Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Georg Kulp, TF3GZ gerðu góða ferð í Bláfjöll í morgun, fimmtudaginn 23. júlí og settu upp Kathrein loftnet fyrir endurvarpann TF3RPB. Nýja netið er samsett úr tveimur lóðréttum „folded“ tvípólum sem eru fasaðir saman.

Árangurinn lét ekki á sér standa og var merkið úr Bláfjöllum betra bæði hjá TF1EIN í Hveragerði, TF2MSN á Akranesi, TF3IRA í Reykjavík og í bíl í Kömbunum og á Hellisheiði þar sem áður var erfitt að halda sambandi.

Þegar tíðindamaður hafði samband við þá félaga kl. 16 voru þeir að nálgast fjallið Búrfell til að líta einnig á endurvarpann TF3RPE sem ekki hefur verið QRV undanfarið.

Bestu þakkir til Ara og Georgs fyrir frábært framlag.

Uppfærð frétt kl. 17:15. Þeir félagar höfðu símasamband. Endurvarpinn TF3RPE reyndist bilaður.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A gengur frá fæðilínu við nýja Katherein loftnetið fyrir TF3RPB. Ljósmynd: Georg Kulp TF3GZ.
Nýja loftnetið fyrir endurvarpann TF3RPB komið upp. Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.

Landsfélag radíóamatöra á Ítalíu (ARI), hefur ákveðið að bjóða radíóamatörum um allan heim opinn aðgang að júlí-ágústhefti félagsblaðsins Radio Revista. Blaðið er á ítölsku.

Á síðunni má hlaða blaðinu niður á PDF formi og nota þýðingarforrit í boði á netinu. Jafnframt er boðið niðurhal á félagsblaðinu frá og með 4. tbl. 2020.

ÍRA þakkar ARI fyrir boðið sem hér með er komið á framfæri við félagsmenn.

Stjórn ÍRA.

http://www.ari.it/en/radiorivista-online.html

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 23. júlí frá kl. 20:00.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti. Mathías Hagvaag, QSL stjóri félagsins, tæmir pósthólfið á miðvikudag og verður búinn að flokka innkomin kort.

Vegna COVID-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS á hljóðnemanum frá TF3IRA í TF útileikunum í fyrra. Útileikarnir 2020 nálgast, en þeir verða haldnir um verslunarmannahelgina 1.-3. ágúst n.k. Ljósmynd: TF3JB.

Líkt og skýrt er frá (sjá frétt neðar), var hluti af eldri tækjum og búnaði í eigu ÍRA flutt til bráðabirgða til geymslu í stöðvarhúsi RÚV á Vatnsendahæð árið 2017 eftir að vatn flæddi inn í herbergi okkar í kjallaranum í Skeljanesi. Síðdegis 16. júlí var dótið sótt upp á Vatnsendahæð og flutt að nýju í Skeljanes. Sama kvöld var sendiferðabifreiðin affermd og dótið sett til bráðabirgða inn í gang hússins. Ákveðið var því að nota helgina til að koma dótinu fyrir.

Þar sem dagana á undan hafði hellirignt í Vesturbænum (sem og annarsstaðar á landinu) var gólfið á floti í geymslu félagsins í kjallaranum. Í stað þess að flytja dótið þangað, var gripið til þess ráðs að endurskipuleggja herbergi QSL stofunnar á 2. hæð og flytja hluta dótsins þangað. Sá hluti sem gekk af var fluttur í hliðarrými á ganginum niðri, samhliða inngangi í húsið. Hvorutveggja gekk eftir og er hugmyndin að dótið verði geymt á þessum tveimur stöðum uns hægt verður að gera geymsluna nothæfa á ný.

Jónas Bjarnason, TF3JB og Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33 önnuðust flutninga og tilfærslur innanhúss. Eftirtaldir félagar mættu á staðinn til að spjalla, gefa góð ráð eða til að færa okkur kaffibrauð. Á laugardag: Mathías Hagvaag, TF3MH, Ari Þór Jóhannesson, TF1A og Garðar Valberg Sveinsson, TF8YY. Á sunnudag: Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS og Mathías Hagvaag, TF3MH.

Fyrirkomulagi í herbergi QSL stofunnar á 2. hæð var breytt til bráðabirgða svo hægt væri að koma fyrir hluta dótsins.
Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33 við hliðarrýmið við inngang í húsið þar sem dóti var komið fyrir til bráðabirgða. Ljósmyndir: TF3JB.

Hluti af eldri tækjum og búnaði í eigu ÍRA voru flutt til bráðabirgða til geymslu í stöðvarhúsi RÚV á Vatnsendahæð árið 2017 eftir að vatn flæddi inn í herbergi okkar í kjallara hússins í Skeljanesi. Þetta dót hefur verið þar síðan.

