Sunnudaginn 17. nóvember kl. 11 árdegis verða svokallaðar „sófaumræður“ í Skeljanesi; þær fyrstu á yfirstandandi vetrardagskrá. Til umfjöllunar verða viðurkenningar radíóamatöra. Jónas Bjarnason, TF3JB, leiðir umræður.

Viðurkenningar hafa fylgt áhugamálinu í tæp 100 ár. Leitast verður við að svara nokkrum grundvallarspurningum, þ.á.m.:

  • Hvað eru viðurkenningar radíóamatöra?
  • Fyrir hvað standa þær til boða?
  • Hvað þurfa menn að gera til að fá þær?
  • Hverjir gefa þær út?
  • Hvað gerir maður síðan við viðurkenningarnar?

Sófaumræður eru það fyrirkomulag, þegar boðið er upp á umræður á messutíma sem eru hugsaðar sem afslappaðar, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra sófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni, leiðir síðan umræðuna og svarar spurningum.

Húsið opnar kl. 10:30. Vandaðar kaffiveitingar frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 14. nóvember.

Nýjustu tímaritin, góður félagsskapur, kaffi og meðlæti.

Ný sending af QSL kortum verður komin í hús.

Ath.: Áður auglýst erindi Valgeirs Péturssonar TF3VP þennan dag „Að smíða RF magnara fyrir HF böndin og fleira“ frestast af óviðráðanlegum ástæðum og verður auglýst síðar.

Stjórn ÍRA.

Alltaf fjör í Skeljanesi. Anna Henriksdóttir TF3VB, Guðrún Hannesdóttir TF3GD og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB. Í fjarlægð: Jón Björnsson TF3PW. Myndin var tekin í félagsaðstöðu ÍRA 25.10.2019. Mynd: TF3JB.

Áður auglýstar “sófaumræður” á morgun, sunnudag 10. nóvember, frestast um viku.

Þess í stað verður viðburðurinn á dagskrá sunnudaginn 17. nóvember kl. 11 árdegis.

Beðist er velvirðingar á þessari breytingu.

Stjórn ÍRA.

Yngvi Harðarson, TF3Y, mætti í Skeljanes á vetrardagskrá ÍRA þann 7. nóvember með erindið „Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum“.

Hann fjallaði um truflanir á HF; mismunandi tegundir, hvernig þær berast í viðtækið og kynnti aðferðir til að minnka þær. Hann upplýsti um helstu uppsprettur og dreifileiðir og sýndi m.a. áhugaverð sýnishorn af truflanavöldum á 40 metrunum frá NK7Z.

Yngvi kynnti og fór yfir sjö leiðir til að fást við vandann: (1) Fjarlæga uppsprettuna (alltaf best); (2) Færa viðtæki frá truflun; (3) Nota stefnuvirkt loftnet (s.s. magnetíska lúppu); (4) Nota fösun merkja; (5) SDR tækni, þ.e. 2 x RX með einum sveifluvaka; (6) DSP tækni; og (7) Aðferðir 3-6 saman.

Síðari hluti erindisins var verklegur. Eftirfarandi búnaður var notaður: NCC-1 (Receive Antenna Variable Phasing Controller fyrir 0.3-30 MHz) frá DxEngineering, RSPDuo SDR viðtæki frá SDRPlay (fyrir 1 kHz til 2 GHz) og Elecraft KX2 sendi-/viðtæki (fyrir 3.5-29.7 MHz), auk MFJ-1025 (Noise cancel/signal enhancer).

Kóaxkaplar höfðu verið lagðir frá fjarskiptaherbergi félagsins niður í fundarsal og var m.a. til afnota 4 staka YAGI loftnet TF3IRA fyrir 20 metrana og sambyggt stangarloftnet TF3IRA fyrir 10, 15, 20, 40 og 80 metra böndin.

Yngvi tengdi þennan búnað og var afar áhrifaríkt að sjá hann virka. Hann svaraði mörgum spurningum fundarmanna og sökum áhuga dróst til kl. 22:30 að taka kaffihlé. Niðurstaða: Það er sumsé hægt að sigrast í truflunum!

Alls mættu 41 félagsmaður og 2 gestir í Skeljanes þetta kyrrláta snemmvetrarkvöld í Vesturbænum. Bestu þakkir til Yngva fyrir áhugavert, fróðlegt, skemmtilegt og vel flutt erindi.

Glærur frá erindi Yngva: http://bit.ly/2PYZFPH

Skeljanesi 7. nóvember. Yngvi Harðarson TF3Y kynnir erindið “Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum”. Ljósmynd: TF3SB.
Aðsókn var mikil á erindi Yngva, alls 43, þannig að menn þurftu að standa (en salurinn rúmar 40 manns í sæti). Ljósmynd: TF3JB.

Óskar Sverrisson, TF3DC, leiðbeindi á námskeiðinu: „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ sem var haldið í Skeljanesi fimmtudaginn 7. nóvember.

Námskeiðið er hugsað til að aðstoða menn við að byrja í loftinu, hvort heldur þeir eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf eða eldri leyfishafar. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið.

