Gengið hefur verið frá uppfærslu APRS stafvarpans TF8APA á fjallinu Þorbirni við Grindavík, sem er í 244 metra hæð yfir sjávarmáli.

Skipt var m.a. um loftnet, sem nú er af gerðinni Diamond BC 103 sem er 125cm VHF húsloftnet.

Annar búnaður er óbreyttur; Motorola GM-300 VHF stöð, Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og PLXDigi – APRS Digipeater.

Uppfærsla búnaðarins á Þorbirni mun þétta kerfið, auka gæði og notkunarmöguleika.

Þakkir til Guðmundar Sigurðssonar, TF3GS fyrir verkefni vel úr hendi leyst.

Stjórn ÍRA.

.

.

.

.

Myndin til hliðar er af Diamond BC 103 VHF húsloftnetinu.

Búnaður fyrir APRS stafvarpann TF8APA er vistaður í þessum kassa í fjarskiptahúsinu.
Mynd af fjarskiptahúsinu á fjallinu Þorbirni. Ljósmyndir: TF3GS.

Alþjóðlega vita- og vitaskipahelgin 2021 fer fram helgina 21.-22. ágúst n.k.

Um er að ræða tveggja sólarhringa viðburð, en miðað er við að flestir sem koma til dvalar í vita, á vitaskipi eða í nágrenni hafi komið sér fyrir upp úr hádegi á laugardag.

Að jafnaði eru yfir 500 tilgreind kallmerki starfrækt þessa helgi frá um 40 þjóðlöndum.

Í dag, 10. ágúst hafa alls 282 vitar verið skráðir á heimasíðu viðburðarins.

Vefslóð: https://illw.net/index.php/entrants-list-2021

Knarrarósviti er sá viti sem oftast hefur verið virkjaður af radíóamatörum hér á landi á Vita- og vitaskipahelgi, eða 18 sinnum frá árinu 1998. Hann stendur austan við Stokkseyri.

Opið verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 12. ágúst
kl. 20-22 fyrir félagsmenn og gesti.

Grímuskylda verður í húsnæðinu í ljósi reglugerðar heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna faraldurs.

Fjarskiptaherbergi verður opið (mest 3 félagar samtímis) og QSL stofa (mest 1 félagi). Takmörkun á fjölda í herbergjum ræðst af stærð. Kaffiveitingar verða ekki í boði.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

(Andlitsgrímur og handspritt eru í boði við inngang).

Gervihnattastöð TF3IRA í Skeljanesi. Stöðin er virk á morsi og tali um Es’hail-2 OSCAR 100 gervitunglið. Ljósmynd: TF3JB.

APRS stafvarpinn TF1SS-1 fór í loftið í dag, sunnudaginn 8. ágúst. QTH er Úlfljótsvatnsfjall, 248 metra yfir sjávarmáli. Nýi stafvarpinn er viðbót við APRS-IS kerfið.

Guðmundur Sigurðsson TF3GS sá um uppsetningu. Búnaður er Motorola GM-300 VHF stöð (sendiafl 25W), Microsat WX3in1 Mini APRS Digipeater/I-gate og Diamond BC-103 VHF/UHF loftnet.

Hamingjuóskir til APRS hópsins með ósk um gott gengi.

Stjórn ÍRA.

Þessi skúr hýsir APRS búnaðinn fyrir TF1SS-1. Gott útsýni er til allra átta. Ljósmynd: TF3GS.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi var opin fimmtudaginn 5. ágúst.

Heldur minni mæting var en undir venjulegum kringumstæðum. Margir leyfishafar halda sé til hlés frá mannamótum þar sem Covid-19 faraldurinn hamlar með tilheyrandi grímuskyldu og fjarlægðarmörkum. Kaffiveitingar voru ekki í boði í félagsaðstöðunni.

Að venju höfðu menn um nóg að ræða, sækja kort til QSL stofu félagsins (og skila af sér kortum), auk þess sem radíódót á borðum í salnum gengur jafnt og þétt út.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A sagði okkur frá loftnetaframkvæmdum sem hann stendur í þessa dagana, auk þess sem hann lauk við stillingar og enduruppsetningu ICOM IC-7610 stöðvar TF3IRA eftir nýlega uppfærslu. Mikið var rætt um nýjar stöðvar (aðallega þó í dýrari kantinum) m.a. Elecraft K4 HF/50 MHz SDR stöðina og væntanlega arftaka Icom IC-7851 og Kenwood TS-990S stöðvanna (sem mikið er rætt um á netinu um þessar mundir). Menn ræddu einnig um Expert SunSDR MB1 Prime i7-7700T stöðina sem nýlega var uppfærð og fær góða dóma og Yaesu FTdx101D og “MP” stöðvarnar sem njóta mikilla vinsælda.

Ánægjulegt kvöld í Skeljanesi, alls 14 félagar og 1 gestur í húsi.

