Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 24. júní.

Þetta var fyrsta opnunarkvöldið eftir að radíódóti úr dánarbúi TF3GB hafði verið raðað á borðin í salnum, en félagsmenn geta haft með sér úr húsi allt að þrjá hluti á hverju opnunarkvöldi. Vinnu lauk endanlega við flokkun dótsins 24. júní. Verkefnið var búið að standa yfir frá 12. júní, þegar radíódót TF3GB barst okkur í Skeljanes.

Eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum var dóti sem félagarnir geta haft með sér heim, dreift á tvö hvítu borðin (sem voru fyrir), auk þess sem bætt var við tveimur stærri borðum (við bókahillurnar) og lágborðinu í horninu til vinstri (þar sem ræðupúltið okkar var áður). Vír- og kóaxefni var komið fyrir í horninu við hliðina á hvítu borðunum.

Ánægja var með dótið á fimmtudagskvöld og var mikið skoðað. Flestir fundu eitthvað áhugavert og sumir tóku með sér fullan skammt (þrjá hluti) en mikið er af áhugaverðum hlutum í boði og sumt nýtt og enn í umbúðunum.

Alls mættu 16 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stærri borðin tvö eru staðsett við bókahillurnar í salnum.
Hvíti borðin tvö eru vel áhlaðin af dóti sem og gluggakistan á bakvið.
Lágborðið er þakið spennum af ýmsum gerðum. Vírefni var komið fyrir hægra megin við það í horninu. Ljósmyndir: TF3JB.

Næsta tölublað CQ TF, 3. tölublað þessa árs, kemur út sunnudaginn 18. júlí n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur er til 8. júlí n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Sumarkveðjur og 73,
TF3SB, ritstjóri CQ TF.

.

2. tölublað CQ TF 2021 er fyrir miðju. Sitt hvoru megin eru myndir úr ritstjóradálkum fyrri blaða. Ljósmynd: TF3JB.

Landsfélag radíóamatöra á Spáni, La Unión de Radioaficionados Españoles URE, býður til alþjóðlegrar keppni í nafni hans hátignar, Filipe IV. Spánarkonungs, helgina 26-27. júní.

Þetta er 24 klst. keppni á SSB sem hefst kl. 12:00 á hádegi laugardaginn 26. júní og lýkur á sama tíma á hádegi sunnudag 27. júní. Keppnin er opin radíóamatörum um allan heim og fer fram á SSB á 1.8, 3.5, 7, 14, 21 og 28 MHz.

Markmiðið er að ná samböndum við radíóamatöra á Spáni í eins mörgum stjórnsýslueiningum (sýslum) og frekast er unnt. Spænskir leyfishafar senda RS+tvo bókstafi sem eru skammstöfun á því stjórnsýsluumdæmi (sýslu) þar sem þeir eru búsettir. Aðrir senda RS+raðnúmer. Sjá nánar í keppnisreglum.

Með ósk um gott gengi, stjórn ÍRA.

Vefslóð: https://concursos.ure.es/en/reglamento-general-concursos-hf/

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 17.-23. júní 2021. Samskonar samantektir voru gerðar í janúar, febrúar, apríl og maí á þessu ári.

Alls fengu 18 TF kallmerki skráningu að þessu sinni. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW) og tali (SSB) á 4, 6, 10, 12, 15, 17, 20 og 30 metrum.

Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/  Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd:

TF1A——-FT8 á 4, 6, 10, 17 og 30 metrum.
TF1EIN—-FT8 og SSB á 4 og 6 metrum.
TF1OL/P—FT8 á 6 metrum.
TF1VHF—-CW á 4 og 6 metrum.
TF2CT/P—FT8 á  6 og 10 metrum.
TF2MSN—FT4, FT8 og SSB á 4, 6, 12 og 20 metrum.
TF3DT——FT8 á 12, 15 og 20 metrum.
TF3DX/P—CW á 20 metrum.
TF3IG——-FT4 á 20 metrum.
TF3JB——-FT8 á 6 metrum.
TF3LB——-FT8 á 4 og 6 metrum.
TF3MH——FT8 á 15 og 17 metrum.
TF3VE——-FT8 á 6 og 17 metrum.
TF3VG——-FT8 á 6 og 10 metrum.
TF3VS——-FT8 á 10, 12 og 17 metrum.
TF5B———FT8 á 15 og 17 metrum.
TF8KY——-FT8 og SSB á 6 metrum.
TF8SM——FT8 á 4 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Glæsileg fjarskiptabifreið Ólafs Arnar Ólafssonar TF1OL. Ólafur var QRV þessa viku sem TF1OL/P, m.a. frá Vatnsendahæð í Kópavogi. Loftnetið er LFA Yagi á 50 MHz. frá InnovAntennas Ljósmynd: TF1OL.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 24. júní fyrir félagsmenn og gesti frá kl. 20-22. Fjarskiptaherbergi verður opið (fyrir mest 3 samtímis) og QSL herbergi (fyrir mest 2 samtímis).

Grímunotkun í húsnæðinu er valkvæð, samanber núgildandi reglugerð heilbrigðisráðherra til 29. þ.m. um takmörkun á samkomum vegna faraldurs.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=2acbd819-a1bf-4bbe-8b71-aed8d3d4557f

Íslenski þjóðhátíðardagurinn er haldinn hátíðlegur 17. júní ár hvert.

17. júní var fæðingardagur Jóns Sigurðssonar, sem var helsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld.

Til þess að minnast hans var fæðingardagurinn valinn sem þjóðhátíðardagur Íslendinga þegar lýðveldið Ísland var stofnað þann 17. júní árið 1944.

Hátíðarkveðjur til félagsmanna og fjölskyldna þeirra á þjóðhátíðardaginn 2021.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 24. júní n.k.

