Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY, stillir Collins 75S-3C viðtækið í fjarskiptaherberginu. Ljósmynd: TF3AM.

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið fimmtudaginn 31. mars n.k., kl. 20:30 í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Fyrirlesari kvöldsins er Henry Arnar Hálfdánarson, TF3HRY, og nefnist erindið Loftnet og útgeislun á lægri böndum. Henry mun einkum fjalla um amatörböndin frá 500 kHz og neðar. Hugmyndin er, að velta fyrir sér “praktískum” lausnum á því hvað meðal radíóamatörinn getur gert á þessum böndum, þar sem verið er að kljást við “reactive” loftnet, háa spennu, litla nýtni o.s.frv. Henry mun fjalla um þann ramma sem takmarkar hvað flestir leyfishafar geta gert í garðinum hjá sér og sýna fram á að í raun er ýmislegt hægt að gera.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að taka frá næstkomandi fimmtudagskvöld og mæta stundvíslega í Skeljanesið. Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

TF2JB

Þór Þórisson, TF3GW, flutti fróðlegt erindi um “EchoLink” þann 24. mars.

Þór Þórisson, TF3GW, flutti áhugavert og fróðlegt erindi í félagsaðstöðu Í.R.A. fimmtudaginn 24. mars. Erindið nefndi hann Reynslan af rekstri EchoLink á Íslandi. Þór er mikill áhugamaður um fyrirbærið og setti m.a. upp tengingu fyrir “EchoLink” hér á landi þegar árið 2006. Hann er ábyrgðar- og rekstrar aðili “EchoLink” þjónustu sem er í boði til leyfishafa á 145.350 MHz.

Í erindi sínu útskýrði Þór m.a. hvernig EchoLink vinnur. Um er að ræða tengingu tveggja amatörstöðva (eða fleiri) sem nota tveggja metra bandið. Merkin fara yfir netið þannig að annar leyfishafinn getur t.d. verið staddur hérlendis og hinn erlendis, í raun hvar sem er í heiminum. Forsendan er, að hvor leyfishafi um sig hafi aðgang að endurvarpa með nettengingu og búi yfir upplýsingum um svokallað “node” númer sem er 6 tölustafir. “EchoLink” hugbúnaðurinn kom fyrst fram árið 2002 og er skráður samkvæmt einkaleyfi, en radíóamatörum er heimilt að nota hann frítt. Hönnuður hugbúnaðarins er Jonathan Taylor, K1RFD. Talið er, að fjöldi radíóamatöra sem nota “EchoLink” í heiminum sé í dag um 200 þúsund, þar af eru um 5 þúsund QRV hverju sinni. Þór svaraði fjölda spurninga í lok erindisins. Alls mættu um 20 manns í Skeljanesið í þetta sinn.

Fram kom m.a. að um 200 þúsund radíóamatörar eru QRV á EchoLink í heiminum. Ljósmynd: TF3LMN.

Þór náði strax sambandi á 2 metra handstöðinni við radíóamatör í Odense í Danmörku um EchoLink búnaðinn.

Bestu þakkir til Þórs Þórissonar, TF3GW, fyrir erindisflutninginn og til Jóns Svavarssonar, TF3LMN, fyrir myndatökuna.

TF2JB

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, fjallaði af innlifun um loftnetafræðina og fangaði hugi viðstaddra.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, flutti síðari hluta erindis síns um Sendiloftnet á 160 metrum; sjónarmið við hönnun fimmtudagskvöldið 17. mars s.l. Þeir sem lögðu leið sína í Skeljanesið urðu ekki fyrir vonbrigðum frekar en þegar fyrri hluti erindisins var fluttur þann 24. febrúar s.l. Vilhjálmur fór á kostum og beinlínis fangaði hugi viðstaddra með faglegri og áhugaverðri framsetningu. Umfjöllunarefnið, var sem fyrr, sprottið af hönnun hans á sendiloftneti fyrir Þorvald Stefánsson, TF4M á 1,8 MHz.

Vilhjálmur setti efnið þannig fram, að hvorutveggja hentaði byrjendum og þeim sem lengra eru komnir í fræðunum.

