Fræðsludagskrá ÍRA fyrir tímabilið ágúst-desember heldur áfram fimmtudaginn 13. nóvember í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Benedikt Sveinsson, TF3T mætir með erindið „ Keppnisstöðin TF3D á Stokkseyri; endurbætur og keppnir”. Húsið opnar kl. 20:00 og Benedikt byrjar stundvíslega kl. 20:30.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið og flokka kortasendingar og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID lagar kaffi og tekur fram meðlæti.

Félagsmönnum er bent á að láta erindið ekki framhjá sér fara.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

ALL AUSTRIAN 160-METER CONTEST.
Keppnin er haldin laugardag 15. nóvember; hefst kl. 16:00 og lýkur kl. 23:59.
Keppnin fer fram á CW á 160 metrum.
Skilaboð OE stöðva: RST + raðnúmer + kóði fyrir hérað.
Skilaboð annarra: RST + raðnúmer.
https://www.oevsv.at/export/shared/.content/.galleries/Downloads_Referate/HF-Referat-Downloads/Rules_AOEC_160m.pdf

REF 160-METER CONTEST.
Keppnin er haldin laugardag 15. nóvember; hefst kl. 17:00 og lýkur kl. 24:00.
Keppnin fer fram á CW á 160 metrum.
Skilaboð: RST + raðnúmer + kóði fyrir sýslur.
https://concours.r-e-f.org/reglements/actuels/reg_ref160_en_20250312.pdf

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A stóð fyrir „Dótadegi“ í Skeljanesi laugardaginn 8. nóvember. Þetta var 4. dótadagurinn á fræðsludagskrá ÍRA haustið 2025 og var þema laugardagsins „endurvarpar“.

Ari kom á staðinn með Icom IC-FR5100 VHF endurvarpa, sem var tengdur við aflgjafa í gegnum Daiwa CN-801 [V-type] sambyggðan afl/standbylgjumæli í gerviálag. Einnig mætti hann með nokkrar VHF/UHF handstöðvar af mismunandi gerðum. Það gerðu einnig þeir Jón Guðmundur Guðmundsson, TF3LM og Ríkharður Þórsson, TF8RIX sem mættu með sínar handstöðvar.

Ari fór vandlega yfir virkan endurvarpa, m.a. hvers vegna senditíðni er yfirleitt höfð -600 rið á VHF endurvörpum en oftast -5 eða -7 MHz á UHF endurvörpum. Einnig var rætt um „cavity“ síur, þ.e. hvers vegna þeirra er þörf og mikilvægi þess að þær séu nákvæmlega stilltar. Síðan útskýrði hann vel hvers vegna tónaðgangur er [oftast ] notaður og hvernig hægt er að hafa kallmerki endurvarpa sem sent er (a.m.k. einu sinni á klukkustund) „hljóðlaust“. Einnig var rætt um „analog“ og „digital“ endurvarpa, en margir endurvarpar í dag geta unnið á hvorutveggja. Ari útskýrði einnig vel fyrirbærir „DMR“ endurvarpa, en einn slíkur [TF3DMR] Motorola DR 3000, var einmitt tengdur í Skeljanesi 28. ágúst s.l.

Viðstaddir spurðu fjölda spurninga og svaraði Ari þeim öllum greiðlega eftir því sem þær bárust. Hann býr yfir miklum fróðleik og áratugareynslu í þessum efnum og var bæði fróðlegt og skemmtilegt að heyra hann segja frá hinum ýmsu uppákomum frá þeim störfum. Sérstakar þakkir til Ara fyrir skemmtilegan, fróðlegan og vel heppnaðan laugardag.

Ennfremur þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID sem lagaði kaffi. Í boði var með kaffinu hvorttveggja, vínarbrauðslengja og karamellukleinuhringir frá Björnsbakaríi í fyrsta gæðaflokki.

Alls mættu 10 félagar í Skeljanes þennan sólfagra og lognríka vetrardag í vesturbænum í Reykjavík. Jónas Bjarnason, TF3JB tók ljósmyndir.

