Skeljanesi 2. febrúar. Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Mathías Hagvaag TF3MH, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Georg Kulp TF3GZ, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Albert Flower III N1MXO (bak í myndavél) og Erik Finskas OH2LAK/TF3EY.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 2. febrúar. Skemmtilegt kvöld og góðar umræður á báðum hæðum.

Sérstakir gestir okkar voru Erik Finskas, OH2LAK (TF3EY) frá Mankkaa í Espoo í Finnlandi og Albert (Bert) Flower III, N1MXO frá Nantucket í Massachusetts í Bandaríkjunum.

Mikið var rætt um tækin, loftnet og annan búnað. Ennfremur um góð skilyrði á böndunum og um alþjóðlegar keppnir sem fram fóru um nýliðna helgi.

Erik og Benedikt tengdust FlexRadio Systems 6300 stöð Eriks sem sett var upp í fjarskiptaaðstöðu TF3T og TF3SG við Eyrarbakka í síðustu viku. Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum voru menn áhugasamir þegar Benedikt var í sambandi við TF2MSN og TF3VE á 80 metrum um 6300 stöðina frá Eyrarbakka yfir netið í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A hafði fært í hús ýmislegt radíódót, m.a. kóaxkapla með N-tengjum, HF og VHF RF magnara (100 og 500W), Yaesu rótora með stýrikössum og margt fleira sem var vinsælt og gekk vel út.

Alls mættu 22 félagar og 3 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld á miðvetri í léttri rigningu í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Benedikt Sveinsson TF3T, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Georg Kulp TF3GZ, Pier Albert Kaspersma TF3KPN, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Mathías Hagvaag TF3MH, Albert Flower III N1MXO (fyrir enda borðs), Erik Finskas OH2LAK/TF3EY og Óskar Sverrisson TF3DC.
Frá vinstri: Albert Flower III N1MXO, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Mathías Hagvaag TF3MH, Erik Finskas OH2LAK/TF3EY (bak í myndavél), Benedikt Sveinsson TF3T, Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG (bak í myndavél), Georg Kulp TF3GZ og Pier Albert Kaspersma TF3KPN.
Frá vinstri: Albert Flower III N1MXO, Jónas Bjarnason TF3JB (fjær), Mathías Hagvaag TF3MH, Benedikt Sveinsson TF3T og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Hans Konrad Kristjánsson og Albert Flower III N1MXO ræddu áhugamálið. Fjær: Guðmundur Birgir Pálsson TF3AK, Björgvin Víglundsson TF3BOI, Benedikt Sveinsson TF3T og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Guðmundur Sveinsson TF3SG í fjarskiptaherbergi TF3IRA.
Hluti af radíódóti sem Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A færði félaginu nýlega. Ljósmyndir: TF3DC, TF3GZ og TF3JB.

Jónas Bjarnason, TF3JB hefur fengið í hendur WPX AWARD OF EXCELLENCE viðurkenningu frá CQ tímaritinu. Viðurkenningin er dagsett 30. september 2022 en barst hingað til lands 1. febrúar 2023.

WPX Award of Exellence er æðsta viðurkenningin sem er í boði í WPX viðurkenningapakka CQ tímaritsins. Kröfurnar eru eftirfarandi: 1000 forskeyti MIXED og 600 forskeyti SSB og 600 forskeyti CW og að auki, allar sex meginlandauppfærslur og öll fimm HF bönd (80, 40, 20, 15 og 10 metrar). Sérstakir uppfærsluborðar (e. endorsement bars) eru fáanlegir fyrir DIGITAL, 160, 60, 30, 17, 12 og 6 metra böndin.

Í CQ TF, 1. tbl. 2023 er grein um WPX viðurkenningarnar (bls. 32). Vefslóð á blaðið: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/01/CQTF-2023-1.pdf

Tveir aðrir leyfishafar hér á landi eru jafnframt handhafar WPX Award Of Excellence, þeir Yngvi Harðarson, TF3Y og Guðlaugur Jónsson, TF8GX.

Hamingjuóskir til TF3JB.

Stjórn ÍRA.

EUDXCC (Eoropean Contest Club) boðar til 3. alþjóðlegu European Union DX keppninnar 2023.

