Nú styttist í marshefti CQ TF sem kemur út sunnudaginn 29. mars n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 15. mars n.k. Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 5. mars. Að venju verður húsið opnað kl. 20:00.

Góður félagsskapur, kaffi, te og meðlæti og nýjustu tímaritin.

Mathías Hagvaag TF3MH, QSL stjóri ÍRA, verður búinn að flokka nýjar kortasendingar erlendis frá til félagsmanna fyrir opnunartíma.

Stjórn ÍRA.

Í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi. Yaesu FT-7900E VHF/UHF stöðin + MB-201 borðfesting og Icom IC-208H VHF/UHF stöðin fyrir APRS fjarskipti með GW-1000 APRS Total Solution búnaði frá CG-Antenna. Ljósmynd: TF3JB.

Hraðnámskeið var í boði á vetrardagskrá ÍRA sunnudaginn 1. mars þegar Yngvi Harðarson, TF3Y, mætti í Skeljanes með upprifjunarnámskeið á Win-Test keppnisforritinu.

Yngvi, sem hefur mikla reynslu af notkun Win-Test, fór vel yfir uppsetningu, notkun og viðhald forritsins. Hann sýndi uppsetninguna (skref fyrir skref), uppfærslu gagna, tengingarmöguleika og stillingar (fyrir mismunandi keppnir), auk þess sem nytsamar ábendingar um notkun fylgdu.

Hann fór vel yfir getu og möguleika forritsins, bæði í „Run“ og „S&P“ ham. Og fjallaði um mismunandi eiginleika í CW, SSB og RTTY keppnum, þ.á.m. stillingu tengiviðmóts, wtDX Telnet (hliðarforritisins) og uppsetningu á „Voice keyer“, RIGblaster og MicroHam búnaði. Þá kynnti hann nytsemi og möguleika mismunandi glugga á skjánum, út frá eigin reynslu.

Loks sýndi hann samhæfingu stöðvar og forrits með því að tengja eigin stöð á staðnum, þ.e. Elecraft KX-2. Glærur verða settar inn á heimasíðu, en þar til má smella á hlekkinn:  http://bit.ly/2PD61mZ

Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan veðurmilda og ágæta vetrarmorgun í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA þakkar Yngva fyrir vandað, nytsamt og vel undirbúið námskeið.

Skeljanesi 1. mars. Yngvi Harðarson TF3Y flutti upprifjunarnámskeið um Win-Test forritið.
Ein af mörgum fróðlegum glærum sem Yngvi sýndi um Win-Test forritið.
Við ræðupúltið í Skeljanesi. Yngvi tók með sér eigin stöð, Elecraft KX2 og sýndi á skemmtilegan hátt samhæfingu forrits og stöðvar.
KX2 stöðin frá Elecraft er vel búin QRP stöð fyrir 80-10 metra böndin. (Ljósmyndir: TF3JB).

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Jón G. Guðmundsson TF3LM, mættu  í Skeljanes laugardaginn 29. febrúar. Mælitæki voru sett upp í salnum til að mæla VHF og UHF stöðvar bæði fyrir amatörböndin og utan þeirra.

Þrennt var prófað: Afl sendis, næmleiki viðtækis og áberandi sterkar yfirsveiflur (frá 1mW). Allar prófanir voru gerðar í gerviálag.

Félagsmönnum var boðið að mæta á staðinn með eigin stöðvar og komu menn alls með 25 stöðvar (bílstöðvar, handstöðvar og heimastöðvar). Eftirspurn var þannig mjög góð og entist tíminn til að prófa alls 15 stöðvar.

Yfirsveiflur voru mældar upp að 1,5 GHz. Algengt var að sjá yfirsveiflur í kringum 800 MHz og lélegar Kínastöðvar, sem sendu merki fyrir neðan senditíðni (undirsveiflur). Þótt niðurstöður hafi almennt reynst góðar, sagðist Ari vilja benda á að ekki væri að vita hvernig tækin hegða sér t.d. á mismunandi bílnetum. Niðurstöður verða birtar á næstunni þegar búið verður að vinna úr niðurstöðum.

Mælitæki: Rohde & Schwarz CMU-300 Universal Radio Communication Tester (6 GHz), DBD Communications 100W gerviálag (6 GHz) og DAIWA CN-801V VHF/UHF standbylgju- og aflmælir. Aflgjafar: Diamond GSV3000 (25A), QJE PSV30SWIV (30A) og Astron SL-11A (11A).

Innan tíðar verður boðið upp á framhald mælinga í Skeljanesi til að ljúka mælingum á VHF/UHF stöðvum sem bíða, auk þess sem kallað verður eftir fleirum enda mikið um fyrirspurnir.

