ÍRA barst staðfesting frá Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) í dag, 22. febrúar 2019, um heimild til notkunar tíðnisviðsins 1850 – 1900 kHz vegna þátttöku í alþjóðlegum keppnum radíóamatöra á almanaksárinu 2019. Heimildin nær til eftirtalinna 10 keppna:

ALÞJÓÐLEG KEPPNI, TEGUND ÚTGEISLUNAR, DAG- OG TÍMASETNINGAR, FJÖLDI KLST.

CQ World-Wide 160 metra keppnin – CW – 25.-27. janúar, kl. 22-22 – 48 klst.
ARRL DX keppnin – CW – 16.-17. febrúar, kl. 00-00 – 48 klst.
CQ World-Wide 160 metra keppnin – SSB – 22.-24. febrúar, kl. 22-22 – 48 klst.
ARRL DX keppnin – SSB – 2.-3. mars, kl. 00-00 – 48 klst.
CQ WPX keppnin – SSB – 30.-31. mars, kl. 00-00 – 48 klst.
CQ WPX keppnin – CW – 25.-26. maí, kl. 00-00 – 48 klst.
IARU HF World Championship – CW/SSB – 13.-14. júlí, kl. 12-12 – 24 klst.
CQ World-Wide DX keppnin – SSB – 26.-27. október, kl. 00-00 – 48 klst.
CQ World-Wide DX keppnin – CW – 23.-24. nóvember, kl. 00-00 – 48 klst.
ARRL 160 metra keppnin – CW – 6.-8. desember, kl. 22-16 – 40 klst.

Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur heimild til notkunar nokkurra tíðna á þessu tíðnisviði. Um þessa notkun gilda sömu kröfur og gilda fyrir tíðnisviðið 1810-1850 kHz í reglugerð, en aukin skilyrði Póst- og fjarskiptastofnunar eru eftirfarandi: (a) Heimildin er einvörðungu veitt þann tíma sem tilgreindar alþjóðlegar keppnir radíóamatöra standa yfir (sjá að ofan); (b) G-leyfishafar hafa heimild til að nota fullt afl, 1kW. N-leyfishafar njóta sömu tíðniréttinda, en aflheimild þeirra miðast við mest 10W.

Leyfishafar skulu sækja sérstaklega um heimild til PFS á hrh@pfs.is eða pfs@pfs.is eins og síðast.

Fimmtudaginn 21. febrúar var myndakvöld í Skeljanesi og var fyrst sýnd ný DVD mynd frá DX-leiðangri til Miðbaugs Gíneu og Annobon eyju undan vesturströnd Afríku. Í myndbandinu var áhugaverð frásögn frá DX-leiðangri leyfishafa frá Lettlandi, þeirra YL1ZF, YL2GM og YL2KL. Þeir höfðu alls 86 þúsund QSO og þ.á.m. við íslenska leyfishafa. Myndasýningin var í boði Óskars Sverrissonar, TF3DC.

Óskar sýndi okkur einnig úr mynd frá síðasta DX-leiðangri sem farinn var til Peter 1 eyju á Suðurheimsskautslandinu. Myndin veitti góða innsýn í erfiðar aðstæður leiðangursins sem farinn var árið 2006. Alls voru höfð  87 þúsund QSO. Myndin er í eigu félagsins og var gefin á sínum tíma af Brynjólfi Jónssyni, TF5B.

Að lokum fengum við að sjá úr mynd frá frægum DX-leiðangri til Malpelo eyju sem í raun er stór klettur í austur-Kyrrahafi, um 500 km vestur af Kólumbíu. Afar fróðleg mynd, en á sex vikum höfðu þátttakendur yfir 190 þúsund QSO. Þeir settu upp búðir efst á klettinum, sem ekki er nema 1600 metrar á lengd og 700 metrar á breidd.

Bestu þakkir til Óskars Sverrissonar, TF3DC fyrir skemmtilegt myndakvöld í Skeljanesi. Alls mættu 24 félagar þetta vindasama vetrarkvöld í Reykjavík, þar af þrír gestir.

