Veisluborðið í Skeljanesi 15. desember 2022. Ljósmynd: TF3FG.

Jólakaffi ÍRA 2022 var haldið í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 15. desember.

Kvöldið heppnaðist vel. Mikil ánægja – allir hressir og umræður á báðum hæðum. Skemmtilegur endir á metnaðarfullri vetrardagskrá félagsins sem hófst 6. október s.l. Við notuðum öll fimmtudagskvöld á tímabilinu og að auki – einn miðvikudag, einn laugardag og fimm sunnudaga.

Þessi vinsæli viðburður var síðast haldinn árið 2019 þar sem fella þurfti jólakaffið niður árin 2020 og 2021 vegna Covid-19 faraldursins. Félagsaðstaðan opnar næst fimmtudaginn 5. janúar 2023.

Alls mættu 33 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þetta veðurstillta og fagra vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Anna Henriksdóttir TF3VB skar fyrstu sneiðina af ístertunni frá Kjörís. Ljósmynd: TF3JON.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB myndar TF3VB. Ljósmynd: TF3JON.
Höskuldur Elíasson TF3RF, Bjarni Magnússon TF3BM, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: TF3JON.
Heimir Konráðsson TF1EIN og Jón Björnsson TF3PW (fremst á mynd). Ljósmynd: TF3JON.
Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE. Ljósmynd: TF3JON.
Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Georg Kulp TF3GZ, Benedikt Sveinsson TF1T, Heimir Konráðsson TF1EIN og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd. TF3JON.
Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Jón G. Guðmundsson TF3LM, Mathías Hagvaag TF3MH og Andrés Þórarinsson TF1AM. Fjær: Erling Guðnason TF3E og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE. Ljósmynd: TF3JON.
Bjarni Magnússon TF3BM tók með sér og sýndi viðstöddum fyrstu handstöðina á HF. Þetta er kristalstýrð lampastöð frá því fyrir seinna stríð af gerðinni BC-611 og var framleidd af Galvin Mfg. Corp. í Chicago fyrir bandaríska herinn. Ljósmynd: TF3SB.
Andrés Þórarinsson TF1AM. Ljósmynd: TF3JON.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Anna Henriksdóttir TF3VB og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID. Fjær: Georg Kulp TF3GZ. Ljósmynd: TF3KB.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Jónas Bjarnason TF3JB og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG. Ljósmynd: TF3KB.
Eiður Kristinn Magnússon TF1EM, Jón Svavarsson TF3JON, Jón Björnsson TF3PW, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE. Ljósmynd: TF3KB.
Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Kristján Benediktsson TF3KB. Ljósmynd: TF3JB.

ARRL 10 metra keppnin 2022 fór fram helgina 10.-11. desember.

A.m.k. fjögur TF kallmerki voru meðal þátttakenda:

TF1AM, TF2LL, TF3DC og TF3SG.

Alls voru keppnisgögn fyrir 5499 kallmerki kominn inn í dag, föstudag 16. desember.

Frestur til að skila inn gögnum rennur út á miðnætti á sunnudag.

Stjórn ÍRA.

.

Síðasti viðburður á vetrardagskrá ÍRA 2022 er jólakaffi félagsins, viðhafnarkaffi sem haldið verður í félagsaðstöðunni í Skeljanesi, fimmtudaginn 15. desember.

Húsið verður opnað kl. 20:00 að venju.

Þetta verður jafnframt síðasta opnun félagsaðstöðunnar á þessu ári en hún verður næst opin fimmtudaginn 5. janúar 2023.

Þessi vinsæli viðburður var síðast haldinn árið 2019 þar sem við þurftum að fella jólakaffið niður 2020 og 2021 vegna Covid-19 faraldursins.

Stjórn ÍRA.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 3.-9. desember 2022.

Alls fengu 17 TF kallmerki skráningu. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8, FT4 og F1D), en einnig á morsi (CW), tali (SSB) og F1D (WSPR). Bönd: 10, 12, 15, 17, 20, 40, 60, 80, 160 metrar og QO-100 (2.4 GHz „uplink“).