Skömmu fyrir miðjan júlí bárust boð frá Henry Arnari Hálfdánarsyni, TF3HRY, starfsmanni RÚV, þess efnis að nú væri komið að því að sækja dót félagsins.

Fimmtudaginn 16. júlí mættu fulltrúar félagsins á staðinn og fluttu dót félagsins í Skeljanes. Guðmundur Sigurðsson, TF3GS, hafði útvegað sendiferðabifreið til verksins sem þar með gekk greiðlega, en auk hans voru til aðstoðar: Henry Arnar, TF3HRY; Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB; Guðjón Egilsson, TF3WO, Benedikt Guðnason, TF3TNT og Jónas Bjarnason, TF3JB.

Félaginu er ekki kunnugt um fyrirætlanir með stöðvarhúsið sem reist var á árunum 1929-1930. Sumir höfðu viðrað þá hugmynd, að þar gæti orðið framtíðarhúsnæði fyrir ÍRA. Landið í næsta nágrenni er í eigu Kópavogsbæjar sem líklega mun ráðstafa því á næstunni.

Þakkir til RÚV fyrir að hafa hlaupið undir bagga með félaginu.

Málin rædd yfir kaffi og vínarbrauði í stöðvarhúsinu á Vatnsendahæð. Henry Arnar TF3HRY og Guðmundur Sigurðsson TF3GS.
Henry Arnar TF3HRY og Guðmundur TF3GS gera sig klára í að flytja fyrstu tækin yfir í sendiferðabílinn.
Henry Arnar TF3HRY, Benedikt Guðnason TF3TNT og Guðmundur Sigurðsson TF3GS taka til dót í bílinn. Ljósmyndir: TF3JB.

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudagskvöldið 16. júlí.

Að venju voru fjörugar umræður yfir kaffinu. DX’inn er ætíð ofarlega á dagskrá og félagarnir sögðu frá góðum skilyrðum, m.a. niður í Kyrrahafið (KHT, ZL og VK) og til Afríku (D2 og S7). Þá voru líflegar umræður um stöðvar, tilheyrandi búnað og loftnet sem menn eiga í pöntun og um TF útileikana sem verða um verslunarmannahelgina.

Við stóra fundarborðið skoðuðu menn nýtt plakat frá DARC í stærðinni A3 með tíðniplani fyrir þýska radíóamatöra. Hugmyndin er, að útbúa slíkt fyrir okkur og fá leyfi Þjóðverjanna til að nota þeirra uppsetningu. Menn voru mjög hlynntir hugmyndinni, en það yrði bæði boðið prentað (í tveimur stærðum) og til niðurhals á heimasíðu félagsins.

Umræður stóðu fram undir kl. 23 (á báðum hæðum) þegar húsið var yfirgefið í hellirigningu þetta vel heppnaða sumarkvöld í Skeljanesi. Alls mættu 24 félagar og 1 gestur á staðinn.

Frá vinstri: Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Ólafur Örn Ólafsson TF1OL og Kristján Benediktsson TF3KB. Plakatið frá DARC lá frammi; „Kurzwellen-Bandplan DL + 6m“. Hugmyndin er að fá leyfi Þjóðverjanna til að nota þeirra uppsetningu fyrir sérstakt TF tíðniplan. Málið á rætur að rekja til vel heppnaðrar kynningar Kristjáns, TF3KB um tíðniplön á HF amatörböndunum sem haldin var í Skeljanesi 8. desember  s.l., en í umræðum eftir kynninguna kom fram mikill áhugi manna að félagið láti útbúa sérstakt plakat fyrir TF.
Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Garðar Valberg Sveinsson TF8YY, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Baldvin Þórarinsson TF3-033, Sigurður Kolbeinsson TF8TN og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS (fyrir enda borðs).
Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Þórður Adolfsson TF3DT, Þór Þórisson TF1GW, Einar Kjartansson TF3EK, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Guðmundur Sigurðsson TF3GS og Jón G. Guðmundsson TF3LM. Einar KJartansson TF3EK, umsjónarmaður TF útileikanna, svaraði spurningum um sérstaka vefsíðu útileikana og um keppnisreglurnar. Ljósmyndir: TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 16. júlí.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti. QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og flokka innkomin kort.

Margt þarf að ræða yfir kaffinu, m.a. vel heppnaða VHF/UHF leika sem fram fóru um síðustu helgi. Þá nálgast TF útileikarnir um verslunarmannahelgina og Vita- og vitaskipahelgin 22.-23. ágúst n.k.

