Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram.

Sunnudag 20. nóvember kl. 11:00 verður Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS með umræðuþema á sunnudagsopnun: „Íslenskir amatörar í prentmiðlum í gefnum tíðina“.

Viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki um kl. 12 á hádegi, en húsið er opnað kl. 10:30.

Rúnstykki með kaffinu og vínarbrauð frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

.

.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY mætti í Skeljanes 17. nóvember með erindið „Fjarhlustun á HF með Airspy+DiscoverySDR“.

Keli hefur haft verulegar truflanir í viðtöku merkja heima í Vogum, einkum á lægri böndunum. Í baráttu við truflanirnar, gerði hann tilraunir með margskonar vírloftnet, lárétt, lóðrétt, há og lág. Að auki rammaloftnet, m.a. RAØSMS (WellGood loop), „Wideband Active Loop“ með formagnara frá LZ1AQ og heimasmíðuð rammaloftnet (e. active loops), auk þess að prófa QRM Eliminator frá WiMO.

Sumar tilraunir skiluðu árangri. Til dæmis voru mörg dæmi þess að rammanetin gerðu ólesanleg merki vel læsileg. Mest hjálp var af þeim á merkjum á stökkbylgju (e. sky wave) innanlands. QRM Eliminator tækið náði stundum að að bæta S/N hlutfallið verulega, en ekki voru gerðar tilraunir með uppsetningu á sérstöku „truflanaloftneti“ (e. auxiliary antenna). Niðurstaðan af þessum tilraunum varð sú, að e.t.v. væri best að færa móttökuna á annan stað.

Það gekk eftir þegar Keli fékk aðstöðu fyrir Airspy+DiscoverySDR viðtæki (0.5-31 MHz, auk 60-260 MHz) í húsnæði við Elliðavatn. Þar prófaði hann ýmis vírloftnet og beina (e. router). Þar til á þessu ári (2022) virkaði það fyrirkomulag þokkalega þar sem það gerði honum kleift að hafa mörg QSO. Fyrirkomulag var þó ekki gallalaust í fyrstu m.a. vegna seinkunar (e. latency), auk þess sem móttaka átti til að frjósa.

Fyrirkomulagið var endurskoðað í sumar og þegar búið var að fella út feril merkisins í gegnum skýið (e. tunnelling) og breytt var um hugbúnað í SDR++ („cross-platform and open source SDR software“) náðist mikið betri stöðugleiki (hvarf út uppsöfnuð seinkun), þ.e. einfaldlega er smellt á „connect“ og viðtaka hefst.

Erindið var vel unnið og afar fróðlegt. Það var byggt upp á skyggnusýningu (glærum) þar sem inn á milli sýnt myndskeið með hljóðskrám sem var afar áhugavert. Þegar Keli byrjaði erindið leyfði hann okkur að sjá og heyra merki á viðtækinu heima í Vogum á 40 metrum. Móttakan var hreint út sagt ólæsileg. Þannig að hann hefur fundið lausn truflununum og getur nú verið QRV á böndunum innanlands og í DX þegar honum hentar. Keli sagði að lokum það hafi verið verst hvað tilraunirnar hafi tekið mikinn tíma frá því að vera í loftinu en niðurstaðan væri mjög ásættanleg.

Sérstakar þakkir til Hrafnkels Sigurðssonar, TF8KY fyrir vandað, vel samsett, skemmtilegt og afar fróðlegt erindi. Skyggnur og hljóðskrár verða settar á heimasíðu ÍRA. Alls mættu 33 félagar og 1 gestur á erindið í Skeljanesi þetta milda vetrarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY byrjar flutning erindi sínu í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi 17. nóvember.
Ein af mörgum skyggnum Kela. Á myndinni má sjá góðan árangur á viðtöku merkja á 40 metra bandinu yfir netið. Með skyggnunni fylgdi hljóðskrá.
Óskar Sverrisson TF3DC, Hrafnkell Sigurðsson TF8KY og Georg Kulp TF3GZ.
Fremst á mynd: Yngvi Harðarson TF3Y og Eiður Kristinn Magnússon TF1EM. Fjær: Benedikt Sveinsson TF3T, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG og Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN.
Kristján Benediktsson TF3KB og Andrés Þórarinsson TF1AM.
Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Sigmundur Karlsson TF3VE.
Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK sýndi félagsmönnum nýja “magnetíska lúppu” frá Looper Systems af gerðinni “MLA-T PRO V.4 New Version” fyrir 160, 80, 60 og 40 metrana.
Fremst: Sigmundur Karlsson TF3VE, Mathías Hagvaag TF3MH, Benedikt Sveinsson TF3T og Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK. Fjær: Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Benedikt setti loftnetsgreininn á loftnetið til prufu. Ljósmyndir: TF3JB.