Stjórn ÍRA.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A prófar félagsstöðina TF3IRA. Hann sagði að það væri ekkert mál að hafa QSO í gegnum andlitsgrímuna. Aðrir á mynd: Jón G. Guðmundsson TF3LM og Baldvin Þórarinsson TF3-033.
Ari byrjaður að prófa stöðina eftir enduruppsetningu. Heimir Konráðsson TF1EIN fylgist með (en hann á einmitt samskonar stöð).
Enduruppsetningu lokið og viðtakan prófuð í samanburði við KiwiSDR viðtækið sem nýlega var sett upp aftur í Bláfjöllum. Jón Björnsson TF3PW fylgist með.
Mikið hefur gengið út af radíódóti í sumar eins og sjá má á myndinni. Ljósmyndir: TF3JB.

Opið verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 5. ágúst kl. 20-22.

Í ljósi reglugerðar heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna faraldurs, verður grímuskylda í húsnæðinu.

Kaffiveitingar verða ekki í boði, en fjarskiptaherbergi TF3IRA verður opið (mest 3 félagar samtímis) og QSL stofa (mest 1 félagi hverju sinni). Takmörkun á fjölda í herbergjum ræðst af stærð.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

.

.

(Andlitsgrímur og handspritt eru í boði við inngang í húsnæðið).

Úr félagsstarfinu í Skeljanesi (fyrir Covid-19). Sitjandi frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Höskuldur Elíasson TF3RF og Jón E. Guðmundsson TF8KW. Fjær (uppi til vinstri;: Georg Kulp TF3GZ og Valgeir Pétursson TF3VP. Ljósmynd: TF3JB.

Við vinnu í fjarskiptaherbergi TF3IRA 30. maí s.l., þegar þeir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Georg Kulp, TF3GZ mættu í Skeljanes til að aðstoða við undirbúning opnunar fjarskiptaherbergis félagsins (sem þá hafði verið meira og minna lokað í heilt ár vegna Covid-19 faraldursins) kom í ljós, að nýr hugbúnaður var fáanlegur til uppfærslu á ICOM IC-7610 stöð félagsins.

Á ný gafst tím til endurbóta í Skeljanesi 25. júlí þegar þeir Ari og Georg mættu í Skeljanes og skiptu m.a. út búnaði við diskloftnet sem gerði gervihnattastöð félagsins QRV á ný um QO-100. Það var einmitt þá sem Ari hafði samband frá TF3IRA við  ZD7GWM á St. Helen eyju í Suður-Atlantshafinu.

Þriðji hluti verkefnisins (sem ekki hafði náðst að ljúka fyrr) var síðan kláraður í gær (1. ágúst) þegar Ari Þórólfur gerði góða ferð í Skeljanes og uppfærði stýrikerfi IC-7610 stöðvar félagsins. Uppfærsla var gerð úr útgáfu 1.06 í 1.30, sbr. https://www.icomjapan.com/support/firmware_driver/3298/

Bestu þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A fyrir verkefni vel úr hendi leyst.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 1. ágúst. Uppfærslu hugbúnaðar ICOM IC-7610 stöðvar TF3IRA lokið. Ljósmynd: TF3JB.

Félagsstöðin TF3IRA var virk alla þrjá dagana í TF útileikunum. Þegar þetta er skrifað (um hádegi á mánudag) eru leikarnir enn í fullum gangi og lýkur í raun ekki fyrr en á miðnætti.

Skilyrðin innanlands voru ekki sérstaklega góð þessa þrjá daga og t.d. mikið QSB. Samt höfðu menn mörg skemmtileg sambönd. Sem dæmi, voru þeir Einar Kjartansson TF3EK og Hrafnkell Sigurðsson TF8KY með gott samband á 160 metrum þvert yfir landið frá Ölvusárósum til Víðidals á Hólsfjöllum.

Eftirtaldir leyfishafar virkjuðu félagsstöðina: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Jónas Bjarnason TF3JB (á laugardag); Mathías Hagvaag TF3MH, Sæmundur Þorsteinsson TF3UA og Jónas Bjarnason TF3JB (á sunnudag) og Sæmundur Þorsteinsson, TF3UA (í dag, mánudag).

A.m.k. 20 TF kallmerki hafa heyrst í loftinu þegar þetta er skrifað, bæði á tali (SSB) og morsi (CW) en á örugglega eftir að fjölga þegar líður á daginn.

Þakkir til allra fyrir þátttökuna!

Stjórn ÍRA.

Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA virkjaði félagsstöðina TF3IRA á tali og morsi í leikunum bæði á sunnudag og mánudag.
Mathías Hagvaag TF3MH virkjaði félagsstöðina TF3IRA á tali á sunnudag. Ljósmyndir: TF3JB.

Í fyrramálið, sunnudaginn 1. ágúst kl. 09:05, verður fluttur þáttur á Rás 1 um mors og þátt morsfjarskipta í menningu okkar. Þátturinn ber nafnið: „Stutt langt stutt“. Síðari hluti verður síðan fluttur á Rás 1 á mánudagsmorgun 2. ágúst kl. 09:03.