Fyrst rifjaði Villi upp helstu niðurstöður úr fyrri hlutanum, síðan hvernig útgeislað svið er í réttu hlutfalli við flatarmálið undir straumferlinum. Það skýrði hvers vegna geislunarviðnám í stuttum loftnetum stígur með lengd þeirra í öðru veldi. Því næst fjallaði hann um raunhæfa straumgleypa og hvernig hallandi vírar í topphatti vinna að hluta gegn straumnum í lóðrétta leggnum. Það leiðir til þess geislunarviðnámið fer að falla aftur ef þeir eru síkkaðir of mikið. Síðan útskýrði Villi kúplað tapsviðnám frá jörð í mótvægisvíra, og hvernig það minnkar þegar þeim er lyft. Hann tók dæmi af 1,8 MHz loftneti TF4M um öll þessi atriði, og sýndi að nóg var að nota 2 víra uppi og aðra 2 niðri ef rétt væri farið að. Mælingar í haust (2010) bentu til að nýtnin væri milli 80 og 90%.

Myndin sýnir aðeins hluta þeirra sem gerðu sér ferð í Skeljanesið þetta fimmtudagskvöld; mæting var alls 28 manns.

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi, TF3DX, fyrir afar vel heppnað erindi og Gísla G. Ófeigssyni, TF3G, fyrir myndatökuna.

TF2JB

Minnt er á að skilafrestur efnis í aprílhefti CQ TF er nk. sunnudag, 27. marz. Í góðu lagi er að senda ritstjóra punkta, ábendingar og efni, sem ritstjóri getur unnið úr frekar. Og myndir eru auðvitað alltaf velkomnar og “segja meira en þúsund orð”.

Efni má senda ritstjóra, Kristni Andersen – TF3KX:

cqtf@ira.is
GSM 825-8130

Þór Þórisson, TF3GW. Myndin er tekin á Rjúpnahæð 2008. Ljósm.: TF3AM.

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið fimmtudaginn 24. mars n.k. kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Þór Þórisson, TF3GW, og nefnist erindið Reynslan af rekstri “EchoLink” á Íslandi. Þór er mikill áhugamaður um “EchoLink” verkefnið og setti m.a. fyrst upp tengingu fyrir “EchoLink” hér á landi árið 2006. Þór er ábyrgðar- og rekstraraðili “EchoLink” þjónustu sem er í boði 145.350 MHz.

Þór er félagsmönnum af góðu kunnur. Hann hefur tekið virkan þátt í félagsstöfunum Í.R.A. í gegnum árin, m.a. sem stjórnarmaður og ábyrgðarmaður einstakra verkefna, auk þess að hafa skrifað greinar í CQ TF og kennt á námskeiðum félagsins til amatörréttinda. Hann er handhafi leyfisbréfs nr. 126.

“EchoLink” hugbúnaðurinn kom fyrst fram árið 2002. Hugbúnaðurinn gerir radíóamatörum kleift að nota Internetið sem einskonar “milliþátt” í fjarskiptum sínum. Hönnuður forritsins er bandarískur radíóamatör, Jonathan Taylor, K1RFD. Í grein, sem Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, skrifaði í 4. tbl. CQ TF 2009, segir m.a. “D-STAR aðferðin, eða samskiptamátinn, tengir saman stafræn fjarskipti og alnetið og svipar þannig til fjarskipta um EchoLink, en með D-STAR tækninni eru talfjarskiptin færð yfir í stafræna mótun sem, ásamt meiri gagnaflutningshraða, eykur gæði talflutningsins og flutningsgetu gagnasambandsins”. Talið er, að fjöldi radíóamatöra sem nota “EchoLink” í heiminum sé um 200 þúsund, þar af séu um 5 þúsund “í loftinu” hverju sinni.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að fjölmenna. Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

 TF2JB

Úrslit í ARRL International DX Contest – CW hlutanum 2010 – hafa verið birt. Alls sendu sex TF-stöðvar inn keppnisdagbækur að þessu sinni, í fimm keppnisflokkum. Tveir íslenskir leyfishafar náðu afburða árangri í keppninni. Það eru þeir Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, sem náði 4. sæti yfir heiminn í einmenningsflokki á 14 MHz, hámarksafli; hann var með alls 306,210 punkta og Þorvaldur Stefánsson, TF4M, sem náði 7. sæti yfir heiminn í einmenningsflokki á 1,8 MHz, hámarksafli; hann var með 59.730 punkta. Keppnin fór fram helgina 20.-21. febrúar 2010.


