TF3ARI og TF3TNT leiðbeindu og voru með sýnikennslu á hraðnámskeiði í gervihnattafjarskiptum.

Næsti viðburður á vetrardagskrá félagsins fer fram í Skeljanesi laugardaginn 17. nóvember kl. 16-19. Þá munu þeir Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Benedikt Guðnason, TF3TNT, verða með kynningu á því hvernig DX-sambönd um gervitungl fara fram. Þetta er endurtekning á vel heppnuðum viðburði, sem fram fór frá félagsstöðinni þann 20. október s.l. Að þessu sinni verða höfð sambönd bæði á morsi og tali.

TF3IRA er nú að fullu QRV til fjarskipta um gervitungl. Á laugardag verður þess m.a. freistað að ná sambandi við geimstöðina ARISS, en um borð eru geimfarar sem jafnframt eru radíóamatörar. Meðal geimfara í stöðinni um þessar mundir er radíóamatörinn Akihiko Hoshide, KE5DNI, sem hefur að undanförnu haft töluvert af samböndum við aðra leyfishafa á jörðu niðri og við þau tækifæri notað kallmerki geimstöðvarinnar, OR4ISS.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn sem hafa áhuga á fjarskiptum af þessu tagi, að láta þennan viðburð ekki fram hjá sér fara. Kaffiveitingar.


Yfirlit yfir gervihnattabúnað TF3IRA.

(1) VHF/UHF hringpóluð Yagi loftnet frá M2. VHF netið er af 2MCP14 gerð; 14 staka með 10.2 dBdc ávinningi. UHF netið er af 436CP30 gerð; 30 staka með 14.15 dBdc ávinningi. (2) Rótor er frá Yaesu af G-5400B gerð, sambyggður fyrir lóðréttar og láréttar stillingar. Með honum fylgir fjölstillikassi (e. Elevation Azimuth Dual Controller) stýranlegur frá tölvu. (3) VHF og UHF formagnarar eru frá SSB-Electronic GmbH. Mögnun er 20 dB/0,8 dB suðhlutfall á VHF og 20 dB/0,9 dB suðhlutfall á UHF. (4) Kenwood TS-2000 sendi-/móttökustöð félagsins er notuð til fjarskipta um gervitungl. Hún er mest 100W á 144-146 MHz og mest 50W á 430-440 MHz.

Yaesu FT-7900E stöðin er staðsett á vinstra horni hillunnar á fjarskiptaborði-B. Auðvelt er að ganga að henni, enda hugmyndin að hana megi nota til styttri sambanda, þrátt fyrir að Kenwood 2000 stöðin sé í notkun hjá öðrum sem situr í stólnum við fjarskiptaborðið.

Benedikt Guðnason, TF3TNT, stöðvarstjóri TF3IRA, tengdi nýja Yaesu FT-7900E FM VHF/UHF stöð félagsins fimmtudagskvöldið 8. nóvember s.l., en J-póll loftnet stöðvarinnar var sett upp á ný (eftir viðgerð) nokkru áður. Stöðin er látin skanna tíðnir íslensku endurvarpana á VHF, þ.e. TF1RPB, TF1RPE, TF3RPA, TF3RPC, TF5RPD og TF8RPH, auk þess að skanna kalltíðnirnar 144.500 MHz og 433.500 MHz.

Sendiafl FT-7900E er valkvætt, 5/10/20/50W á 2 metrum og 5/10/20/45W á 70 cm. Viðtækið þekur aukalega tíðnisviðin 108-520 MHz og 700-1000 MHz. FT-7900E stöðin kemur í stað eldri stöðvar (Yaesu FT-4700RH) sem félaginu var gefin fyrir rúmum tveimur áratugum. Nettó kostnaður félagssjóðs vegna nýju stöðvarinnar er 20 þúsund krónur.

Hugmynd stöðvarstjóra er að tengja lágtalara við stöðina n.k. fimmtudag og koma fyrir í salnum niðri. Þannig, að félagar geti kallað á TF3IRA og verið nokkuð vissir um að fá svar þegar viðvera er í Skeljanesi. Þessu fylgja ótvíræð þægindi, m.a. þegar menn gera tilraunir á 2 metrum og 70 sentímetrum. Því skal haldið til haga, að þótt Kenwood TS-2000 stöð félagsins geti verið QRV með ágætum í þessum tíðnisviðum, þá er ekki heppilegt að taka hana fyrir not af þessu tagi, þar sem hún þarf að geta verið til reiðu jafnt á HF sem og á VHF/UHF (í gegnum gervitungl) á opnunarkvöldum.

