Grunnnámskeið með Arduino örtölvur verður haldið í Skeljanesi laugardaginn 6. apríl. Um er að ræða sýnikennslu og verkefni fyrir byrjendur. Leiðbeinandi er Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS. Námskeiðið hefst kl. 10:00.

Miðað er við að þátttakendur komi með eigin Arduino örtölvur (er ekki skilyrði) og vinni hagnýt verkefni sem nýtast í amatör radíói. Menn þurfa helst að hafa eigin fartölvu þótt þeir komi ekki með Arduino.

Félagsmenn eru beðnir að senda póst til félagsins á póstfangið  ira hjá ira.is  þar sem eftirfarandi kemur fram:

  • Nafn þátttakanda
  • Kemur viðkomandi með sína eigin Arduino örtölvu með sér (ekki skilyrði)
  • Hefur viðkomandi einhverja reynslu af arduino örtölvum
  • Hefur viðkomandi einhverja reynslu af forritun yfirleitt

Stjórn ÍRA hvetur félagsmenn að nýta þetta spennandi tækifæri. Vandaðar kaffiveitingar.

Mynd af Arduino Uno örtölvu.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 4. apríl kl. 20:30. Þá mætir Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, í Skeljanes með erindið „Radíótækni í árdaga.“

Vilhjálmur segir sjálfur: „Hvernig var hægt að smíða senda og viðtæki áður lampar og nórar (transistorar) voru fundnir upp? Segja má að upphaflegu radíótækin hafi verið vélræn (mekanísk) í grunninn, fremur en byggð á rafeindatækni. Neistasendar voru alls ráðandi, sjá mynd. Neistasendir verður ræstur, þó ekki út í loftnet! Notkun þeirra til fjarskipta var bönnuð fyrir löngu“.

Stjórn ÍRA hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Myndin er af neistasendi á raftæknisafninu í Frastanz, Austurríki.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 2. tölublaðs CQ TF 2019, sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.
Margir hafa lagt hönd á plóg og mörgum ber að þakka, en sér í lagi TF3VS sem annaðist umbrotsvinnu.
CQ TF er að þessu sinni 40 blaðsíður að stærð.
73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Hér fyrir neðan má finna hlekk á blaðið.

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/03/cqtf_33arg_2019_02tbl.pdf

Jónas Bjarnason TF3JB mætti í sófaumræður sunnudaginn 31. mars kl. 10:30 með erindið: „DX sambönd og hvernig best og fljótvirk-ast er staðið að öflun QSL korta“.

Fyrst var farið yfir nokkrar glærur í myndvarpanum, m.a. (1) hvers vegna við notum QSL kort; (2) hvar menn „ná“ DX‘inum helst; (3) mikilvægi þess að QSO sé örugglega í log; (4) hvaða aðferðum má beita til að fá QSL kort fljótt; (5) umfjöllun um eigið QSL kort; og (6) umfjöllun um að erfiðara getur verið að fá QSL kort frá sumum löndum en öðrum og fl.

Í sófasettinu var síðan rætt um hinar ýmsu aðferðir sem hægt er að beita til að ná „þeim feita“ og rætt um DX‘inn út frá QSO’um við einstaklinga, klúbbstöðvar og DX-leiðangra. Farið yfir fyrirbærin DIRECT kort, QSL MANAGER‘A, OQRS aðferð og kosti þess að gerast styrktaraðili DX-leiðangra.

Alls mættu 10 félagar og 1 gestur þennan veðurmilda sunnudagsmorgun í Skeljanes. Umræðum lauk formlega upp úr kl. 12:30 en umfjöllunarefnið var „heitt“ þannig að síðustu menn ræddu málin áfram fram undir kl. 14. TF3JB fékk að lokum gott klapp og lofaði að gera grein fyrir umfjöllunarefninu í CQ TF.

Skeljanesi 31. mars. Jónas Bjarnason TF3JB mætti í sunnudagsumræður og fjallaði um „DX sambönd og hvernig best og fljótvirkast er staðið að öflun QSL korta“. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.
Umfjöllunin var almennt áhugaverð og ekki síður fyrir þær sakir þegar reynslumiklir félagsmenn í DX sögðu sögur úr loftinu. Frá vinstri: Reynir Björnsson TF3RL, Jónas Bjarnason TF3JB, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmynd: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS.