Skeljanesi 21. febrúar. Óskar Sverrisson TF3DC bauð upp á DVD myndir þar sem efnið var DX-leiðangrar til fjarlægra staða.
Félagsmenn voru dreifðir um salinn.
Umræður í leðursófasettinu og í kring eftir myndasýninguna. Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Kristján Benediktsson TF3KB (standandi) og næst myndavél, standandi, Mathías Hagvaag TF3MH og Jón Björnsson TF3PW. Ljósmyndir: TF3JB.

Aðalfundur ÍRA árið 2019 var haldinn 16. febrúar s.l. á Hótel Sögu í Reykjavík. Meðal gagna sem lögð voru fram á fundinum var skýrsla formanns um starfsemi félagsins á liðnu starfsári.

Skýrslan, sem lögð var fram á prentuðu formi, skiptist í 11 kafla og tvo viðauka, auk formála og efnisyfirlits. Hún er alls 136 blaðsíður að stærð. Efnisskipting er þessi:

1. Stjórn, embættismenn og fundir.
2. Félagsaðstaðan við Skeljanes.
3. Vetrardagskrá; erindi, jólakaffi og JOTA.
4. Vetrardagskrá; námskeið og fleira
5. Námskeið og próf til amatörleyfis.
6. TF útileikar, vitahelgin og keppnir.
7. Páskaleikar og VHF/UHF leikar.
8. Útgáfumál.
9. Sérstakar tíðniheimildir frá PFS.
10. Endurvarpar, stafvarpar og radíóvitar.
11. Erlendir gestir í Skeljanesi.

Viðauki A; fundargerðir stjórnar 2018/19.
Viðauki B; ýmis gögn er varða starfsárið 2018/19.
Borgarskjalasafn Reykjavíkur; einkaskjalasafn nr. 151.

Vefslóð á ársskýrslu 2018/19: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/02/20190216-arsskrysla-tf3jb.pdf

Gögn sem lögð voru fram á aðalfundi ÍRA 2019: (1) Dagskrá fundarins; (2) útprentun á lögum félagsins; (3) Skýrsla um starfsemi ÍRA 2018/19; Ársreikningur ÍRA fyrir starfsárið 2018 og Skýrsla Prófnefndar til Aðalfundar ÍRA 2019. Að auki fylgdu með í möppu með aðalfundargögnum, límmiðar með félagsmerki ÍRA. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Fimmtudaginn 21. febrúar verður sýnt nýtt DVD myndband frá DX-leiðangri til Miðbaugs Gíneu og Annoban, 3C3W & 3CØW sem margir TF leyfishafar náðu sambandi við.

Í myndbandinu er áhugaverð frásögn frá ferðum þeirra YL1ZF, YL2GM og YL2KL til þessara DXCC landa í febrúar og mars 2018. Skemmtileg og fróðleg innsýn í ferðir af þessu tagi.

Þeir félagar hafa verið heiðraðir fyrir vel heppnaðar ferðir, m.a. af SWODXA, The Intrepid DX Group og GDXF, sem „DXpedition of The Year“, „The Intrepid DX Group Award“ og „GDXF Trophy Best DXpedition“.

Góðar kaffiveitingar verða í boði í Skeljanesi og DX-umræður. Viðburðurinn er í boði Óskars Sverrissonar, TF3DC.


Þakka félagsmönnum símtöl og tölvupósta með góðum orðum og umsögnum um starfsemi félagsins á liðnu starfsári. Þessi jákvæðu viðbrögð í kjölfar aðalfundar 2019 eru okkur í nýrri stjórn, hvatning til góðra verka á komandi starfsári.

Þeir sem ekki áttu þess kost að koma á aðalfundinn á Hótel Sögu á laugardag spyrja um ársskýrsluna, sem afhent var prentuð á fundinum ásamt fleiri gögnum. Skýrslan verður til birtingar hér á heimasíðunni á PDF-formi innan örfárra daga.