FT-7900E í nærmynd. Benedikt forritaði stöðina með nöfnum endarvarpanna annarsvegar, og með nöfnum kalltíðnanna hinsvegar. Stafirnir “CAL UHF” þýðir þannig “kalltíðni á UHF” sem er tíðnin 433.500 MHz.

FT-7900E komið fyrir á fjarskiptaborði-B í fjarskiptaherbergi TF3IRA fimmtudagskvöldið 8. nóvember.

Benedikt Guðnason, TF3TNT, stöðvarstjóri, heldur hér á J-pól loftnetinu eftir gagngera viðgerð. Loftnetið sem er smíðað úr koparrörum, var orðið ansi spansgrænt. Þegar lokið var við að fjarlægja spansgrænuna, var það varið með því að úða á það sérstöku hvítu lakki til varnar, enda Atlantshafið aðeins í nokkurra tuga metra fjarlægð frá notkunarstaðnum. J-póllinn var smíðaður af Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, TF3VS, sem gaf félaginu það fyrir 10 árum.

Sigurður R. Jakobsson TF3CW í fjarskiptaherbergi TF3IRA í október s.l. Ljósmynd: TF3LMN.

Alls tóku 7 íslenskar stöðvar þátt í SSB-hluta CQ World-Wide DX keppninnar sem haldin var helgina 27.-28. október s.l. Bráðabirgðaniðurstöður (e. claimed scores) hafa nú verið birtar á heimasíðu keppnisnefndar. Samkvæmt þeim, náði Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, 2. sæti yfir heiminn (silfurverðlaunum) og 1. sæti (gullverðlaunum) yfir Evrópu. Sigurður keppti á 14 MHz í einmenningsflokki, hámarksafli.

Hann hafði að þessu sinni alls 4.336 QSO m.v. 33 klst. viðveru samanborið við alls 3.871 QSO og 40 klst. viðveru í keppninni í fyrra (2011). Þetta er glæsilegur árangur og staðfestir enn einu sinni, að Sigurður er í hópi bestu keppnismanna í heimi.

Aðrar stöðvar reyndust vera með ágætan árangur. Athygli vekur árangur Guðmundar Sveinssonar, TF3SG, sem nær 10. sæti yfir heiminn og 10. sæti yfir Evrópu, en hann keppti á 3,7 MHz í einmenningsflokki, hámarksafli. Árangur keppnishópsins frá félagsstöðinni TF3W, undir forystu Jóns Ágústs Erlingssonar, TF3ZA, er einnig ágætur, en þeir náðu 50. sæti yfir heiminn og 24. sæti yfir Evrópu í sínum keppnisflokki á öllum böndum. Sjá nánar í meðfylgjandi töflu.

Stjórn Í.R.A. óskar Sigurði R. Jakobssyni, TF3CW, innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur svo og öðrum þátttakendum með þeirra niðurstöðu.

Keppnisflokkur

Kallmerki

Yfir heiminn

Yfir Evrópu

Heildarstig

Einmenningsflokkur, 15 metrar, hámarksafl, aðstoð

TF3AO

66. sæti

40. sæti

50.400
Einmenningsflokkur, 20 metrar, hámarksafl

TF3CW

2. sæti

1. sæti

1.488.780

Einmenningsflokkur, 80 metrar, hámarksafl

TF3SG

10. sæti

10. sæti

35.640

Einmenningsflokkur, öll bönd, hámarksafl

TF3AM

435. sæti

151. sæti

183.312

Einmenningsflokkur, öll bönd, hámarksafl

TF3GX

888. sæti

314. sæti

12.000

Einmenningsflokkur, öll bönd, hámarksafl, aðstoð

TF3IG

783. sæti

290. sæti

41.360

Fleirmenningsflokkur, öll bönd, hámarksafl

TF3W*

50. sæti

24. sæti

7.761.936

*TF3W op’s: TF3ZA, SMØMDG, SMØMLZ og SMØNOR.


Hægt er að skoða bráðabirgðaniðurstöður (e. claimed scores) í einstökum keppnisflokkum á heimasíðu keppnisnefndar CQ tímaritsins á þessari vefslóð: http://www.cqww.com/claimed.htm?mode=ph

Yngvi Harðarson, TF3Y

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í Skeljanesi fimmtudaginn 15. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Yngvi Harðarson, TF3Y, með erindi sitt: „Logbook of the World” (LoTW);
hvar og hvernig?

