Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 10. mars.

Skemmtilegt kvöld og áhugaverðar umræður. Sérstakur gestur okkar var Hansi Reiser, DL9RDZ frá Passau í Þýskalandi. Borgin er nærri landamærunum við Austurríki. Hansi er áhugasamur um tæknina og hefur m.a. verið virkur í hópi radíóamatöra sem standa að baki klúbbstöðinni við háskólann í Passau.

Yfir kaffinu var rætt um tæknina og heimasmíðar, áhugaverð skilyrði á HF, RF magnara, stöðvar, loftnet og annan búnað. Ennfremur rætt um CQ WW WPX SSB keppnina sem er framundan helgina 26.-27. mars n.k.

Alls mættu 14 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í rólegu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Hansi Reiser DL9RDZ í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Hann var mjög hrifinn af búnaðinum, m.a. af uppbyggingu gervihnattahluta stöðvarinnar fyrir QO-100 gervitunglið sem hann þekkir vel til. Ljósmynd: TF3JB.

Ný stjórn félagsins, sem kjörin var á aðalfundi ÍRA 2022, kom saman á 1. fundi í dag, 8. mars og skipti  með sér verkum. Skipan embætta starfsárið 2022/23 er eftirfarandi:

Jónas Bjarnason TF3JB, formaður.
Georg Magnússon, TF2LL, varaformaður.
Guðmundur Sigurðsson TF3GS, ritari.
Jón Björnsson TF3PW, gjaldkeri.
Georg Kulp TF3GZ, meðstjórnandi.
Sæmundur Þorsteinsson TF3UA, varamaður.
Heimir Konráðsson TF1EIN, varamaður.

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 10. mars frá kl. 20:00. Fundarsalur, fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin.

Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin. TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið og flokka kortasendingar fyrir opnun. Kaffi og veglegt meðlæti.

Þess er farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Fjögurra staka OptiBeam OB4-20OWA loftnet TF3IRA í Skeljanesi er fyrir 14 MHz tíðnisviðið. Rótor er frá Pro.Sis.Tel., gerð PST-61. Fæðilína er „Hardline 1/2“ frá Andrews. Fjarskiptavirkið var sett upp 25. nóvember 2018. Fjölmargir félagsmenn komu að verki, en að öðrum ólöstuðum innti Georg Magnússon TF2LL langsamlega mesta vinnu af hendi við verkefnið. Ljósmyndin var tekin 7. mars 2022. Mynd: TF3JB.

Þegar unnið var við björgun loftnetsvirkis TF3IRA 12.-15. janúar s.l. þurfti m.a. að klippa hluta úr bárujárnsgirðingunni sjávarmegin í Skeljanesi þar sem turninn er reistur þétt upp við girðinguna. Þarna er vinsæll göngustígur og mikil umferð af fólki, alla dag ársins. Því var talið nauðsynlegt að loka bilinu aftur við fyrsta tækifæri.

Í hádeginu í dag, þann 7. mars gafst tími til að drífa verkefnið af og mætti Georg Kulp, TF3GZ á staðinn um hádegisbilið og rúmri klukkustund síðar var búið að brúa bilið og bárujárnsgirðingin á ný skammlaus.

Þakkir til Georgs fyrir þarft og vel unnið verk.

Stjórn ÍRA.

Bárujárnsgirðingin fyrir breytingu 7. mars. Veggjakrotið dregur athyglina heldur frá opinu í girðingunni.
TF3GZ mættur á staðinn á vinnubílnum.
Síðustu handtökin við að brúa bilið. Næsta verkefni verður (þegar veður leyfir) að mála yfir veggjakrotið. Myndir: TF3JB.

Airspy R2 SDR viðtækið í Perlunni í Reykjavík er komið inn. Þakkir til Karls Georgs Karlssonar, TF3CZ.

KiwiSDR viðtækin á Galtastöðum í Flóa og á Raufarhöfn er virk en viðtækið á Bjargtöngum er úti.