Önnur gögn, þ.á.m. fundargerð og ársreikningur verða til birtingar í 2. tbl. CQ TF sem kemur út 31. mars n.k.

73,

Jónas Bjarnson, TF3JB, formaður.

Ársskýrsla ÍRA 2018/19 kom út á aðalfundi 2019. Hún skiptist í 10 kafla og tvo viðauka og er alls 136 blaðsíður að stærð.
Mynd frá aðalfundi ÍRA 2019 sem haldinn var á Radisson Blu Hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík 16. febrúar. Ljósmynd: TF3KB.
Ný stjórn ÍRA starfsárið 2019/20: Jónas Bjarnason TF3JB formaður, Óskar Sverrisson TF3DC, Jón Björnsson TF3PW, Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Georg Manússon TF2LL, Heimir Konráðsson TF1EIN og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA. Ljósmynd: TF3KB.

Aðalfundur ÍRA 2019 var haldinn 16. febrúar í fundarsal Radisson Blu Hótel Sögu í Reykjavík. Á fundinum fóru fram venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt ákvæðum í lögum félagsins.

Embættismenn fundarins voru kjörnir þeir Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, fundarstjóri og Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, fundarritari. Alls sóttu 37 félagsmenn fundinn samkvæmt skráningu í viðverubók. Fundurinn var settur kl. 13:10 og slitið kl. 14:30.

Eftirtaldir skipa nýja stjórn félagsins fyrir starfstímabilið 2019-2020: Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður (endurkjörinn); Óskar Sverrisson, TF3DC (situr sitt síðara kjörtímabil), Georg Magnússon, TF2LL (situr sitt síðara kjörtímabil), Guðmundur Sigurðsson, TF3GS (kjörinn til 2 ára) og Jón Björnsson, TF3PW (kjörinn til 2 ára). Varamenn til 1 árs voru kjörnir þeir Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA (endurkjörinn) og Heimir Konráðsson, TF1EIN. Stjórnin mun skipta með sér verkum á næstunni.

Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir Haukur Konráðsson, TF3HK og Yngvi Harðarson, TF3Y og til vara, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS. Félagsgjald var samþykkt óbreytt frá fyrra ári, 6500 krónur fyrir starfsárið 2019-2020. Stjórnin mun skipta með sér verkum fljótlega.

Skýrsla stjórnar og önnur aðalfundargögn verða til birtingar innan tíðar hér á heimasíðunni.

Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA var í viðtali í útvarpsþættinum „Mannlegi Þátturinn“ á RÚV Rás 1 í morgun, 13. febrúar.

Skemmtilegt og fróðlegt viðtal. Sjá meðfylgjandi slóð.

http://www.ruv.is/utvarp/spila/mannlegi-thatturinn/23616…

Skeljanesi 8. nóvember 2018. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA flytur erindi um fæðilínur í félagsaðstöðunni. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Opið hús verður í Skeljanesi fimmtudaginn 14. febrúar kl. 20-22.

Opin málaskrá, kaffi, kex, kökur og góður félagsskapur.

Vetrardagskrá 2019 heldur síðan áfram fimmtudaginn 21. febrúar n.k.

SVIPMYND ÚR FÉLAGSSTARFINU. Á góðri stundu í Skeljanesi 18. október 2018. Ethan Handwerker N1SOH, Haraldur Þórðarson TF8HP og Elín Sigurðardóttir TF2EQ. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Minnt er á fyrri tilkynningar þess efnis að aðalfundur ÍRA 2019 verður haldinn laugardaginn 16. febrúar n.k.

Fundarstaður er Radisson BLU Hótel Saga við Hagatorg í Reykjavík og hefst fundurinn stundvíslega kl. 13:00.

Dagskrá er samkvæmt 19. gr. félagslaga.

Fyrir hönd stjórnar,

Jónas Bjarnason, TF3JB, formaður.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 7. febrúar og flutti áhugavert erindi um stafræna fjarskiptakerfið D-STAR (e. Digital Smart Technologies for Amateur Radio).