Úrslit í keppninni fyrir TF-stöðvar urðu að öðru leyti samkvæmt eftirfarandi:

Keppnisflokkur

Kallmerki

Árangur, punktar

QSO

Margfaldarar

Einmenningsflokkur – 1,8 MHz – hámarksafl
TF4M
59,730
369
55
Einmenningsflokkur – 7 MHz – hámarksafl

TF3Y

94,248

567

56

Einmenningsflokkur – 14 MHz – hámarksafl

TF3CW

306,210

1,739

59

Einmenningsflokkur – 14 MHz – lágafl

TF3G

6,660

80

30

Einmenningsflokkur – 21 MHz – hámarksafl

TF8GX

71,604

471

52

Einmenningsflokkur – öll bönd – hámarksafl, aðstoð

TF3DC

170,520

409

140


Stjórn Í.R.A. óskar hlutaðeigandi innilega til hamingju með árangurinn.


Sjá nánar: http://www.arrl.org/files/file/Contest%20Line%20Scores/2010/2010%20DX%20CW%20Line%20Scores%20v1.pdf

TF2JB

Sælir félagar, mig langar að biðja alla í mestu vinsemd, sem skila ínn kortum til QSL Bureau að flokka þau vandlega eftir löndum (ekki í stafrófsröð).  Það er mjög tímafrekt fyrir QSL Manager að standa í því að flokka kort sem ekki eru flokkuð eftir löndum.  Oft flækjast stök kort inn á milli, t.d.eitt kort JY inni á milli korta sem eiga að fara á JA.  Vinsamlegast skoðið vel upplýsingar á heimasíðu ÍRA og QSL Bureau um þau lönd sem ekki starfrækja QSL Bureau.  Það er ekki hægt að leggja það á núverandi QSL Manager nema í undantekningartilvikum að taka við kortum sem stíluð eru á QSL Bureau sem ekki eru starfrækt.

Það gildir eftir sem áður að kort sem fara til þýskalands skal einnig raða og flokka eftir forskeytum, þ.e. DE, DF, DM o.s.frv. Þvi til viðbótar er nú vinsamlegast komið á framfæri að kortum sem fara til USA, Bandaríkja N-Ameríku sé raðað saman eftir svæðum, þ.e. W1, K1, WA1 saman o.s.frv.

Allt er þetta sagt til að auka skilvirkni QSL Buerau svo og að þjónusta QSL Bureau megi vera til fyrirmyndar.

73

Guðmundur, TF3SG

Sjá nánar: http://www.ira.is/pages/viewpage.action?pageId=4194457

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX/M, nærri Bíldudal á Vestfjörðum haustið 2010. Ljósmynd: Þorvaldur, TF4M.

Næsta fimmtudagserindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið fimmtudaginn 17. mars n.k. kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, og mun hann nú flytja okkur síðari hluta erindisins “Sendiloftnet TF4M á 160 metrum; sjónarmið við hönnun” en fyrri hlutinn var fluttur fyrir þremur vikum. Vilhjálmur segir sjálfur, að sem áður muni hann leitast við að setja efnið þannig fram, að hvorutveggja höfði til byrjenda sem og þeirra sem eru lengra komnir í loftnetafræðum.

Síðast lagði Vilhjálmur upp með grundvallarspurninguna um lárétta eða lóðrétta skautun og hvernig það tengist þeim vanda sem er samfara hönnun loftneta þegar bylgjulengdin er 160 metrar og ekki reynist unnt að koma þeim hærra en sem nemur 1/8 úr bylgjulengd eða svo. Hann útskýrði einnig áhrifin af jarðleiðni, ekki síst kosti þess að hafa loftnet við sjávarsíðuna eins gert var með umrætt loftnet. Loks drap hann á áhrifin af mismunandi hæð lóðréttra loftneta. Í síðari hluta erindis síns mun hann fjalla um tapsvalda og sjónarmið við hönnun topphatts og mótvægis, með nýtni að leiðarljósi.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að taka frá næstkomandi fimmtudagskvöld og mæta stundvíslega í Skeljanesið. Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

Vilhjálmur, TF3DX, við tengikassa fyrir fæðilínu í 160 metra sendiloftnet TF4M haustið 2010. Ljósmynd: TF4M.