Yngvi mun m.a. kynna hvernig leyfishafar bera sig að við að skrá kallmerki sitt inn í gagnagrunninn.
Hann mun einnig sýna hvernig farið er að því að senda dagbókargögn til ARRL og síðan hvernig menn fletta upp í eigin gögnum í fjarskiptadagbókinni í grunninum. Samkvæmt upplýsingum frá ARRL eru nú um 57 þúsund leyfishafar skráðir LoTW.

Ljóst er, að verulegur sparnaður er því samfara að senda gögn til LoTW, en sumir ná allt að 30% “nýtni” sem fer vaxandi með hverju árinu. Miðað við að það kosti 15 krónur að prenta hvert QSL kort og síðan 9,50 krónur að senda það í bureau’inu, getur sparnaðurinn orðið verulegur.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta stundvíslega. Kaffiveitingar.

Vefslóð á heimasíðu ARRL: http://www.arrl.org/logbook-of-the-world

Í.R.A. hefur borist erindi Póst- og fjarskiptastofnunar dags. 9. nóvember þess efnis, að íslenskum leyfishöfum er veitt framlengd heimild til aðgangs að tíðnisviðinu 1850-1900 kHz í tilgreindum alþjóðlegum keppnum radíóamatöra á árinu 2013 (sbr. meðfylgjandi töflu). Heimildin er veitt með fullu samþykki Vaktstöðvar siglinga sem hefur heimild til notkunar nokkurra tíðna á þessu tíðnisviði. G-leyfishöfum er heimilt að nota fullt afl í sviðinu (þ.e. 1kW). Erindi PFS er í samræmi við beiðni félagsins þessa efnis, sem sent var stofnuninni fyrr í mánuðinum.

Núgildandi heimild, hefði að óbreyttu runnið út í lok þessa árs (2012). Ný heimild er áfram veitt á víkjandi grundvelli samkvæmt forgangsflokki 2. Leyfishafa skulu sækja sérstaklega um til PFS áður en starfræksla er hafin á hrh@pfs.is eða pfs@pfs.is

Stjórn Í.R.A. fagnar áframhaldandi heimild til handa íslenskum leyfishöfum á ofangreindu tíðnisviði á árinu 2013.

Keppni

Teg. útg.

Hefst

Lýkur

Tímalengd

CQ World-wide 160 metra keppnin

CW

25. janúar kl. 22:00 27. janúar kl. 22:00

48 klst.

ARRL DX keppnin

CW

16. febrúar kl. 00:00 17. febrúar kl. 23:59

48 klst.

CQ World-wide 160 metra keppnin

SSB

22. febrúar kl. 22:00 24. febrúar kl. 22:00

48 klst.

ARRL DX keppnin

SSB

2. mars kl. 00:00 3. mars kl. 23:59

48 klst.

CQ WPX keppnin

SSB

30. mars kl.00:00 31. mars kl. 23:59

48 klst.

CQ WPX keppnin

CW

25. maí kl. 00:00 26. maí kl. 23:59

48 klst.

IARU HF World Championship keppnin

CW/SSB

13. júlí kl. 12:00 14. júlí kl. 12:00

24 klst.

CQ World-wide DX keppnin

SSB

26. október kl. 00:00 27. október kl. 23:59

48 klst.

CQ World-wide DX keppnin

CW

23. nóvember kl. 00:00 24. nóvember kl. 23.59

48 klst.

ARRL 160 metra keppnin

CW

6. desember kl. 22:00 8. desember kl. 16:00

40 klst.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI talar um eiginleika FlexRadio 3000 í Skeljanesi þann 11. nóvember. Frá vinstri: Haraldur Þórðarson TF3HP, Gunnar Svanur Hilmarsson TF3FIN, Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI, Yngvi Harðarson TF3Y, Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, Stefán Arndal TF3SA, Jón Gunnar Harðarson TF3PPN, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG og Mathías Hagvaag TF3-Ø35.

