Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi opnar á ný fimmtudaginn 17. september.

Eftir lokun í réttar sex vikur, frá 6. ágúst til 10. september vegna COVID-19 faraldursins, er stjórn ÍRA ánægja að tilkynna, að félagsaðstaðan verður opnuð á ný fimmtudaginn 17. september n.k.

Ákvörðunin um opnun félagsaðstöðunnar var samþykkt á stjórnarfundi í félaginu þann 8. september s.l., og byggir á reglugerð heilbrigðisráðherra dags. 3. þ.m., þar sem fjöldatakmörkun er rýmkuð og almenn nálægðartakmörkun miðast við að hægt sé að tryggja a.m.k. 1 metra á milli einstaklinga. Ákvæði eru ennfremur um að nota skuli andlitsgrímu þar sem þeirri fjarlægð á milli einstaklinga verður ekki við komið.

Stjórn ÍRA þakkar félagsmönnum stuðning á þessum tíma faraldurs – sem vonandi er brátt að baki. Áfram gilda þau tilmæli, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes á fimmtudagskvöldum, fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra. Handspritt (70%) og andlitsgrímur af viðurkenndri tegund eru á staðnum.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Ein af stóru keppnum ársins er Worked All Europe (WAE) keppnin. SSB hlutinn verður haldinn 12.-13. september. Þetta er 48 klst. keppni, en þátttaka er leyfð í mest 36 klst.

Markmiðið er að hafa sambönd við stöðvar utan Evrópu, þ.e. sambönd innan Evrópu gilda ekki í keppninni.  Skilaboð: RS+raðnúmer. Í keppninni gefa QTC skilaboð punkta aukalega.

Sambönd við hverja nýja DXCC einingu (e. entity) gilda sem margfaldarar, auk sambanda við hvert nýtt kallsvæði í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Suður-Afríku,  Japan og Brasilíu, auk kallsvæðanna RA8 og RA9.

Margfaldarar hafa aukið vægi eftir böndum; á 80 metrum fjórir, á 7 MHz þrír og á 14/21/28 MHz tveir.

Sjá nánar í reglum:
https://www.darc.de/der-club/referate/referat-conteste/worked-all-europe-dx-contest/en/

Næsta tölublað CQ TF, 4. hefti þessa árs, kemur út sunnudaginn 27. september n.k.

Í nýja blaðinu verður m.a. umfjöllun um úrslit VHF/UHF leikana og TF útileikana í sumar, grein um „Útgáfusögu ÍRA 1946-2020“, grein og KiwiSDR viðtækin hér á landi (sem tengjast má um netið), grein um prófun á VHF loftnetum, grein um ALC stillingar og margt fleira.

Í vinnsluferlinu eru ávallt teknar frá blaðsíður fyrir óinnkomið efni. Frestur er til 15. september n.k. Netfang: tf3sb@ox.is

73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð áfram næstu tvo fimmtudaga, þ.e. 3. og 10. september. Engin starfsemi verður í húsnæðinu á okkar vegum á þessum tíma.

Ástæðan er auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem tók gildi 28. ágúst og gildir til 10. september. Fjöldatakmörkun er óbreytt frá fyrri ákvörðun sem og almenn nálægðartakmörkun um að tryggja skuli a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

Meginvandi okkar er að tryggja áskilda 2 metra fjarlægð sem ekki er gerlegt í Skeljanesi. Ef allt fer vel á besta veg verður auglýst opnun á ný 17. september n.k.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Nú styttist í septemberhefti CQ TF, 4. tbl. 2020, sem kemur út sunnudaginn 27. september n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, t.d. frásagnir af athyglisverðum samböndum í loftinu og skilyrðunum, minniháttar teikningar og tækjabreytingar, jafnvel stuttar gamansögur svo ekki sé minnst á kveðskap – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punkta og ábendingar um efni sem vinna má úr. Allt þetta og meira til væri kærkomið.

Skilafrestur efnis er til 15. september n.k. Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF

.

.

APRS stafvarpinn TF1APB fór í loftið í gær, föstudaginn 21. ágúst. QTH er Hraunshóll á Reynisfjalli í Mýrdal, hæð er 340 metrar yfir sjávarmáli. Nýi stafvarpinn er viðbót við APRS-IS kerfið.

Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Jón Þ. Jónsson TF3JA og Magnús Ragnarsson TF1MT sáu um uppsetningu. Guðmundur sagði, að nýi varpinn dekki þjóðveg 1 undir Eyjafjöllum og austur fyrir Vík. Fyrstu prófanir með 1W vita (e. tracker) austur á Hjörleifshöfða og á heimleið á Hvolsvöll lofa þannig góðu en til stendur að prófa drægnina austar.

Búnaður TF1APB er Motorola GM-300 VHF stöð, Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og Kathrein VHF húsloftnet.

Hamingjuóskir til APRS hópsins með ósk um gott gengi.

Stjórn ÍRA.

.

.

Á myndinni til vinstri má sjá mynd af loftnetinu sem APRS stafvarpinn notar. Það eru fasaðir VHF tvípólar frá Kathrein.

Yfirlitsmyndin sýnir stöðvarhúsið á Hraunshól á Reynisfjalli. Sjá má að staðsetningin er góð m.v. útsýni til nærliggjandi fjalla. Ljósmynd: Magnús Ragnarsson TF1MT.
Mynd af APRS búnaði TF1APB. Í kassanum eru m.a. Motorola GM-300 VHF stöð, Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og aflgjafi. Ljósmynd: Magnús Ragnarsson, TF1MT.
Unnið við uppsetningu nýja stafvarpans inni í stöðvarhúsinu. Jón Þ. Jónsson TF3JA og Guðmundur Sigurðsson TF3GS. Ljósmynd: Magnús Ragnarsson TF1MT.
Magnús Ragnarsson TF1MT og Guðmundur Sigurðsson TF3GS. Ljósmynd: Jón Þ. Jónsson TF3JA.

1. Alþjóðlega vita- og vitaskipahelgin er nú um helgina, 22.-23. ágúst. Tveir íslenskir vitar höfðu verið skráðir, en Svanur Hjálmarsson, TF3AB segir, að hópurinn hafi ákveðið að fella niður áður auglýsta þátttöku frá Knarrarósvita vegna Covid-19. Einn viti verður því starfræktur frá TF um helgina, Selvogsviti, sem Ólafur Örn Ólafsson, TF1OL virkjar.

2. Gjöf frá Raunvísindastofnun. Félaginu bárust í dag, 20. ágúst, eftirfarandi tæki frá stofnuninni:

General Electric Delco MD-129A/GR; mótari og aflgjafi.
Stewart-Warner T-282D/GR; 100W sendir.
Hewlett-Packard; Model 6068 VHF Signal generator (10-420 MHz).

TF3JB og TF3GS tóku á móti tækjunum fyrir hönd félagsins. Bestu þakkir til Raunvísindastofnunar.

3. Endurvarpamál. Áhugi er fyrir að setja upp á ný VHF endurvarpa á Garðskaga. VHF hópurinn vinnur í málinu og er Motorola endurvarpi fyrir hendi. Endurvarpinn TF8RPH (Garri) var QRV frá Garðskaga í 4 mánuði árið 2012 og hafði góða útbreiðslu.
3.a Morsauðkennið á endurvarpatíðninni 145.650 MHz, sem hefur verið bilað um tveggja mánaða skeið, verður lagfært á næstunni.

4. KiwiSDR viðtækið í Bláfjöllum sem tekið var í notkun 27. júní s.l., er bilað. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A sagðist hafa reynt að endurræsa tækið (og uppfæra) sem ekki hafi gengið. Þeir Georg Kulp, TF3GZ, ætla að gera ferð á fjallið fljótlega. Vefslóðin er: http://blafjoll.utvarp.com

Selvogsviti er staðsettur þar sem rauði depillinn er á kortinu til vinstri.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A við uppsetningu á Opek VHF loftneti fyrir endurvarpann TF8RPH á Garðskaga 21. apríl 2012. Eins og glögglega sést á myndinni er víðsýnt úr Garðinum. Ljósmynd: Sigurður Smári Hreinsson TF8SM.