TF2JB

 

Andrés Þórarinsson, TF3AM, fjallaði um einfaldar og ódýrar lausnir í loftnetamálum. Ljósmynd: TF3LMN.

Andrés Þórarinsson, TF3AM, flutti áhugavert og skemmtilegt erindi í félagsaðstöðu Í.R.A. fimmtudaginn 10. mars. Erindið nefndi hann Loftnet sem allir geta smíðað. Hann fjallaði m.a. um einfaldar og ódýrar lausnir út frá hönnun tvípóla og einsbands og tveggja banda lóðréttra stanga (e. verticals). Þá kynnti hann EZNEC loftnetsforritið frá W7EL (sem sækja má ókeypis á netið). Hann sýndi m.a. áhugaverð dæmi um hönnun loftneta á 7 MHz. En með aðstoð forritsins má auðvelda mikið vinnu í sambandi við loftnetahönnun. Andrés sýndi mismunandi útgeislunarhorn mismunandi loftneta, m.a. eftir stærð (þ.e. sem hlutfall úr bylgjulengd) og eftir staðsetningu yfir jörð. Einnig, hve auðvelt er í raun að aðlaga fæðilínu loftnetum á lægri böndunum þegar aðstæður eru takmarkandi hvað varðar uppsetningu loftneta í fullri stærð. Góð mæting var í Skeljanesinu (29 félagsmenn) og svaraði Andrés greiðlega spurningum félagsmanna að loknum erindisflutningi.

Álrör, fáanleiki þeirra hér á landi og loftnetasmíð. Sigurður Óskarsson, TF2WIN, aðstoðaði. Ljósmynd: TF3LMN.

Sýnishorn af ýmsum “hjálparhlutum” sem Andrés notar við hönnun/uppsetningu eigin loftneta. Ljósm.: TF3LMN.

Andrés kom vel birgur af margskonar „hjálparhlutum” fyrir þá sem eru í loftnetahugleiðingum. Hann sýndi m.a. hversu auðvelt er að nota loftnet sem sagað hefur verið af af gömlu sjónvarpi á 144 MHz og einnig væri lítið mál er að hanna 1/4? loftnet úr ídráttarvír til notkunar á 144 MHz. Hann fjallaði ennfremur um álrör og þau fyrirtæki sem selja slíkt efni hérlendis (sbr. mynd 2). Einnig sýndi hann hagkvæma (en ódýra) heimasmíðaða loftnetsaðlögunarrás í gömlu kökuboxi.

Bestu þakkir til Andrésar Þórarinssonar, TF3AM, fyrir erindisflutninginn og til Jóns Svavarssonar, TF3LMN, fyrir myndatökuna

TF2JB

Benedikt Sveinsson, TF3CY.

Benedikt Sveinsson, TF3CY, er nýr stöðvarstjóri TF3IRA. Hann var skipaður í embætti á fundi stjórnar félagsins þann 10. mars. Benedikt er G-leyfishafi og handhafi leyfisbréfs nr. 200. Hann er mikill áhugamaður um fjarskipti, m.a. um EME fjarskipti og hafði t.d. fyrsta EME sambandið á 50 MHz frá TF þann 12. júlí í fyrra (2010) og líklega fyrsta EME sambandið frá íslensku kallmerki á 144 MHz þann 19. febrúar s.l. Benedikt hefur einnig áhuga á alþjóðlegum keppnum og CW. Faðir hans er Sveinn Guðmundsson, TF3T og bróðir er Guðmundur Sveinsson, TF3SG.

Stjórn Í.R.A. væntir mikils af liðsinni Benedikts og býður hann velkominn til starfa. Hann mun formlega taka við embættinu allra næstu daga.

Sveini Braga Sveinssyni, TF3SNN, fráfarandi stöðvarstjóra, eru jafnframt þökkuð góð störf.

F.h. stjórnar Í.R.A.,

Jónas Bjarnason, TF2JB,
formaður.