,

GÓÐUR SUNNUDAGUR Í SKELJANESI

Frá vinstri: Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Valgeir Pétursson TF3VP, Jónas Bjarnason TF3JB, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Óskar Sverrisson TF3DC.

Jónas Bjarnason, TF3JB mætti á „sófasunnudag“ í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 11. desember. Umræðuþema var: „Reglugerðarumhverfi radíóamatöra og WRC-23“. Þetta var fimmti og síðasti sófasunnudagur á vetraráætlun félagsins á þessu ári.

Vakin var athygli á að í ár, 2022 – voru liðin 75 ár frá setningu fyrstu reglugerðarinnar um starfsemi radíóamatöra, þann 7. febrúar 1947. Farið var yfir fjölda reglugerða sem komið hafa út síðan (9 talsins) og fjallað um nokkrar breytingar sem átt hafa sér stað á þessum tíma, m.a. þegar við fengum 80 m. og 160 m. böndin (1964 og 1981), „WARC 79“ böndin (1987), útvíkkun 40 m. bandsins (2004), 60 metra bandið (2017), auk þess sem rætt var um sögu sérheimilda á 160 m., 6 m. og 4 m. og uppfærslu þeirra fyrir árin 2023 og 2024.

Fjallað var um uppbyggingu og innihald íslensku reglugerðarinnar (m.a. réttindi og skyldur leyfishafa). Einnig um reglugerðarumhverfið sjálft, sem byggir á samþykktum ITU, Alþjóðasambands fjarskiptamála  (International Telecommunication Union), úrvinnslu CEPT, Samtaka stjórnvalda í sviði pósts og fjarskipta í Evrópu (Conference Européenne des Administrations des Postes et des Telecommunications)  og loks setningu heimilda (reglugerða) hjá aðildarþjóðum ITU sem eru 172 talsins. Komið var inn á bandplön sem eru óbeinn hluti af þessu umhverfi og þau kynnt, rætt um mikilvægi þeirra og farið yfir bandplön fyrir 5 MHz, 7 MHz, 10 MHz og 14 MHz tíðnisviðin.

Farið var yfir skilgreiningar og forsendur m.t.t. alþjóðareglugerðarinnar, m.a. skilgreiningu á radíóáhugamannaþjónustunni og HAREC kröfunum sem tóku fyrst gildi árið 2002 (Harmonized Amateur Radio Examination Certificate). Farið var yfir helstu samþykktir á tíðniákvörðunarráðstefnum ITU, WRC (World Radio Conference) árin 2007-2019 sem varða hagmuni radíóamatöra.

Loks var sérstaklega farið yfir og skoðuð staðan hvað varðar undirbúning WRC-23 (20.11.-15.12.2023) hvað varðar 1240-1300 MHz bandið og skoðuð nýjasta vinnutillaga IARU frá því í nóvember 2022. Einnig var fjallað um vinnu sem samhliða fer fram innan vinnuhóps í CEPT til undirbúnings EEC skýrslu. Að lokum var bent á vefslóðir fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með undirbúningi ráðstefnunnar 2023.

Viðburðurinn hófst kl. 11:00 stundvíslega. Dreift var 16 bls. úthendi (e. handout) sem haft var til hliðsjónar við flutning. Spurningum var svarað samfara flutningi sem lauk skömmu fyrir klukkan 12 á hádegi. Umræður stóðu síðan yfir til kl. 13:30 og var staðurinn yfirgefinn um kl. 14.

Alls mættu 15 félagsmenn og 2 gestir þennan ágæta frostkalda sunnudag í vesturbænum í Reykjavík. Þakkir til Kristjáns Benediktssonar, TF3KB fyrir ljósmyndir.

Stjórn ÍRA.

Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Góður gestur kom í heimsókn. Oddur F. Helgason framkvæmdastjóri Ættfræðiþjónustunnar ORG sf., sagðist “…ekkert ætla að trufla, hann ætlaði bara að sjá framan í strákana og fá sér kaffisopa!”. Frá vinstri: Jónas Bjarnason TF3JB, Oddur F. Helgason, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmyndir: TF3KB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

three × 1 =