ÍRA hefur borist jákvætt svar frá Fjarskiptastofu (FST) í dag 18. nóvember við ósk félagsins um endurnýjun heimildar til notkunar tíðnisviðsins 1850-1900 kHz vegna þátttöku í alþjóðlegum keppnum á almanaksárinu 2023. Heimildin nær til eftirtalinna keppna:

CQ WW 160 metra keppnin á CW – 27.-29. janúar 2023.
ARRL International DX keppnin á CW – 18.-19. febrúar 2023.
CQ WW 160 metra keppnin á SSB – 24.-26. febrúar 2023.
ARRL International DX keppnin á SSB – 4.-5. mars 2023.
CQ WW WPX keppnin á SSB – 25.-26. mars – 2023.
CQ WW WPX keppnin á CW – 27.-28. maí 2023.
IARU HF World Champinship keppnin á CW/SSB 8.-9. júlí 2023.
CQ WW DX keppnin á SSB 28.-29. október 2023.
CQ WW DX keppnin á CW 25.-26. nóvember 2023.
ARRL 160 metra DX keppnin 1.-3. desember 2023.

Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur forgang til notkunar tíðna á þessu tíðnibili. Um þessa notkun gilda sömu kröfur og gilda fyrir tíðnisviðið 1810-1850 kHz í reglugerð, en aukin skilyrði Fjarskiptastofu eru eftirfarandi:

Heimild er einvörðungu veitt þann tíma sem tilgreindar alþjóðlegar keppnir standa yfir.

G-leyfishafar hafa heimild til að nota fullt afl, allt að 1kW. N-leyfishafar njóta sömu tíðniréttinda, en aflheimild miðast við mest 10W.

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til PFS á hrh@fjarskiptastofa.is  Það nægir að senda eina umsókn sem þar með gildir fyrir allar 10 keppnirnar á árinu 2023.

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi.

Ný vetrardagskrá félagsins heldur áfram á fimmtudag, 17. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY með erindið: „Fjarhlustun á HF með Airspy+DiscoverySDR“.

Hrafnkell mun m.a. fjalla um reynslu af uppsetningu og notkun viðtækis yfir netið með aðra staðsetningu [en heima] m.a. til að auðvelda DX vinnu á lægri böndunum vegna truflana á heima QTH.

Félagsmenn eru hvattir til að láta erindi Kela ekki fram hjá sér fara. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Stjórn ÍRA.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY í glæsilegu fjarskiptaherberginu heima í Vogum. Ljósmynd: TF1AM.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 7-13. nóvember 2022.

Alls fengu 22 TF kallmerki skráningu. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW), tali (SSB), fjarritun (RTTY) og AM og FM. Bönd: 6, 10, 12, 15, 17, 20, 30, 40, 60 og 80 metrar.

