Til að geta náð APRS merkjum frá loftbelgnum lengra vestur á við var í kvöld snúanlega VHF loftnetið í Skeljanesi tengt við aprsmóttakarann TF3APG. Þessi loftbelgur er mjög sérstakur og ekki stór, um meter í þvermál og mæli- og sendibúnaðurinn sem fær aflið frá sólarrafhlöðu er ekki nema um 12 grömm. Belgurinn fer ekki hærra en í 9 km og samkvæmt útreiknuðum áætluðum ferli mun belgurinn fara til Grænlands og þaðan norður fyrir Ísland og síðan í austur til Noregs norðarlega, yfir Svíþjóð, Finnland og suður í áttina að Svartahafi. Áætlunin gerir ráð fyrir að belgurinn verði kominn yfir Noreg eftir um einn og hálfan sólarhring. Sjá áætlaðan feril á myndinni. Myndin fyrir neðan sýnir stöðuna núna klukkan 23:20.

staðsetning og mælingar frá M0XER loftbelgnum koma inná internetið um APRS kerfið á Íslandi ..

http://aprs.fi/#!mt=roadmap&z=6&call=a%2FM0XER-6&timerange=604800&tail=604800

 

Eins og áður hefur komið fram verður haldin alþjóðleg ráðstefna kvenradíóamatöra í Reykjavík dagana 9. til 12. maí. Til landsins koma 26 aðilar (16 konur og 10 karlar), þar af bara einn maki sem er ekki amatör. Ráðstefnugestir munu heimsækja ÍRA seinnipart dags föstudaginn 9. maí og gefst félögum ÍRA þar tækifæri til að hitta kollega í áhugamálinu.  ÍRA félögum býðst einnig að taka þátt í tveim viðburðum á vegum ráðstefnunnar: Ráðstefna um fjarskipti og tæki sem verður haldin sunnudaginn 11. maí kl. 13 til 16. Verð 1.500 krónur Hátíðarkvöldverður að kvöldu sunnudags, kl. 19. Verð 9.500 krónur Þeir sem koma á báða viðburði greiða 10.000 krónur. Mikilvægt er fyrir okkur að fá sem fyrst skráningu á þessa viðburði upp á aðföng og pantanir að gera. Loka-lokafrestur til skráningar er sunnudagurinn 27 apríl næstkomandi. Skráningar (og fyrirspurnir) má senda til Völu á netfangið tf3vd@centrum.is

Einu sinni áður hefur verið haldin ráðstefna fyrir kvenradíóamatöra á Íslandi. Það var fyrsta formlega þing SYLRA, norrænu samtaka kvenradíóamatöra, sem haldið var í Reykjavík í júní 2005. Á ráðstefnuna mættu nítján konur á aldrinum 38 til 83 ára, frá Norðurlöndunum, Japan, Þýskalandi og Bandaríkjunum.Skipuleggjendur þá voru þeir sömu og eru að skipuleggja alþjóðlegu ráðstefnuna sem framundan er; Anna Henriksdóttir og Vala Dröfn Hauksdóttir.

Erlendu gestirnir voru spenntir yfir Íslandskomunni, enda er sérstakt að komast í talstöð hérlendis, þar sem truflanir eru litlar. Konurnar fóru í talstöð IRA (íslenskir radíóamatörar) og sendu í tilefni af þinginu út sérstakt kallmerki, sem amatörar erlendis biðu spenntir eftir. Morgunblaðið 17. júní 2005 Þorkell

Í dag fagna radíóamatörar sínum alþjóðadegi, World Amateur Radio Day. IARU, International Amateur Radio Union var stofnað á þessum degi, 18. apríl 1925.

Radíóamatörar hafa stigið inní 21. öldina.  Á innan við 100 árum hefur radíóamatörinn þróast úr hrárri neistasendatækni í heim stafrænna merkja og hugbúnaðar sendi-viðtækja. Á fyrstu áratugum radíótækninnar stóð val amatörsins milli tals og morse en í dag getur amatörinn valið um að nota ýmiskonar aðferðir til samskipta allt frá sjónvarpi til skeytasendinga með hjálp tölva sem lesa merkin uppúr suði.