Jónas Bjarnason TF3JB mætir í sófaumræður sunnudaginn 31. mars kl. 10:30 og er yfirskriftin:

„DX sambönd og hvernig best og fljótvirkast er staðið að öflun QSL korta“.

Húsið verður opnað kl. 10 árdegis. Miðað er við að dagskrá verði tæmd á hádegi. Kaffi og kaffibrauð frá Björnsbakaríi.

Um sunnudagsopnanir.
Sunnudagsopnanir hafa verið skýrðar á þann veg að um sé að ræða fyrirkomulag menntandi umræðu á messutíma sem er hugsuð afslöppuð, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í leðursófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni leiðir umfjöllun og svarar spurningum.Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes 28. mars og flutti erindi um endurvarpa.  

Ari hefur hefur góða þekkingu á umfjöllunarefninu og veitti okkur áhugaverða innsýn í þennan tækniheim sem gerir okkur kleift að nota VHF/UHF stöðvar til sambanda yfir langar vegalengdir innanlands.

Hann útskýrði vel hvernig samtenging endurvarpa á VHF og UHF gerir leyfishöfum kleift að hafa krossband sambönd sem eykur mjög notagildi og útbreiðslu, t.d. þegar notaðar eru handstöðvar (jafnvel) búnar mjög litlu afli. Ari kynnti þá 5 VHF endurvarpa og 2 UHF endurvarpa sem eru í rekstri. Þeir eru allir nema einn fyrir FM mótun, en einn er fyrir starræna tegund útgeislunar (D-STAR).

Eftir kaffihlé tók Erik Finskas, TF3EY (OH2LAK) við og flutti áhugavert erindi um DMR (e. Digital Mobile Radio), sem rutt hefur sér til rúms síðustu ár, en yfir 3000 DMR endurvarpar hafa þegar verið settir upp fyrir radíóamatöra í 50 þjóðlöndum.

Erindi Eriks má skoða í heild á þessari vefslóð: http://dy.fi/vof

Stjórn ÍRA þakkar þeim Ara og Erik fyrir áhugaverð erindi. Þrátt fyrir snjófjúk og vindasamt veður, mættu 27 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 28. mars. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A flutti erindi um endurvarpa. Ljósmynd: TF3JB.
Erik Finskas TF3EY (OH2LAK) í Skeljanesi 28. mars. Erik fjallaði um og kynnti DMR og DMR endurvarpa. Ljósmynd: TF3KB.
Mynd tekin aftarlega úr sal. Ljósmynd: TF3JB.
Salurinn. Frá vinstri (fremst): Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórarinn Benediktz TF3TZ, Einar Kjartansson TF3EK, Snorri Ingimarsson TF3IK, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Georg Kulp TF3GZ, Jón Björnsson TF3PW, Magnús Ragnarsson TF1MT, Jón E. Guðmundsson TF8-020, Þórður Adolfsson TF3DT, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Óskar Sverrisson TF3DC og Njáll H. Hilmarsson TF3NH. Ljósmynd: TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 28. mars kl. 20:30. Þá mætir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A í Skeljanes með erindið: „Endurvarpar“.

Ari hefur mikla reynslu af uppsetningu, viðhaldi og notkun endurvarpa. Hann hefur árum saman unnið við endurvarpa félagsins, fyrst í félagi við Sigurð Harðarson, TF3WS og síðar einsamall og með Guðmundi Sigurðssyni, TF3GS þegar Ólafur B. Ólafsson, TF3ML, keypti endurvarpa til notkunar á 2 m og 70 cm. Þá kom hann að uppsetningu radíóvita Óla á Mýrum í Borgarfirði, sem teknir voru í notkun í fyrra á 50 og 70 MHz.

Ari mun skýra hvernig endurvarpi vinnur. Hann mun t.d. svara spurningunni hvers vegna tíðniafsetning í sendingu inn á endurvarpa á 2 m er aðeins 600 Hz samanborið við 5 MHz á 70 cm.