Galtastaðir í Flóa, KiwiSDR 10 kHz – 30 MHz: http://floi.utvarp.com/
Perlan,  Airspy R2 SDR – 24 MHz til 1800 MHz. http://perlan.utvarp.com
Raufarhöfn, KiwiSDR 10 kHz – 30 MHz:  http://raufarhofn.utvarp.com
Bjargtangar, KiwiSDR 10 Khz – 30 MHz: http://bjarg.utvarp.com

Stjórn ÍRA.

Yfirlitsmyndin sýnir turnana sem halda uppi lóðrétta T-loftnetinu á Raufarhöfn sem er tengt við KiwiSDR viðtækið og er staðsett í skúrnum hægra megin við jeppabifreiðina. Ljósmynd: TF3GZ.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 3. mars. QSL stjóri hafði flokkað nýjar kortasendingar í hólfin og veglegt var með kaffinu frá Björnsbakaríi.

Hressir menn, góðar umræður og ekki laust við að það væri vortilfinning í lofti enda hlé á lægðagangi og stutt í jafndægur á vori. Það var því mikið rætt um mismunandi loftnet, loftnetsturna, rótora, aðlögun loftneta og skilyrðin. Ennfremur rætt um alþjóðlegu ARRL keppnina sem fram fer á SSB um helgina.   

Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í rólegu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 3. mars. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Benedikt Sveinsson TF3T, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Georg Kulp TF3GZ, Jónas Bjarnason TF3JB, Þórður Adolfsson TF3DT og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID. Ljósmynd: Jón Björnsson TF3PW.

Endurvarparnir þrír í Bláfjöllum komust í lag síðdegis 3. mars:

  • TF1RPB (145.650 MHz).
  • TF3RPI (439.950 MHz).
  • TF3RPL (1297.000 MHz).

Allir VHF/UHF FM endurvarparnir sem standa radíóamatörum til boða á landinu eru því loks í lagi á ný. Upplýsingar á heimasíðu ÍRA hafa verið uppfærðar.

Þakkir góðar til Georgs Kulp, TF3GZ sem lagði á fjallið eftir hádegið og bjargaði málinu.

Stjórn ÍRA.

Bláfjöll 3. mars kl. 16:30. Mikið vetrarríki, birtu tekið að bregða og hrímþoka. Ljósmynd: TF3GZ.

ARRL International DX keppnin 2022 á SSB verður haldin helgina 5.-6. mars. Þetta er tveggja sólarhringa keppni á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrunum.

Markmiðið er að hafa eins mörg QSO og mögulegt er á þessum tíma við aðrar amatörstöðvar í Bandaríkjunum og Kanada. Mest er hægt að hafa 63 margfaldara á einu bandi.

Bandarískar og kanadískar stöðvar gefa upp skilaboðin: RS og skammstöfun fyrir ríki/fylki. Aðrar stöðvar (þ.á.m. frá TF) gefa upp RS og afl sendis.

Hvert ríki í Bandaríkjunum og hvert fylki í Kanada telja. Öll ríki í Bandaríkjunum gilda þannig sem margfaldarar nema KH6 og KL7 en “District of Columbia, DC” kemur inn sem margfaldari í keppninni.

48 ríki Bandaríkjanna (e. contiguous states) og „District of Columbia (DC)“.

14 fylki Kanada: VO1, VO2, NB, NS, PEI (VY2), VE2, VE3, VE4, VE5, VE6, VE7, VE8 (NWT), VY1 (YUK), VY0.

Með ósk um gott gengi,

Stjórn ÍRA.

Keppnisreglur: http://www.arrl.org/arrl-dx

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 3. mars n.k. kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti. Fjarskiptaherbergi og QSL stofa á 2. hæð verða opin.

Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin. QSL stjóri verður búinn að flokka kortasendingar fyrir opnun. Kaffi og meðlæti.

Þess er farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Minning úr félagsstarfinu. 
Myndin er af Heathkit HW-101, 100W HF SSB/CW sendi-/móttökustöð ásamt HP-23 aflgjafa, SB-600 hátalarakassa og Shure 444D borðhljóðnema (aflgjafinn sést reyndar ekki á myndinni þar sem hann er hafður inni í hátalarakassanum). Myndin var tekin 18. nóvember 2012 þegar Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, mætti á sunnudagsopnun í Skeljanesi og var yfirskriftin: „Lampatækin lifa enn; Heathkit HW 101 á staðnum“. Doddi hafði tekið með sér (sem nýja) Heathkit HW-101 sendi-/móttökustöð; en HW-101 var einhver vinsælasta HF stöðin upp úr 1970 hér á landi og um allan heim. Ljósmynd: TF3JB.

