Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð fimmtudaginn 24. september.

Ákvörðunin byggir á gildandi tilskipun heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, en sér í lagi vegna ríkjandi óvissu í ljósi þess að nú virðist hafin 3. bylgja Covid-19.

Ákvörðunin gildir fyrir n.k. opnunarkvöld. Fari allt á besta veg verður auglýst opnun á ný fimmtudaginn 1. október n.k.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Félagsstöðin TF3W var QRV í morshluta Scandinavian Activity Contest (SAC) sem haldin var 19.-20. september.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW virkjaði stöðina á 20 metrum. Siggi sagði að skilyrðin á bandinu hafi verið „upp og niður“; Evrópa hafi verið ríkjandi, en góð sambönd inn á milli niður í Indlandshaf, til Norður-Ameríku, Asíu og í Kyrrahafið.

Fjöldi sambanda var alls 1050. Reiknuð bráðabirgðaniðurstaða er 132.606 stig (53 margfaldarar og 2502 QSO stig). Miðað við skráningar á þyrpingu (e. cluster) voru a.m.k. tvær aðrar TF stöðvar með sambönd í keppninni, TF3JB og TF3Y.

Sigurður R. Jakobsson TF3CW virkjaði félagsstöðina TF3W á morsi í SAC keppninni 2020. Myndin var tekin í fjarskiptaherbergi ÍRA í Skeljanesi 19. september við upphaf keppninnar. Ljósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi var opnuð á ný fimmtudaginn 17. september. Þá hafði verið lokað frá 6. ágúst s.l. vegna COVID-19.

Vandað var að venju með kaffinu og nýjustu tímaritin lágu frammi. Eins og gefur að skilja höfðu menn um mikið að tala og var umræðuefnið klassískt; tæki, búnaður og fræðin, auk þess sem félagar vitjuðu innkominna korta og komu með kort til útsendingar til QSL stofunnar.

Hans Konrad Kristjánsson, TF3FG kom færandi hendi með radíódót með kveðju frá Bjarna Magnússyni, TF3BM, sbr. myndir.

Alls mættu 17 félagar í Skeljanes þetta ágæta haustkvöld.

.

Á myndinni til vinstri má sjá sérstakt borð sem var sett upp við inngang í salinn í Skeljanesi. Þar eru andlitsgrímur og handspritt til notkunar fyrir félagsmenn og gesti. Ljósmynd: TF3JB.

Dótið sem TF3FG færði í hús frá TF3BM 8.9.2020 er ofaná og til hliðar við stóru tækin tvö. M.a. Hitachi hleðsluborvél í tösku (til vinstri), Fluke fjölsviðsmælir og Motorola HT-500 VHF handstöðvar. Ljósmynd: TF3JB.
Nærmynd til glöggvunar af hluta dótisins sem TF3FG færði félaginu frá TF3BM 8.9.2020. Ljósmynd: TF3JB.

Bjarni Sverrisson, TF3GB hefur haft sitt síðasta QSO; merki hans er hljóðnað.

Bjarni var á 71. aldursári og leyfishafi nr. 180. Bjarni var um langt skeið einn af burðarásum í starfi ÍRA, sat í stjórn félagsins og var QSL-stjóri félagsins lengst allra, eða í 19 ár samfellt. Þá var Bjarni í keppnisliði félagsins í alþjóðlegum keppnum en tók einnig iðulega þátt í keppnum frá heimastöðinni TF3GB með góðum árangri.

Um leið og við minnumst Bjarna með þökkum og virðingu sendum við fjölskyldu hans innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd stjórnar,

Óskar Sverrisson, TF3DC

Morshluti Scandinavian Activity keppninnar (SAC) verður haldinn um helgina, 19. – 20. september.

Þetta er 24 klst. keppni sem hefst á laugardag á hádegi og lýkur á sunnudag á hádegi.

Norðurlöndin keppa á móti heiminum og innbyrðis. Sjá reglur í viðhengi. Mikilvægt er að sem flestar TF-stöðvar taki þátt!

Stjórn ÍRA.

http://www.sactest.net/blog/

Stjórn ÍRA er ánægja að tilkynna að félagsaðstaðan verður opnuð á ný fimmtudaginn 17. september n.k. eftir sex vikna lokun frá 6. ágúst til 10. september vegna COVID-19.

Ákvörðun um opnun í Skeljanesi var samþykkt á stjórnarfundi 8. september s.l., og byggir á reglugerð heilbrigðisráðherra dags. 3. september. Stjórn ÍRA þakkar félagsmönnum stuðning á þessum tíma faraldurs – sem vonandi er brátt að baki.

Góður félagsskapur, nýjustu tímaritin, kaffi, te og meðlæti. QSL stjóri tæmir pósthólfið á miðvikudag og verður búinn að flokka innkomin kort.

Áfram gilda þau tilmæli, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes á fimmtudagskvöldum, fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra. Handspritt og andlitsgrímur af viðurkenndri tegund eru í boði á staðnum.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi opnar á ný fimmtudaginn 17. september.

Eftir lokun í réttar sex vikur, frá 6. ágúst til 10. september vegna COVID-19 faraldursins, er stjórn ÍRA ánægja að tilkynna, að félagsaðstaðan verður opnuð á ný fimmtudaginn 17. september n.k.