Stjórn ÍRA þakkar þeim Ara Þórólfi Jóhannessyni TF1A og Jóni G. Guðmundssyni TF3LM fyrir frábæran viðburð.

Alls mættu 30 félagar og 2 gestir þennan ágæta laugardag í Skeljanes, þrátt fyrir mikla snjókomu í vesturbæ Reykjavíkur.

Mælingarlaugardagur í Skeljanesi 29. febrúar. Frá vinstri: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sveinn Aðalsteinsson (bak í myndavél), Jón G. Guðmundsson TF3LM og Sigurður Smári Hreinsson TF8SM.
Frá vinstri: Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Georg Kulp TF3GZ, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Sveinn Aðalsteinsson TF1SA (bak í myndavél) og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE.
Strax upp úr klukkan 14 var mikið komið af félögum í hús. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF1A (bak í myndavél), Hörður Bragason TF3HB, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Aðalsteinsson TF1SA og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. Síðan koma þeir Baldvin Þórarinsson TF3-033, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Jón G. Guðmundsson TF3LM og Björgvin Víglundsson TF3BOI (allir með bak í myndavél).
Sumar mælingar vöktu kátínu. Frá vinstri: Georg Kulp TF3GZ, Jón Björnsson TF3PW, Sveinn Aðalsteinsson TF1SA, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE, Sigurður Smári Hreinsson TF8SM, Jón Guðmundur Guðmundsson TF3LM, Snorri Ingimarsson TF3IK (bak í myndavél) og Benedikt Sveinsson TF3T.
Áfylling sótt á kaffið. Frá vinstri: Baldvin Þórarinsson TF3-033, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Óskar Sverrisson TF3DC, Snorri Ingimarsson TF3IK og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS. (Ljósmyndir: TF3JB).

Næst á vetrardagskrá félagsins, er upprifjun á Win-Test keppnisforritinu sem fram fer á morgun, sunnudag 1. mars í Skeljanesi. Leiðbeinandi er Yngvi Harðarson, TF3Y. Hann mætir kl. 10:30 í félagsaðstöðuna og fer yfir notkun forritsins og svarar spurningum.

Þetta er hraðnámskeið sem er hugsað fyrir þá sem e.t.v. þurfa smávægilega upprifjun, hafa spurningar um grundvallarþætti í notkun forritsins sem og fyrir þá sem eru lengra eru komnir.

Viðburðurinn var upphaflega kynntur á dagskrá þann 23. febrúar en var frestað um viku, til 1. mars.

Stjórn ÍRA.

Vefslóð á heimasíðu Win-Test: http://www.win-test.com/

Yngvi Harðarson TF3Y í heimsókn hjá Georg Magnússyni TF2LL í Norðtungu III í Borgarfirði um páskana fyrir tveimur árum. Ljósmynd: Vilborg Hjartardóttir.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, VHF stjóri félagsins, mætir í Skeljanes laugardaginn 29. febrúar kl. 13:00.

Hann hefur meðferðis vönduð mælitæki, þ.á.m. frá Rhode & Schwartz, til mælinga á stöðvum sem vinna á VHF og UHF. Búnaðurinn getur mælt eiginleika stöðva sem vinna frá 28 til 1300 MHz.

Félagsmönnum er hér með boðið að koma með bílstöðvar og/eða handstöðvar sem vinna í þessum tíðnisviðum og verða gerðar mælingar á viðtækjum, sendum og einnig á loftnetum handstöðva þar á staðnum.

Minnt er á að taka með straumsnúrur og hljóðnema og ef handstöðvar, athugið að hafa þær fullhlaðnar. Aflgjafar og gerviálög (e. dummy loads) verða á staðnum. Mælibúnaðurinn ræður við að mæla stöðvar sem gefa út að lágmarki 1mW og að hámarki 100W.

Jón G. Guðmundsson, TF3LM, mun verða Ara til aðstoðar, en hann skrifaði m.a. áhugaverða grein um prófanir þeirra félaga á yfirsveiflum VHF/UHF stöðva, sem gerðar voru í Skeljanesi haustið 2018.

Opið verður frá kl. 13-16. Í boði verður kaffi og gott meðlæti.

Stjórn ÍRA.

Mælingar undirbúnar 1. september 2018. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ari Þórófur Jóhannesson TF1A, Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Jón Björnsson TF3PW. Með bak í myndavél: Þórður Adolfsson TF3DT og Jón G. Guðmundsson TF3LM.
Skráning á niðurstöðum í mælingunum 1. september 2018 var í öruggum höndum Jóns G. Guðmundssonar TF3LM. (Myndir: TF3JB).

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 27. febrúar. Að venju verður húsið opnað kl. 20:00.