Í síðari hlutanum (á mánudag) er meginumfjöllunin um íslenska radíóamatöra, sem enn nota mors til fjarskipta um heiminn. Nokkrir íslenskir radíóamatörar eru m.a. teknir tali.

Verkefnið var unnið af Guðbjörgu Guðmundsdóttur þáttagerðarkona á RÚV.

Báðir hlutar þáttarins verða aðgengilegir sem upptaka á vefnum eftir lok útsendinga.

Rás 1 – Sunnudagur 1. ágúst kl. 09:05.
Rás 1 – Mánudagur 2. ágúst kl. 09:03.

Stjórn ÍRA.

.

TF útileikarnir byrjuðu í dag (31. júlí) og standa yfir fram á mánudag (2. ágúst). Félagsstöðin, TF3IRA var virkjuð í dag, 31. júlí, frá kl. 13-16. Wilhelm Sigurðsson, TF3AWS var við hljóðnemann. Skilyrði innanlands voru ekki góð fram af.

Hafa má samband í leikunum alla dagana, en til að þétta þátttökuna er miðað við þessi tímabil:

Kl. 17-19 á laugardag.
Kl. 09-12 og kl. 21-24 á sunnudag.
Kl. 08-10 á mánudag.

Einar Kjartansson, TF3EK, umsjónarmaður leikanna, veitir allar upplýsingar: einar52hjágmail.com

Vefslóð á keppnisreglur: http://www.ira.is/tf-utileikar/
Vefslóð á heimasíðuna fyrir leikana: http://eik.klaki.net/cgi-bin/utileikar
Vefslóð á erindi Einars um útileikana: http://eik.klaki.net/tmp/utileikar18.pdf

Félagsstöðin TF3IRA verður næst virkjuð á morgun, sunnudag, kl. 10-13.

Tökum þátt í TF útileikunum!

Stjórn ÍRA.

Wihelm Sigurðsson TF3AWS virkjaði félagsstöðina TF3IRA á tali í TF útileikunum laugardaginn 31. júlí. Ljósmynd: TF3JB.

Stjórn ÍRA hefur ákveðið að fresta því að halda upp á 75 ára afmæli félagsins laugardaginn 14. ágúst n.k.  Ákvörðunin er tekin í ljósi vaxandi útbreiðslu Covid-19 faraldursins og vegna mikillar óvissu um sóttvarnir sem verða í gildi eftir tvær vikur og fjölda sem þá má koma saman.

Núgildandi reglugerð heilbrigðisráðherra um ráðstafanir vegna faraldursins rennur út degi fyrr, eða 13. ágúst.

Tilkynnt verður um nýja dagsetningu fyrir viðburðinn strax og aðstæður leyfa.

Það er von okkar að þessari ákvörðum fylgi ríkur skilningur.

F.h. stjórnar ÍRA,

Jónas Bjarnason, TF3JB
formaður

KiwiSDR viðtækið sem fært var úr Skeljanesi í apríl s.l. og hefur verið vistað hjá Erlingi Guðnasyni TF3E síðan, var flutt í morgun, 30. júlí, aftur upp í Bláfjöll. Vefslóð: http://blafjoll.utvarp.com eða http://bla.utvarp.com

Viðtækið er nú staðsett inni í upphituðu húsi og notar 70 metra langt vírloftnet fyrir amatörböndin frá 160 til 10 metra.  Unun frá Ultimax 100 er notuð til að taka sýndarviðnám niður í fæðipunkti.

Það voru þeir Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Georg Kulp TF3GZ gerðu ferð á fjallið í dag og gengu frá uppsetningu. Þeir félagar telja, að núverandi uppsetning eigi að tryggja hnökralausa starfsemi viðtækisins á fjallinu.

Tvö önnur KiwiSDR viðtæki yfir netið eru virk, þ.e. á Bjargtöngum í Vesturbyggð og á Raufarhöfn. Vefslóðir: 
Bjargtangar: http://bjarg.utvarp.com  og
Raufarhöfn: http://raufarhofn.utvarp.com

Þakkir til Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A og Georg Kulp, TF3GZ fyrir verðmætt framlag. Hér um að ræða mikilvæga viðbót fyrir radíóamatöra sem gera tilraunir í þessum tíðnisviðum, auk hlustara og allra sem hafa áhuga á útbreiðslu radíóbylgna. Ennfremur þakkir til Erlings Guðnasonar, TF3E fyrir að hlaupa undir bagga með vistun viðtækisins frá því í apríl s.l.

Stjórn ÍRA.

“Lóðboltinn á lofti”. Georg TF3GZ gengur frá tengingum við loftnetið. Ljósmynd: TF1A.
Ari Þórólfur TF1A fer yfir tengngarnar. Ljósmynd: TF3GZ.
Frágangi lokið upp í turninum. Ljósmynd: TF3GZ.