Ákvörðunin um opnun félagsaðstöðunnar var samþykkt á stjórnarfundi í félaginu þann 8. september s.l., og byggir á reglugerð heilbrigðisráðherra dags. 3. þ.m., þar sem fjöldatakmörkun er rýmkuð og almenn nálægðartakmörkun miðast við að hægt sé að tryggja a.m.k. 1 metra á milli einstaklinga. Ákvæði eru ennfremur um að nota skuli andlitsgrímu þar sem þeirri fjarlægð á milli einstaklinga verður ekki við komið.

Stjórn ÍRA þakkar félagsmönnum stuðning á þessum tíma faraldurs – sem vonandi er brátt að baki. Áfram gilda þau tilmæli, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes á fimmtudagskvöldum, fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra. Handspritt (70%) og andlitsgrímur af viðurkenndri tegund eru á staðnum.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Ein af stóru keppnum ársins er Worked All Europe (WAE) keppnin. SSB hlutinn verður haldinn 12.-13. september. Þetta er 48 klst. keppni, en þátttaka er leyfð í mest 36 klst.

Markmiðið er að hafa sambönd við stöðvar utan Evrópu, þ.e. sambönd innan Evrópu gilda ekki í keppninni.  Skilaboð: RS+raðnúmer. Í keppninni gefa QTC skilaboð punkta aukalega.

Sambönd við hverja nýja DXCC einingu (e. entity) gilda sem margfaldarar, auk sambanda við hvert nýtt kallsvæði í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Suður-Afríku,  Japan og Brasilíu, auk kallsvæðanna RA8 og RA9.

Margfaldarar hafa aukið vægi eftir böndum; á 80 metrum fjórir, á 7 MHz þrír og á 14/21/28 MHz tveir.

Sjá nánar í reglum:
https://www.darc.de/der-club/referate/referat-conteste/worked-all-europe-dx-contest/en/

Næsta tölublað CQ TF, 4. hefti þessa árs, kemur út sunnudaginn 27. september n.k.

Í nýja blaðinu verður m.a. umfjöllun um úrslit VHF/UHF leikana og TF útileikana í sumar, grein um „Útgáfusögu ÍRA 1946-2020“, grein og KiwiSDR viðtækin hér á landi (sem tengjast má um netið), grein um prófun á VHF loftnetum, grein um ALC stillingar og margt fleira.

Í vinnsluferlinu eru ávallt teknar frá blaðsíður fyrir óinnkomið efni. Frestur er til 15. september n.k. Netfang: tf3sb@ox.is

73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð áfram næstu tvo fimmtudaga, þ.e. 3. og 10. september. Engin starfsemi verður í húsnæðinu á okkar vegum á þessum tíma.

Ástæðan er auglýsing heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem tók gildi 28. ágúst og gildir til 10. september. Fjöldatakmörkun er óbreytt frá fyrri ákvörðun sem og almenn nálægðartakmörkun um að tryggja skuli a.m.k. 2 metra á milli einstaklinga.

Meginvandi okkar er að tryggja áskilda 2 metra fjarlægð sem ekki er gerlegt í Skeljanesi. Ef allt fer vel á besta veg verður auglýst opnun á ný 17. september n.k.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi ríkur skilningur.

Stjórn ÍRA.

Nú styttist í septemberhefti CQ TF, 4. tbl. 2020, sem kemur út sunnudaginn 27. september n.k.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, t.d. frásagnir af athyglisverðum samböndum í loftinu og skilyrðunum, minniháttar teikningar og tækjabreytingar, jafnvel stuttar gamansögur svo ekki sé minnst á kveðskap – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punkta og ábendingar um efni sem vinna má úr. Allt þetta og meira til væri kærkomið.

Skilafrestur efnis er til 15. september n.k. Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73,

TF3SB, ritstjóri CQ TF

.

.

APRS stafvarpinn TF1APB fór í loftið í gær, föstudaginn 21. ágúst. QTH er Hraunshóll á Reynisfjalli í Mýrdal, hæð er 340 metrar yfir sjávarmáli. Nýi stafvarpinn er viðbót við APRS-IS kerfið.

Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Jón Þ. Jónsson TF3JA og Magnús Ragnarsson TF1MT sáu um uppsetningu. Guðmundur sagði, að nýi varpinn dekki þjóðveg 1 undir Eyjafjöllum og austur fyrir Vík. Fyrstu prófanir með 1W vita (e. tracker) austur á Hjörleifshöfða og á heimleið á Hvolsvöll lofa þannig góðu en til stendur að prófa drægnina austar.

Búnaður TF1APB er Motorola GM-300 VHF stöð, Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og Kathrein VHF húsloftnet.

Hamingjuóskir til APRS hópsins með ósk um gott gengi.

Stjórn ÍRA.

.

.

Á myndinni til vinstri má sjá mynd af loftnetinu sem APRS stafvarpinn notar. Það eru fasaðir VHF tvípólar frá Kathrein.

Yfirlitsmyndin sýnir stöðvarhúsið á Hraunshól á Reynisfjalli. Sjá má að staðsetningin er góð m.v. útsýni til nærliggjandi fjalla. Ljósmynd: Magnús Ragnarsson TF1MT.
Mynd af APRS búnaði TF1APB. Í kassanum eru m.a. Motorola GM-300 VHF stöð, Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og aflgjafi. Ljósmynd: Magnús Ragnarsson, TF1MT.
Unnið við uppsetningu nýja stafvarpans inni í stöðvarhúsinu. Jón Þ. Jónsson TF3JA og Guðmundur Sigurðsson TF3GS. Ljósmynd: Magnús Ragnarsson TF1MT.
Magnús Ragnarsson TF1MT og Guðmundur Sigurðsson TF3GS. Ljósmynd: Jón Þ. Jónsson TF3JA.