Góð mæting var í Skeljanes fimmtudaginn 23. janúar, þrátt fyrir ekta janúarveður, snjó- og slydduél í allhvössum suðvestan vindsveipum.

TF3MH, QSL stjóri félagsins, hafði flokkað kortasendingar gærdagsins þannig að flestir fengu kort, auk þess sem áhugaverður fjarskiptabúnaður var til sýnis.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, kom með ICOM IC-SAT100. Tækið notar Iridium gervitunglin til að koma skilaboðum áleiðis um allan heim, en getur jafnframt notast sem handstöð til fjarskipta (við aðrar slíkar) á landssvæðum þar sem ekki er GSM eða önnur fjarskiptaþjónusta (sjá frásögn í 4. tbl. CQ TF 2019, bls. 40). Ari kom með aðra af stöðvum Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, og var talað við Óla úr Skeljanesi sem var staddur í Árnessýslu (sjá mynd).

Hann kom einnig með þrjú bílnet, AMPRO-80 fyrir 3500-3800 kHz (2,4m á hæð) og 2375T og 1675T Ham-tenna bílnet frá MFJ fyrir (3800-3900 kHz). Þau eru annars vegar 91cm og 122cm á hæð. Styttra netið er það létt að þá má nota það á segulfæti.

Loks kom Ari aftur með 50W FM VHF/UHF stöð frá Vero Telecom (VGC), VR-N7500 með APRS (fyrir þá sem ekki gátu komið síðasta fimmtudag). Óvanaleg stöð, því hún er „andlitslaus“ og er stýrt frá snjallsíma  (með „bluetooth“) eða Android spjaldtölvu og er forrituð þráðlaust. Fyrirferðarlítil, ódýr og fær góða dóma.

Skemmtilegt fimmtudagskvöld.  Alls mættu 29 félagar og 1 gestur í Skeljanes í hressilegu vetrarveðri í byrjun Þorra.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A handleikur ICOM IC-SAT100 stöðina. Aðrir: Sveinn Aðalsteinsson TF1SA og Yngvi Harðarson TF3Y.
Stutta MFJ bílnetið (á borðinu) er á segulfæti, aðeins 91cm. Næst myndavél er VHF/UHF stöðin frá Vero Telecom (VGC), VR-N7500. Fjær, ICOM IC-SAT100. Við hlið hennar sér í loftnetsspólu á keramik formi, sem má festa á milli Ham stick loftnets og festingar. Á mynd: Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Yngvi Harðarson TF3Y.
Mest spennandi þetta fimmtudagskvöld var þegar ICOM IC-SAT100 handstöðin var prófuð í gegnum iridium gervitungl. Menn fjölmenntu út að glugga í salnum (sem snýr í vestur) þar sem náðist á augnabliki glimrandi gott samband um Iridium tunglið við Ólaf B. Ólafsson TF3ML, sem var staddur í Árnessýslu. Tandurhreint merki og afar læsileg mótun. Á mynd (frá vinstri): Baldvin Þórarinsson TF3-033, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Georg Kulp TF3GZ, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þórður Adolfsson TF3DT sem prófaði tækið fyrstur og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A (snýr baki í myndavél).
Við stóra borðið. Frá vinstri: Einar Kjartansson TF3EK, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Jón Björnsson TF3PW, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Mathías Hagvaag TF3MH sem skoðar tímarit (við enda borðsins).
Áhugaverðar umræður voru einnig í fjarskiptaherberginu. Wilhelm Sigurðsson TF3AWS (með bak í myndavél). Frá vinstri: Georg Kulp TF3GZ, Björgvin Víglundsson TF3BOI, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, áhugasamur gestur félagsins og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS (með bak í myndavél). Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 1. tölublaðs CQ TF 2020, sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.

Margir hafa lagt hönd á plóg og mörgum ber að þakka, en sér í lagi TF3VS sem annaðist umbrotsvinnu.

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Hér má nálgast blaðið: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2020/01/cqtf_34arg_2020_01tbl.pdf

Með tilvísan til 17. gr. félagslaga er hér með boðað til aðalfundar ÍRA laugardaginn 15. febrúar 2020.