Í dag eru 5 FM endurvarpar fyrir radíóamatöra í rekstri hérlendis á 2 m, 2 á 70 cm; annar á FM og hinn á starrænni tegund útgeislunar (D-STAR), auk 4 stafvarpa með internetgáttir og 2 radíóvita Á 50 MHz og 70 MHz. Ari mun jafnframt upplýsa um fyrirhugaða uppsetningu DMR endurvarpa á 2 m.

Stjórn ÍRA hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. Myndin var tekin í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi 5. janúar. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 21. mars og flutti erindið „Radíóamatör í meira en 50 ár, reynslusögur úr áhugamálinu frá barnsaldri…“.

Ágústi tókst mjög vel upp og sagði skemmtilega frá áhugamálinu sem hófst þegar á unga aldri. Hann lýsir fyrstu kynnum sínum eftirfarandi: „Fyrstu minningarnar frá því er ég sá rafmagn í fyrsta skipti eru þegar ég skreið að veggtengli í borðstofunni sem tengdur var við brauðrist. Ég var með stóran gosflöskuupptakara í hendi og setti hann milli pinnanna sem glitti í. Bang! Svakalegur bláhvítur blossi, enda öryggið 16 amper eða kannski rúmlega það, því á þessum tíma voru sprungin öryggi lagfærð heima. Flestir kunnu það. Sjálfsagt hef ég rekið upp öskur, en þetta vakti áhuga minn á rafmagni sem lét mig ekki í friði næstu áratugina. Síðan er skarð í upptakaranum þar sem hann komst í námunda við rafmagnið!“.

Hann fékk leyfisbréfið 8. ágúst 1964 og fékk þar með morsleyfi, talleyfi og smíðaleyfi frá Póst- og símamálastofnun, undirritað af Jóni Skúlasyni Póst- og símamálastjóra. Upp frá því varð hann virkur í ÍRA, tók m.a. þátt í refaveiðum, gerðist ritstjóri CQ TF og fleira.

Fyrsta QSO‘ið var við TF3KB á morsi á 40 metrum þann 11.8.1964 kl. 19:45, en Ágúst sýndi mynd úr upphaflegu fjarskiptadagbókinni frá þeim tíma (sem hann á allar enn). Síðan fylgdu sambönd m.a. við TF5TP, TF3CJ, TF3DX, TF3IC og fleiri íslenska leyfishafa og að sjálfsögðu DX-sambönd.

Ágúst keypti notaða Heathkit HW-32A stöð þegar hann flutti til Svíþjóðar til náms 1969-1971 og var þá frjáls með að tala til Íslands eftir því sem skilyrði leyfðu.

Margir taka sér hlé frá áhugamálinu og hann er einn þeirra. Ágúst sagði, að þegar vinnan væri á svipuðum nótum og áhugamálið … þá gengi það aldrei til lengdar. Hann tók aftur til til við amatör radíó fyrir 2 árum (2017) og segist afar ánægður með það í dag.

Mikil ánægja var með erindi Ágústs. Að sögn eins viðstaddra „…hefði mátt heyra saumnál detta …“ slíkur var áhugi og athygli fundarmanna. Um kl. 22:30 var Ágústi þakkað með veglegu lófaklappi fyrir vel undirbúið og vel flutt erindi. Líflegar umræður héldu þó áfram og fram yfir kl. 23. Mæting var góð í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld, alls 25 félagar og 1 gestur. Bestu þakkir til Ágústs H. Bjarnasonar, TF3OM.