Í undirbúningi er námskeið til amatörprófs sem hefst á næstunni. Um verður að ræða 7 vikna námskeið með 20 kennsluskiptum (hvert er 3 kennslustundir).

Námskeiðið verður boðið bæði í stað- og fjarnámi. Stefnt er að prófi Fjarskiptastofu til amatörleyfis í byrjun maí n.k.

Áhugasamir eru beðnir um að fylgjast með upplýsingum hér á heimasíðu ÍRA, www.ira.is

Vakin er athygli á nýju kennsluefni á vefsíðu Prófnefndar ÍRA: „Reglur um þráðlaus fjarskipti radíóamatöra, aðferðir og venjur í fjarskiptum“ eftir Kristinn Andersen, TF3KX.  Vefslóð: http://www.ira.is/profnefnd/

Stjórn ÍRA.

Námskeið til amatörprófs voru haldin reglulega í Háskólanum í Reykjavík á tímabilinu frá 2013-2019. Ekki fékkst inni með námskeiðið í fyrra (2021) hjá HR enda skólinn lokaður öllum utanaðkomandi vegna Covid-19 faraldursins. Vonast er til að hægt verði að boða vornámskeið 2022 til amatörprófs á ný í HR.
Aðalfundur ÍRA 2022 var haldinn í safnaðarheimili Neskirkju í Reykjavík 20. febrúar. Fundarstjóri var kjörinn Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og sést hér í ræðupúlti. Aðrir á mynd: Jónas Bjarnason TF3JB formaður, Óskar Sverrisson TF3DC varaformaður, Georg Kulp TF3GZ meðstjórnandi, Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA kjörinn ritari fundarins og Jón Björnsson TF3PW gjaldkeri. Ljósmynd: TF3JON.
Jónas Bjarnason TF3JB, formaður ÍRA flutti m.a. skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2021/22. Ljósmynd: TF3JON.
Svipmynd 1 úr fundarsal. Fremsta röð: Kristján Benediktsson TF3KB, Andrés Þórarinsson TF1AM og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM. Önnur röð: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Hinrik Vilhjálmsson TF3VH, Anna Henriksdóttir TF3VB og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS. Þriðja röð: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Mathías Hagvaag TF3MH og Benedikt Sveinsson TF1T. Fjórða röð: Gísli Gissur Ófeigsson TF3G og Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33. Ljósmynd: TF3JON.
Svipmynd 2 úr fundarsal. Anna Henriksdóttir TF3VB og Hinrki Vilhjálmsson TF3VH. Ljósmynd: TF3JON.
Svipmynd 3 úr fundarsal. Vilhelm Sigurðsson TF3AWS, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM. Ljósmynd: TF3JON.
Afhending verðlauna og viðurkenninga fyrir fjarskiptaviðburði ÍRA á árinu 2021. Frá vinstri: Eiður Kristinn Magnússon TF1EM viðurkenning fyrir 5. sæti í TF útileikunum. Hrafnkell Sigurðsson TF8KY viðurkenning fyrir 3. sæti í TF útileikunum. Andrés Þórarinsson TF1AM verðlaunaplatti og viðurkenning fyrir 1. sæti í TF útileikunum. Ólafur Örn Ólafsson TF1OL verðlaun fyrir 1. sæti í Páskaleikunum og 1. sæti í VHF/UHF leikunum. Óskar Sverrisson TF3DC keppnisstjóri TF3ÍRA, viðurkenning fyrir 4. sæti í TF útileikunum.

Stjórn ÍRA þakkar sérstaklega Jóni Svavarssyni TF3JON sem tók ljósmyndirnar sem birtast hér á síðunni.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa afturkallað öll leyfi til radíóamatöra frá og með miðnætti 24. febrúar vegna stríðsátakanna í landinu. Ákvörðunin gildir í allt að 30 daga eða þar til nánar verður ákveðið.

Stjórn ÍRA.