Fundurinn verður haldinn í fundarsalnum Heklu 1 á Radisson BLU Hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík og hefst stundvíslega kl. 13:00. Dagskrá er samkvæmt 19. gr. félagslaga.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður ÍRA

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 23. janúar.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

QSL stjóri tæmir pósthólfið á miðvikudag og flokkar innkomin kort fyrir opnun á fimmtudagskvöld.

TF3JB kemur með „Knarrevik“ hillueiningu frá IKEA sem verður til sýnis á staðnum.

Stjórn ÍRA.

Hillueiningin „Knarrevik“ sparar mikið pláss á skrifborðinu og hýsir auðveldlega ICOM IC-7410 HF stöð, SteppIR SDA 100 stýrikassa, ICOM PS-300 aflgjafi, DAIWA CN-801HP sambyggðan standbylgju- og aflmæli og Palstar SP3 kassahátalara. Á borðinu er ETM-4C C-MOS rafmagnsmorslykill frá DJ2BW. Hillueiningin var keypt í IKEA á 1690 krónur (ath. ekki útsöluverð). Ljósmynd: TF3JB.

Góð mæting var í Skeljanes fimmtudaginn 16. janúar. QSL stjóri hafði flokkað kort í hólfin úr sendingum erlendis frá og félagar komu með á staðinn áhugaverðan búnað sem var til sýnis, auk þess sem félaginu voru færðar góðar gjafir.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, sýndi nýja 50W FM VHF/UHF stöð frá Vero Telecom (VGC) af gerðinni VR-N7500 með APRS. Óvanaleg stöð, því hún er „andlitslaus“ og er stýrt frá snjallsíma  (með „bluetooth“) eða Android spjaldtölvu og er forrituð þráðlaust. Hann kom líka með bílnet fyrir 160 metrana frá AM PRO og Watson Multiranger-9 bílnet, sem er fyrir 80, 40, 20, 15, 10, 6, 2M, 70CM og flugvélabandið.

Kristján Benediktsson, TF3KB, kom með eintak af nýjustu ARRL handbókinni 2020. Þetta er 97. útgáfa, en handbókin kom fyrst út árið 1926. Nýja handbókin er 1280 blaðsíður í stóru broti. Kristján sagði, að bókin væri einnig boðin í sex bóka formi sem kostar þá 10 dollurum meira, en handbókin sjálf kostar 49.95 dollara.

Félaginu bárust ennfremur tvær gjafir. Annars vegar, vandaður hægindastóll úr formuðu birkilímtré í fjaðrandi grind. Áklæði er svarbrúnt. Stóllinn kemur í góðar þarfir og var strax fundinn staður í fundarsal. Gefandi er Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A.

Þá barst félaginu upptaka á geisladiski af síðustu sendingunni sem fram fór á morsi á 500 kHz frá Gufunes radíói þann 1. febrúar 1999, þegar sendingar voru lagðar niður á þeirri tíðni. Ólafur K. Björnsson loftskeytamaður sendi skeytið, sbr. meðfylgjandi ljósmynd. Það var Sigurður Harðarson, TF3WS, sem gaf félaginu upptökuna. Hann útbjó einnig upplýsingablaðið með ljósmyndinni af Ólafi. Bestu þakkir til Ara og Sigurðar fyrir góðar gjafir.

Alls mættu 27 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

VHF/UHF bílstöðin frá kínverska framleiðandanum Vero Telecom (VGC) er af gerðinni VR-N7500. Hún er fyrirferðarlítil og fær góða dóma. Verðið er hagkvæmt eða um 160 dollarar á innkaupsverði.
ARRL handbókin 2020 er mikið rit (1280 blaðsíður) og henni var mikið flett í Skeljanesi á fimmtudagskvöldið.
Nýi hægindastóllinn kominn á sinn stað í salnum. Ekki amarlegt að fá sér sæti og fletta bók eða tímariti.
Mynd af gjöf Sigurðar Harðarsonar TF3WS. Minning sögulegs eðlis frá 1. febrúar 1999. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 16. janúar.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

Mathías, TF3MH, QSL stjóri, tæmir pósthólfið á miðvikudag og flokkar innkomnar QSL sendingar fyrir opnun á fimmtudagskvöld.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Frá laugardagsopnun í Skeljanesi 25. maí (2019). Á mynd: Gísli G. Ófeigsson TF3G, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Sigurður Benediktsson TF5SLN. Ari kynnti þennan laugardag hve auðvelt er að taka á móti merkjum frá EsHailSat/OSCAR 100 gervihnettinum. Ódýrasta fáanlega viðtækið (RTL SDR) var tengt og voru menn sammála um að merki væru jafnvel skýrari frá honum en frá viðtæki yfir netið. Notað var „SDR Console“ forritið sem radíóamatörum býðst frítt á netinu og getur jafnframt notast sem sendiforrit (með aukabúnaði). Ari sýndi einnig  SDR PLUTO sem er sendiviðtæki fyrir 60-6000 MHz og tekur allar tegundir mótunar. Þegar PLUTO er notaður þarf t.d. ekki „transverter“ sem aukabúnað. Ljósmynd: TF3JB.

