Háskólinn í Alaska; University of Alaska Fairbanks, birtir norðurljósaspár sem eru gerðar til 27 daga í senn. Hægt er að velja á milli fimm korta, fyrir Norður-Ameríku, Evrópu, Norðurpólinn, Suðurpólinn og Alaska.

Spáin fyrir Evrópu í dag (10. október) er þessi: „Forecast: Auroral activity will be moderate. Weather permitting, moderate displays will be visible overhead in Tromsø, Norway and Reykjavik, Iceland, and visible low on the horizon as far south as Sundsvall, Sweden and Arkhangelsk, Russia“.

Vefslóð: https://www.gi.alaska.edu/monitors/aurora-forecast

GREIN UM AMATÖR RADÍÓ

Nýlega kom út tímaritið Raflost sem er ársrit VÍR, félags verkfræði- og tölvuverkfræðinema við Háskóla Íslands 2021.

Meðal efnis í blaðinu er greinin „Amatör Radíó“ eftir þá Kristinn Andersen, TF3KX og Sæmund E. Þorsteinsson, TF3UA. Þeir félagar gera áhugamálinu góð skil. Umfjöllunin skiptist eftirfarandi: Upphaf amatör radíós; merkja-tegundir; leyfi fyrir amatör radíó; búnaður radíóamatöra; félagsstarf radíóamatöra og lokaorð. Greininni fylgir m.a. ljósmynd af þeim Elínu Sigurðardóttur, TF2EQ og Árna Frey Rúnarssyni, TF8RN ungmenna-fulltrúum ÍRA.

Þakkir til þeirra félaga fyrir áhugaverða og vel skrifaða grein.

Stjórn ÍRA.

Vefslóð: https://www.flipsnack.com/brynjath/raflost.html?fbclid=IwAR2hl82RurGAxQSR5XqIhWhc60uXYUIhtWgFRWCHZgKnk2dWycITqgeN990

Georg Kulp, TF3GZ vann í dag (6. október) að undirbúningi enduruppsetningar 160 metra loftnets TF3IRA, sem upphaflega var sett upp 26. júní s.l., en slitnaði svo niður í roki í ágústmánuði. Í gær tók hann niður gömlu festinguna og setti upp 5 metra hátt vatnsrör (á þakinu fyrir utan fjarskiptaherbergið á 2. hæð). Í dag lauk hann síðan við frágang á festingunni með því að ganga frá stagfestu í þakið sem verður mótvægi við væntanlegan loftnetsþráð.

Fyrirhuguð enduruppsetning gerir ráð fyrir að loftnetsþráðurinn liggi í „einu hafi“ í austsuðausturátt frá húsinu og endi í 6 metra háu vatnsröri sem verður reist í stað núverandi 4 metra rörs með samsíðafestingu við einn girðingarstaurinn sem þarna er (skammt frá dælustöðinni). Að sögn Georgs, er nýi loftnetsvírinn sem keyptur var hjá Ísfelli í Hafnarfirði gerður fyrir íslenskar aðstæður.

Áformað er að ljúka enduruppsetningu loftnetsins fyrir 160 metrana áður en tekið verður til við uppsetningu loftneta fyrir 80, 40, 60 og 30 metra böndin.

Stjórn félagsins þakkar Georg Kulp, TF3GZ fyrir frábært vinnuframlag.

Stjórn ÍRA.

Georg Kulp TF3GZ í á þaki hússins í Skeljanesi í sólinni í dag (6. október). Gamla festingin farin og 5 metra hátt vatnsrör komið upp á sama stað.
Stagfestan komin í þakið (sjá niðri til vinstri á myndinni). Síðustu handtökin hjá Georg voru að stilla strekkjarann. Eftir er að reisa hærra vatnsrör við girðinguna við dælustöðina. Síðan verður loftnetið sett upp aftur.
Georg Kulp TF3GZ og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A léttir í lund í Skeljanesi í dag (6. október). Vínarbrauðslengja frá Björnsbakaríi var með kaffinu. Ljósmyndir: TF3JB.

Stærsta vefverslun fyrir radíóamatöra í Evrópu, WiMO í Þýskalandi hefur upplýst að ICOM hafi tilkynnt 5% verðhækkun frá verksmiðju eftir miðjan þennan mánuð (október).

Á netinu tala menn um að ekki sé víst að þessi verðhækkun komi fram í verði hjá stærri seljendum, en ekkert er þó víst í þeim efnum. Menn segja líka að Yaesu sé [líklega] að hækka verð á allri sinni framleiðslu. Ástæða er sögð vera hækkað verð íhluta (sem m.a. er afleiðing af Covid-19 faraldrinum).