Stafrænar merkjasendingar hafa tekið stökkbreytingum. Frá lokum síðari heimsstyrjaldar til ársins 1980 var rtty, radíófjarritun eina stafræna mótunaraðferðin í notkun hjá radíóamatörum. Á árinu 1980 kom AMTOR fram á sjónarsviðið í kjölfar einkatölvanna og smárans.  AMTOR var fyrsta stafræna samskiptatæknin sem innihélt villuleiðréttingu.

Þróunin verður sífellt hraðari, Packet Radio, PACTOR, G-TOR og PSK31 eru heiti sem flestir radíóamatörar kannast vel við í dag.

Nokkuð dró úr notkun Packet Radio undir lok síðustu aldar. Hins vegar hefur tæknin nú endurfæðst í vinsældum  APRS, Automatic Packet Reporting System og hefðbundin pakkaskift  fjarskipti eru smá saman að yfirtaka öll fjarskiftakerfi þvert ofan í spár og áætlanir stóru fjarskiptatækjaframleiðandanna og gömlu símarisanna.

Við getum þakkað einstökum eldheitum radíóáhugamönnum að nú hafa radíóamatörar sambönd á VHF og UHF tíðnum um langar leiðir og  nýta til þess jafnvel endurkast frá tunglinu, gamla mánanum okkar, með hóflegum búnaði. Venjuleg tölva, einföld radíótæki og hugbúnaður sem hægt er að sækja ókeypis á internetið er allt sem þarf.

Þessi þróun hefur leitt til vaxandi áhuga á tilraunum með stafræn fjarskipti á HF, VHF, UHF og örbylgjutíðnum.

Japanska radíóamatörsambandið hefur á undanförnum áratug þróað D -STAR stafrænan staðal fyrir tal og skilaboðasamskifti radíóamatöra sem valdið hefur flóðbylgju í byggingu stafrænna endurvarpakerfa meðal amatöra um allan heim en fleiri staðlar/kóðunaraðferðir eru í boði og ríkir óvissa um hver þeirra verður vinsælastur.

Ýmis konar virkni okkar radíóamatöra í tilefni af deginum er frábært tækifæri til að upplýsa heiminn hvað radíóamatörar “Hams” eru að fikta við á 21. öldinni.

Til hamingju með daginn og munum að stutt er í sumarið.

88 es 73 de TF3JA

…þýdd og endursögð frétt af heimasíðu IARU

Félagsheimili ÍRA verður að venju lokað að kvöldi skírdags.

Gleðilega páska.

Málefni aðalfundar ÍRA 2014:

Brynjólfur Jónsson, TF5B hefur sent inn tillögu til lagabreytingar.

Þessi breyting  á við fyrstu grein laganna og afleiður af þeim.

Lagt er til að breytt verði til fyrra horfs frá 1945 og skammstöfun félagsins verði  Í.R.A. en  ekki ÍRA.

Rökstuðningur.

Sjá Blaðsíðu 9 í meðfylgjandi PDF sklali

Fimmtudagkvöldið 10. apríl var G4ASR með mjög áhugaverða kynningu hjá ÍRA á VHF- samböndum yfir langar leiðir. David ætlar að senda okkur hlekk á kynninguna þegar hann kemst heim til sín aftur eftir páska og verður þá betur fjallað um kynninguna. David sagði að besta aðferðin til að ná gildum QSO-um á slíkum samböndum hefði verið að nota ofurhratt morse en að nýju stafrænu samskiptaaðferðirnar væru smá saman að taka yfir og að því fylgdi reyndar að ekki væri þörf á jafn mikilu afli og áður sem er hið besta mál. Hann lagði áherslu á að amatörar notuðu aldrei meira afl en nauðsynlegt væri til að ná sambandi. Vel var mætt í Skeljanesið og sáust þar nokkur andlit sem ekki eru þar oft á ferðinni.

Á myndinni er David fyrir miðju en til hægri er Villi, TF3DX og til vinstri Ómar, OZ1OM.

