Úr félagsstarfinu. Frá erindi Andrésar Þórarinssonar TF3AM þann 12. janúar 2012. Ljósmynd: TF2JB.

Á stjórnarfundi í Í.R.A. þann 5. þ.m. var samþykkt að framlengja áður auglýstan frest til félagsmanna sem áhuga hafa á að taka sæti í starfshópi er geri tillögur um neyðarfjarskiptastefnu félagsins. Áhugasamir eru beðnir um að setja sig í samband við stjórn eða að senda tölvupóst á ira (hjá) ira.is fyrir 14. september n.k.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn verði formlega skipaður á stjórnarfundi þann 14. september. Miðað er við að hópurinn skili síðan tillögum sínum til stjórnar fyrir 13. maí 2013, með það fyrir augum að málið verði formlega til kynningar á aðalfundi félagsins 2013.

Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A., verður formaður starfshópsins og mun svara fyrirspurnum um verkefnið.

Ofangreindu til staðfestingar,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Stefán Arndal, TF3SA, við stjórnvölinn á TF3W í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi 17. september. Ljósm.: TF3JA.

IARU HF Championship keppnin 2012 fer fram um helgina og hefst laugardaginn 14. júlí kl. 12 á hádegi. Þetta er sólarhringskeppni og lýkur henni á hádegi á sunnudaginn 15. júlí. Þetta er áhugaverð keppni og að mörgu leyti aðgengileg, t.d. fyrir þá sem hafa áhuga á að stíga sín fyrstu skref á þessu sviði. Keppnisreglurnar hafa verið þýddar á íslensku (sjá vefslóð neðar).

Stutt samantekt um keppnina og keppnisflokka:

  • IARU HF Championship keppnin er opin öllum radíóamatörum.
  • Markmiðið er að hafa sambönd við eins margar stöðvar radíóamatöra eins og frekast er unnt
    um allan heim á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metra böndunum.
  • Keppnin er sólarhringskeppni. Þátttaka er heimil allt tímabil keppninnar og hvorki er áskilið að
    einmenningsstöðvar né fjölskipaðar stöðvar geri hvíldarhlé á þátttöku.
  • Flokkar þátttöku: „Einmenningsstöðvar”, „Fjölskipaðar stöðvar með einn sendi” og „Flokkur
    stöðva landsfélaga í IARU – „HQ” stöðvar”.

Í flokki einmenningsstöðva eru í boði 3 keppnisflokkar, þ.e. á tali (SSB), á morsi (CW) og á tali og morsi (SSB/CW). Í sérhverjum keppnisflokki má síðan velja um þátttöku í 3 flokkum: Háafli, lágafli eða QRP. (Háafl: Yfir 150W útgangsafl; lágafl allt að 150W útgangsafl; og QRP allt að 5W útgangsafl). Í flokki fjölskipaðra stöðva með einn sendi, er einn flokkur í boði, þ.e. á tali og morsi (SSB/CW).

Hlekkur heimasíðu keppninnar og keppnisreglur á ensku: http://www.arrl.org/iaru-hf-championship

Áður auglýst ferð TF3ML/P á Barðaströnd frestast þar til á morgun sakir þess að Breiðafjarðarferjan Baldur er fullbókuð.

Spennandi QSO gætu þó náðst á VHF-leikunum í dag við TF1JI og TF3ARI, sem verða niðri í fjöru út af Holtsós og munu reyna samband vesturúr á 6m, 4m, 2m, 70cm og 23cm.

TF3ML/P verður QRV frá Brjánslæk á Barðaströnd í dag, sunnudag. Ólafur er útbúinn með 6m, 4m, 2m, 70cm og 23cm, og mun reyna sambönd á öllum böndum. Sjá reiknaða útbreiðslu frá Brjánlæk hér: http://goo.gl/maps/dwwm

Í ofangreindu er reiknað með 145MHz og 50-100W á SSB á bílstöð eða stefnuvirku neti með 25-50W á FM (appelsínugult svæði), en rauðu svæðin ættu að nást á handstöð með rubberduck-neti. Á öðrum tíðnum er getur útbreiðsla verið betri eða verri eftir atvikum. Líklegt má teljast að fyrir hendi séu góð brot sem forritið finnur ekki, svo vel má vera að hægt sé að ná mun lengra!