Tækin frá Raunvísindastofnun. Guðmundur Sigurðsson TF3GS kemur einu þeirra fyrir í innganginum í Skeljanesi. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Skeljanesi 20. ágúst. Tækin komin í hús og sett til á borðin í ganginum inn í húsið. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Félagsmaður okkar, Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33 hefur unnið mikið og gott verk við að mála og snyrta til utanhúss í Skeljanesi á þessu sumri svo að eftir hefur verið tekið.

Hann hófst handa sunnudaginn 28. júní þegar hann mundaði málningarrúlluna á trévegginn við innganginn í húsið þar sem kallmerki félagsstöðvarinnar er fest (sjá ljósmynd). Sama dag hreinsaði hann til og gerði umhverfið snyrtilegt með sláttuorfi og garðáhöldum heimanað frá sér.

Næsta verkefni var stærra, en hann sagðist vera ósáttur við hve efri hæð hússins væri „skellótt“, þ.e. málning væri flögnuð af svo víða sæi í beran múr. Viku síðar, 3. júlí var Baldvin mættur í Skeljanes til að skrapa lausa málningu af efri hæðinni til undirbúnings fyrir málningu.

Þann 23. júlí tókst að ljúka undirbúningi og grunna framhliðina. Og vegna þess að ýmist var rigningartíð eða menn uppteknir, frestaðist að ljúka við að mála 2. hæðina til dagsins í dag, 17. ágúst. Mikill munur er á framhlið hússins eins og sjá má á ljósmyndum sem voru teknar fyrir og eftir verkið.

Stjórn ÍRA þakkar Baldvin Þórarinssyni, TF3-Ø33 fyrir frábært vinnuframlag og elju við að fegra til í umhverfi félagsaðstöðunnar í Skeljanesi.

29. júní: Baldvin bendir á kallmerki félagsstöðvarinnar TF3IRA sem nýtur sín vel á nýmáluðum veggnum við innganginn í Skeljanes.
17. ágúst: Framhlið hússins í Skeljanesi eftir að lokið var við að mála efri hæðina. Sjá neðri mynd til samanburðar.
Framhlið hússins fyrir breytingu. Ljósmyndir: TF3JB.

Stjórn ÍRA ákvað í morgun, 17. ágúst, að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð áfram, a.m.k. næstu tvo fimmtudaga, 20. og 27. ágúst. Engin starfsemi verður í húsnæðinu á okkar vegum á þessum tíma, þar til annað verður ákveðið.

Ástæðan er auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem tók gildi 14. ágúst og gildir til 27. ágúst, en fjöldatakmörkun er óbreytt frá fyrri ákvörðun sem og almenn nálægðartakmörkun um að tryggja skuli að hægt sé að hafa a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

Meginvandinn er að tryggja áskilda 2 metra fjarlægð milli einstaklinga, sem ekki er gerlegt í Skeljanesi. Ef allt fer vel á besta veg verður auglýst opnun á ný 3. september n.k.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Sunnudaginn 16. ágúst var mætt í Skeljanes eftir hádegið. Verkefni dagsins var að setja upp nýtt Diamond  X-700HN VHF/UHF loftnet fyrir TF3IRA. Veður var eins og best verður á kosið, sól og vart ský á himni og lofthiti 20°C.

Nýja loftnetið er betur staðsett en það eldra, á röri fyrir miðju húsinu á austurhlið (sbr. ljósmynd). Á móti kemur að nota þarf lengri kapal (25 metra) sem er Ultraflex-10 af vandaðri gerð með N-tengjum. Verkefnið heppnaðist með ágætum, standbylgja 1.2 á báðum böndum og Búri er nú vel læsilegur í Skeljanesi (sbr. lesningu á mæli á ljósmynd).

Eldra netið, Diamond SX-200N var upphaflega sett upp 29. september 2018. Síðan fært á öflugri festingu 15. desember sama ár og loks flutt á nýja (hærri) festingu 11. maí 2019. Líklegt er að það megi gera við það og þá er hugmyndin að það notist við APRS stöð félagsins, TF3IRA-1Ø.

Bestu þakkir til þeirra Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A og Georgs Kulp, TFGZ fyrir vinnuframlag og verkefni vel úr hendi leyst.

Stjórn ÍRA.