Kallmerki fær skráningu þegar leyfishafi [eða hlustari] hefur haft samband við [eða heyrt í] TF kallmerki. Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/ Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

TF1AFT8 á 10 metrum
TF1EINSSB of FT8 á 15 og 60 metrum
TF1EMFT8 á 10, 30 og 80 metrum
TF1VHFCW á 6 metrum
TF2CTFT8 og FT4 á 10 metrum
TF2MSNSSB og FT4 á 10 og 15 metrum
TF3AORTTY Á 10, 15 og 20 metrum
TF3EOCW á 12 metrum
TF3IGFT4 á 10 og 20 metrum
TF3IRACW á 40 metrum
TF3JBFT4 á 10 metrum
TF3PKNSSB á 10 og 15 metrum
TF3PPNFT8 og RTTY á 15 og 20 metrum
TF3TKNSSB á 15 metrum
TF3UACW á 10 metrum
TF3VESSB, FT4 og FT8 á 10, 12 og 40 metrum
TF3TSSB á 15 metrum
TF4WDSSB á 80 metrum
TF5BFT8 á 40 metrum
TF7DHPSSB á 80 metrum
TF8KWSSB, AM og FM á 10 og 80 metrum
TF8SMCW á 12 metrum
Benedikt Sveinsson TF3T var virkur á SSB á 15 metrum vikuna 7.-13. nóvember. Myndin var tekin í glæsilegri fjarskiptaaðstöðu hans við Stokkseyri (TF3D). Ljósmynd: TF3T.

Uppfærð DXCC staða TF kallmerkja er miðað við 11. nóvember 2022. Sextán TF kallmerki eru með virka skráningu. Að þessu sinni hefur staða 6 kallmerkja verið uppfærð frá fyrri lista (13.8.2022).

Benedikt Sveinsson, TF3T er nýr á íslenska DXCC listanum. Hann kemur inn með sex nýjar viðurkenningar; DXCC Phone, DXCC 80m, DXCC 40m, DXCC 20m, DXCC 15m og DXCC 10m.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A kemur inn á listann með tvær nýjar DXCC viðurkenningar; DXCC 10m og DXCC Challenge. Ari hafði 9 DXCC viðurkenningar fyrir og er nú alls með 11.

Upplýsingar liggja fyrir um a.m.k. 24 íslensk kallmerki sem hafa sótt um og fengið DXCC viðurkenningar til þessa dags.

TF kallmerki með DXCC skráningu: Virk skráning (16): TF1A, TF2LL, TF3DC, TF3DT, TF3EK, TF3G, TF3IRA, TF3JB, TF3MH, TF3SG, TF3T, TF3VS, TF3Y, TF4M, TF5B og TF8GX. Óvirk skráning (3): TF3IM, TF3SV og TF2WLC. Eldri kallmerki með óvirka skráningu (5): TF3AR, TF3EA, TF3SG, TF3ZM og TF5TP.

Hamingjuóskir við viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Vetrardagskrá ÍRA hélt áfram 10. nóvember. Að þessu sinni var komið að félagsfundi sem var settur stundvíslega kl. 20:30. Fundarstjóri var kjörinn TF3JB og fundarritaði TF3UA. Tvö mál voru á dagskrá, erindið „Uppbygging TF3IRA í Skeljanesi“ og liðurinn „Önnur félagsmál“.

Kl. 20:35 hófst erindi kvöldsins sem skiptist í fimm hluta:

  1. Sagan.
  2. Stöðugreining.
  3. Markmið: Uppbygging, markmið og greining á núverandi stöðu.
  4. Uppfylling markmiða – lýsing verkefna.
  5. Að lokum.

Flutningur tók um 45 mínútur. Heimilaðar voru spurningar meðan á flutningi stóð og var þeim svarað strax. Einnig bárust góðar ábendingar úr sal. Í heild voru viðstaddir ánægðir með stefnu stjórnar félagsins í málefnum félagsstöðvarinnar. 

Sjá vefslóð á erindið hér: http://www.ira.is/erindid-uppbygging-tf3ira-i-skeljanesi-flutt-10-november-2022/

Undir liðnum önnur mál var m.a. rætt um framtíð hússins í Skeljanesi. Fram kom m.a. að fyrirhuguð endurbygging hefur tafist hjá húseiganda sem talið er að stafi af fjarhagsstöðu Borgarinnar nú um stundir. Einnig veltu menn fyrir sér reglugerðarmálum, m.a. 70cm bandinu. Fram kom að reglugerðarmál verða til umfjöllunar á sófasunnudegi í næsta mánuði (desember) samkvæmt vetrardagskrá. Félagsfundi var slitið kl. 21:40 og þakkaði fundarstjóri góða mætingu. Fundargerð verður til birtingar í næsta hefti CQ TF.