TF VHF-leikarnir hófust í morgun með aðalþátttökutímabilinu 9-12. Um tugur kallmerkja var í loftinu og náðust mörg mjög skemmtileg sambönd, þ.á.m. mögulega fyrsta TF-TF-sambandið á 1,2 GHz milli TF1JI/3 í Reykjavík og TF3ML/P á Skarðsmýrarfjalli. Einnig samband á 2 og 6 metrunum á SSB frá Reykjavík austur í Hreppa, svo fátt eitt sé nefnt.

Næsta aðaltímabil er frá 9-12 í kvöld, föstudag, og svo aftur á laugardag og sunnudag – báða dagana kvölds og morgna kl 9-12. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu leikjanna http://www.ira.is/vhf-leikar/

Fimmtudagskvöldið 5. júlí kom góður gestur í heimsókn í Skeljanes frá Finnlandi, OH6SO, og samhliða fóru fram utanhúss, loftnetatilraunir á 40 og 80 metrum á vegum TF3ARI. Sjá frásögn og myndir hér á eftir.

Leila Hämäläinen OH6SO; Haraldur Þórðarson TF3HP og Ársæll Óskarsson TF3AO.

Leila Hämäläinen, OH6SO, heimsótti félagsaðstöðuna í Skeljanesi 5. júlí. Leila er býr í bænum Puuppola í Finnlandi, sem er um 250 km fyrir utan Helsinki og millilenti á Íslandi á heimleið frá Kanada. Maður hennar og dóttir eru einnig leyfishafar, Jari OH6PX og Heidi OH6SX. Leila er félagsmaður í SYLRA (Scandinavian YL Radio Amateurs) en sagðist ekki vera virk í samtökunum nú um stundir. Hún var mjög hrifin af aðstöðu Í.R.A í Skeljanesi og bað fyrir góðar kveðjur til íslenskra radíóamatöra.
__________

Fyrr um kvöldið kom Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI, með ferðaturn sinn og reisti (“blés upp”) á grasflötinni fyrir utan bílastæðið í Skeljanesi. Turninn er af afar óvanalegri gerð, kemst fyrir í ferðatösku og er síðan blásinn upp á ótrúlega fáum mínútum (með sérstökum blásara). Turninn, sem er keyptur frá Bandaríkjunum, nær 12 metra hæð. Festingar eru fyrir kóaxkapal með “frönskum rennilásum” upp eftir turninum auk þess sem setja má fíberrör efst. Það gerði Ari og festi efst í það svokallað “Double Bazooka” loftnet fyrir 40m og 80m böndin. Sjá myndir hér fyrir neðan.

Turninum er einfaldlega “rúllað út” eftir jörðunni, blásarinn tengdur og “voila” upp fer turninn

Turninn orðinn blásinn upp að hluta. Ari lagar hann til og gerir kláran fyrir aukinn þrýsting.

Óðinn Þór TF2MSN aðstoðar. Ari Þór TF3ARI og Mathías Hagvaag TF3-035 koma til aðstoðar.

Síðustu handtökin. TF2MSN og TF3ARI ganga frá festingum og stögum fyrir “Bazooka” loftnetið.

Turninn kominn upp, alls 12 metrar, “Bazooka” loftnetið tengt og TF3ARI er QRV fyrir heiminn úr bílnum.

TF3ARI/m kominn í loftið. Haraldur Þórðarson TF3HP fylgdist með af áhuga og þurfti margs að spyrja.