Kallmerki fær skráningu þegar leyfishafi [eða hlustari] hefur haft samband við [eða heyrt í] TF kallmerki. Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/ Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund(ir) útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

TF1A               FT8 á 12M og SSB á 80M
TF1EIN            FT8 á 10M og 60M
TF1EM            FT8 á 12M, 40M og 60M
TF2MSN          SSB á 160M og FT8 á 15M og 40M
TF3DC             CW á 12M og 17M
TF3HZ             F1D (WSPR) á 40M
TF3JB              SSB á 10M og 160M og FT4 á 20M
TF3SG             CW á 40M
TF3VE             FT8 á 10M og 20M
TF3VG            FT8 á 17M
TF3VP             SSB á 160M og QO-100
TF3WO            SSB á 160M
TF3XO            SSB á 17M
TF/NØAD        SSB á 20M
TF4AH            F1D (WSPR) á 40M
TF4M               F1D (WSPR) á 40M
TF5B               FT8 á 10M og 17M

.

TF3XO var QRV 3.-9. desember. Myndin er af glæsilegri fjarskiptaaðstöðu Jakobs í Reykjavík. Mynd: Jakob Geir Kolbeinsson TF3XO.
Frá vinstri: Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Valgeir Pétursson TF3VP, Jónas Bjarnason TF3JB, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Óskar Sverrisson TF3DC.

Jónas Bjarnason, TF3JB mætti á „sófasunnudag“ í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 11. desember. Umræðuþema var: „Reglugerðarumhverfi radíóamatöra og WRC-23“. Þetta var fimmti og síðasti sófasunnudagur á vetraráætlun félagsins á þessu ári.

Vakin var athygli á að í ár, 2022 – voru liðin 75 ár frá setningu fyrstu reglugerðarinnar um starfsemi radíóamatöra, þann 7. febrúar 1947. Farið var yfir fjölda reglugerða sem komið hafa út síðan (9 talsins) og fjallað um nokkrar breytingar sem átt hafa sér stað á þessum tíma, m.a. þegar við fengum 80 m. og 160 m. böndin (1964 og 1981), „WARC 79“ böndin (1987), útvíkkun 40 m. bandsins (2004), 60 metra bandið (2017), auk þess sem rætt var um sögu sérheimilda á 160 m., 6 m. og 4 m. og uppfærslu þeirra fyrir árin 2023 og 2024.

Fjallað var um uppbyggingu og innihald íslensku reglugerðarinnar (m.a. réttindi og skyldur leyfishafa). Einnig um reglugerðarumhverfið sjálft, sem byggir á samþykktum ITU, Alþjóðasambands fjarskiptamála  (International Telecommunication Union), úrvinnslu CEPT, Samtaka stjórnvalda í sviði pósts og fjarskipta í Evrópu (Conference Européenne des Administrations des Postes et des Telecommunications)  og loks setningu heimilda (reglugerða) hjá aðildarþjóðum ITU sem eru 172 talsins. Komið var inn á bandplön sem eru óbeinn hluti af þessu umhverfi og þau kynnt, rætt um mikilvægi þeirra og farið yfir bandplön fyrir 5 MHz, 7 MHz, 10 MHz og 14 MHz tíðnisviðin.

Farið var yfir skilgreiningar og forsendur m.t.t. alþjóðareglugerðarinnar, m.a. skilgreiningu á radíóáhugamannaþjónustunni og HAREC kröfunum sem tóku fyrst gildi árið 2002 (Harmonized Amateur Radio Examination Certificate). Farið var yfir helstu samþykktir á tíðniákvörðunarráðstefnum ITU, WRC (World Radio Conference) árin 2007-2019 sem varða hagmuni radíóamatöra.