D-STAR á sér yfir 20 ára sögu, og komu japönsk stjórnvöld fyrst að fjármögnun þess sem rannsóknarverkefnis með aðkomu landsfélags japanskra radíóamatöra, JARL og fleirum. Icom kom síðar að verkefninu og fyrir 15 árum var D-STAR markaðssett. Kenwood bættist í hópinn fyrir tveimur árum en Yaesu notar annað kerfi.

D-STAR tengir saman stafræn fjarskipti radíóamatöra og netið. Stafrænn D-STAR endurvarpi er starfræktur í Bláfjöllum á UHF (TF3RPI). Hann hefur gátt yfir netið út í heim. Endurvarpinn er í eigu Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML.

D-STAR fjarskiptastöðvar eru fáanlegar fyrir HF, VHF og UHF tíðnisviðin og fór Ari vel yfir möguleikana og hvernig tengjast má kerfinu. Í raun er kallmerkið lykillinn og aðgangur að kerfinu um allan heim.

Ari flutti okkur fróðlega innsýn í þennan forvitnilega heim fjarskiptanna sem hefur ekki mikið verið nýtur hér á landi. Þó kom fram hjá Ara að 18 íslensk kallmerki eru skráð í gagnagrunn D-STAR.

Alls mættu 24 félagsmenn í Skeljanes á þetta fyrsta erindi á nýrri vetrardagskrá ÍRA fyrir febrúar-maí 2019. Ari fékk að lokum gott klapp fyrir fróðlegt og áhugavert erindi þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 7. febrúar. Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A flutti afar áhugavert erindi um D-STAR fjarskiptakerfið. Ljósmynd: TF3JB.
Frá vinstri: Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Guðmundur Sigurðsson TF3GS. Næsta röð (aftar): Jón Björnsson TF3PW, Wihelm Sigurðsson TF3AWS, Georg Kulp TF3GZ. Næsta röð (aftar): Ársæll Óskarsson TF3AO, Pier Albert Kaspersma TF3PKN, Þórður Adolfsson TF3DT og Baldvin Þórarinsson TF3-033. Næsta röð (aftar): Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Fyrsta erindi á nýrri vetrardagskrá ÍRA fyrir tímabilið febrúar-maí verður í boði fimmtudaginn 7. febrúar kl. 20:30.

Þá mætir Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A í Skeljanes með erindi um D-STAR fjarskiptakerfið (e. Digital Smart Technologies for Amateur Radio).

D-STAR fjarskiptastöðvar eru fáanlegar fyrir HF, VHF og UHF tíðnisviðin. Stafrænn D-STAR endurvarpi er starfræktur í Bláfjöllum á UHF (TF3RPI). Hann hefur gátt yfir netið út í heim.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Kaffiveitingar.

Slegið á létta strengi við mælingar í Skeljanesi 8. september 2018. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Elín Sigurðardóttir TF2EQ og Jón Björnsson TF3PW. Þórður Adolfsson TF3DT og Jón G. Guðmundsson TF3LM snúa baki í myndavél. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

ÍRA auglýsti 6. janúar s.l. eftir áhuga á að taka þátt í námskeiði til amatörprófs í febrúar-maí 2019. Frestur var gefinn til 20. janúar, en síðar framlengdur til 31. janúar. Fyrirspurnir bárust, en aðeins fjórir skráðu sig.

Í ljósi þessa hefur verið ákveðið í samráði við prófnefnd og umsjónarmann námskeiða, að falla frá námskeiðshaldi nú, en stefna þess í stað að námskeiði í október-desember n.k.

Til greina kemur að félagið fari þess á leit við Póst- og fjarskiptastofnun að efnt verði til prófs til amatörleyfis  í maí n.k. (án undangengins námskeiðs).

Áhugasamir eru beðnir um að senda tölvupóst til félagsins á „ira hjá ira.is“ fyrir 15. febrúar n.k.  Slíkum pósti fylgir engin skuldbinding, en veitir félaginu mikilvægar upplýsingar um áhuga á prófi.