Stjórn ÍRA.

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 6. nóvember. Að venju voru málefni líðandi stundar á dagskrá ásamt áhugamálinu, sem eðlilega var í fyrirrúmi.

Rætt var m.a. um skilyrðin á HF sem hafa ekki verið sérstök að undanförnu, þótt batnað hafi inn á milli. Einnig var rætt um loftnet, m.a. að tiltölulega ódýr einsbands bílloftnet (t.d. „Hamstick“) sem hafa má á svölum búi menn í blokk. Þessi loftnet eru ca. 2,30-2.40 metrar á hæð (eftir böndum).

Hrafnkell Eiríksson, TF3HR bauð væntanlegum nýjum leyfishöfum upp í fjarskiptaherbergi og fór yfir böndin með þeim. Jón Atli Magnússon, TF2AC sagði frá VHF refasendi sem hann hefur verið að smíða. Hann stefnir að því að skrifa grein í næsta CQ TF þar sem hann útskýrir verkefnið og segir frá smíðum, þ.m.t. vali á örtölvu og fl. Einar Kjartansson, TF3EK afhenti viðurkenningar til manna sem ekki gátu verið viðstaddir síðasta fimmtudag [til að taka á móti þeim].

Þakkir til Sveins Goða Sveinssonar, TF3ID fyrir að laga frábært kaffi sem og til Einars Sandoz, TF3ES fyrir ljósmyndir.

Alls mættu 20 félagar og 4 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld í stilltu vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Uppfærð DXCC staða TF kallmerkja miðast við 7. nóvember 2025. Að þessu sinni hefur staða sex kallmerkja verið uppfærð frá fyrri lista, þ.e. TF1A, TF2LL, TF3EO, TF3JB, TF3MH og TF3VS. Samtals er um að ræða 36 uppfærslur frá 13. október s.l.

Egill Ibsen, TF3EO kemur nýr inn á DXCC listann með 3 nýjar DXCC viðurkenningar, þ.e. MIXED, CW og 20 metra. Glæsilegur árangur; hamingjuóskir til Egils!

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS kemur inn með tvær nýjar DXCC viðurkenningar. Annars vegar DXCC á 80 metrum og 5 banda DXCC með uppfærslumiðum fyrir DXCC á „WARC“ böndunum, þ.e. 12, 17, 30 metrum. Glæsilegur árangur; hamingjuóskir til Vilhjálms.

Nítján TF kallmerki eru í dag með virka skráningu, en alls hafa [a.m.k.] 27 íslensk kallmerki sótt um og fengið DXCC viðurkenningar til þessa dags.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS hefur fengið staðfestingu þess efnis, að búið sé að samþykkja umsókn hans um 5 banda DXCC (5BDXCC) viðurkenningu hjá ARRL.

Viðurkenningin er veitt þeim leyfishöfum, sem hafa staðfest sambönd við a.m.k. 100 DXCC einingar á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Að auki hefur hann staðfest sambönd við 100 DXCC einingar á hverju „WARC“ bandanna, þ.e. 12, 17 og 30 metrum.

Vilhjálmur er 6. íslenski leyfishafinn sem verður handhafi 5BDXCC, en aðrir eru TF1A og TF3DC, TF3JB, TF3Y og TF4M (sem eru að auki eru með DXCC á 12, 17, 30 metrum); en TF4M hefur ennfremur DXCC á 160 metrum).

Hamingjuóskir til Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS.

Stjórn ÍRA.

5BDXCC viðurkenning hliðstæð þeirri sem Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS fær frá ARRL. Viðurkenningin var fengin að láni hjá N4MI.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mun standa fyrir „Dótadegi Ara“ í Skeljanesi laugardaginn 8. nóvember. Félagsaðstaðan verður opin frá kl. 13 til 16.

Þetta verður 4. dótadagurinn í haust og er þema laugardagsins „endurvarpar“. Skoðað verður m.a. hvernig endurvarpi virkar, hvaða stillingar þarf og hvers vegna.