Stefán TF3S og Mathías TF3-035 voru mjög hrifnir, en viðurkenndu að hafa verið nokkuð “skeptískir” fyrst…

Guðmundur Löve, TF3GL, umsjónarmaður TF VHF-leikanna hefur sett eftirfarandi skilaboð inn á póstlista Í.R.A. og eru þau birt hér á heimasíðunni, hafi menn misst af þeim:

Sjá hér skjal þar sem þeir sem vilja, geta skráð inn fyrirætlanir sínar í VHF-leikum á föstudag, laugardag og sunnudag, skipt eftir þátttökutímabilum kl 9-12 kvölds og morgna: https://docs.google.com/spreadsheet/ccc?key=0Atyqn1jkuJAldFE4aW9oQ2JvLWE2UTdsUWZ\mVmoybmc

Ég minni á vefsíðu leikanna, þar sem m.a. má finna radíódagbók í Excel-formi sem kjörið er að hafa í tölvunni eða prenta út, auk þátttökureglna.: http://www.ira.is/vhf-leikar/

Loks bið ég engan að örvænta þótt ekki verði tugir manna til að skrá fyrirætlanir sínar í þetta lifandi “sked-skjal”. Allir sem eru í loftinu geta gefið þátttakendum gilt samband og þetta á bara að vera áreynslulaust og gaman (smile)

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til þátttöku í fyrstu TF VHF-leikunum!

Fyrsta sambandið sem vitað er um að haft hafi verið hérlendis á D-Star tegund stafrænnar útgeislunar (e. Digital Smart Technologies for Amateur Radio) var haft á 144 MHz þann 30. júní. Það voru þeir Jón Ingvar Óskarsson, TF1JI og Ólafur Helgi Ólafsson, TF3ML, sem höfðu sambandið á milli Eyjafjalla og Garðabæjar; fjarlægð er tæpir 110 km.

Jón Ingvar notaði Icom IC-E92D handstöð sem keyrð var gegnum Vectronics RF-magnara sem gaf út um 20W og Ólafur notaði Icom IC-9100 100W sendi-/móttökustöð. Báðir notuðu stefnuvirk loftnet, Jón heimasmíðaðan 9 staka Yagi og ólafur 4 staka Quad. Að sögn Jóns, voru gæði merkjanna framúrskarandi góð.

Fyrir þá sem vilja kynna sér D-Star, má benda á ágæta grein eftir TF3JA í 4. tbl. CQ TF 2009.

Þá má benda á bæklinginn Nifty E-Z Guide to D-STAR Operation sem fyrst kom út 2009. Sjá vefslóðina: http://www.niftyaccessories.com/E-Z%20D-STAR%20Guide.htm

Innheimta félagsgjalda Í.R.A. stendur nú yfir og hófst með útsendingu gíróseðla til félagsmanna þann 13. júní s.l. Samkvæmt félagslögum er Innheimt eftir tvennskonar félagsaðild, þ.e. fyrir félagsmenn á aldrinum 16-66 ára og fyrir félagsmenn á aldrinum 67 ára og eldri, maka félagsmanna og yngra fólk en 16 ára. Fyrrnefndi hópurinn greiðir fullt gjald, 6000 krónur og síðarnefndi hópurinn greiðir hálft gjald, 3000 krónur. Fjárhæð árgjalds var ákveðin á aðalfundi félagsins þann 19. maí s.l.

Yfirstandandi félagsár sem nú er til innheimtu er fyrir tímbilið 2012/2013, þ.e. 12 mánaða tímabilið júní 2012 til maí 2013. Félagsgjaldið hafði verið óbreytt að krónutölu í þrjú ár (2009, 2010 og 2011) en hafði fyrir þann tíma, verið lækkað úr 5000 krónum í 4000 krónur eftir efnahagshrunið 2008. Félagsmenn sem ekki hafa fengið erindi um greiðslu félagsgjalds, vilja fá heimild til að skipta greiðslu eða eiga annað erindi við gjaldkera vegna innheimtunnar, eru beðnir að snúa sér til undirritaðs.

73,
Kjartan H. Bjarnason, TF3BJ,
gjaldkeri Í.R.A.
(kjartan(hjá)skyggnir.is)

Næsta hefti CQ TF fer í vinnslu í vikunni og gefinn hafði verið skilafrestur efnis til loka þessara helgar, 24. júní. Ef félagar ÍRA hafa efni til að senda í blaðið má senda ritstjóra það, eða láta vita að efni sé væntanlegt á næstu dögum.

Eins og venjulega aðstoðar ritstjóri við að skrifa texta ef þess er óskað, nóg er að senda nokkrar línur eða slá á þráðinn með hugmyndir og ábendingar sem hægt er svo að vinna með.