Stjórn ÍRA.

Ársæll Óskarsson, TF3AO, Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN og Þór Þórisson, TF1GW mættu í Skeljanes laugardaginn 12. júní. Erindið var að færa í hús síðari sendingu af radíódóti úr dánarbúi Bjarna Sverrissonar, TF3GB. Þór Þórisson, TF1GW, hafði áður fært félaginu radíódót úr búinu þann 16. febrúar s.l.

Að þessu sinni var um töluvert meira magn að ræða og komu þeir félagar á tveimur fólksbifreiðum og sendiferðabíl með dótið í Skeljanes. Margt nýtilegra hluta er í sendingunni. Hugmyndin er að geyma sumt af því og bjóða til sölu á flóamarkaði félagsins sem verður haldinn þegar Covid-19 aðstæður leyfa.

Stjórn ÍRA þakkar aðstandendum Bjarna heitins og þeim TF3AO, TF3PPN og TF1GW fyrir að hafa milligöngu um að koma dótinu til félagsins.

Fyrir utan Skeljanes 12. júní. Radíódótið fært í hús. Frá vinstri: TF1GW og TF3PPN og TF3AO fjær (með bak í myndavél).
Dótið komið upp í fundarsalinn í Skeljanesi. Framundan er töluverð vinna að fara yfir og flokka tæki og hluti. Mjög margt er af nýtanlegum tækjum, búnaði, ýmsum smátækjum, íhlutum og loftnetaefni sem verður komið á framfæri við félagsmenn.
Þór Þórisson TF1GW, Ársæll Óskarsson TF3AO og Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN í salnum í Skeljanesi. Ljósmyndir: TF3JB.

Próf Póst- og fjarskiptastofnunar til amatörleyfis fór fram í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi þann 5. júní. Alls þreyttu fimm prófið. Fjórir náðu fullnægjandi árangri, þar af þrír til G-leyfis og einn til N-leyfis:

Arnlaugur Guðmundsson, TF3RD, 101 Reykjavík (G-leyfi).
Jón E. Guðmundsson, TF8KW, 230 Reykjanesbæ (N-leyfi).
Kjartan Birgisson, TF1ET, 109 Reykjavík (G-leyfi).
Pálmi Árnason, 110 Reykjavík (G-leyfi); á eftir að velja/taka út kallmerki.

Innilegar hamingjuóskir og velkomnir í loftið!

Stjórn ÍRA.

Opið verður í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 10. júní frá kl. 20:00. Nýir leyfishafar eru sérstaklega boðnir velkomnir.

Fjarskiptaherbergið verður opið (fyrir mest 3 samtímis) og QSL herbergi (fyrir mest 2 samtímis). Kaffiveitingar verða í boði.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Byrjað var á að mála langa bárujárnsgrindverkið fyrir utan Skeljanes í dag, 8. júní. Aðkoman að húsinu lítur strax betur út.
Svona leit bárujárnsgrindverkið út áður en byrjað var að mála yfir veggjakrotið í dag. Ljósmyndir: TF3JB.

Próf PFS til amatörleyfis fór fram í félagsaðstöðu ÍRA í dag, 5. júní. Alls þreyttu fimm prófið. Fjórir náðu fullnægjandi árangri, þar af þrír til G-leyfis og einn til N-leyfis.

Prófnefnd ÍRA annaðist framkvæmd að viðstöddum fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar. Prófað var í raffræði og radíótækni og reglum og viðskiptum. Prófið hófst kl. 10 árdegis og lauk með prófsýningu kl. 15. Bæði prófin voru skrifleg en einn próftaki þreytti munnlegt próf.

Fulltrúar prófnefndar: Kristinn Andersen, TF3KX, formaður; Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX; Einar Kjartansson, TF3EK; Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS; og Yngvi Harðarson, TF3Y. Fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar: Bjarni Sigurðsson, verkfræðingur. Fulltrúar stjórnar: Jón Björnsson, TF3PW; Jónas Bjarnason, TF3JB; Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA og Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY.

Stjórn ÍRA færir Jóni Björnssyni, TF3PW, umsjónarmanni námskeiðsins og leiðbeinendum þakkir fyrir vel unnin störf. Það sama á við um Kristinn Andersen, TF3KX, formann prófnefndar og prófnefndarmenn, sem sinntu störfum faglega og af alúð. Þá er Bjarna Sigurðssyni, fulltrúa Póst- og fjarskiptastofnunar, þökkuð fagleg aðkoma að verkefninu.

Síðast, en ekki síst, innilegar hamingjuóskir til nýrra leyfishafa.

Stjórn ÍRA.

Fimm þreyttu prófið. Prófið var tvískipt og voru bæði skrifleg en einn próftaki þreytti munnlegs prófs.
Úrlausnir yfirfarnar. Frá vinstri: Kristinn Andersen TF3KX formaður prófnefndar, Bjarni Sigurðsson fulltrúi Póst- og fjarskiptastofnunar, Yngvi Harðarson TF3Y prófnefnd og Vilhjálmur Þór Kjartansson prófnefnd.
Prófsýning hófst stundvíslega kl. 15:00. Þátttakendur fengu úrlausnir afhentar og formaður prófnefndar fór yfir rétt svör. Frá vinstri: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Einar Kjartansson TF3EK prófnefnd, Jón E. Guðmundsson, Júlía Guðmundsdóttir, Pálmi Árnason, Arnlaugur Guðmundsson, Jón Björnsson TF3PW umsjónarmaður námskeiða félagsins, Yngvi Harðarson TF3Y prófnefnd, Kjartan Birgisson (snýr baki í myndavél) og Kristinn Andersen TF3KX, formaður prófnefndar ÍRA. Ljósmyndir: TF3JB.