Fyrsta sunnudagsopnun félagsaðstöðunnar samkvæmt vetrardagskrá var í dag, sunnudaginn 11. nóvember. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI, mætti í Skeljanes og kynnti helstu eiginleika og sérstöðu FlexRadio stöðvanna, sem notast saman með PC-tölvu til að virka. Hann kom með Flex 3000 stöð á staðinn, sem var tengd við Butternut HF6V stangarloftnet félagsstöðvarinnar. Stöðin var prófuð bæði í móttöku og sendingu á 14, 21 og 28 MHz og kom skínandi vel út. Hann sýndi mörg skemmtileg dæmi um hæfileika viðtækisins, sem gefur afar fjölbreytta möguleika til móttöku á morsi, tali og stafrænum tegundum mótunar. Í lokin var stöðin opnuð og innihaldið skoðað. Samdóma álit manna var að þetta væri vönduð smíði. Góð mæting var í Skeljanes þennan sólríka vetrarmorgun í höfðuborginni og komu tæplega 20 félagar á staðinn.

Stjórn Í.R.A. þakkar Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF3ARI, fyrir fróðlegan og áhugaverðan viðburð og Páli B. Jónssyni, TF8PB, fyrir lán á Flex 3000 stöðinni, svo og Kolbrúnu Eddu (dóttur Ara) fyrir listagott heimabakað kaffibrauð.

Ari sagði m.a. að það væri ekkert breytilegt viðnám í stöðinni og skoraði á menn að finna ef svo væri…

Benedikt Guðnason TF3TNT var vantrúaður og það tók hann aðeins örfáar sekúndur að finna það fyrsta.

Eftir kynningu Ara á helstu eiginleikum FlexRadio stöðvanna var tekið til við að opna Flex 3000.

 

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS kynnir Logger32 dagbókarforritið í Skeljanesi þann 8. nóvember.

Fimmtudagserindið þann 8. nóvember var í höndum Vilhjálms Ívars Sigurjónssonar, TF3VS og nefndist það Logger32; álitamál við þýðingu og kynning forritsins. Vilhjálmur ræddi fyrst almennt um þýðingar og hversu vandasamar þær geta verið. Hann nefndi m.a. erfið orð eins og operator og rotor sem erfitt væri í raun að þýða öðruvísi en sem óperator og rótor. Þá væru fjölmörg dæmi um vel heppnaðar þýðingar, s.s. þyrping (e. cluster), rökkurlína (e. grey line) og kös (e. pile-up).

Þá tók við kynning á forritinu sjálfu og tók Vilhjálmur fjölmörg dæmi og sýndi á skjávarpanum, máli sínu til skýringar. Viðstöddum varð fljótt ljóst, að á ferðinni er afar öflugt og fjölhæft forrit. Hann sýndi m.a. hvernig hver og einn óperator getur aðlagað það eigin þörfum. Fram kom, að líklega er um að ræða fyrsta forritið af þessari tegund sem þýtt er á íslensku og að leyfishafa geta sótt það ókeypis á netið. Alls mættu 27 félagar í Skeljanes þetta vindasama fimmtudagskvöld í höfðuborginni og áttu ánægjulega og fróðlega kvöldstund.

Stjórn Í.R.A. þakkar Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, TF3VS, fyrir áhugavert og vel heppnað erindi og þeim

Frá vinstri: Haraldur Þórðarson TF3HP, Guðmundur Sveinsson TF3SG, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB (með myndavél), Ársæll Óskarsson TF3AO, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN (með derhúfuna), Gunnar Svanur Hjálmarsson TF3FNN, Yngvi Harðarson TF3Y og Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI.

Logger32 forritið er mjög öflugt og Vilhjálmur Ívar sýndi m.a. hve auðvelt það er að kalla fram upplýsingar.

Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Heimir Konráðsson TF1EIN voru sammála um að gott dagbókarforrit sem hefði góðar tengingar væri grundvallaratriði í DX’inum.

Sigurbjörn Þ. Bjarnason TF3SB og Vilhjálmur Þ. Kjartansson TF3DX ræddu gæði lampatækja í kaffihléi.

Að loknu erindi, ræddu Doddi og Vilhjálmur Þór áfram um lamparásir og þá kom tússtaflan í góðar þarfir.

Hvers manns hugljúfi! Spói heimsótti Skeljanes með pabba sínum (TF3GW) og naut mikillar athygli.

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA.

Gísli G. Ófeigsson, TF3G

Yngvi Harðarson TF3Y

 

 

 

 

 

 

 

 

EMC-nefnd Í.R.A. hefur unnið umsögn um tillögu að staðli um fjarskipti yfir raflínur, sem nýlega var komið á framfæri við Póst- og fjarskiptastofnun. Umsögn nefndarinnar er birt í heild hér á eftir til fróðleiks fyrir félagsmenn. Nefndina skipa: Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA formaður, Gísli G. Ófeigsson TF3G og Yngvi Harðarson TF3Y.