Góður félagsskapur, kaffi, te og meðlæti og nýjustu tímaritin.

QSL stjóri ÍRA verður búinn að flokka nýjar kortasendingar erlendis frá til félagsmanna fyrir opnunartíma.

Stjórn ÍRA.

QSL kort eru skemmtileg enda algengt að radíóamatörar „safni“ löndum. XU7AFU er frá Kambódíu; ZS2DL er frá Suður-Afríku, T88XA er frá Palau lýðveldinu í Vestur-Kyrrahafi; 4U1ITU er frá aðalstöðvum Alþjóðafjarskiptasambandsins í Genf; 5X1NH er frá Úganda og YS1YS er frá El Salvador í Mið-Ameríku. Ljósmynd: TF3JB.

Námskeiðið „Fyrstu skrefin“ verður haldið fimmtudaginn 27. febrúar n.k. í Skeljanesi. Þetta er fyrsta námskeiðið af fjórum í boði á nýrri vetrardagskrá félagsins. Leiðbeinandi er Óskar Sverrisson, TF3DC.

Námskeiðin verða haldin:

  • 27. febrúar; fimmtudagur, kl. 17:00.
  • 19. mars; fimmtudagur, kl. 17:00.
  • 26. mars; fimmtudagur, kl. 17:00.
  • 30. apríl; fimmtudagur, kl. 17:00.

Áríðandi er að áhugasamir skrái sig tímanlega hjá Óskari Sverrissyni, TF3DC, í síma 862-3151 eða með tölvupósti til „oskarsv hjá internet.is“ með góðum fyrirvara. Námskeiðið er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Námskeiðið „Fyrstu skrefin“ eru einkum hugsað fyrir nýja leyfishafa sem hafa áhuga á að sækja leiðbeiningar um hvernig best er að standa að því að fara í loftið. Um er að ræða einkatíma (2-3 klst.) með reyndum leyfishafa. Leiðbeinandi kynnir grundvallaratriði og ríkjandi hefðir innan áhugamálsins. Markmið námskeiðsins er að nýr leyfishafi öðlist öryggi í fjarskiptum.

Nýr leyfishafi og leiðbeinandi ræða saman þar sem spurningum er svarað og að því búnu er farið í loftið í fjarskiptaherbergi félagsins. Tímasetning námskeiðs og yfirferð getur að vissu marki verið sveigjanleg með samráði leyfishafa og umsjónarmanns.

Stjórn ÍRA.

Í fjarskiptaherbergi TF3IRA á góðri stundu. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Óskar Sverrisson TF3DC og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmynd: TF3JB.

Opið hús var í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtudaginn 20. febrúar.

Að venju lágu nýjustu tímaritin frammi og margt rætt yfir kaffinu, m.a. um loftnet og sérhæfð viðtökunet (þ.á.m. Beverage On the Ground, BOG), jarðleiðni,  mismunandi kóaxkapla og margt fleira. Þá kom í ljós að félagar eru í kauphugleiðingum og veltu menn m.a. fyrir sér Icom IC-7610, Kenwood TS-990S og Yaesu FTdx101D.

Einnig skoðuðu menn dót sem Hans Konrad Kristjánsson, TF3FG, færði í hús með kveðju frá Bjarna Magnússyni, TF3BM, sbr. myndir.

Alls mættu 24 félagar í Skeljanes þetta ágæta febrúarkvöld.

Nýjustu tímaritin eru alltaf vinsæl. Frá vinstri (næst myndavél): Heimir Konráðsson TF1EIN, Jón Björnsson TF3PW, Björgvin Víglundsson TF3BOI, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.
Hressilegar umræður í fjarskiptaherbergi TF3iRA. Frá vinstri: Georg Kulp TF3GZ, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Ari Þór Jóhannesson TF1A, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Þórður Adolfsson TF3DT (standandi) og Benedikt Sveinsson TF3T.
Síðar um kvöldið voru menn alvörugefnir enda rætt um kaup á nýjum stöðvum við stóra fundarborðið, einkum Icom IC-7610, Kenwood TS-990S og Yaesu FTdx101D. Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Mathías Hagvaag TF3MH, Sæmundur Þorsteinsson TF3UA og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG.
Nýtt dót kom í hús fimmtudaginn 20. febrúar, m.a. þetta viðtæki sem er fyrir 2-30 MHz.
Hluti af dóti sem kom í hús 20. febrúar, m.a. hljóðnemar, síur og spennar.
Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB skoðar dót í kassa. (Ljósmyndir. TF3JB).

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes laugardaginn 22. febrúar og kynnti búnað félagsins til fjarskipta um OSCAR 100 gervitunglið. Félagsmönnum gafst einnig tækifæri til að fara í loftið með tilsögn frá gervihnattastöð TF3IRA.