Erlendur gestur okkar í Skeljanesi var Thomas K. Zicarelli, KA1IS frá Bethel í Maine í Bandaríkjunum. Hann hefur heimsótt landið a.m.k. tvisvar sinnum áður og tók m.a. þátt í CQ WW WPX CW keppninni í fyrra (2021) frá Akureyri. Vel heppnað fimmtudagskvöld. Alls mættu 22 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes í hlýju vetrarveðri í vesturbænum í Reykjavík.

Eftir setningu félagsfundar flutti Jónas Bjarnason TF3JB erindi fyrir hönd stjórnar um uppbyggingu félagsstöðvarinnar TF3IRA.
Í heild voru viðstaddir ánægðir með stefnu stjórnar félagsins í málefnum félagsstöðvarinnar.

Síðasta glæran og kaffihlé gert á félagsfundinum.
Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Kristján Benediktsson TF3KB. Fjær: Óskar Sverrisson TF3DC og Yngvi Harðarson TF3Y.
Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Mathías Hagvaag (bak í myndavél), Georg Magnússon TF2LL og Benedikt Sveinsson TF3T.
Yngvi Harðarson TF3Y og Thomas K. Zicarelli, KA1IS. Fjær: Björgvin Víglundsson TF3BOI og Kristján Benediktsson TF3KB. Ljósmyndir: TF3DC, TF3JB og TF3KB.

Ein af stóru RTTY keppnum ársins  er Worked All Europe (WAE) keppnin. Hún verður haldin helgina 12.-13. nóvember. Þetta er 48 klst. keppni, en þátttaka er leyfð samanlagt í mest 36 klst.

Í RTTY hlutanum gilda þær sérreglur, að er öllum heimilt að samband við alla. Það þýðir að sambönd á milli þátttakenda innan Evrópu eru heimil. QTC viðskipti verða hins vegar að eiga sér stað á milli stöðva á ólíkum meginlöndum.

Sambönd við hverja nýja WAE einingu (e.WAE entity) gilda sem margfaldarar, auk sambanda við hvert nýtt kallsvæði W, VE, VK, ZL, ZS, JA, BY, PY og RA8/RA9 og RAØ. Sjá nánar reglur. Til skýringar: WAE listi keppninnar samanstendur af fleiri einingum en DXCC (sjá skýringar í keppnisreglum).

Margfaldarar hafa aukið vægi eftir böndum; á 80 metrum fjórir, á 7 MHz þrír og á 14/21/28 MHz tveir. Það er DARC, landsfélag radíóamatöra í Þýskalandi sem heldur keppnina.

Skilað var inn keppnisgögnum fyrir fjögur TF kallmerki í fyrra (2021): TF2CT, TF2MSN, TF3AO og TF3PPN.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Keppnisreglur: https://www.darc.de/der-club/referate/conteste/wae-dx-contest/en/wae-rules/

Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram. Á fimmtudag 10. nóvember er tvennt í boði í Skeljanesi.

Kl. 17:00 – Námskeiðið „Fyrstu skrefin“.
Óskar Sverrisson, TF3DC leiðbeinir. Áhugasamir skrái sig tímanlega hjá Óskari í síma 862-3151.

Kl. 20:30 – Félagsfundur: „Uppbygging TF3IRA í Skeljanesi“.
Erindi í umsjá stjórnar.