Georg Kulp TF3GZ reisir nýja Diamond X-700HN VHF/UHF loftnetið á austurhlið hússins í Skeljanesi. Nýja netið er 7.20 metrar á hæð. Það er samsett úr fjórum “stökkuðum” 5/8 loftnetum á VHF; ávinningur er 9.3 dBi. Á UHF er það samsett úr 11 “stökkuðum” 5/8 loftnetum; ávinningur er 13 dBi. Veðurþol er 40 m/sek. óstagað. Ljósmynd: TF3JB.
Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A setur N-tengin á Ultraflex-10 kóax kapalinn. Ljósmynd: TF3JB.
Stóra stundin! RigExpert AA-1400 loftnetsgreinirinn sýndi standbylgju 1.2 í resónans bæði á 2 metrum og 70 sentímetrum. Þá gátu menn andað léttar, farið niður á neðri hæðina og fengið sér kaffi. Ljósmynd: TF3JB.
Yaesu FT-7900E VHF/UHF stöð TF3IRA opnaði endurvarpann Búra auðveldlega á nýja loftnetinu. Styrkur merkisins frá Búra í móttöku í Skeljanesi var 5 strik. Ljósmynd: TF3JB.

Alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra, IARU, hafa skipað sérhæfðan vinnuhóp til endurskoðunar á tíðniplönum á HF böndunum með sérstöku tilliti til fjarskipta á stafrænum tegundum útgeislunar.

Verkefnið er að endurskoða staðsetningu fjarskipta fyrir stafrænar tegundir útgeislunar, með það í huga að auka tíðnisviðið. Ástæðan er, mikil aukning í fjarskiptum þar sem notaðir eru t.d. FT4 og FT8 samskiptahættir sem eru samskiptareglur undir MFSK mótun. Þátttakendur í þessu starfi eru sérfræðingar í tíðninefndum frá öllum IARU Svæðum I, II og III.

Tíðniplön/tíðniskipan eru einskonar „umferðarreglur“ radíóamatöra á böndunum, sem við setjum okkur sjálfir innan ríkjandi tíðniheimilda stjórnvalda.

Starfið hófst í byrjun þessa mánaðar (ágúst) og hafa þegar verið haldnir góðir fundir, m.a. með Joseph H. Taylor, K1JT sem fer fyrir WSJT hópnum sem þróaði FT8 og FT4 samskiptahættina. Fleiri fundir eru framundan en þess er vænst að tillögur hópsins liggi fyrir í vetrarbyrjun.

Stjórn ÍRA fagnar frumkvæði IARU í málinu.

https://www.iaru.org/2020/hf-digital-mode-band-plan-review/

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Ólafur B. Ólafsson TF3ML; Samúel Þór Hjaltalín TF3SUT og Árni Þór Ómarsson TF3CE gerðu ferð á Skálafell síðdegis 12. ágúst. Á dagskrá var, að koma loftneti endurvarpans TF3RPK í lag fyrir veturinn.

Í ljós kom, að fæðilína loftnetsins var verr á sig komin en menn höfðu talið, þannig að bráðabirgðaloftnetið sem sett var upp í ferð þeirra TF1A og TF3GZ á fjallið þann 30. júlí s.l., verður notuð áfram uns tækifæri gefst til að endurnýja kapalinn.

Að sögn Ara, voru aðstæður á fjallinu ekki þær hagstæðustu, rigning, vindur og 3°C lofthiti. Áætlað er að ljúka verkefninu í næstu ferð, sem farin verður fljótlega.

Á myndinni til vinstri má sjá Samúel Þór TF3SUT yfirfara kapalinn þar sem hann liggur upp í turninn úr kapalrennunni. Ljósmynd: Árni Þór TF3CE.

.

Ari les af RigExpert AA-1400 loftnetsgreininum. Niðurstaða: Skipta út kaplinum! Ljósmynd: Árni Þór Ómarsson TF3CE.
Á Skálafelli 12. ágúst áður en haldið var niður af fjallinu. Samúel Þór Hjaltalín TF3SUT, Ólafur B. Ólafsson TF3ML og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. Ljósmynd: Árni Þór Ómarsson TF3CE.