Áfram gilda þau tilmæli vegna COVID-19 að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Sigurður Kolbeinsson TF8TN, Erik Finskas TF3EY (OH2LAK) og Njáll H. Hilmarsson TF3NH. Myndin var tekin 21. september 2018 þegar Erik sýndi okkur Icom IC-7100 stöð sína og virkan búnaðar frá Mikael SM2O hjá Remoterig. Ljósmynd: TF3JB.

Brynjólfur Jónsson, TF5B, hefur fengið í hendur 5 banda Worked All Zones (5BWAZ) viðurkenningarskjal frá CQ tímaritinu. Töluverður dráttur varð á afgreiðslu skjalsins, en hann hafði sent inn umsókn í lok árs 2018 þegar hann náði tilskildum lágmarksfjölda staðfestra svæða (e. zones), eða alls 150.

Í símtali í tilefni þessa árangurs, kom m.a. fram að hann er í dag kominn með 158 svæði og vinnur að því að ná öllum 200.

Billi átti fyrir þrjár WAZ viðurkenningar, þ.e. fyrir  „mixed mode“, fyrir 20 metra bandið „Phone“ og fyrir RTTY, en til að geta sótt um 5BWAZ þurfa menn að hafa áður sótt um og fengið, a.m.k. eitt WAZ viðurkenningarskjal. RTTY WAZ skjalið er það eina sinnar tegundar hér á landi (hingað til). 5BWAZ viðurkenningin þykir með þeim erfiðari sem radíóamatörar geta unnið að. Hamingjuóskir til Billa.

Tveir aðrir íslenskir leyfishafar eru jafnframt handhafar 5BWAZ viðurkenningar: Óskar Sverrisson, TF3DC (með 165 svæði) og Þorvaldur Stefánsson, TF4M (með 181 svæði).

Brynjólfur Jónsson TF5B í góðum félagsskap í Skeljanesi fyrir 2 árum (sumarið 2018). Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Brynjólfur Jónsson TF5B og Gísli G. Ófeigsson TF3G. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Athygli stjórnarmanna ÍRA var vakin á því í dag, 13. júlí, að úrskurður hafi fallið í Héraðsdómi Reykjavíkur 8. júlí s.l., í máli Bjarna Sverrissonar, TF3GB gegn íslenska ríkinu; Mál nr. E-7441/2019. Málið var þingfest 19. desember 2019 en tekið til dóms 10. júní s.l. að lokinni aðalmeðferð. Niðurstaða: Málinu var vísað frá dómi án kröfu.

Stjórn félagsins og EMC nefnd munu kynna sér úrskurðinn. Bent er á umfjöllun um mál þetta í Ársskýrslu ÍRA 2019/20, kafla 9.a á bls. 97. Ennfremur fundargerðir stjórnar (í sömu skýrslu). Stjórnarfundir nr. 4/2019-20 bls. 141; nr. 6/2019-20 bls. 145 og nr. 7/2019-20 bls. 149. Hér fyrir neðan eru vefslóðir á ofangreindan úrskurð og Ársskýrslu félagsins Íslenskir radíóamatörar 2019/20.

https://www.heradsdomstolar.is/domar/domur/?id=56216ad9-d72d-4e7e-b34e-88e680831264
http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/02/15022020-Ársskýrsla-2019-20-pdf.pdf

Niðurstaða dómsins:

„Af ofangreindu er ljóst að erindi nágranna stefnanda varð Póst- og fjarskiptastofnun tilefni þess að taka til athugunar hvort útsendingar stefnanda yllu skaðlegum truflunum á fjarskiptum að heimili nágrannans í skilningi  1. mgr. 64. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti, og hvort ástæða væri til þess að stofnunin gripi til íhlutunar af þeim sökum á grundvelli heimilda sinna samkvæmt sömu lögum

Er jafnframt ljóst að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar frá 29. október 2019 byggist á því að útsendingar stefnanda hafi valdið  truflunum á  fjarskiptum á  heimili nágrannans. Verður því ekki annað séð af gögnum málsins en að nágranni stefnanda hafi átt verulegra, einstaklingslegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins á stjórnsýslustigi

Í ljósi þessa er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi þurft að gefa nágranna sínum kost á því að taka til varna  í  dómsmálinu sem hér er til meðferðar. Þar sem þetta var ekki gert er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi án kröfu, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála“.

Eftirfarandi orðsending barst frá Hrafnkeli Sigurðssyni, TF8KY, umsjónarmanni VHF/UHF leikanna sunnudaginn 12. júlí:

Kæru félagar! 

VHF/UHF leikunum er nú lokið. Enn eiga einhver QSO eftir að skila sér í kerfið. Eins og staðan er núna eru fyrstu þrjú sætin svona:

1. TF3ML, Ólafur Björn Ólafsson.
2. TF1OL, Ólafur Örn Ólafsson.
3. TF1JI, Jón Ingvar Óskarsson.

Vel gert! Mestar líkur eru á að þetta muni halda sér svona þótt stigatölur gætu breyst eitthvað.  Alls voru 19 kallmerki skráð í ár. Vefurinn verður opin fyrir leiðréttingar fram yfir næstu helgi. Tilkynnt verður um verðlaunaafhendingu síðar.

