Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði áfram lokuð fimmtudaginn 27. janúar.

Ákvörðunin byggir á reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem gildir til 2. febrúar n.k. þar sem fjöldatakmarkanir miðast nú við mest 10 manns. Og ennfremur á yfirlýsingu ríkislögreglustjóra frá 11. þ.m. janúar, um neyðarstig almannavarna vegna Covid-19.

Ákvörðunin gildir fyrir fimmtudag 27. janúar. Athugað verður með að auglýsa opnun á ný strax og aðstæður leyfa.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

CQ World Wide 160 metra morskeppnin fer fram um næstu helgi. Keppnin hefst á föstudag 28. janúar kl. 22:00 og lýkur á sunnudag 30. janúar kl. 22:00. Markmiðið er að ná eins mörgum samböndum og unnt er við aðrar stöðvar radíóamatöra um allan heim á keppnistímanum.

QSO punktar.
Sambönd við TF stöðvar 2 punktar; innan Evrópu 5 punktar; utan Evrópu 10 punktar og við /MM stöðvar 5 punktar.

Margfaldarar.

  • Einingar á DXCC lista.
  • Lönd á WAE lista. Þau eru: GM (Hjaltlandseyjar), IG9/IH9 (Lampedusa og Pantelleria eyjar), IT, JW (Bjarnareyja), TA1 (Evrópuhluti Tyrklands) og 4U1VIC.
  • 48 ríki Bandaríkjanna (e. contiguous states) og „District of Columbia (DC)“.
  • 14 fylki Kanada: VO1, VO2, NB, NS, PEI (VY2), VE2, VE3, VE4, VE5, VE6, VE7, VE8 (NWT), VY1 (YUK), VY0.

Leyfilegt tíðnisvið í keppninni á IARU Svæði 1 (okkar svæði) er 1810-2000 kHz. Ath. að leyfishafar sem ætla að vinna á tíðnisviðinu 1850-1900 kHz  þurfa að hafa sótt um tíðni- og aflheimildir til Fjarskiptastofu fyrir keppnina. Keppnisreglur: https://www.cqww.com/

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Ávarpsbréf til nýrra félaga er tilbúið og lauk vinnu við það í byrjun janúar. Um er að ræða 3. útgáfu. Bæklingurinn er hluti af upplýsingum sem sendar eru til nýrra félaga, sem jafnframt fá send lög félagsins, nýjasta CQ TF og nýjustu ársskýrslu. Sjá má ávarpsbréfið á þessari vefslóð:

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2022/01/Avarp_2022.pdf

Útgáfuform er óbreytt, þ.e. opna í stærðinni A4 (fjórar blaðsíður) sem prentaðar í lit. Ávarpsbréfið veitir innsýn í starfsemi ÍRA og tæpir á helstu þjónustuþáttum við félagsmenn. Efnið verður einnig til aflestrar á heimasíðu félagsins.

Verkefnið var unnið af stjórn félagsins en umbrot var í öruggum höndum Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS.

Stjórn ÍRA.

Airspy R2 SDR viðtækið í Perlunni í Reykjavík komst í lag í dag, 21. janúar. Það hafði verið úti í nokkurn tíma vegna bilunar. Tiðnispan þess er frá 24 MHz til 1800 MHz. Vefslóð: http://perlan.utvarp.com/ Þakkir til Karls Georgs Karlssonar, TF3CZ.

KiwiSDR viðtækið á Raufarhöfn verður væntanlega komið í lag fyrir kvöldið (21. janúar) en það hefur verið úti síðasta sólarhringinn. Tíðnispan þess er frá 10 kHz til 30 MHz. Vefslóð: http://raufarhofn.utvarp.com/

Kiwi SDR viðtækin í Bláfjöllum, Bjargtöngum og í Vík í Mýrdal eru í góðu lagi.

Stjórn ÍRA.

Uppfært 21. janúar kl. 17:04 – Viðtækið á Raufarhöfn komið inn! Þakkir til Rögnvaldar Helgasonar, TF3-055.

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð fimmtudaginn 20. janúar.

Ákvörðunin byggir á reglugerð heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem gildir til 2. febrúar n.k. þar sem fjöldatakmarkanir miðast nú við mest 10 manns. Og ennfremur til yfirlýsingar ríkislögreglustjóra frá 11. þ.m. janúar, um neyðarstig almannavarna vegna Covid-19, sem enn er í gildi.

