/

Námskeið ÍRA til amatörprófs 2019 var sett í Háskólanum í Reykjavík föstudaginn 18. október. Jón Björnsson, TF3PW, umsjónarmaður setti námskeiðið að viðstöddum Vilhjálmi Þór Kjartanssyni, TF3DX, formanni prófnefndar. Alls eru 19 þátttakendur skráðir að þessu sinni.

Námskeiðið hófst sama kvöld (18. október) og lýkur með prófi Póst- og fjarskiptastofnunar laugardaginn 14. desember. Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, formaður prófnefndar, setti upp og vann skipulag námskeiðsins. Ýmist er kennt tvo eða þrjá daga í viku, þ.e. mánudag og miðvikudag eða mánudag, þriðjudag og miðvikudag kl. 18:30-21:30. Kennarar eru tíu talsins:

Andrés Þórarinsson, TF3AM; Ágúst Úlfar Sigurðsson, TF3AU; Haukur Konráðsson, TF3HK; Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY; Hörður Mar Tómasson, TF3HM; Jón Björnsson, TF3PW; Kristinn Andersen, TF3KX; Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA; Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX og Þór Þórisson, TF1GW.

Stjórn ÍRA þakkar prófnefnd, umsjónarmanni og kennurum aðkomu að þessu mikilvæga verkefni, að ógleymdum rektor og stjórnarmönnum Háskólans í Reykjavík, fyrir aðgang að glæsilegu kennslurými skólans.

Stjórn ÍRA óskar þátttakendum góðs gengis.

Námskeiðs ÍRA til amatörprófs 2019 var sett í Háskólanum í Reykjavík 18. október. Ljósmynd: Jón Svavarsson TF3JON.