Að þessu sinni voru þátttakendur tveir (en tveir til viðbótar þurftu að hætta við vegna vinnu) en reiknað er með fjórum að hámarki. Þegar tíðindamann bar að garði laust fyrir kl. 18:30 var verkefnið í fullum gangi, sbr. meðfylgjandi ljósmynd. Fyrirkomulag var þannig, að farið er yfir grundvallaratriði, s.s. reglugerðina og viðauka hennar, uppsetningu stöðvar og loftnets, tæknileg öryggisatriði, mikilvægi þess að hlusta, skráningu í fjarskiptadagbók o.fl. Síðan er farið yfir stillingar stöðvar á morsi, tali RTTY og FT8.

Þegar tíðindamaður yfirgaf staðinn var líflegt í fjarskiptaherbergi TF3IRA og menn afar ánægðir með námskeiðið. Þeir munu síðan mæta aftur á sama stað að viku liðinni og treysta sig enn frekar í fjarskiptum á böndunum.

Nemendur Óskars voru að þessu sinni þeir Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN og Gunnar Bergþór Pálsson, TF-017, sem er einmitt nemandi á námskeiði félagsins til amatörprófs sem haldið er um þessar mundir.

Fjörugt í Skeljanesi. Frá vinstri: Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Óskar Sverrisson TF3DC leiðbeinandi og Gunnar Bergþór Pálsson TF3-Ø17. Fullbókað var á námskeiðið (sem miðast við fjóra), en tveir þurftu að hætta við vegna vinnu. Ljósmynd: TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 7. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Yngvi Harðarson, TF3Y, í Skeljanes með erindið „Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum“.

Eins og flestir radíóamatörar þekkja, torvelda truflanir/suð í móttöku í fjarskiptum á stuttbylgjunni (og neðar í tíðnisviðinu) því stundum, að menn nái samböndum. Þetta er þó mismunandi eftir hverfum í þéttbýli, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Yngvi mun m.a. taka til umfjöllunar raunveruleg dæmi, bæði frá eigin QTH og annarra leyfishafa, sem sendu honum spurningar við undirbúning erindisins.

Þetta er áhugavert efni og eru félagsmenn hvattir til að mæta tímanlega.

Stjórn ÍRA.

Yngvi Harðarson TF3Y í heimsókn hjá Georg Magnússyni TF2LL í Borgarfirði í apríl fyrra (2018). Ljósmynd: Vilborg Hjartardóttir.

Fyrsta sambandið á milli íslenskra radíóamatöra um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið fór fram í dag, sunnudaginn 3. nóvember, kl. 12 á hádegi. Það var á milli þeirra Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A og Valgeirs Péturssonar, TF3VP.

Valgeir byrjaði að hlusta á tunglið með 120cm diskloftneti þann 17. september en varð svo QRV í gær, 2. nóvember. Hann notar m.a. PlutoSDR transverter og 3 magnara, 40db magnara og svo 2 x 3W sem gefa honum um 3W í sendingu. Hann notar venjulegt LNB fyrir sjónvarp fyrir móttöku.

Hamingjuóskir til þeirra félaga með fyrsta „íslenska“ sambandið um Es’hail/Oscar 100.

https://youtu.be/Tr0icqAnSMA

Námskeiðið „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ verður endurtekið í Skeljanesi 7. og 14. nóvember n.k. Ath. að nú er það haldið á fimmtudegi kl. 17-19, bæði kvöldin.

Námskeiðið er hugsað til að aðstoða menn við að byrja í loftinu, hvort heldur þeir eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf eða eldri leyfishafar. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið. Farið verður í loftið á CW, SSB, RTTY eða FT8, allt eftir óskum þátttakenda.

Í boði er að menn taki með sér eigin búnað og fái kennslu á hann. Fimmtudaginn viku síðar (14. nóvember) verður framhald þar sem nemendur ráða ferðinni og spyrja spurninga eftir að hafa prófað sig áfram í millitíðinni.

Ath. að fjöldi er takmarkaður og námskeiðið er frítt. Áhugasamir beðnir um að skrá sig sem fyrst hjá leiðbeinanda, Óskari Sverrissyni, TF3DC, í síma 862-3151.

Námskeiðið er að þessu sinni haldið í fjórða skipti og eru menn hvattir til að nýta sér þetta vinsæla námskeið. Myndin hér að ofan var tekin á fyrsta námskeiðinu sem haldið var 17. nóvember 2018. Eins og sjá má, var mikið fjör. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Óskar Sverrisson TF3DC, Mathías Hagvaag TF3MH og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 31. október.

Nýjustu tímaritin, góður félagsskapur, kaffi og meðlæti.

Ný sending af QSL kortum er komin í hús.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Frá vinstri: Kristján Benediktsson TF3KB, Yngvi Harðarson TF3Y, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Reynir Björnsson TF3JL og Jón Björnsson TF3PW. Myndin var tekin á Arduino grunnnámskeiði 6. apríl 2019. Ljósmynd: TF3JB.

