,

TF3GW verður með fimmtudagserindið

Þór Þórisson, TF3GW. Myndin er tekin á Rjúpnahæð 2008. Ljósm.: TF3AM.

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið fimmtudaginn 24. mars n.k. kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Þór Þórisson, TF3GW, og nefnist erindið Reynslan af rekstri “EchoLink” á Íslandi. Þór er mikill áhugamaður um “EchoLink” verkefnið og setti m.a. fyrst upp tengingu fyrir “EchoLink” hér á landi árið 2006. Þór er ábyrgðar- og rekstraraðili “EchoLink” þjónustu sem er í boði 145.350 MHz.

Þór er félagsmönnum af góðu kunnur. Hann hefur tekið virkan þátt í félagsstöfunum Í.R.A. í gegnum árin, m.a. sem stjórnarmaður og ábyrgðarmaður einstakra verkefna, auk þess að hafa skrifað greinar í CQ TF og kennt á námskeiðum félagsins til amatörréttinda. Hann er handhafi leyfisbréfs nr. 126.

“EchoLink” hugbúnaðurinn kom fyrst fram árið 2002. Hugbúnaðurinn gerir radíóamatörum kleift að nota Internetið sem einskonar “milliþátt” í fjarskiptum sínum. Hönnuður forritsins er bandarískur radíóamatör, Jonathan Taylor, K1RFD. Í grein, sem Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, skrifaði í 4. tbl. CQ TF 2009, segir m.a. “D-STAR aðferðin, eða samskiptamátinn, tengir saman stafræn fjarskipti og alnetið og svipar þannig til fjarskipta um EchoLink, en með D-STAR tækninni eru talfjarskiptin færð yfir í stafræna mótun sem, ásamt meiri gagnaflutningshraða, eykur gæði talflutningsins og flutningsgetu gagnasambandsins”. Talið er, að fjöldi radíóamatöra sem nota “EchoLink” í heiminum sé um 200 þúsund, þar af séu um 5 þúsund “í loftinu” hverju sinni.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að fjölmenna. Kaffiveitingar verða í boði félagsins.

 TF2JB
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

twelve + two =