Ari mætir á staðinn með Icom VHF endurvarpa af gerðinni IC-FR5100 og verður hann forritaður eftir hugmyndum félagsmanna á staðnum og tengdur loftneti á staðnum og hafður til prufu með hinum ýmsu stillingum. Einnig verður kynnt fyrirhuguð uppsetning á nýjum UHF endurvarpa af gerðinni Icom UR-FR6000 sem settur verður upp fljótlega á Perluna í Öskjuhlíð í Reykjavík.

Þeir félagar sem vilja fræðast meira um endurvarpa og auka þekkingu á hvernig slík tæki virka á VHF og UHF eru hvattir til að láta þetta tækifæri ekki framhá sér fara.

Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID sér um að laga frábært kaffi og taka fram gómsætt meðlæti.

Stjórn ÍRA.

Próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis fór fram í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. nóvember 2025.

Próftakar í prófinu um raffræði og radíótækni voru 20 og í prófinu um reglur og viðskipti voru 19. Alls náðu 19 árangri til amatörleyfis, þ.e. 14 til G-leyfis og 5 til N-leyfis. Árangur þeirra á prófunum, að lokinni yfirferð fulltrúa Fjarskiptastofu og Prófnefndar ÍRA, er til birtingar í stafrófsröð hér á eftir.

Ástvaldur Hjartarson, Reykjavík, G-leyfi.
Bjarni Freyr Þórðarson, Hafnarfirði, G-leyfi.
Björn Bjarnason, Hafnarfirði, G-leyfi.
Gísli Freyr Þorsteinsson, Reykjavík, N-leyfi.
Guðmundur Freyr Hallgrímsson, Akranesi, G-leyfi.
Gunnar Örn Vopnfjörð Þorsteinsson, Hafnarfirði, N-leyfi.
Hákon Víðir Haraldsson, Hafnarfirði, G-leyfi.
Hermann Karl Björnsson, Hafnarfirði, G-leyfi.
Kristinn Fannar Pálsson, Reykjavík, G-leyfi.
Markus Johannes Pluta, Reykjavík, G-leyfi.
Ólafur Jón Thoroddsen, Reykjavík, G-leyfi.
Páll Axel Sigurðsson, Reykjavík, G-leyfi.
Páll Hlíðar Svavarsson, Kópavogi, G-leyfi.
Pétur Ásbjörnsson, Reykjavík, N-leyfi.
Sigurjón Ingi Sölvason, Reykjanesbæ, N-leyfi.
Sveinbjörn Halldórsson, Reykjavík, G-leyfi.
Valgeir Rúnarsson, Garðabæ, G-leyfi.
Þröstur Ingi Antonsson, Garði, N-leyfi.
Ævar Gunnar Ævarsson, Seltjarnarnesi, G-leyfi.

Þakkað er gott samstarf Fjarskiptastofu við undirbúning og framkvæmd.

Hamingjuóskir til þátttakenda og verið velkomnir í loftið!

Stjórn ÍRA.

Frá setningu prófs Fjarskiptastofu til amatörleyfis í Háskólanum í Reykjavík 1. nóvember 2025. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA, stjórnarmaður ÍRA, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS ritari Prófnefndar ÍRA og Kristinn Andersen, TF3KX formaður Prófnefndar ÍRA. Ljósmynd: Jón Svavarsson, TF3JON.
Þátttakendur í prófi Fjarskiptastofu til amatörleyfis í HR 1. nóvember 2025. Ljósmynd: Jón Svavarsson, TF3JON.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti fimmtudaginn 6. nóvember á milli kl. 20 og 22.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Góður félagsskapur og nýjustu amatörtímaritin liggja frammi.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólf félagsins, flokka kort og raða í hólfin og Sveinn Goði Sveinsson, TF3ID mun annast kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

WAE DX CONTEST, RTTY.
Keppnin hefst á laugardag 8. nóvember kl. 00:00 og lýkur á sunnudag 9. nóvember kl. 23:59.
Keppnin fer fram á RTTY á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð: RST + raðnúmer.
https://www.darc.de/der-club/referate/conteste/wae-dx-contest/en

FISTS SATURDAY SPRINT CONTEST.