Ákvörðunin gildir fyrir fimmtudag 20. janúar. Athugað verður með að auglýsa opnun á ný strax og aðstæður leyfa.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Aftur mættu menn í Skeljanes í birtingu í morgun, laugardaginn 15. janúar. Verkefni dagsins var að ljúka við að treysta loftnetsvirki TF3IRA. Það gekk eftir og var aðgerðum lokið um kl. 13. Turn, loftnet og rótor eiga því að standast íslenskt vetrarveður á ný.

Sigurður Harðarson, TF3WS hafði hannað og smíðað öflugan ramma sem boraður var á skorsteininn og náði utan um turninn. Hann var settur upp fyrir neðan strekkjarana (sbr. ljósmynd). Þeir Georg Kulp, TF3GZ hjálpuðust að við að setja upp og stilla búnaðinn.

Siggi hafði einnig smíðað nýjan og öflugri „hjálparfót“ í stað þess sem hafði verið settur upp til bráðabirgða daginn áður (sbr. ljósmynd). Veðuraðstæður voru hinar ákjósanlegustu, logn (að mestu) og -1°C frost.

Það voru þeir Georg Kulp, TF3GZ; Sigurður Harðarson, TF3WS og Jónas Bjarnason, TF3JB sem mættu á svæðið, auk Benedikts Sveinssonar, TF3T.

Þakkir til þessara félaga fyrir framúrskarandi góða aðkomu að verkefninu.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 15. janúar. Aðgerðum lokið. Nýi ramminn sem festur er í skorsteininn sést vel á myndinni.
Sigurður Harðarson TF3WS og Georg Kulu TF3GZ festa kjálkunum fyrir rammann á skorsteininn.
Nýi “hjálparfóturinn” er öflugur og kemur í stað turnfótarins sem brotnaði.
Verklok laugardaginn 15. janúar. Sigurður Harðarson TF3WS og Georg Kulp TF3GZ ánægðir með vel heppnað verk. Myndir: TF3JB.

Ritstjóri vekur athygli á að enn er hægt að senda efni í næsta tölublað CQ TF þar sem frestur rennur ekki út fyrr en um helgina.

Nýja blaðið kemur út sunnudaginn 28. janúar n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Nýjung er, að félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Fyrirfram þakkir og 73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Vaskur hópur félagsmanna mætti í Skeljanes í birtingu í morgun (13. janúar) til að treysta loftnetsvirki TF3IRA og var aðgerðum lokið kl. 15. Það hefur nú verið tryggt til bráðabirgða. Verkefninu verður síðan lokið við fyrsta tækifæri.

Georg Kulp, TF3GZ byrjaði fyrstur og rauf op í bárujárnsvegginn (sjávarmegin) á lóðinni til að opna aðgang að turnfestingunni. Það var mjög til þæginda því þar með var aðgangur greiður til athafna þar sem turnfóturinn stendur þétt upp við bárujárnið.

Sigurður Harðarson, TF3WS tók við. Hann festi öflugan handstrekkjara til að rétta turninn af og var tóg bundið í dráttarkúluna á jeppabifreið hans til öryggis. Síðan festi Siggi flatjárn við turnfótinn (þar sem festingin hafði brotnað). Hinn endinn var festur í múrbolta sem hann boraði fyrir í steypuvegginn (sjá myndir).

Veður var rysjótt á köflum, mikill strekkingur og kalt og gekk á með hríðarveðri, sérstaklega eftir kl. 14.30, en verkefninu var lokið laust fyrir kl. 15.

Það voru þeir Benedikt Sveinsson, TF3T; Georg Kulp, TF3GZ; Sigurður Harðarson, TF3WS og Jónas Bjarnason, TF3JB sem mættu á svæðið. Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY var til ráðgjafar.

Þakkir til þessara félaga fyrir snögg viðbrögð og framúrskarandi góða aðkomu að verkefninu.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 13. janúar. Turninn reistur rétt fyrir kl. 15. Sigurður Harðarson TF3WS tekur saman verkfærin og gengur frá.
Georg Kulp TF3GZ rauf op í bárujárnsvegginn sem opnaði agöngu að turnfætinum og flýtti mjög fyrir vinnu dagsins.
Sigurður Harðarson TF3WS gerir sig kláran til að ganga frá og festa flatjárnið sem sett var upp til styrktar í stað turnfótarins sem hafði gefið sig.
Verkefnið var í höfn laust fyrir kl. 15. Eins og sjá má á myndinni er Sigurður TF3WS kuldalegur að sjá (en hress) þrátt fyrir 2 klst. útivist í strekkingi og hríðarveðri. Ljósmyndir: TF3JB.