Keppnin er opin radíóamatörum um allan heim og fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum á tali (SSB) og morsi (CW) helgina 4.-5. febrúar. Hún hefst kl. 12 á hádegi á laugardag og lýkur kl. 12 á hádegi á sunnudag.

Stöðvar í ESB senda: RS(T) + 2 bókstafi og 2 tölustafi (sem tákna land og hérað í ESB).
TF stöðvar senda: RS(T) + ITU svæði (TF er í ITU svæði 17).

Punktagjöf: QSO við stöðvar í löndum ESB=10; QSO innan TF= 2; QSO við stöðvar í öðrum löndum í Evrópu= 3; og sambönd við stöðvar í öðrum löndum heimsins=5 punktar.

Margfaldarar: Fyrir hvert samband við stöð í ESB á hverju bandi = 1.
Fyrir hvert samband við stöð á DXCC/WAE listum + IG9/IH9 á hverju bandi = 1.

Ath. að skoða í reglunum kóða fyrir stöðvar í löndum sem tengjast ESB löndunum Danmörku, Frakklandi og Hollandi, t.d. DK06 fyrir Færeyjar og Grænland;  FR20 fyrir Frönsku Polynesíu og NL13 fyrir Aruba, o.fl.  Frestur til að skila keppnisgögnum er til kl. 12 á hádegi 12. febrúar.

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Keppnisreglur: https://www.eudx-contest.com/rules/

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 2. febrúar kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. Sérstakir gestir okkar verða radíóamatörar frá Finnlandi og Bandaríkjunum.

Nýjustu tímaritin liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu.
Víkurfréttir birtu skemmtilegt myndband á heimasíðu sinni frá Alþjóðlegu vita- og vitaskipahelginni á Garðskaga í ágúst 2017.
Ólafur B. Ólafsson TF3ML var m.a. með færanlegt fjarskiptavirki sitt á staðnum eins og sjá má á myndbandinu.
Myndin að ofan er af Stefáni Arndal TF3SA þegar hann virkjaði TF8IRA frá hjólhýsi Guðmundar Inga Hjálmtýssonar TF3IG þar á staðnum.
Mynd/rétthafi: Víkurfréttir.

Vefslóð: https://www.vf.is/sjonvarp/beint-samband-til-nordur-koreu-fra-gardskagavita

Ágæti félagsmaður!

Með tilvísan til 17. gr. félagslaga, er hér með boðað til aðalfundar ÍRA sunnudaginn 19. febrúar 2023.

Fundurinn verður haldinn í safnaðarheimili Neskirkju við Hagatorg í Reykjavík og hefst stundvíslega kl. 14:00.

Dagskrá er samkvæmt 19. gr. félagslaga.

Reykjavík 27. janúar 2023,
fyrir hönd stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður

Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 26. janúar.

Sérstakur gestur okkar var Erik Finskas, OH2LAK (TF3EY) sem er búsettur í Mankkaa í Espoo í Finnlandi.

Njáll H. Hilmarsson, TF3NH kom færandi hendi með gjöf til félagsins sem er plakat með mynd af jörðunni (e. great circle map) með með gráðusetningum og er miðjan Reykjavík. Heiti á þjóðlöndum eru innsett á íslensku. Bestu þakkir til Njáls fyrir hugulsemina og gott framtak. Hann er tilbúinn til að útvega fleiri eintök ef félagarnir hafa áhuga en framleiðslukostnaður er fimm þúsund krónur.

Alls mættu 18 félagar og 2 gestir þetta ágæta fimmtudagskvöld í léttri rigningu í vesturbænum í Reykjavík.

Stjórn ÍRA.

Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Jón E. Guðmundsson TF8KW, Hans Konrad Kristjánsson og Mathías Hagvaag (fyrir enda borðs).
Mathías Hagvaag TF3MH og Erik Finskas OH2LAK / TF3EY. Fjær: Jón Björnsson TF3PW.
Njáll H. Hilmarsson TF3NH, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Benedikt Sveinsson TF3T og Jón E. Guðmundsson TF8KW.
Mynd af kortinu sem TF3NH færði félaginu að gjöf þetta fimmtudagskvöld.
Jón Björnsson TF3PW og Björgvin Víglundsson TF3BOI.
Jón Björnsson TF3PW, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmyndir: TF3JB.