Keppnin hefst á laugardag 8. nóvember kl. 00:00 og lýkur sama dag kl. 23:59.
Keppnin fer fram á CW á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð FISTS félaga: RST + (ríki í USA/fylki í Kanada/DXCC eining) + nafn + FISTS nr.
Skilaboð annarra: RS(T) + (ríki í USA/fylki í Kanada/DXCC eining) + nafn +“0“.
https://fistsna.org/operating.php#sprints

10-10 INTERNATIONAL FALL CONTEST, DIGITAL.
Keppnin hefst á laugardag 8. nóvember kl. 00:00 og lýkur á sunnudag 9. nóvember kl. 23:59.
Keppnin fer fram á Digital á 10 metrum.
Skilaboð: Nafn + (ríki í USA/fylki í Kanada/DXCC eining) + númer félagsaðildar (ef einhver).
http://www.ten-ten.org/qso-party-rules/

JIDX PHONE CONTEST.
Keppnin hefst á laugardag 8. nóvember kl. 07:00 og lýkur á sunnudag 9. nóvember kl. 13:00.
Keppnin fer fram á SSB á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð japanskra stöðva: RS + 2 stafir fyrir hérað í JA.
Skilaboð annarra: RS + CQ svæði (TF=40).
https://www.jidx.org/jidxrule-e.html

OK/OM DX CONTEST, CW.
Keppnin hefst á laugardag 8. nóvember kl. 12:00 og lýkur á sunnudag 9. nóvember kl. 12:00.
Keppnin fer fram á CW á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð OK/OM stöðva: RST + 3 bókstafir fyrir hérað í OK/OM.
Skilaboð annarra: RST + raðnúmer.
http://okomdx.crk.cz/index.php?page=CW-rules-english

FIRAC HF CONTEST.
Keppnin hefst á sunnudag 9. nóvember kl. 07:00 og lýkur sama dag kl. 17:00.
Keppnin fer fram á CW og SSB á 80, 40, 20, 15 og 10 metrum.
Skilaboð franskra stöðva: RS(T) + raðnúmer + „F“
Skilaboð annarra: RS(T) + raðnúmer.
https://www.firac.de/FIRAC_HF_CONTEST_E.pdf

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Próf Fjarskiptastofu (FST) til amatörleyfis var haldið í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 1. nóvember 2025 kl. 10:00 árdegis. Alls þreyttu 20 prófið.

Niðurstöður verða birtar á þessum vettvangi strax og þær liggja fyrir.

Af alls 21 þátttakanda mættu 20 aðilar til prófs. Skipulag prófdagsins var eftirfarandi: (1) Kl. 10-12 Skriflegt próf í raffræði og radíótækni. (2) Kl. 13-14 Skriflegt próf í reglum og viðskiptum. (3) Kl. 14:30 Prófsýning.

Námskeið til amatörprófs er stærsta verkefni sem ÍRA tekst á hendur hverju sinni. Sérstakar þakkir til Fjarskiptastofu, Háskólans í Reykjavík og allra félagsmanna sem gerðu námskeiðshald félagsins haustið 2025 mögulegt.

Ath. að „Listi yfir úthlutuð kallmerki“ er til uppfærslu og verður tilbúinn á heimsíðu ÍRA 2. nóvember.

Stjórn ÍRA.

Stærsta SSB keppni ársins, CQ WW DX SSB keppnin 2025 fór fram um síðustu helgi, 25.-26. október.

Frestur til að skila inn keppnisdagbókum rann út á miðnætti í gær (föstudag).

Skilað var gögnum fyrir 9 TF kallmerki í 6 mismunandi keppnisflokkum, sbr. meðfylgjandi töflu.

Stjórn ÍRA.