Skráð viðmiðunargengi S.Í. í gær, miðgengi (5.10.) var: USD 127.58; GBP 173,78 og EUR 148,00.

Reiknað verð á Icom IC-7300 100W HF/50MHz sendi-/móttökustöð með öllum gjöldum til Íslands er (m.v. gengi 5.10)  um 173 þús. krónur. Verð á sömu stöð eftir hækkun yrði um 182 þúsund krónur.

.

.

Skilyrðin á HF byrjuðu að batna upp úr miðjum síðasta mánuði (september) og hafa verið góð síðustu daga. Í morgun (5. október) voru böndin t.d. vel opin alveg upp á 24 MHz.

Í byrjun október eru tæp 2 ár frá því við vorum á botni 11 ára sólblettasveiflunnar, þannig að búast má við batnandi skilyrðum.

27 daga spá NOAA (4.10.-30.10.) er nokkuð góð. Flux‘inn helst að mestu í 88 út mánuðinn og spáin gerir t.d. ráð fyrir gildinu 100 þann 26. október. Það lofar góðu, m.a. fyrir þá sem ráðgera þátttöku í CQ WW DX SSB keppninni sem fer fram nokkrum dögum síðar, þ.e. helgina 30.-31. október.

Vefslóð á síðu NOAA: https://www.swpc.noaa.gov/products/27-day-outlook-107-cm-radio-flux-and-geomagnetic-indices

Fjöldi sólbletta stendur í 29 í dag (5. október) sem er heldur lægri tala en í gær, sem fjöldi sólbletta var 38. Samkvæmt spánni mun fjöldi sólbletta sveiflast fram eftir mánuðinum

Líkt og gjarnan gerist þegar sólin er þetta virk koma truflanir (segulstormar) vegna þess að meiri virkni sólar þýðir meiri norðurljós og óstöðugleika sbr. stöplaritið frá NOAA fyrir K-gildið vikuna 17.-23. nóvember.

Myndin er fengin að láni hjá ElectronicNotes á netinu. Bent er á fróðleg erindi Vilhjálms Þórs Kjartanssonar TF3DX á heimasíðu ÍRA, m.a. um sólbletti og skilyrðin; samhengi sólbletta og skilyrða til radíósambanda. Vefslóð: http://www.ira.is/itarefni/

.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 7. október frá kl. 20 til 22.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Kaffiveitingar og nýjustu tímaritin fyrir radíóamatöra frá systurfélögum ÍRA liggja frammi, m.a. á norðurlanda-málum, ensku, þýsku, frönsku og ítölsku.

Enn er töluvert af radíódóti í boði og þótt mikið hafi gengið út hefur borist meira dót upp á síðakastið.

QSL stjóri tæmir pósthólf félagsins alla miðvikudaga þannig búið verður að færa í hús og flokka nýjustu kortasendingarnar.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

.

63. Scandinavian Activity keppnin (SAC) – SSB hluti – verður haldin um næstu helgi, 9.-10. október.

Þetta er 24 klst. keppni sem hefst á laugardag á hádegi og lýkur á sunnudag á hádegi.

Radíóamatörar í Danmörku, Íslandi, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð keppa ásamt radíóamatörum á Svalbarða, Bjarnareyju, Álandseyjum, Market Reef, Grælandi og í Færeyjum á móti heiminum og innbyrðis.

Svalbarði og Bjarnareyja – JW
Jan Mayen – JX
Noregur – LA – LB – LC – LG – LI – LJ – LN
Finnland – OF – OG – OH – OI
Álandseyjar –  OFØ – OGØ – OHØ
Market Reef – OJØ
Grænland – OX – XP
Færeyjar – OW – OY
Danmörk – 5P – 5Q – OU – OV – OZ
Svíþjóð – 7S – 8S – SA – SB – SC – SD – SE – SF – SG – SH – SI – SJ – SK – SL – SM
Ísland – TF

Mikilvægt er að sem flestar TF-stöðvar taki þátt!

Stjórn ÍRA.

https://www.sactest.net/blog/

35. CQ WW RTTY DX keppnin fór fram 25.-26. september 2021.

Frestur til að skila dagbókum til keppnisstjórnar rann út á miðnætti 1. október. Dagbókum var skilað inn fyrir alls átta TF kallmerki vegna þátttöku í keppninni í fjórum keppnisflokkum.