Í boði var svokallaður „opinn laugardagur“ og var félagsaðstaðan opin frá kl. 10-15 til að gefa sem flestum tækifæri til að nýta viðburðinn. Þetta fyrirkomulag heppnaðist vel og var góð mæting og dreifing yfir daginn.

Menn fóru í loftið, bæði á tali (SSB) og morsi. Menn voru almennt sammála um að þessi upplifun væri mjög sérstök; sterk merki, engar truflanir og góður DX. Sérprentaðar greinar Ara um OSCAR 100 úr CQ TF sem lágu einnig frammi til kynningar.

Alls mættu 24 félagsmenn og 3 gestir í Skeljanes þennan ágæta og sólríka laugardag.

Stjórn ÍRA þakkar Ara fyrir vel heppnaðan viðburð.

Farið yfir undirstöðuatriði gervihnattafjarskipta áður en farið var í loftið. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE og Gísli Gissur Ófeigsson TF3G.
Guðmundur Gunnarsson TF3GG sagði þessa tegund fjarskipta áhugaverð og sérstaklega að hægt væri að vera á morsi í samböndum um OSCAR 100.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG var afar ánægður og tók sín fyrstu QSO á SSB í gegnum OSCAR 100, m.a. við radíóamatöra í Brasilíu.
Biðraðir mynduðust hjá Ara í fjarskiptaherberginu. Á mynd: Björgvin Víglundsson TF3BOI, Guðmundur Gunnarsson TF3GG, Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE og Gísli Gissur Ófeigsson TF3G.
Gervihnattafjarskiptin útskýrð í salnum á neðri hæð. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Óskar Sverrisson TF3DC og Gunnar Bergþór Pálsson TF2BE. Undir sófaborðinu má sjá mælitæki frá RigExpert af gerðinni AA-1400 sem var tengt við fartölvuna á borðinu. En í kaffihléi var hönk af RG-213 kóaxkapli tengd við tækið og m.a. greint sýndarviðnám á fæðilínunni (sem var mismunandi eftir lengd enda kapallinn samsettur).
Þórarinn Benedikz TF3TZ og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A ræddu m.a. búnað sem þarf til að verða QRV og möguleika sem bjóðast í samböndum um gervihnöttinn OSCAR 100.
Björgvin Víglundsson TF3BOI, Kristján Benediktsson TF3KB og Wilhelm Sigurðsson TF3AWS skoðuðu m.a. stöðu OSCAR 100 í gráðum á himinhvolfinu, séð frá Íslandi. (Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB).

Af óviðráðanlegum ástæðum, frestast hraðnámskeið TF3Y með upprifjun á Win-Test keppnisforritinu, sem auglýst er í vetrardagskrá á morgun, sunnudag 23. febrúar.

Þess í stað verður námskeiðið haldið sunnudaginn 1. mars n.k. kl. 10:30.

Beðist er velvirðingar á þessari breytingu.

Stjórn ÍRA.

Næsti viðburður á vetraráætlun ÍRA verður í boði laugardaginn 22. febrúar. Þá mætir Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A í Skeljanes og kynnir búnað, tækni og tól til fjarskipta um nýja OSCAR 100 gervitunglið. Að auki aðstoðar hann félagsmenn við að fara í loftið frá félagsstöðinni í gegnum tunglið.

Í boði er svokallaður „opinn laugardagur“ sem þýðir að félagsaðstaðan verður opin allan daginn frá kl. 10-15 til að gefa sem flestum tækifæri til að nýta viðburðinn.

Þetta fyrirkomulag heppnaðist vel í haust (19. og 26. október og 3. nóvember) og var mikil ánægja með það. Nú er kjörið tækifæri fyrir þá félaga sem ekki áttu þess kost að koma þá, að kíkja við á laugardag og prófa að hafa sambönd um OSCAR 100. Félagar sem hafa þegar prófað stöðina eru að sjálfsögðu einnig velkomnir! Stöðin verður QRV á tali, morsi og stafrænum tegundum útgeislunar.

Kaffi á könnunni og bakkelsi frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

Fjarskiptaborð TF3IRA fyrir gervihnattaviðskipti. Aðstaðan stenst fyllilega samanburð við best búnar stöðvar annarra landsfélaga radíóamatöra í heiminum. Stöðin var formlega tekin í notkun 19. október (2019). Ljósmynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Jón G. Guðmundsson TF3LM í fjarskiptasambandi um OSCAR 100 frá TF3IRA þann 26. október (2019). Ljósmynd: TF3JB.
Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN í fjarskiptasambandi um OSCAR 100 frá TF3IRA þann 26. október (2019). Ljósmynd: TF3JB.