,

BRÁÐABIRGÐAVIÐGERÐ LOKIÐ

Vaskur hópur félagsmanna mætti í Skeljanes í birtingu í morgun (13. janúar) til að treysta loftnetsvirki TF3IRA og var aðgerðum lokið kl. 15. Það hefur nú verið tryggt til bráðabirgða. Verkefninu verður síðan lokið við fyrsta tækifæri.

Georg Kulp, TF3GZ byrjaði fyrstur og rauf op í bárujárnsvegginn (sjávarmegin) á lóðinni til að opna aðgang að turnfestingunni. Það var mjög til þæginda því þar með var aðgangur greiður til athafna þar sem turnfóturinn stendur þétt upp við bárujárnið.

Sigurður Harðarson, TF3WS tók við. Hann festi öflugan handstrekkjara til að rétta turninn af og var tóg bundið í dráttarkúluna á jeppabifreið hans til öryggis. Síðan festi Siggi flatjárn við turnfótinn (þar sem festingin hafði brotnað). Hinn endinn var festur í múrbolta sem hann boraði fyrir í steypuvegginn (sjá myndir).

Veður var rysjótt á köflum, mikill strekkingur og kalt og gekk á með hríðarveðri, sérstaklega eftir kl. 14.30, en verkefninu var lokið laust fyrir kl. 15.

Það voru þeir Benedikt Sveinsson, TF3T; Georg Kulp, TF3GZ; Sigurður Harðarson, TF3WS og Jónas Bjarnason, TF3JB sem mættu á svæðið. Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY var til ráðgjafar.

Þakkir til þessara félaga fyrir snögg viðbrögð og framúrskarandi góða aðkomu að verkefninu.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 13. janúar. Turninn reistur rétt fyrir kl. 15. Sigurður Harðarson TF3WS tekur saman verkfærin og gengur frá.
Georg Kulp TF3GZ rauf op í bárujárnsvegginn sem opnaði agöngu að turnfætinum og flýtti mjög fyrir vinnu dagsins.
Sigurður Harðarson TF3WS gerir sig kláran til að ganga frá og festa flatjárnið sem sett var upp til styrktar í stað turnfótarins sem hafði gefið sig.
Verkefnið var í höfn laust fyrir kl. 15. Eins og sjá má á myndinni er Sigurður TF3WS kuldalegur að sjá (en hress) þrátt fyrir 2 klst. útivist í strekkingi og hríðarveðri. Ljósmyndir: TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

fourteen + sixteen =