Loks var sérstaklega farið yfir og skoðuð staðan hvað varðar undirbúning WRC-23 (20.11.-15.12.2023) hvað varðar 1240-1300 MHz bandið og skoðuð nýjasta vinnutillaga IARU frá því í nóvember 2022. Einnig var fjallað um vinnu sem samhliða fer fram innan vinnuhóps í CEPT til undirbúnings EEC skýrslu. Að lokum var bent á vefslóðir fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með undirbúningi ráðstefnunnar 2023.

Viðburðurinn hófst kl. 11:00 stundvíslega. Dreift var 16 bls. úthendi (e. handout) sem haft var til hliðsjónar við flutning. Spurningum var svarað samfara flutningi sem lauk skömmu fyrir klukkan 12 á hádegi. Umræður stóðu síðan yfir til kl. 13:30 og var staðurinn yfirgefinn um kl. 14.

Alls mættu 15 félagsmenn og 2 gestir þennan ágæta frostkalda sunnudag í vesturbænum í Reykjavík. Þakkir til Kristjáns Benediktssonar, TF3KB fyrir ljósmyndir.

Stjórn ÍRA.

Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Góður gestur kom í heimsókn. Oddur F. Helgason framkvæmdastjóri Ættfræðiþjónustunnar ORG sf., sagðist “…ekkert ætla að trufla, hann ætlaði bara að sjá framan í strákana og fá sér kaffisopa!”. Frá vinstri: Jónas Bjarnason TF3JB, Oddur F. Helgason, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmyndir: TF3KB.

Uppfærð DXCC staða TF kallmerkja er miðað við 10. desember 2022. Sautján TF kallmerki eru nú með virka skráningu. Að þessu sinni hefur staða 6 kallmerkja verið uppfærð frá fyrri lista (11.11.2022).

Andrés Þórarinsson, TF1AM er nýr á íslenska DXCC listanum. Hann kemur inn með 7 nýjar viðurkenningar: DXCC Mixed, DXCC Phone, DXCC CW, DXCC DIGITAL, DXCC 15m, DXCC 20m og DXCC 40m.

Upplýsingar liggja fyrir um a.m.k. 25 íslensk kallmerki sem hafa sótt um og fengið DXCC viðurkenningar til þessa dags.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram. Sunnudag 11. desember kl. 11:00 verður Jónas Bjarnason, TF3JB með umræðuþema á sunnudagsopnun: „Reglugerðarumhverfi radíóamatöra og WRC-23“.

Viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki um kl. 12 á hádegi, en húsið er opnað kl. 10:30.

Rúnstykki og vínarbrauð frá Björnsbakaríi með kaffinu.

Stjórn ÍRA.

Guðmundur Sigurðsson TF3GS byrjar erindi sitt um APRS skilaboða- og ferilvöktunarkerfið.

Guðmundur Sigurðsson, TF3GS mætti í Skeljanes 8. desember með erindið: „APRS Automatic Packet Reporting System“; sjálfvirkt skilaboða- og ferilvöktunarkerfi.

Hann sagði okkur á lifandi hátt frá APRS sem var fundið var upp og þróað af bandarískum radíóamatör, Robert E. Bruinga, WB4APR sem smíðaði og gangsetti fyrsta APRS kerfið fyrir 40 árum (1982) með því að notast við Apple II heimilistölvu. APRS náði þó fyrst útbreiðslu um áratug síðar (1992) þegar GPS varð aðgengilegt (vegna kostnaðar). Frá þeim tíma hefur APRS verið stöðugt í þróun og er í dag m.a. grundvöllur staðarákvörðunarkerfa í flugi og á sjó um allan heim.