Eftirfarandi alþjóðlegar keppnir verða í boði helgina 27/28.-29. janúar á CW, RTTY og SSB.

CQ 160 m CW keppnin: 27.-29. janúar. Hefst kl. 22 [á föstudag], endar kl. 22 á sunnudag.
Keppnisreglur:  https://www.cq160.com/rules.htm
Bent er á að sækja má um tímabundna aukna tíðniheimild (1850-1900 kHz) og aukna aflheimild 1kW (G-leyfishafar) til Fjarskiptastofu; netfang: hrh@fjarskiptastofa.is

REF CW keppnin: 28.-29. janúar. Hefst kl. 06, endar kl. 18 á sunnudag.
Keppnisreglur:  https://concours.r-e-f.org/reglements/actuels/reg_cdfhfdx.pdf

BARTG RTTY keppnin: 28.-19. janúar. Hefst kl. 12, endar kl. 12 á sunnudag.
Keppnisreglur:  https://bartg.org.uk/wp/bartg-sprint-contest/

UBA SSB keppnin: 28.-29. janúar. Hefst kl. 13, endar kl. 13 á sunnudag.
Keppnisreglur:  https://www.uba.be/en/hf/contest-rules/uba-dx-contest-rules

Með ósk um gott gengi!

Stjórn ÍRA.

Kort sem sýnir skiptingu heimsins í meginlönd. Höfundur: Tim Makins, EI8IC.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 26. janúar kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin.

QSL stjóri verður búinn að fara í pósthólfið og flokka innkomin kort. Nýjustu tímaritin liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Ólafur B. Ólafsson TF3ML og Guðjón H. Egilsson TF3WO. Myndin var tekin í Skeljanesi haustið 2010. Ljósmynd: TF3JB.

Worked All Europe (WAE) keppnin var haldin 12.-13. nóvember. Keppnisgögn voru send til DARC fyrir fimm TF kallmerki.

Niðurstöður hafa borist. Íslensku stöðvarnar kepptu allar í einmenningsflokki á lágafli. Úrslit eru eftirfarandi:

TF3AO  –  166.914 heildarpunktar – 75. sæti.
TF2MSN  –  104.992 heildarpunktar – 132. sæti.
TF2CT  –  10.274 heildarpunktar –  166. sæti.
TF3IRA  –  2.914 heildarpunktar – 183. sæti.
TF3PPN  –  68.928 heildarpunktar – 186. sæti.

Í fyrra voru send inn keppnisgögn fyrir fjögur TF kallmerki: TF2CT, TF2MSN, TF3AO og TF3PPN.

Hamingjuóskir til viðkomandi.

Stjórn ÍRA.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu félagsblaðsins okkar, CQ TF 1. tbl. 2023.

Það kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni í dag, sunnudaginn 22. janúar.

Vefslóð: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2023/01/CQTF-2023-1.pdf

Félagskveðjur og 73,

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA
Ritstjóri CQ TF

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A var með frábæra kynningu á Es’hail 2 / QO-100 gervitunglinu í Skeljanesi laugardaginn 21. janúar þar sem hann kynnti ódýrar lausnir til viðtöku merkja frá tunglinu.

Hann kom með eigin búnað sem hann notar þegar hann ferðast um landið og hefur sambönd um QO-100 og var 90 cm diskloftnet sett upp á standi við glugga (í austurhluta salarins) í Skeljanesi.

Ari flutti stuttan inngang um tunglið. Fram kom m.a. að í næsta mánuði verða komin 4 ár síðan frá því opnað var fyrir fjarskipti radíóamatöra, en tunglinu var skotið á loft í nóvember 2018. QO-100 er á sístöðubraut (e. geostationary). Það þýðir að það er ætíð á sama stað séð frá jörðu og geta leyfishafar því stundað fjarskipti allar sólarhringinn u.þ.b. frá hálfum hnettinum. Sendingar eru á 2400 MHz (e. uplink) og hlustun er á 10450 MHz (e. downlink).