Blaðið verður í vinnslu núna í vikunni og félagsmenn eru hvattir til að leggja því lið með frásögnum, myndum, eða ábendingum um áhugavert efni.

73 – Kiddi, TF3KX, ritstjóri CQ TF
Netfang: cqtf@ira.is
GSM: 825-8130

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar H.Í. í Leirvogi. Mælingar hafa verið gerðar frá 1957.

Töluverðar truflanir hafa verið í segulsviðinu s.l. sólarhring. Linuritin neðar á síðunni sýna það sem hefur verið að gerast síðastliðinn sólarhring, þ.e. frá hádegi 16. júní til hádegis 17. júní. Á hádegi í dag, þann 17. júní, stóð K-gildið í rúmlega 6, en vísun yfir 5 er flokkuð sem segulstormur. Skilyrðaspár eru þess efnis að truflanir haldi áfram í dag og að ójafnvægis muni gæta eitthvað áfram.

Efsta línuritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttanstyrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna. Z og H eru sýnd í einingunum nanotesla(nT), en D er sýnt í gráðum sem reiknast sólarsinnis frá norðri um austur upp í 360°. Ef D er t.d. 346° merkir það að misvísun áttavitans í Leirvogi er 346° til austurs eða 14° til vesturs (360-346 = 14). Meðalmisvísun á Reykjavíkursvæðinu er um 2° meiri til vesturs og væri þá um 16° V í þessu dæmi.

Gögn eru endurnýjuð á tíu mínútna fresti. Sjá nánar vefslóð: http://www.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html
Sjá einnig upplýsingar á þessari vefslóð: http://www.solen.info/solar/

Loftnet TF8RPH er staðsett á turninum við vitavarðarhúsið. Ljósmynd: TF8SM.

Eftir töluverða skoðun, hefur verið ákveðið að skipta tónlæsingu endurvarpans TF8RPH á Garðskaga á ný yfir á hefðbundna tónlæsingu, CTCSS, og verður endurvarpanum breytt samkvæmt því í dag, laugardaginn 16. maí, kl. 16:00. Sami tónn verður notaður og áður, þ.e. á 88,5 riðum. Stöðin verður
áfram stillt á “wideband” mótun. Þessi breyting er hugsuð til framtíðar.

Þegar skipt var yfir á DCS tónlæsingu þann 4. júní s.l., samþykkti stjórn félagsins að það yrði gert með þeim fyrirvara, að ekki kæmu sérstakir annmarkar í ljós. Líkt og fram kom á póstlista félagsins strax degi síðar (5. júní) og víðar, hefur komið á daginn, að jafnvel verksmiðjuframleiddar stöðvar á markaði fram undir
árið 2006 voru ekki búnar stafrænni tónlæsingu (DCS). Um er að ræða þekktar gerðir stöðva frá stórum framleiðendum eins og Icom og Kenwood.

Í ljósi þessa, verður skipt yfir á fyrri tónlæsingu síðar í dag eins og fram kemur að ofan. Um leið verður auðkenni endurvarpans á morsi stytt og “skottið” í sendingu úr 1 sek. í 0,5 sek. TF8RPH tekur á móti á tíðninni 145.125 MHz og sendir út á tíðninni 145.725 MHz. Líkt og áður hefur komið fram, er hægt að hlusta á sendingar frá TF8RPH í venjulegu viðtæki eða stöð, þ.e. ekki þarf að afkóða sendingar í móttöku.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI og Sigurðar Smári Hreinsson TF8SM hafa góðfúslega tekið að sér að annast ofangreindar breytingar.

F.h. stjórnar Í.R.A.

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.

Haraldur Sigurðsson, TF3A, hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað, RST 000.

Sonur hans, Haukur Þór Haraldsson, TF3NAN, hefur sent erindi til félagsins þess efnis að faðir hans hafi látist á líknardeild Landspítalans í gær, 14. júní. Haraldur var á 81. aldursári, leyfishafi nr. 26 og heiðursfélagi í Í.R.A.

Um leið og við minnumst Haraldar með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.