_


Til Póst-og fjarskiptastofnunar
Suðurlandsbraut 4
108 Reykjavík

Efni: Umsögn um tillögu að staðli um fjarskipti yfir raflínur

Dags.: 30. október 2012

Inngangur

Fjarskipti yfir raflínur hafa verið stunduð um áratuga skeið. Rafmagnsveitur notuðu lengst af raflínurnar til merkjasendinga en í afar litlum mæli. Á 10. áratugnum byrjuðu miklar þreifingar í þá átt að nýta raflínukerfið til fjarskipta fyrir almenning. Hér á landi var starfsemi Línu.nets mest áberandi á þessu sviði og var talsverðum fjármunum varið í prófanir og tilraunauppsetningar. Til stóð að bjóða fólki samband með samnýttum hraða 1 Mb/s – 3 Mb/s og hefði samnýtingin orðið milli allra íbúða sem tengdust sama spenninum í 230 V kerfi Orkuveitunnar. Fjarskiptin yfir raflínurnar byggjast á því að nýta stuttbylgjusviðin og helst tíðnisviðin þar fyrir neðan fyrir merki sem send eru eftir raflínum. Í kerfi Línu.nets var það alltaf nokkur ráðgáta hvernig merkin kæmust fram hjá raforkumælinum sem er við rafmagnsinntak hverrar íbúðar, en hann er ágæt láhleypisía og heftir því verulega útbreiðslu hátíðnimerkja eftir línunum. Engri hátíðnibrúun yfir mælinn var beitt. Aðferðin fólst í því að senda mjög sterkt merki að mælinum, láta það geisla út nærri íbúðinni og treysta á loftnetsverkun raflínanna í nærliggjandi íbúðum til að nema merkin og skila þeim inn á raflínurnar.

Fljótlega eftir aldamótin var alveg horfið frá hugmyndinni um raflínufjarskipti í aðgangsnetinu. Í staðinn hóf Orkuveitan ljósleiðaravæðingu og raflínufjarskiptin fluttust inn í íbúðir fólks. Nú eru þau notuð innan íbúða með misjöfnum árangri. Uppsetningarmenn á vegum símafélaganna hrífast ekki af þessari tækni, hún er óáreiðanleg virkar sums staðar og annars staðar ekki og einnig er virknin tímaháð. Raflínufjarskipti eru þó notuð hér á landi enda skiptir áreiðanleikinn stundum litlu máli, t.d. við vefskoðun. Hins vegar henta þau engan veginn fyrir flutning IPTV merkja.

Til eru mun hentugri og öruggari lausnir til fjarskipta innan íbúða sem nýta t.d. kóaxlagnir (MoCA) og símalínur (HomePNA). Einnig hefur þráðlaus tækni tekið stórstígum framförum á undanförnum árum, einkum með tilkomu staðalsins IEEE802.11n sem nýtir bæði OFDM og MIMO. Þessi staðall g.r.f. merkjum á 2,4 GHz og 5 GHz og leyfir allt að 600 Mb/s gagnahraða. Sending IPTV merkja með þessari tækni hefur verið prófuð og gengur upp. Auk þessa er nýr WiFi staðall í undirbúningi, 802.11ac en hann vinnur á 5 GHz tíðnisviðinu og leyfir gagnahraða yfir 1 Gb/s.

Frumvarp að nýjum staðli fyrir fjarskipti um raflínur FprEN 50561-1

Meðal radíóamatöra hefur farið fram mikil umfjöllun um þessi drög að staðli. Óttast menn mjög að innleiðing hans geti þýtt endalok stuttbylgjufjarskipta a.m.k. eins og þau eru nú þekkt í þéttbýli. Þýskur amatör, Karl Fischer að nafni hefur varið miklum tíma í að kynna sér drögin og skrifað um þau ítarlega grein. Það er mat undirritaðs að mati hans sé treystandi og hafa mörg landsfélög í Evrópu einnig metið það svo. Karl er hugbúnaðarverkfræðingur en hefur greinilega tileinkað sér radíófræði mjög vel ef marka má þau skrif sem hann birtir á heimasíðu sinni. Hans niðurstaða um staðlafrumvarpið er eftirfarandi:

„EN 55022 was written by experts in order to protect the radio spectrum – whereas FprEN 50561-1 was written by the industry in order to be able to sell PLC devices. Actually there is no necessity whatsoever for a new Standard – the real purpose of this draft Standard is to raise the existing well-considered limits for disturbance emissions up to 10,000-fold and to flood the European market with PLC devices. If it is approved, it will render the valuable natural resource Shortwave completely useless for the Amateur Radio service and nearly useless for the Broadcasting service. FprEN 50561-1 undermines the liability to protect Radio Services from harmful interference which all members of the International Telecommunication Union accepted by commitment to the “Radio Regulations”of the ITU, because they prescribe: “S15.12 § 8 Administrations shall take all practicable and necessary steps to ensure that the operation of electrical apparatus or installations of any kind, including power and telecommunication distribution networks, but excluding equipment used for industrial, scientific and medical applications, does not cause harmful interference to a radiocommunication service and, in particular, to a radionavigation or any other safety service operating in accordance with the provisions of these Regulations”.

EMC-nefnd ÍRA tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í grein Karls Fischer.

Rétt er að benda á að skv. staðlafrumvarpinu er gert ráð fyrir nýtingu tíðnisviðs niður í 150 kHz. Gert er ráð fyrir að merkisstyrkur á því tíðnibili geti orðið allt að 66 dBµV. Þetta samsvarar um 2 mV merkisspennu á línunni. Þessi spenna framkallar straum á rafmagnslínunni sem veldur útgeislun. Inni á heimili er um að ræða nærsviðsútgeislun enda er bylgjulengd um 1500 m löng á 200 kHz. Ríkisútvarpið sendir út á langbylgju frá Gufuskálum á 189 kHz og er viðmiðunarsviðsstyrkur á Reykjavíkursvæðinu um 70 dBµV/m. Með slumpareikningi er hægt að sýna fram á að sviðsstyrkur raflínufjarskipta í nærsviði inni á heimili m.v. 5 m fjarlægð frá útgeislandi vír er mjög nálægt sviðsstyrk Ríkisútvarpsins. Það eru því líkur á því að raflínufjarskipti geti truflað langbylgjusendingar Ríkisútvarpsins inni á heimilum. Með hliðsjón af því að þessar sendingar teljast hlekkur í almannavörnum þjóðarinnar væri tekin nokkur áhætta af því að leyfa slík raflínufjarskipti.

Niðurstaða

EMC-nefnd ÍRA mælir með því að fulltrúi Íslands í staðlanefndinni CENELEC leggist gegn því að staðlafrumvarpið FprEN 50561-1 verði samþykkt sem staðall. Með innleiðingu búnaðar skv. þessum staðli væri tekin mikil áhætta sem felst í því að stuttbylgjufjarskipti í þéttbýli truflist verulega og einnig langbylgjufjarskipti sem snerta öryggi þjóðarinnar. Það er mat ÍRA að nóg sé af öðrum handhægum lausnum til innanhússfjarskipta svo að áhrif af því að hafna staðlinum yrðu óveruleg.

______________________________
Sæmundur E. Þorsteinsson
Formaður EMC-nefndar ÍRA

Ari Þ. Jóhannesson, TF3ARI

Fyrsta sunnudagsopnun á yfirstandandi vetrardagskrá verður haldin sunnudaginn 11. nóvember n.k. kl. 10:30 í félagsaðstöðu Í.R.A. við Skeljanes. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI, mætir í sófaumræður og kynnir FlexRadio Systems, sem eru brautryðjendur í markaðssetningu tölvutengdra HF sendi-/móttökustöðva fyrir radíóamatöra.

Flex 3000, 100W sendi-/móttökustöð sem vinnur á 160-6 metrum, verður á staðnum. Hún verður tengd við loftnet og gefst mönnum tækifæri til að handleika og prófa gripinn. Húsið verður opnað kl. 10 árdegis og er miðað við að dagskrá verði tæmd á hádegi.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega.

________

Fyrirkomulag umræðna í sunnudagsopnunum er hugsað sem afslappað, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra sófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni, nú FlexRadio Systums, leiðir umræðuna og svarar spurningum.

________

Eftirfarandi texti eru úr greininni “Kaup á nýrri amatörstöð haustið 2012” sem birtist í nýju tölublaði CQ TF, 4. tbl. 2012 (sem kemur út á næstunni).