TF1AM – einmenningsflokkur – háafl.
TF2CT – einmenningsflokkur – háafl.
TF3IRA – einmenningsflokkur – háafl.
TF3AO – einmenningsflokkur – háafl, aðstoð.
TF2MSN – einmenningsflokkur – lágafl.
TF3VE – einmenningsflokkur – lágafl.
TF3VS – einmenningsflokkur – lágafl.
TF3PPN – einmenningsflokkur – lágafl, aðstoð.

Niðurstöður verða kynntar í marshefti CQ tímaritsins 2022.

Stjórn ÍRA.

KiwiSDR vitæki TF3GZ á Raufarhöfn (10 kHz-30 MHz) varð QRV á ný í gær (30. september). Viðtækið hafði verið úti í um vikutíma þar sem rafmagnið hafði slegið út. Þakkir til Rögnvaldar Helgasonar sem er búsettur þar á staðnum sem gangsetti tækið.

Vefslóðir á KiwiSDR viðtækin þrjú sem í dag eru virk yfir netið:

Raufarhöfn: http://raufarhofn.utvarp.com

Bjargtangar: http://bjarg.utvarp.com

Bláfjöll: http://bla.utvarp.com:8080/

Airspy R2 SDR viðtæki TF3CZ yfir netið (24-1800 MHz) sem staðsett er í Perlunni í Reykjavík var tekið niður vegna viðhalds í gær (30. september). Karl Georg áætlar að það verði aftur orðið virkt snemma í næstu viku.

Vefslóð á viðtækið: http://perlan.utvarp.com/?fbclid=IwAR268BADYCqimpAbozFMfFi31mw3g4wjOGpV6Kpd6NThnd2VMKho1YRXLSE#freq=144800000,mod=nfm,secondary_mod=packet,sql=-150

Raufarhöfn 30.9. Myndin sýnir fæðingu T-loftnetsins fyrir KiwiSDR viðtækið. Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.
Reykjavík 30.9. Myndin sýnir (efst til hægri) loftnetið fyrir Airspy R2 SDR viðtækið á Perlunni í Öskjuhlíð. Ljósmynd: Karl Georg TF3CZ.

Stjórn ÍRA samþykkti á fundi 28. september að fresta auglýstu námskeiði til amatörleyfis, sem átti að hefjast 4. október n.k. og ljúka með prófi Fjarskiptastofu 11. desember. Ástæðan er lítil þátttaka, en aðeins þrír skráðu sig og greiddu námskeiðsgjald. Þeir fá nú endurgreitt.

Næsta námskeið verður í boði í febrúar til maí 2022. Athugað verður með að bjóða samtímis, staðarnámskeið í Háskólanum í Reykjavík og fjarnámskeið yfir netið.

Komi í ljós áhugi fyrir að sitja próf til amatörleyfis án undangengins námskeiðs, mun félagið taka það mál upp við Fjarskiptastofu að efnt verði til prófs til amatörleyfis 11. desember n.k.

Stjórn ÍRA.

Ritstjóri vekur athygli á að enn er hægt að senda efni í næsta tölublað CQ TF þar sem frestur rennur ekki út fyrr en 30. september n.k.

Nýja blaðið kemur út sunnudaginn 17. október n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Fyrirfram þakkir og 73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

76. Oceania DX keppnin á SSB verður haldin um næstu helgi, 2.-3. október. Landsfélög radíóamatöra í Ástralíu (WIA) og á Nýja Sjálandi (NZART) standa saman að viðburðinum.

Þetta er 24 klst. keppni sem hefst kl. 06 laugardaginn 2. október og lýkur kl. 06 sunnudaginn 3. október. Keppnin fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metra böndunum.

QSO punktar fyrir sambönd við stöðvar í Eyjaálfu (e. Oceania) eru: 160m=20; 80m=10, 40m=5, 20m=1, 15m= 1 og 10m=3. Sambönd við stöðvar utan álfunnar gefa ekki punkta. Margfaldarar reiknast fyrir fyrsta samband á hverju bandi við hvert forskeyti kallmerkja í Eyjaálfu. Önnur sambönd gefa ekki margfaldara.

Morshluti keppninnar fer fram viku síðar, helgina 9.-10. október. Vefslóð á keppnisreglur: https://www.oceaniadxcontest.com/

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Sýnishorn af viðurkenningu er fengið að láni frá ZM4G sem sigraði í einmenningskeppni í morsi yfir Eyjaálfu á 40 metrum árið 2013.
Forskeytin í Eyjaálfu eru sýnd með bláum títuprjónshausum á hnattlíkaninu.