Húsið verður opnað kl. 20:00. QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og raða kortum. Kaffiveitingar í fundarhléi.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Námskeiðið “Fyrstu skrefin” eru hugsað fyrir nýja leyfishafa sem hafa áhuga á að sækja sér leiðbeiningar um hvernig best er að standa að því að fara í loftið. Um er að ræða einkatíma með reyndum leyfishafa. Leiðbeinandi kynnir í stuttu máli grundvallaratriði og ríkjandi hefðir innan áhugamálsins. Markmiðið er að nýr leyfishafi öðlist öryggi í fjarskiptum. Nýr leyfishafi og leiðbeinandi ræða saman þar sem spurningum er svarað og að því búnu er farið í loftið í fjarskiptaherbergi félagsins. Tímasetning námskeiðs og yfirferð getur að vissu marki verið sveigjanleg með samráði nýs leyfishafa og leiðbeinanda. Áríðandi er að áhugasamir skrái sig tímanlega hjá Óskari Sverrissyni, TF3DC í síma 862-3151 eða með tölvupósti; oskarsv hjá internet.is með góðum fyrirvara.

Óskar Sverrisson TF3DC og Mathías Hagvaag TF3MH. Myndin var tekin á námskeiði Óskars um „Fyrstu skrefin“ í Skeljanesi.
Borð “A” í fjarskiptaherbergi ÍRA í Skeljanesi. Myndin var tekin í IARU HF Championship keppninni 2022 þegar kallmerkið TF3HQ var sett í loftið. Ljósmyndir: TF3JB.

Stefán Arndal, TF3SA og Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB stóðu fyrir viðburði á vegum félagsins í Skeljanesi laugardaginn 5. nóvember þar sem félagar mættu með morslykla sína í Skeljanes.

Nánast allar tegundir af lyklum á staðnum, nema „sagarblöð“ eins og Stefán Arndal, TF3SA orðaði það. Meðal annars: Lyklar frá Vibroplex (buggar, handlyklar og pöllur), M.P. Pedersen (handlyklar, mörg eintök), Begali (handlykill og pöllur), Kent (handlykill og pöllur), Hi-Mond (handlykill og pöllur), E.F. Johnson (handlyklar), W.M. Nye (handlyklar og pöllur), UR5CDS (CT-599 pöllur), Schurr (pöllur), Samson (ETM-4C rafmagnslykill), Heathkit (HD-1410 rafmagnslykill), ElectroInstrument (K8 rafmagnslykill og pöllur), Zoomer (Pico rafmagnslykill), „commercial“ handlyklar og pöllur af mörgum tegundum, m.a. frá Bretlandi, Danmörku, Frakklandi og Rússlandi og síðast, en ekki síst glæsilegur Dyna Manitone handlykill frá Frakklandi.

Frábær dagur. Skemmtilegt að hlusta á sögur sem voru sagðar og tengjast hinum ýmsu lyklum, m.a. hvernig og hvar þeir höfðu verið keyptir og við hvaða verði – og hvers vegna menn telja að ákveðnir lyklar hafi gæði umfram aðra. Afar áhugavert að upplifa þá miklu þekkingu sem félagarnir búa yfir og tengjast búnaði til morsfjarskipta sem lifa góðu lífi á meðal radíóamatöra í dag um allan heim. Sérstakar þakkir til þeirra Stefáns og Sigurbjörns Þórs fyrir frábæran dag.

Alls mættu 14 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan sólskýra laugardag í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórnar ÍRA.

Klukkan korter í auglýstan tíma var undirbúningur kominn vel á veg. Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Reynir Björnsson TF3RL, Kristján Benediktsson TF3KB og Stefán Arndal TF3SA.
Mikið af mannskap á staðnum strax kl. 11. Kristján Benediktsson TF3KB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Bernhard M. Svavarsson TF3BS, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Reynir Björnsson TF3RL, Mathías Hagvaag TF3MH og Stefán Arndal (bak í myndavél).
Bernhard M. Svavarsson TF3BS, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Kristján Benediktsson TF3KB, Mathías Hagvaag TF3MH og Stefán Arndal TF3SA.
Sýnishorn af lyklum og pölllum.
Sýnishorn af lyklum, pöllum, morstæki og hljóðgjafa (súmmer).

Ásgeir Sigurðsson TF3TV smíðaði þennan hljóðgjafa (súmmer) sem virkaði mjög vel fyrir viðburðinn í Skeljanesi. Ljósmyndir: TF3JB.
Stefán Arndal T3SA og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB á góðri stundu í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3KX.