FlexRadio Systems er bandarískur framleiðandi sem hefur notið velgengni á markaði. Fyrirtækið var stofnað fyrir aðeins 9 árum (2003) af radíómatör, Gerald Youngblood, K5SDR, í Texas í Bandaríkjunum. Í dag býður FlexRadio upp á 5 mismunandi gerðir HF sendi-/móttökustöðva. Ódýrasta stöðin er Flex 1500 sem kom á markað fyrir réttum tveimur árum. Það er QRP stöð sem átti við nokkra hugbúnaðarörðugleika að etja í byrjun, en gengur vel í dag. Þessi stöð er þriðja ódýrasta stöðin á markaðnum og kostar á innkaupsverði 649 dollara eða um 82 þúsund krónur. Aðrar vinsælar stöðvar frá FlexRadio eru 3000 og 5000A stöðvarnar. FlexRadio Systems kynnti tvær nýjar stöðvar á Dayton Hamvention í maí s.l. Þær eru sagðar boða byltingarkenndar nýjungar, einkum í viðtækishluta tækjanna. Það eru FlexRadio 6500 og FlexRadio 6700. Þessar stöðvar verða í dýrari kantinum, eða á bilinu frá 500 þúsundum til 1 milljónar króna á innkaupsverði. Þær eru væntanlegar á markað á 1. ársfjórðungi 2013.

PowerPoint glærur frá erindi þeirra Jónasar Bjarnasonar, TF3JB og Guðlaugs Kristins Jónssonar, TF8GX, um viðurkenningaskjöl radíóamatöra, sem flutt var í félagsaðstöðunni í Skeljanesi fimmtidaginn 1. nóvember, hafa verið settar inn á heimasíðu félagsins.

Slóðin er http://www.ira.is/itarefni/

Bestu þakkir til erindishöfunda og til Benedikts Sveinssonar, TF3CY, fyrir innsetningu á heimasíðuna.

Alls skiluðu sjö TF-stöðvar fjarskiptadagbókum til keppnisnefndar CQ tímaritsins vegna þátttöku
í CQ World-Wide SSB DX keppninni sem haldin var helgina 27.-28. október s.l. Áttunda stöðin
sendi inn “check-log”. Íslensku stöðvarnar sendu að þessu sinni inn gögn vegna þátttöku í fimm
mismunandi keppnisflokkum. Heldur meiri þátttaka var í keppninni í fyrra (2011) en þá sendu 11
TF-stöðvar gögn til keppnisnefndar tímaritsins.

Kallmerki

Keppnisflokkur

TF3AM

Einmenningsflokkur, öll bönd, háafl

TF3IG

Einmenningsflokkur, öll bönd, háafl

TF8GX

Einmenningsflokkur, öll bönd, háafl

TF3CW

Einmenningsflokkur, 20 metrar, háafl

TF3AO

Einmenningsflokkur, 15 metrar, háafl, aðstoð

TF3SG

Einmenningsflokkur, 80 metrar, háafl

TF3W

Fleirmenningsflokkur, öll bönd, háafl, aðstoð

Keppnisnefnd CQ, vefslóð: http://www.cqww.com/

Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS

Næsta erindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið í Skeljanesi fimmtudaginn 8. nóvember n.k. kl. 20:30. Þá mætir Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson, TF3VS, í félagsaðstöðuna með erindi sitt Logger32, álitamál við þýðingu og kynning forritsins.

Líkt og áður hefur komið fram í miðlum félagsins, kom reynsluþýðing Vilhjálms á íslensku á Logger32 út í byjun þessa árs. Um var að ræða fyrsta dagbókarforritið af þessu tagi sem vitað er um að hafi verið þýtt á íslensku og hefur það síðan verið í boði ókeypis til radíóamatöra. Vilhjálmur mun fyrst ræða ýmis álitamál sem upp komu við þýðinguna, en síðan kynna forritið og helstu eiginleika þess.

Forritið er fáanlegt á vefslóðinni logger32.net. Þeir sem hafa sett það upp nýlega geta látið nægja að sækja uppfærslu. Hafi menn eldri útgáfur verður að sækja það frá grunni. Þýðingar eru svo í deildinni „support files” og nægir að sækja TF skjalið, afþjappa því í sömu möppu og forritið er og þá kemur þýðingin inn af sjálfu sér.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta stundvíslega. Kaffiveitingar.