Nordics On The Air in Norway Easter 2020a YOTA sub-regional ham camp – open for all youngsters

Um páskana verða hinar árlegu “Nordics on the air” ungmennabúðir radíóamatöra haldnar 10.-13. apríl 2020. Við bjóðum ungmennum frá öllum Norðurlöndunum að taka þátt! Helgin verður smekkfull af skemmtilegri dagskrá. Ég var eini Íslendingurinn sem fór á seinasta ári og eignaðist mjög góða vini frá hinum Norðurlöndunum. Það eina sem mér þótti leiðinlegt var að ég þurfti að fara heim.

Hvað gerum við?  Dagskráin snýst helst um eða tengist radíó amatörstarfi á einn eða annan hátt. Við kynnum nýliða fyrir áhugamálinu en það verður líka dagskrá fyrir lengra komna. Það verður hið vel þekkta “Alþjóðakvöld” þar sem allir koma með góðgæti frá sínu eigin landi og allir þátttakendur fá tækifæri til að fara í loftið á LA1YOTA; með eða án aðstoðar frá reyndari leyfishafa (ef þess er óskað).

Hvar?  Helgin fer fram á Camp Killingen, Killingsholmen, sem er lítil eyja suðvestur af Ósló. Tjaldbúðirnar (verðum samt innanhúss) eru á sunnanverðri eyjunni, þar sem við verðum meira og minna út af fyrir okkur, umkringd náttúrunni.

Við viljum fá þig!  NOTA eru ungmennabúðir fyrir ungmenni, skipulagt af ungmennum og ykkur er öllum boðið að taka þátt. Ef þú hefur áhuga á að hitta önnur ungmenni sem hafa áhuga á því að fikta með tæki og tól, að tala í talstöðvar, vita hvernig neyðarfjarskipti eða internetið virkar, jafnvel sjónvarpsútsendingar og hvernig símar tala saman í gegnum bæði gervihnetti og símamöstur, eða bara hvernig á að byggja sinn eigin búnað, prufa hann, læra hvernig morskóði virkar og af hverju hann var notaður o.fl. – -þá ENDILEGA sæktu um og taktu þátt! Ég vil fá sem flesta Íslendinga með mér!

Markmiðið með þessu er að virkja ungmenni í áhugamálinu og fá þá til að kynna sér það betur heimafyrir og jafnvel kynnast fleiri ungmennum sem þau geta…nördast með.

ATH: ÞAÐ ÞARF EKKI að hafa amatörleyfi til að taka þátt og sækja um, við viljum bara að þú hafir metnað fyrir áhugamálinu og viljir kynna þér það betur!

Umsóknarferli í gegnum landsfélag IARU Svæðis 1  IARU (samtök landsfélaga radíóamatöra á Svæði 1) er styrktaraðili þessara búða og skilgreinir ungmenni sem fólk á aldrinum 15-26 ára, undanþágur eru – og hafa verið gerðar – fyrir þátttakendur sem hafa ekki komið áður, t.d. fyrir þátttakendur sem eru nýir í áhugamálinu og frá smærri landsfélögun eins og ÍRA. Ég sjálf er 28 ára og fór í fyrsta skipti 27 ára. En það hafa verið krakkar allt niður í 13 ára að taka þátt. Það er eitthvað fyrir alla.

Þeir sem hafa áhuga á að sækja um þurfa að senda umsóknir í gegnum ungmennafulltrúa ÍRA á ira@ira.is. Tekið er á móti umsóknum frá 9. janúar til 9. Febrúar. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður þannig að best er að sækja um sem fyrst. Ef þú ert ekki félagi í ÍRA skaltu taka það fram í tölvupóstinum og við kippum því í liðinn.