Guðmundur útskýrði vel þau þrenn hugtök sem varða kerfið: (1) TNC (e. tracker) sem ýmist getur verið innbyggt í fjarskiptastöð eða utanáliggjandi; (2) „Digipeater“; búnaður sem endurvarpar merkinu; og (3) „Digipeater/I-gate“ sem endurvarpar merkinu og sendir inn á netið. Hann kynnti einnig áhugaverðar APRS heimasíður, m.a. https://aprs.fi

Guðmundur skýrði vel hvernig kerfið virkar, þ.e. allar stöðvar hlusta á tíðnina 144.800 MHz og síðan er valkvætt hvort sent er 1, 2 eða 3 „hopp“. Til skýringar er, að þrjú hopp eru einkum notuð t.d. í hálendisferðum þegar langt er í næstu „I-gátt“. Í því sambandi tók hann dæmi og sýndi og útskýrði þegar TF3CE fór ferð inn á hálendið í sumar.

Kerfið er ekki dýrt í uppsetningu og sú reynsla sem íslenskir radíóamatörar hafa aflað sýnir, að koma má upp samtengdu kerfi stafvarpa (e. digipeters) sem veita vöktun á stór-Reykjavíkursvæðinu og um landið – allt eftir fjölda stafvarpa og staðsetningu. Í dag eru níu APRS stafvarpar og/eða internetgáttir virkar hér á landi, m.a. í Reykjavík, á Búrfelli, Reynisfjalli, í Landeyjum, á Vaðlaheiði, Akureyri, í Grindavík og á Úlfljótsfjalli.

APRS búnaður var fyrst settur upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi árið 2011, síðastliðin fjögur ár (frá 2018) hefur TF3IRA-1Ø verið QRV frá Skeljanesi.

Sérstakar þakkir til Guðmundar fyrir vel flutt, fróðlegt og vandað erindi. Hann bauð upp á spurningar og svaraði samhliða flutningi (og á eftir) sem kom vel út. Umræður héldu áfram eftir lok erindisins þegar viðstaddir skoðuðu sýnishorn af APRS stöðvum og búnaði.

Alls mættu 17 félagar og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Guðmundur ræðir meginhugtök í APRS og vísaði m.a. á skýringarmyndir á glærunni.
Mikið var spurt út í notagildið sem er vel útskýrt á glærunni.
Guðmundur kom að lokum inn á núverandi uppbyggingu APRS á Íslandi og sagði frá framtíðarhugmyndum APRS hópsins.
Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Einar Kjartansson TF3EK, Ingimundur Björgvinsson TF4-ØØ5 (nýr félagsmaður okkar búsettur í Hnífsdal sem bíður eftir að komast á næsta námskeið til amatörprófs) og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM. Myndir: TF3JB og TF3KB.

ARRL 10 metra keppnin fer fram helgina 10.-11. desember. Þetta er 48 klst. keppni, en þátttaka er heimiluð í mest 36 klst.

Þetta er keppni þar sem allir hafa samband við alla, hvar sem er í heiminum. Hafa má samband einu sinni við hverja stöð á hvorri tegund útgeislunar. Skilaboð eru RS(T) og raðnúmer. W-stöðvar senda RS(T) og ríki í Bandaríkjunum og VE-stöðvar RS(T) og fylki í Kanada.

Keppnin fer samtímis fram á tali og morsi. Heimilt er að taka þátt eingöngu á tali, á morsi eða hvoru tveggja (e. mixed mode). Sjá nánar í keppnisreglum.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

http://www.arrl.org/10-meter
http://www.arrl.org/files/file/Contest%20Rules%20PDFs/2022/ARRL%2010%20Rules%20-%201_08%20-%202022.pdf

Icom IC-7410 100W HF/50 MHz sendi-/móttökustöð með Icom HM-36 handhljóðnema. Við stöðina er tengdur Warfdale Modus hátalari og Daiwa CN-801 standbylgju-/aflmælir. Ljósmynd: TF3JB.

Áramótasending korta frá TF ÍRA QSL Bureau (kortastofu) fer að þessu sinni fram í janúar 2023. Þá verða öll kort sem borist hafa til stofunnar (þ.á.m. til smærri staða) póstlögð til kortastofa systurfélaganna um allan heim.