Skeljanesi 21. mars. Ágúst H. Bjarnason flytur erindi um 55 ár í amatör radíói. Á meðfylgjandi glæru má lesa að þegar hann var 14 ára fann hann spennubreyti úr víbrator aflgjafa á víðavangi, tók til við að mæla spennuna en gleymdi sér og fékk gríðarmikinn straum. Þegar hann hafði jafnað sig mældi hann aftur (þá með vinstri hönd í vasanum) sýndi mælirinn 620 volt AC…

Ágúst hefur verið duglegur við heimasmíðar í gegnum árin eins og sjá má á eftirfarandi ljósmynd og hann á enn mikið af „dótinu“ sem hann hefur smíðað á vísum stað í bílskúrnum.
Ágúst á DBS hjólinu við refaveiðar, ca. 1965. Með honum á myndinni er Sveinn Guðmundsson TF3SG. Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB tók ljósmyndina.
Frá vinstri (fremst): Stefán Arndal TF3SA, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Yngvi Harðarson TF3YH, Óskar Sverrisson TF3DC, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO, Bjarni Sverrisson TF3GB, Jón Björnsson TF3PW, Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH, Georg Kulp TF3GZ, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Bernhard M. Svavarsson TF3BS og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Frá vinstri (aftast): Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Bernhard M. Svavarsson TF3BS, Ari þórólfur Jóhannesson TF1A, Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO og Bjarni Sverrisson TF3GB. Í hliðarsal til hægri: Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Þórarinn Benediktz TF3TZ og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmyndir: Kristján Benediktsson TF3KB og Óskar Sverrisson TF3DC.


Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 21. mars kl. 20:30. Þá mætir Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, í Skeljanes með erindið „Radíóamatör í meir en 50 ár, reynslusögur úr áhugamálinu frá barnsaldri…“.

Ágúst er handhafi leyfisbréfs nr. 45 og hefur verið radíóamatör í rúmlega hálfa öld. Hann hefur frá mörgu forvitnilegu að segja frá þessum ferli. Hann hefur m.a. gegnt trúnaðarstörfum fyrir ÍRA, tekið þátt í refaveiðum, verið ritstjóri CQ TF og skrifað í blaðið.

Hann var QRV frá Lundi í Svíþjóð á námsárunum (1969-1971) og svo aftur eftir að hann flutti heim. Þess má geta til fróðleiks, að Ágúst á tvo bræður sem einnig eru radíóamatörar, það eru þeir Kjartan (TF3BJ) og Þórarinn (TF3TZ) en allir þrír eru menntaðir rafmagnsverkfræðingar.

Eftir 55 ár í áhugamálinu er fjarskiptaherbergi hans í dag búið nýjustu tækni, s.s. SDR sendi-/viðtæki og tækni til fjarstýringar tækjum í sumarhúsi hans á Suðurlandi.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Fjarskiptaaðstaða TF3OM heima í Garðabæ. Hér má m.a. sjá stjórnborð Kenwood TS-480SAT stöðvarinnar sem fjarstýrir búnaði á HF böndunum í sumarhúsinu með RemoteRig yfir netið. Ágúst notar Icom IC-7300 stöðina með Icom AH-4 sjálfvirkri loftnetsaðlögunar-rás (fyrir 1.8-54 MHz) við langan vír. Takið eftir glæsilegum Iambic morspöllunum frá Pietro Begali og Kent handmorslyklinum.
TF3OM í loftinu á morsi heima á Hrefnugötu 2, ca. 1967. Sendirinn er heimasmíðaður (150W) og viðtækið er National NC-100A (líklega smíðað í kringum 1940). Ofan á sendinum má sjá Heathkit HD-11 Q-multiplier og Heathkit sveiflusjá. Ljósmynd: TF3OM.
Fjarskiptaaðstaða TF3OM/SM7 í Lundi í Svíþjóð 1969-1971. Meðal búnaðar er Heathkit HW-32A stöð, heimasmíðaður RF magnari og sveiflusjá. Loftnetið var dípóll á 14 MHz. Ljósmynd: TF3OM.
Fjarskiptaaðstaðan í sumarhúsinu. Ágúst notar yfirleitt Kenwood TS-480SAT stöðina og tekur þá með sér (frátengjanlega) stjórn-borðið úr bænum. Kenwood TS-130S stöð er einnig til taks. Loftnet er EFHW-80/10 sem er endafædd hálfbylgja frá MyAntennasCom. Heimasmíðaður Iambic morslykill (með Curtis IC-rásinni) er notaður í bústaðnum ásamt Kent handmorslykli. Ljósmynd: TF3OM.