Tvö tæki eru í boði (e. linear transponders); 250 kHz á lóðréttri pólun (12VDC) fyrir bandþrengri sendingar (t.d. CW, FT8 og SSB) og 8 MHz á láréttri pólun (18VDC) fyrir bandbreiðari sendingar (t.d. AM, FM, D-Star, stafrænt sjónvarp, DVB o.fl.). Ari nefndi, að QO-100 sendir út DVB-S2 sjónvarpsmerki allan sólarhringinn sem notast m.a. til að staðsetja gervitunglið og stilla loftnet.

Ari fjallaði einnig um búnaðinn. Fram kom, að hægt er að komast af með um 5 þúsund krónur fyrir búnað og að diskloftnet kostar um 10 þúsund krónur. Hann sýndi okkur m.a. eigið ferðaloftnet og notaði mælitæki (sjá mynd) til að finna ca. stefnuna og merkin frá QO-100 gervitunglinu. En þægilegt er að finna fyrst t.d. sjónvarpsmerkin á 28.2° austur og þá er eftirleikurinn auðveldur.

Eftir kaffi var farið upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA og gervihnattastöð félagsins gangsett, en þar voru merki dauf enda kom í ljós að rigningarvatn hafði komist LNB á diskneti stöðvarinnar. Engu að síður var hægt að átta sig á merkjum og áhugavert að sjá merkin á 27“ tölvuskjá.

Bestu þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir afar áhugaverðan, fróðlegan og vel heppnaðan laugardag. Alls mættu 12 félagsmenn og 1 gestur á kynninguna í félagsaðstöðunni í Skeljanesi.

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur TF1A flutti stuttan inngang og kynnti QO-100 gervitunglið. Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Andrés Þórarinsson TF1AM, Karl Georg Karlsson TF3CZ, Jóhannes Magnússon TF3JM, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Ari sagði okkur m.a. frá því hvernig hann finnur merkin frá QO-100 þegar hann ferðast um landið. Mathías Hagvaag TF3MH, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Erling Guðnason TF3E, Andrés Þórarinsson TF1AM, Karl Georg Karlsson TF3CZ, Jóhannes Magnússon TF3JM og Sveinn Goði Sveinsson TF3ID.
Ari fjallaði um mismunandi diskloftnet og mismunandi gerðir LNB (Low-Noise  block downconverter) sem er hluti af loftnetinu og er staðsett fyrir framan diskinn.
Ari setur upp og tengir LNB við diskinn. Hann fjallaði m.a. um að halla þarf LNB’inu til að fá sem sterkast merki.
Sjá má röð af merkjum á mælitækinu frá mismunandi sjónvarpsgervitunglum þegar Ari var búinn að grófstilla loftnetið. Þegar það var búið var auðvelt að finna merkin frá QO-100.
Eftir kaffi var farið upp í fjarskiptaherbergi TF3IRA. Sæmileg merki birtust á 27″ tölvuskjánum, en Ari sagði að merkin ættu að vera mun sterkari (sjá næstu mynd).
Og það kom á daginn að plastumbúðirnar sem settar höfðu verið utan um LNB’ið til varnar voru allar tættar (líklega eftir fugla) og LNB’ið var auðsjáanlega í regnvatsnbaði. Ljósmyndir: TF3JB.
Ari Þórólfur, TF1A við mælingar á diskloftneti TF3IRA fyrir QO-100 gervitunglið í fjarskiptaherberginu í Skeljanesi.

Kynning verður í Skeljanesi laugardaginn 21. janúar kl. 14-16.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A mætir á staðinn og kynnir ódýrar lausnir til viðtöku merkja frá QO-100 gervihnettinum.

Hann sýnir hve einfalt, ódýrt og fljótlegt er að koma upp búnaði til viðtöku gegnum loftnet innandyra.

Kaffi og bakkelsi frá Björnsbakaríi.

Til upplýsingar: Húsnæðið er á ný hlýtt og notalegt eftir að bilun í heitavatnslögn var lagfærð.

Hvetjum félagsmenn að láta þetta tækifæri ekki framhjá sér fara.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 3. september 2022. Frá erindi TF1A þar sem hann fjallaði um búnað til að ná merkjum frá (og senda) um QO-100 gervitunglið. Þar ræddi hann m.a. um mismunandi gerðir LNB (Low-Noise Block downconverter) sem er hluti af loftnetinu og er staðsett fyrir framan diskinn.
Mynd af bandskipan fyrir QO-100 gervitunglið.