Síðasti skiladagur vegna áramótaútsendingar 2022/23 verður fimmtudagskvöldið 5. janúar 2023. Þau kort sem berast í QSL kassann í Skeljanesi það kvöld verða örugg með að komast í flokkun og til útsendingar. Gjaldskrá er óbreytt, 12 krónur á kort, sama hvert sem er í heiminum.

8. desember 2023,

73,
Mathías Hagvaag, TF3MH,
QSL stjóri ÍRA.

Mathías Hagvaag, TF3MH QSL stjóri kortastofu ÍRA lauk við árlega uppfærslu á merkingum QSL hólfa stofunnar 14. ágúst s.l. Ljósmynd. TF3JB.

CQ World Wide DX CW keppnin 2022 fór fram 26. og 27. nóvember s.l. Keppnisgögn fyrir 8 TF kallmerki voru send inn, þar af 1 viðmiðunardagbók (e. check-log).

Bráðabirgðaniðurstöður (e. raw scores) liggja fyrir frá keppnisnefnd samkvæmt áætlaðri stöðu í viðkomandi keppnisflokki yfir heiminn og yfir Evrópu. Niðurstöður verða birtar í júníhefti CQ tímaritsins 2023.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, HÁAFL:
TF3SG – Nr. 67 yfir heiminn; nr. 17 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, ÖLL BÖND, HÁAFL:
TF1AM – Nr. 529 yfir heiminn; nr. 193 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, ÖLL BÖND, LÁGAFL:
TF3DC – Nr. 259 yfir heiminn; nr. 141 í Evrópu.
TF3EO – Nr. 300 yfir heiminn; nr. 165 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, ÖLL BÖND, LÁGAFL:
TF3VS – Nr. 345 yfir heiminn; nr. 180 í Evrópu.
TF8KY – Nr. 1133 yfir heiminn; nr. 594 í Evrópu.

EINMENNINGSFLOKKUR, AÐSTOÐ, 10 METRAR, HÁAFL:
TF3Y – Nr. 106 yfir heiminn; nr. 62 í Evrópu.

VIÐMIÐUNARDAGBÓK:
TF3JB.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

https://www.cqww.com/raw.htm?mode=cw

Kort EI8IC sýnir svæðaskiptingu heimsins í 40 CQ svæði.
Myndin var tekin þegar Guðmundur Sigurðsson TF3GS fjallaði um stafvarpa og internetgáttir á félagsfundi ÍRA 1. desember s.l.

Vetrardagskrá félagsins heldur áfram á fimmtudag, 8. desember kl. 20:30. Þá mætir Guðmundur Sigurðsson, TF3GS með erindið: „APRS skilaboða- og ferilvöktunarkerfið (Automatic Packet Reporting System)“.

Guðmundur mun m.a. lýsa uppbyggingu APRS sem ferilvöktunarkerfis fyrir radíóamatöra og hvernig t.d. má líka senda stutt textaskilaboð í samskiptum, án aðkomu tölvu. Kerfið er ekki dýrt í uppsetningu og sú reynsla sem íslenskir radíóamatörar hafa aflað nú í meir en áratug sýnir, að koma má upp samtengdu kerfi stafvarpa (e. digipeters) sem veita vöktun á stór-Reykjavíkursvæðinu (og víðar um landið) – allt eftir fjölda stafvarpa og staðsetningu þeirra, en kerfið vinnur á 144.800 MHz í metrabylgjusviði.

Félagsmenn eru hvattir til að láta erindi Guðmundar ekki fram hjá sér fara. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Stjórn ÍRA.

Innsetning 6.12.2022: Guðmundur kemur með APRS búnað sem verður til sýnis í fundarhléi.

Myndin er af Yaesu FT-7900E VHF/UHF FM stöð TF3IRA og Icom IC-208H VHF APRS stöð TF3IRA-1Ø sem hefur verið QRV frá Skeljanesi í 4 ár (frá 15.12.2018). Ljósmyndir: TF3JON.