Vetrardagskrá ÍRA heldur áfram. Á laugardag 5. nóvember kl. 11:00 munu Stefán Arndal, TF3SA og Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB standa fyrir viðburðinn: „Félagar koma með morslykla sína í Skeljanes“.

Viðburðurinn hefst kl. 11 stundvíslega og miðað er við að umræðum ljúki upp úr hádegi, en húsið verður opnað kl. 10:30. Rúnstykki með kaffinu og vínarbrauðslengja frá Björnsbakaríi.

Hugmyndin er að menn komi með sem flestar gerðir lykla á staðinn og segi frá tegund og gerð yfir kaffibolla – og ef einhver saga fylgir. Hægt verður að tengja lyklana við hljóðgjafa (súmmer) sem verður á staðnum.

Þegar talað er um lykla er átt við allar gerðir morslykla, þ.e. handlykla, pöllur (spaðalykla), bögga (Vibroplex) og allar gerðir sem hægt er að nota til að senda með mors.

Verið velkomin á laugardagsopnun í Skeljanesi.

Stjórn ÍRA.

Frá síðasta “morsdegi” í Skeljanesi. Frá vinstri: Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN (bak í myndavél), Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Óskar Sverrisson TF3DC, Stefán Arndal TF3SA og Benedikt Sveinsson TF3T.
Kristinn Andersen TF3KX byrjar flutning erindi sínu í Skeljanesi 3. nóvember.

Kristinn Andersen, TF3KX formaður prófnefndar ÍRA mætti í hús í Skeljanes 3. nóvember með erindið: „Amatörpróf og undirbúningur fyrir þau“.

Kristinn fór yfir amatörnámskeið ÍRA og ræddi almennt um undirbúning fyrir próf Fjarskiptastofu til amatörleyfis. Hann ræddi m.a. um reglugerðina og um námsefnið og tók dæmi um efni á íslensku á heimasíðu ÍRA.

Hann ræddi um jákvæða reynslu af námskeiði ÍRA sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík í vor, bæði í stað- og fjarnámi. Fjarnámið leiddi af sér, að prófið var í fyrsta skipti haldið samtímis á þremur stöðum á landinu, sem er til þess fallið að jafna aðstöðu nemenda burtséð frá búsetu.

Kristinn fór vel yfir, ræddi og skýrði prófkröfur HAREC (Harmonised Amateur Radio Examination Certificate) sem eru notaðar hér á landi (eins og annarsstaðar í heiminum) og fram kom m.a., að amatör radíó er eina áhugamálið sem hefur réttarstöðu samkvæmt alþjóðasamningum.

Í lokin velti hann fyrir sér og ræddi hvort bæta megi amatörprófin að einhverju leyti, hvernig megi gera námsefni fyrir amatörpróf aðgengilegra og um aðrar leiðir en hefðbundin námskeið til undirbúnings fyrir amatörpróf.

Kristinn opnaði okkur sýn inn í veruleika þess sem hefur hug á að taka próf til amatörleyfis og hvernig best má undirbúa sig. Hann fór einnig yfir skyldur félagsins og stjórnvalda og fjallaði um eigin hugmyndir um þróun þessa mikilvæga verkefnis, sem próf og undirbúningur fyrir þau er.  

Sérstakar þakkir til Kristins Andersen, TF3KX fyrir fróðlegt og vel undirbúið erindi um þennan mikilvæga málaflokk.

Alls mættu 26 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld á nýbyrjuðum vetri.

Stjórn ÍRA.

Ein glærum Kristins sem kallaði á jákvæðar og skemmtilegar umræður í sal.
Mathías Hagvaag TF3MH, Árni Freyr Rúnarsson TF8RN, Kristján Benediktsson TF3KB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Kristinn Andersen TF3KX.
Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Jón Björnsson TF3PW, Einar Kjartansson TF3EK og Georg Kulp TF3GZ.
Bernhard M. Svavarsson TF3BS og Þorvaldur Bjarnason TF3TB.
Ágúst H. Bjarnason TF3OM og Georg Kulp. Ljósmyndir: TF3JB og TF3KB.