Gjöld og frekari upplýsingar  Það er táknrænt þáttökugjald upp á 20 evrur / 200 NOK fyrir fullt fæði og gistingu. Frekari upplýsingar verða sendar til þátttakenda rétt eftir umsóknarfrestinum lýkur.

Aðrar fyrirspurnir skulu sendast til nota@nrrl.no

73 og vonumst til að sjá ykkur í Noregi í apríl!
Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, ungmennafulltrúi ÍRA.
The Nordic NOTA organizing team

ÍRA barst staðfesting frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) í dag, 8. janúar 2020, um heimild til notkunar tíðnisviðsins 1850-1900 kHz vegna þátttöku í tilgreindum alþjóðlegum keppnum á almanaksárinu 2020. Heimildin nær til eftirtalinna keppna:

CQ World-Wide 160 metra keppnin, CW, 24.-26. janúar.
ARRL DX keppnin, CW, 15.-16. febrúar.
CQ World-Wide 160 metra keppnin, SSB, 21.-23. febrúar.
ARRL DX keppnin, SSB, 7.-8. mars.
CQ WPX keppnin, SSB, 28.-29. mars.
CQ WPX keppnin, CW, 30.-31. maí.
IARU HF World Championship keppnin, CW/SSB, 11.-12. júlí.
CQ World-Wide DX keppnin, SSB, 24.-25. október.
CQ World-Wide DX keppnin, CW, 28.-29. nóvember.
ARRL 160 metra keppnin, CW  4.-6. desember.

Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur heimild til notkunar nokkurra tíðna á þessu tíðnisviði. Um þessa notkun gilda sömu kröfur og gilda fyrir tíðnisviðið 1810-1850 kHz í reglugerð, en aukin skilyrði Póst- og fjarskiptastofnunar eru eftirfarandi: (a) Heimildin er einvörðungu veitt þann tíma sem tilgreindar alþjóðlegar keppnir radíóamatöra standa yfir (sjá að ofan); (b) G-leyfishafar hafa heimild til að nota fullt afl, allt að 1kW. N-leyfishafar njóta sömu tíðniréttinda, en aflheimild þeirra miðast við mest 10W.

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til PFS á hrh@pfs.is eða pfs@pfs.is eins og áður.

Þátttakendur sem stóðust próf Póst- og fjarskiptastofnunar þann 14. desember s.l., eru allir komnir með kallmerki. Listinn er í stafrófsröð:

Árni Helgason, TF4AH, Patreksfirði.

Björgvin Víglundsson, TF3BOI, Reykjavík.

Eiður K. Magnússon, TF1EM, Reykjavík.

Gunnar B. Pálsson, TF2BE, Reykjavík.

Pétur Ólafur Einarsson, TF3POE, Reykjavík.

Sigurður Kolbeinsson, TF8TN, Reykjavík.

Sveinn Aðalsteinsson, TF1SA, Reykjavík.

Þorsteinn Björnsson, TF4TB, Kópavogi.

Stjórn ÍRA óskar viðkomandi til hamingju og býður þá velkomna í loftið.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 9. janúar.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti.

QSL stjóri félagsins tæmir pósthólfið á miðvikudag, flokkar innkomnar QSL sendingar og gerir klár fyrir opnun á fimmtudagskvöld.

Þá ætlar Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS, að koma með Zastone Z218 25W 2M/70CM bílstöðina sína og hafa til sýnis yfir kaffinu.

Stjórn ÍRA.

Wilhelm Sigurðsson TF3AWS heldur á Zastone Z-218 25W bílstöðinni fyrir 2M/70CM böndin. Myndin var tekin þegar hann kom með stöðina í Skeljanes. Eftir það hafa menn verið að spyrjast fyrir um tækið og þar sem hann áformar að setja stöðina í vinnubílinn gefst tækifæri á fimmtudagskvöld að skoða gripinn. Með Wilhelm á myndinni eru þeir Jón Guðmundsson TF3LM og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A. LJósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður næst opin fimmtudaginn 9. janúar.

Áramótakveðjur,

Stjórn ÍRA.

Vetrarmynd frá Skeljanesi. LJósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Gleðilegt nýtt ár með þökkum fyrir góð samskipti á liðnum árum.

Nú styttist í janúarhefti CQ TF.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 12. janúar n.k.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.