Líflegar umræður mynduðust í öllum hornum félagsheimilisins á eftir sem kannski verða til þess að fleiri TF stöðvar fari að fikta við ofurvegalöng VHF/UHF/GHF sambönd en David var hissa á hve fáir hér á landi hafa reynt það hingað til. Ekki er úr vegi að minna á að fjarlægðin frá Íslandi til Noregs er ekki nema 1000 km og VHF stöðvar staðsettar á háu fjöllunum á austurlandi ættu að geta náð samböndum við Noreg, Færeyjar og Bretland.

Prófnefnd ÍRA ályktaði eftirfarandi á fundi sínum 29. apríl 2013:

————————————————————————————————————————————————–

Ályktun 29. apríl 2013

 

Prófnefnd ÍRA ályktar að í bókinni “Siðfræði og samskiptasiðir radíóamatöra” séu afar góðar ráðleggingar um siðfræði og aðferðir í starfi radíóamatöra. Þess heldur er mjög óheppilegt hve alvarlegar villur hafa slæðst inn í kaflann um símritun. Hann kennir áður óþekkta merkingu og notkun símritunartákna sem stríðir gegn Alþjóða fjarskiptareglugerðinni og venju til langs tíma. Það ýtir undir rugling og getur stíað í sundur byrjendum og reyndum iðkendum símritunar. Bókin verður ekki sett á lista nefndarinnar yfir námsefni eins og hún er.

—————————————————————————————————————————————————

 

Þessari ályktun var beint til stjórnar ÍRA 6. maí 2013. Þá stóðu yfir viðræður við höfunda bókarinnar, í þeirri von að þeir myndu gera nauðsynlegar leiðréttingar sjálfir. Því var stjórn beðin um að bíða með kynningu uns niðurstaða fengist í það hvort svo yrði.

Mikil og vingjarnleg samskipti tókust við Belgíu sem stóðu yfir lengur en ætlað var. Á fundi stjórnar ÍRA þann 10. október 2013, þar sem mættir voru TF3SG, TF3AM, TF3CY og TF3HRY, var málið tekið fyrir og samþykkt að boða til fundar með Prófnefnd. Þá voru viðræður við höfundana á lokasprettinum, og um miðjan nóvember varð ljóst að ekki næðist samkomulag sem duga myndi til að vinda ofan af alvarlegustu villunni (AR í stað K á eftir CQ). Fundur stjórnar og Prófnefndar var þá haldinn 16. nóvember með þátttöku TF3SG, TF3AM, TF3HRY, TF3VS og TF3DX.

Þann 3. mars s.l. sendi ÍRA bréf til IARU. Þar er í grundvallaratriðum spurt hvort það hafi verið ætlun IARU að breyta ríkjandi samskiptareglum á morsi með viðurkenningu sinni á bókinni. Þremur vikum síðar barst svarbréf frá IARU, þar sem spurningunni var ákveðið svarað neitandi. Enn fremur að mikilvægt væri að snúa sér að því að koma í veg fyrir þann rugling sem bókin veldur. ÍRA var hvatt til að leggja tillögu fyrir ráðstefnu IARU-svæðis 1 (Region 1) í haust, og á það bent að aðeins vika væri til stefnu fyrir skilafrest. Stjórn ÍRA skipaði TF3DX (form. prófn.), TF3VS (ritara prófn. og þýðanda bókarinnar) og TF3KB (IARU tengilið)  í vinnuhóp til að leiða þetta mál til lykta og erindið til ráðstefnunnar náði inn á elleftu stundu.

Það og önnur gögn eru aðgengileg á slóðinni http://bit.ly/MGrcRj

Allir félagar ÍRA eru hvattir til að sýna fyllstu tillitssemi og kurteisi í garð höfunda bókarinnar ef þeir ræða málið út á við.  Hér er eingöngu um málefnalegan ágreining að ræða, alls ekki persónulegan.