Svokallaður „opinn laugardagur“ var endurtekinn í dag, 26. október. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes kl. 10 árdegis og hugmyndin var að hafa opið til kl. 14 – en tíminn leið hratt og fóru þeir síðustu ekki úr húsi fyrr en um kl. 16:30.

Hluti morgunsins fór í kynningu, en síðan aðstoðaði Ari menn við að fara í loftið frá TF3IRA um Es’Hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið. Flestir (sem fóru í loftið) prófuðu hljóðnemann, en ekki var notað mors eða stafrænar tegundir útgeislunar að þessu sinni.

Umsagnir eins og „spennandi“, „skemmtilegt“ og „hvenær hittumst við næst“ heyrðust á ganginum þegar húsinu var lokað. Alls mættu 11 félagar og 2 gestir í Skeljanes þennan heiðskíra og frostmilda fyrsta vetrardag í Reykjavík.

Stjórn ÍRA þakkar Ara fyrir vel heppnaðan viðburð.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A notaði góðan tíma til að fræða menn um í hverju fjarskipti um gervitungl væru helst frábrugðin fjarskiptum á HF böndunum. Menn kunnu vel að meta upplýsingarnar og spurðu margra spurninga.
Jón G. Guðmundsson TF3LM var áhugasamur og tók sín fyrstu sambönd um tunglið.
Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN var einnig að taka sín fyrstu sambönd um OSCAR 100. “Þetta er skemmtilegt…” sagði Sigurður.
Eftir kaffiveitingar í hádeginu, var talað um að gaman væri að sjá líka borðskjá við ICOM IC-7610 HF stöðina (eins og er við KENWOOD TS-2000 gervihnattastöðina). Þannig að þá var einfaldlega hafist handa og drifið í því. Frá vinstri: Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.
Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A leggja síðustu handtökin á tengingu borðskjánna við ICOM IC-7610 stöðina. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Anna Henriksdóttir TF3VB og Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD mættu í Skeljanes fimmtudaginn 24. október og sögðu ferðasögu þeirra og Elínar Sigurðardóttur TF2EQ á SYLRA fundinn í Noregi 6.-8. september s.l.

Þær stöllur sögðu frá ferðinni í máli og myndum og tókst afburða vel upp. Ferðasagan var fróðleg, skemmtileg, krydduð léttum húmor og veitti góða innsýn í heim kvenamatöra.

Í ferðinni var m.a. haldið upp á 20 ára afmæli SYLRA, boðið upp á erindisflutning, farið í heimsókn til Morokulien og klúbbstöðin LG5LG virkjuð, farið á sögusafnið á herragarðinum í Eidsvoll (þar sem stjórnarskrá Noregs var samin 1814), farið skoðunarferð til Charlotteborg (í Svíþjóð) og margt fleira.

Þær Anna, Vala og Elín voru í hópi 26 YL‘s frá 9 þjóðlöndum. Næsta SYLRA ráðstefna verður haldin eftir tvö ár (2021) í Finnlandi,

Vel var klappað í lok erindisins. Alls mættu 24 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta vel heppnaða fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 24. október. Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD og Anna Henriksdóttir TF3VB sögðu ferðasöguna frá SYLRA fundinum í Noregi í september s.l. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Frá vinstri: Baldvin Þórarinsson TF3-033, Kristján Benediktsson TF3KB, Óskar Sverrisson TF3DC og Jónas Bjarnason TF3JB. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Frá vinstri: Óskar Sverrisson TF3DC og Kristján Benediktsson (aftast). Fremst til vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Valtýr Einarsson TF3VG , Yngvi Harðarson TF3Y og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Frá vinstri: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Yngvi Harðarson TF3Y (snýr baki), Baldvin Þórarinsson TF3-033, Anna Henriksdóttir TF3VB og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Að loknum vel heppnuðum erindisflutningi. Frá vinstri: Guðrún Hannesdóttir TF3GD, Anna Henriksdóttir TF3VB og Vala Dröfn Hauksdóttir TF3VD. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.

Við endurtökum „opinn laugardag“ á morgun, 26. október kl. 10-14 – sérstaklega fyrir þá félagsmenn sem ekki  gátu ekki mætt í Skeljanes s.l. laugardag – en að sjálfsögðu eru allir velkomnir!

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætir í Skeljanes og kynnir búnað, tækni og tól til fjarskiptanna og aðstoðar félagsmenn við að fara í loftið gegnum Es’Hail-2/P4A / Oscar 100 gervitunglið á tali, morsi og stafrænum tegundum útgeislunar.

Menn voru sammála um s.l. laugardag, að þessi fjarskipti væru sérstök upplifun; sterk merki, engar truflanir og góður DX.

Félagsmenn eru hvattir til að koma við í Skeljanesi og fara í loftið. Kaffi verður á könnunni.

Stjórn ÍRA.

Stefán Arndal TF3SA hafði fyrstu samböndin á morsi um gervitunglið frá TF3IRA (og frá Íslandi) s.l. laugardag. Ljósmynd: TF3JB.