Skilafrestur á efni í CQ TF rennur út á miðvikudag, 20. mars.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Ritstjóri í góðum félagsskap í Skeljanesi. Frá vinstri: Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Kjartan H. Bjarnason TF3BJ og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Hraðnámskeiðið „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ byrjaði í morgun, 16. mars kl. 10:15.

Námskeiðið er hugsað til að aðstoða menn við að byrja í loftinu – hvort heldur þeir eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf eða eldri leyfishafar. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið.

Létt var yfir mönnum þegar tíðindamann bar að garði í Skeljanesi í morgun, rétt fyrir kl. 10. Þá voru þátttakendur í kaffi við stóra borðið á meðan beðið var eftir einum til viðbótar. Að sögn Óskars Sverrissonar, TF3DC, leiðbeinanda, er námskeiðið fullbókað, en miðað er við mest fjóra þátttakendur hverju sinni til að það nýtist sem best.

Neðri ljósmyndin var tekin í fjarskiptaherberginu þegar tíðindamaður kom á ný í hús um kl. 13. Þá var farið í loftið á morsi og FT8.

Aðspurður sagði Óskar að námskeiðið yrði aftur í boði fljótlega, enda mikill áhugi á meðal félagsmanna.

Þátttakendur á hraðnámskeiðinu „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ í Skeljanesi 16. mars. Frá vinstri: Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Óskar Sverrisson TF3DC, Mathías Hagvaag TF3MH (gestur), Reynir Björnsson TF3JL og Haukur Þór Haraldsson TF3NA. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Eftir undirbúning í salnum færðu menn sig upp á efri hæðina í fjarskiptaherbergi félagsins. Frá vinstri: Jón Svavarsson TF3JON, Mathías Hagvaag TF3MH (gestur), Óskar Sverrisson TF3DC, Haukur Þór Haraldsson TF3NA og Reynir Björnsson TF3JL. Á myndina vantar Sigurð Óskar Óskarsson TF2WIN. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 14. mars og flutti erindið “Logger32 dagbókarforritið; auknar vinsældir – nýir möguleikar”.

Hann kynnti forritið og fór yfir uppsetningu þess. Hann sýndi vel hve einfalt og öflugt það er, jafnframt því að vera aðgengilegt fyrir venjulegan leyfishafa að laga að eigin þörfum – án þess að þurfa að vera sérfræðingur í forritun eða tölvumálum.

Það var mál manna að Logger32 væri í raun meira en sérhæft dagbókarforrit þar sem m.a. er hægt að stýra fjarskiptum beint frá forritinu, auk þess sem það býður upp á fjölda möguleika í mismunandi útfærslum. Vilhjálmur sýndi m.a. með dæmum hvernig hann notar forritið sjálfur og tengdist heimastöð sinni yfir netið í því skyni, sem var mjög fróðlegt.

Hann fór yfir getu Logger32 hvað varðar stafrænar tegundir útgeislunar, en færsla í fjarskiptadagbók er viðstöðulaus og án vandræða sem gjarnan fylgja öðrum forritum. Fyrir marga er jafnframt kostur að Logger32 er á íslensku og er forritið boðið ókeypis á netinu til íslenskra radíóamatöra. Það var Vilhjálmur sem þýddi forritið.

Eftir kaffihlé tók Vilhjálmur við fyrirspurnum frá áhugasömum fundarmönnum og héldu menn áfram að spjalla framundir kl. 22:30 þegar honum var þakkað fyrir fróðlegt og skemmtilega flutt erindi með veglegu lófaklappi. Alls mættu 22 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 14. mars. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS flutti erindið “Logger32 dagbókarforritið; auknar vinsældir – nýir möguleikar”. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.
Hluti fundarmanna. Frá vinstri: Stefán Arndal TF3SA, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Ársæll Óskarsson TF3AO, Mathías Hagvaag TF3MH, Bjarni Sverrisson TF3GB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Óskar Sverrisson TF3DC, Heimir Konráðsson TF1EIN, Jón Björnsson TF3PW og Þórður Adolfsson TF3DT. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.