Takk fyrir þátttökuna!

73 de TF8KY.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY umsjónarmaður VHF/UHF leikana í leikunum í fyrra (2019). Ljósmynd: Björn Þór Hrafnkelsson TF8TY.
Kort af Íslandi með upplýsingum til viðmiðunar um staðsetningu samkvæmt reitakerfinu. Kort: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.

Tvö kallmerki voru virk samtímis frá félagsstöð ÍRA í Skeljanesi í dag, laugardaginn 11. júlí. Annarsvegar, TF3IRA, sem var QRV í VHF/UHF leikunum 2020 og hinsvegar, TF3W, sem var QRV í IARU HF World Championship keppninni 2020.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW starfrækti TF3W á morsi á 14 MHz í IARU keppninni og Jónas Bjarnason, TF3JB; Mathías Hagavaag, TF3MH og Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS starfræktu TF3IRA á 144 og 430 MHz í VHF/UHF leikunum.

Góð þátttaka var í báðum viðburðum. Bilanir hrjáðu hins vegar HF búnað félagsins í dag. Siggi sagðist engu að síður nokkuð sáttur miðað við aðstæður, með þau 502 sambönd sem þó náðust á morsi. Skilyrði voru ágæt innanlands á metra- og sentímetrabylgjum. Ólafur B. Ólafsson, TF3ML var ánægður með nýtt Íslandsmet þeirra Jóns Ingvars Óskarssonar, TF1JI í vegalengd fjarskiptasambands á 1.2 GHZ, en þeir félagar náðu að hafa samband yfir 157 km vegalengd í dag.

Báðir viðburðir halda áfram á morgun, sunnudag og þá er fyrirhugað að TF3IRA verði einnig virk á 50 MHz.

Sigurður R. Jakobsson TF3CW virkjaði félagsstöðina TF3W frá Skeljanesi í IARU HF World Championship keppninni 2020.
Mathías Hagvaag TF3MH virkjaði félagsstöðina TF3IRA frá Skeljanesi í ásamt fleirum í VHF/UHF leikunum 2020.

Wilhelm Sigurðsson TF3AWS virkjaði félagsstöðina TF3IRA frá Skeljanesi ásamt fleirum í VHF/UHF leikunum 2020. Ljósmyndir: TF3JB.

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudagskvöldið 9. júlí.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, umsjónarmaður VHF/UHF leikana leiddi umræður. Helsta breytingin í ár er að nú hefjast leikarnir fyrr og enda fyrr, þ.e. á föstudag 10. júlí kl. 18:00 og lýkur á sunnudag 12. júlí kl. 18:00.

Keli fór vel yfir reglurnar og kynnti leikjavefinn sem er kominn á netið og í raun er ekkert því til fyrirstöðu að menn skrái sig strax.

Allar upplýsingar um VHF/UHF leikana 2020 eru á vefslóðinni: http://leikar.ira.is/2020

Umræður stóðu fram yfir kl. 22:30 á báðum hæðum þetta ágæta sumarkvöld í Skeljanesi. Alls mættu 24 félagar á staðinn.

Skeljanesi 9. júlí. Frá vinstri: Sigmundur Karlsson TF3VE, Þórður Adolfsson TF3DT, Mathías Hagvaag TF3MH, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Hrafnkell Sigurðsson TF8KY og Sigmundur Karlsson TF3VE ræða nýja leikjavefinn 2020 (sem þegar er kominn á netið). Til skýringar: Loftnetið sem er svo áberandi og ber í tjaldið á þessari mynd og þeirri næstu er hálfbylgju tvípóll fyrir 50 MHz tíðnisviðið sem var til sýnis og kynningar í félagsaðstöðunni þetta kvöld.
Hrafnkell Sigurðsson TF8KY útskýrir landakort af Íslandi með reitakerfinu, en þátttakendur kynna sér í hvaða 6 stafa reit þeir eru staddir hverju sinni og skrá hann við hvert QSO í kerfinu á nýja leikjavefnum. Til aðstoðar má nota snjallsímaforrit til að komast að reitanúmeri sínu, t.d. “QTH Locator”. Frá vinstri: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Þórður Adolfsson TF3DT, Sigmundur Karlsson TF3VE, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Guðmundur Sigurðsson TF3GS.
Við stóra fundarborðið eftir kynningu TF8KY. Frá vinstri: Kristján Benediktsson TF3KB, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG. Ljósmyndir: TF3JB.