 

73

Guðmundur, TF3SG

David Butler, G4ASR verður með fimmtudagserindi næstkomandi fimmtudag 10. apríl. Gert er ráð fyrir að erindið hefjist upp úr kl. 20.00
David kallar erindið “Making more Miles at VHF”
Erindið er um það bil 1 klukkustund.
David hefur í mörg ár verið virkur á VHF.  Hann var til að mynda VHF Manager RSGB í 21 ár.  Hætti 2012.
Eftir David eru margar greinar í Practical Wireless, þar skrifaði hann um VHF mál í 25 ár.
73
Guðmundur, TF3SG

Stjórn Íslenskra radíóamatöra minnir á að ráðgert er að halda aðalfund ÍRA þann 17. maí 2014 í sal TR að Faxafeni 12.

Minnt er á að tillögum að lagabreytingum sem um er fjallað í 27. grein félagslaga ÍRA  verður að skila inn fyrir 15. apríl

27. gr.

Félagslögum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda hafi frumvarp að nýjum eða breyttum greinum borist stjórn félagsins fyrir 15. apríl og verið dreift með aðalfundarboði. Þó getur aðalfundur samþykkt breytingar á félagslögum, sem fram koma á fundinum, séu 88% fundarmanna samþykkir. Breytingartillögur sem fram koma á aðalfundi skulu einungis varða þær tillögur er þar liggja fyrir og nauðsynlegar afleiðingar þeirra. Með tillögum að breytingum skal fylgja skrifleg greinargerð þar sem gerð er grein fyrir ástæðum tillagnanna og væntum áhrifum þeirra. Sé ætlunin að lagabreyting hafi víðtækari áhrif en eingöngu á félagslögin sjálf, svo sem ógildi sérstakar aðalfundarályktanir eða sérstakar samþykktir fyrri aðalfunda skal sérstaklega vísað til þeirra í viðkomandi breytingartillögu og greinargerð.

 

73

Guðmundur, TF3SG

Holly Wilson, KG5AOG. Myndina tók Cassie Smith

Holly notar frítíma sinn til að æfa sig í að setja upp loftnet og varast að loftnetið komi nálægt rafmagnslínum en þegar hún leggur frá sér talstöðina snýr hún sér að gullfiskinum sínum eða leikur sér í Mincraft. Reglan segir Holly er að gefa upp kallmerkið ekki sjaldnar en með tíu mínútna millibili. Í USA hefur á undanförnum árum í kjölfar náttúruhamfara eins og fellibylsins Katarínu verið gert átak í að fjölga radíóamatörum og L.B. Little formaður radíóklúbbsins í Texas Beaumont Amateur Radio Club þar sem Holly býr er ánægður því undanfarin ár hefur meðalaldur þeirra sem sækja námskeið og fá leyfi verið yfir 30 ár. Holly segist upphaflega fengið áhuga á geta talað við föður sinn, Joseph Wilson í talstöðinni.
Holly tók tæknileyfispróf en segist ákveðin í að halda áfram að læra meira og ná hærra leyfi.

…þessi frétt kom upp þegar leitað var að nýjum YL á internetinu í tilefni af YL fundinum sem verður hér í vor…

Nokkrir kjarkmiklir karlamatörar, rúmlega einn tugur, áttu mjög skemmtilega stund með þeim Önnu, TF3VG og Völu, TF3VD í Skeljanesi í gærkvöldi. Þær kynntu alþjóðlega YL ráðstefnu sem fram fer í Reykjavík núna í maí og var kynningin allt að einu fróðleg, lifandi og framúrskarandi vel flutt.

Það var áhugavert að fá þessa skemmtilegu kynningu á YL starfinu og á vönduðum undirbúningi þeirra fyrir ráðstefnuna og heyra líka af SYLRA 2015, Scandinavian Young Ladies Radio Amateurs ráðstefnunni sem verður haldin hér á landi á næsta ári.

ÍRA félagar eru hvattir til að taka þátt og mæta á kvöldverðinn í vor, ennþá er hægt að skrá sig með því að senda tölvupóst á Völu, tf3vd@centrum.is, sjá nánar fréttina hér á undan.

Anna og Vala

Takk Anna og Vala fyrir frábært kvöld

heimasíða ráðstefnunnar: www.iyl.ritmal.is