Um kl. 14 í dag, 12. janúar, uppgötvaðist að einn af þremur fótum turnsins sem heldur uppi 4 staka OptiBeam YAGI loftneti TF3IRA hafði brotnað í veðrinu en mjög hvasst hefur verið í Skeljanesi sem og annarsstaðar á landinu undanfarið. Annar fótur turnsins virðist einnig vera laskaður. Vegna þessa hallar turninn sjáanlega, sbr. meðfylgjandi ljósmyndir.

Benedikt Sveinsson, TF3T (sem býr í nágrenninu) var snöggur á staðinn með bönd og strekkjara og upp úr kl. 15 var vinnu lokið við að treysta turninn eins vel og hægt var. Ákveðið var á þeim tímapunkti að gera ekki meira í dag, enda stutt í myrkur.

Sérstakar þakkir til Benedikts, TF3T fyrir verðmæta aðstoð. Ennfremur til Guðmundar Birgis Pálssonar, TF3AK sem mætti á staðinn með keðjur og strekkjara og til þeirra fjölmörgu sem hringdu og buðu fram aðstoð. Næsta skref er að hefjast handa á morgun þegar birtir.

Turninn og loftnetið var sett upp í nóvember 2018 og hefur reynst vel.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 12. janúar. Guðmundur Birgir TF3AK sést á myndinni.
Skeljanesi 12. janúar kl. 15. Annað sjónarhorn. Aðgerðum lokið í dag. Benedikt TF3T virðir fyrir sér turnfestinguna. Myndir: TF3JB.

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð fimmtudaginn 13. janúar.

Ákvörðunin byggir á gildandi tilskipun heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, en sér í lagi vegna ríkjandi óvissu í ljósi mikillar útbreiðsla faraldursins í þjóðfélaginu, þar sem ríkislögreglustjóri lýsti í gær, 11. janúar, yfir neyðarstigi almannavarna vegna Covid-19 í samráði við sóttvarnalækni. Nánar er vísað í umfjöllun í fjölmiðlum.

Ákvörðunin gildir fyrir fimmtudag 13. janúar. Athugað verður með að auglýsa opnun á ný strax og aðstæður leyfa.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) í síðustu viku ársins 2021; 26.-31. desember.

Alls fengu 19 íslenskir radíóamatörar skráningu að þessu sinni. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), RTTY og tali (SSB) á 10, 12, 15, 17, 20, 30, 40, 60, 80 og  160 metrum, auk QO-100 gervitunglsins.

Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/  Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar. Fyrst er skráð kallmerki, þá teg. útgeislunar og band/bönd:

TF1A                   FT8 á 10 og 12 metrum.
TF1AM                SSB á 15 metrum.
TF1CB                  SSB á 20 metrum.
TF1EIN                 FT8 á 40 metrum.
TF1OL/P              FT8 á 30 metrum.
TF2CT                  FT4 og FT8 á 15, 17 og 40 metrum.
TF2MSN              FT4, FT8, RTTY og SSB á 12, 15, 17, 60 og 160 metrum.
TF3AO                  SSB á 20 metrum.
TF3IG                   FT4 á 20 metrum.
TF3JB                   FT8 á 80 og 160 metrum.
TF3MH                 FT8 á 15 metrum.
TF3PPN                FT8 á 15 og  40 metrum.
TF3T                    SSB á 10, 15 og 20 metrum.
TF3VE                  FT4 og FT8 á 15, 20, 30 og 60 metrum.
TF3VS                  FT8 á 12 og 15 metrum.
TF3XO                  SSB á 20 metrum.
TF3YOTA             SSB á 20 metrum og QO-100.
TF5B                     FT8 á 12, 17 og 40 metrum.
TF8KY                   SSB á 10 og 40 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

Myndin er af fjarskiptaaðstöðu TF3JB í Reykjavík. Jónas var virkur á 80 og 160 metrum í síðustu viku ársins 2021. Ljósmynd: Jón Svavarsson TF3JON.

Tryggvi Garðar Valgeirsson, TF3TI hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Samkvæmt upplýsingum frá Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF1A og Hans Konrad Kristjánssyni, TF3FG andaðist hann á hjartadeild Landspítalans í gær, 5. janúar.

Tryggvi Garðar var á 57. aldursári; handhafi leyfisbréfs nr. 280.

Um leið og við minnumst Tryggva með þökkum og virðingu færum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður