Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 2. tbl. CQ TF 2021 sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.

Þakkir til félagsmanna fyrir innsent efni og ekki síst þakkir til Vilhjálms Í. Sigurjónssonar TF3VS fyrir glæsilegt umbrot blaðsins.

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Vefslóð á nýja blaðið:

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2021/04/cqtf_35arg_2021_02tbl.pdf

„Handbókin“ þ.e. ARRL Handbook 2021 er boðin á tilboðsverði þessa helgi (24.-25. apríl).

Innkaupsverð er $35 í stað $49.95.

Bókin er alls 1280 blaðsíður að stærð. Nota þarf kóðann: HB21 þegar kaup eru gerð.

Vefslóð: http://www.arrl.org/shop/ARRL-Handbook-2021-Softcover/

Spáð er truflunum í segulsviðinu frá og með sunndeginum 25. apríl.

Búast má við að áhrif á skilyrði til fjarskipta á HF verði töluverð með tilheyrandi norðurljósavirkni. Aftur á móti er möguleiki á opnun á 50 MHz og hugsanlega hærri tíðnisviðum. Spár eru þess efnis að truflanir muni eitthvað halda áfram og ójafnvægis muni gæta fram í viku 17.

Fylgjast má með skilyrðunum  á vefsíðu Segulmælingastöðvarinnar í Leirvogi. Efsta línuritið (Z) sýnir styrkleika segulsviðs jarðar í stefnu lóðrétt niður, næsta línurit (H) sýnir láréttan styrkleika sviðsins og neðsta línuritið (D) sýnir áttavitastefnuna.  Vefslóð: http://cygnus.raunvis.hi.is/~halo/leirvogur.html

Vefslóð: https://spaceweather.com/

Mælingahús háloftadeildar Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands í Leirvogi. Ljósmynd: Raunvísindastofnun.

ÍRA hafa borist upplýsingar um 40 metra tíðni sem hefur verið tekin til notkunar fyrir neyðarfjarskipti  eftir að eldgos hófst á eyjunni St. Vincent í Karíbahafi. Gos hefur staðið með hléum síðan 29. desember í eldfjallinu  La Soufrière, en það veldur enn vandræðum á eyjunni, þar sem mikil öskugos (sprengingar) hafa verið í þessum mánuði (apríl).

Tíðnin er 7.188 MHz á LSB. Þess er farið á leit að íslenskir radíóamatörar taki tillit til forgangsfjarskipta, a.m.k. næstu daga.

Neyðarfjarskipti radíóamatöra í þessum heimshluta fara reyndar fram á fleiri tíðnum (sem ekki varða okkur í IARU Svæði 1), þar sem St. Vincent (og nágrannaeyjar) eru í IARU Svæði 2.

Stjórn ÍRA.

KIWISDR VIÐTÆKI FLYTUR

Ákveðið var í gær, 18. apríl, að flytja KiwiSDR viðtækið sem hefur verið vistað í fjarskiptaaðstöðu ÍRA í Skeljanesi frá 12. desember s.l. Nýtt QTH er hjá Erling Guðnasyni, TF3E, í Álftamýri í Reykjavík. Loftnet: Cushcraft MA6V stangarloftnet (14-54 MHz). Viðtækið verður vistað þar í nokkurn tíma uns það verður flutt á endanlegt QTH í Reykjanesbæ. Vefslóð er óbreytt: http://ira.utvarp.com

Hin tvö viðtækin sem eru virk í dag (yfir netið) eru staðsett á Bjargtöngum í Vesturbyggð og á Raufarhöfn. Vefslóðir: Bjargtangar: http://bjarg.utvarp.com Raufarhöfn: http://raufarhofn.utvarp.com

Þakkir til Erlings TF3E að taka að sér viðtækið, til Georgs TF3GZ fyrir að lána viðtækið og til Ara TF1A fyrir að annast flutning og uppsetningu á nýjum stað.  Viðtæki yfir netið með staðsetningu hér á landi eru mikilvæg fyrir radíóamatöra sem gera tilraunir í tíðnisviðinu frá 10 kHz til 30 MHz, auk hlustara og allra sem hafa áhuga á útbreiðslu radíóbylgna.

Stjórn ÍRA.

Myndin er af KiwiSDR viðtækinu, en samskonar tæki eru notuð í Reykjavík, á Bjargtöngum og á Raufarhöfn.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður lokuð fimmtudaginn 22. apríl sem er sumardagurinn fyrsti.

Næsti opnunardagur er fimmtudagurinn 29. apríl.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.

Kallmerki ÍRA, TF3WARD, var virkjað í annað skipti á Alþjóðadag radíóamatöra sunnudaginn 18. apríl. Viðskeytið stendur fyrir World Amateur Radio Day. Haldið er upp á stofndag alþjóðasamtaka landsfélaga radíóamatöra, IARU, sem var 18. apríl árið 1925.

TF3WARD var QRV á morsi og tali á HF böndunum og um gervihnöttinn OSCAR 100 til DX fjarskipta og á 2 metrum og 70 sentímetrum til fjarskipta við TF stöðvar innanlands. Skilyrðin á HF böndunum voru afar erfið vegna truflana í segulsviðinu. Allt í allt náðust þó nær 200 sambönd, þar af voru 126 sambönd um QO 100. TF1A, TF3DC, TF3JB og TF3Y virkjuðu kallmerkið á alþjóðadaginn.

Í ár reyndist ekki unnt að hafa opið hús í Skeljanesi fyrir félagsmenn og gesti á alþjóðadaginn vegna kórónaveirunnar. Við lítum hins vegar bjartsýn til næsta árs (2022). Þá er stefnt að mun víðtækari starfrækslu TF3WARD, m.a. að félagsmenn (sem áhuga hafa) geti virkjað kallmerkið frá heimastöð. Verkefnið verður undirbúið með góðum fyrirvara, en t.d. þarf að sækja um sérstaka heimild til Póst- og fjarskiptastofnunar.

Stjórn ÍRA.

Alþjóðadagur radíóamatöra er á morgun, sunnudaginn 18. apríl. ÍRA mun halda upp á daginn með því að virkja sérstakt kallmerki félagsins TF3WARD (World Amateur Radio Day). Kallmerkið verður virkjað frá hádegi.  

Stöðin verður QRV á tali (SSB) og morsi (CW), en vegna sóttvarnaákvæða er mest hægt að koma fyrir tveimur leyfishöfum samtímis í fjarskiptaherbergi félagsins.

Upphaflega hugmyndin var að auglýsa opið hús í Skeljanesi með kaffiveitingum fyrir félagsmenn og gesti. Ennfremur að félagarnir gætu komið að því að setja TF3WARD í loftið og hafa sambönd. Vegna takmarkana stjórnvalda á samkomum vegna farsóttar getur því miður ekki orðið af því í ár frekar en í fyrra (2020). Við lítum því björtum augum til 2022.

Stjórn ÍRA.

Fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi. Fjarskiptaborð A og B sjást á myndinni á suðurvegg en borð C er á austurvegg. Mynd: TF3JB.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi var opnuð á ný fimmtudaginn 15. apríl. Þá voru liðnar 4 vikur frá því síðast var opið, 18. mars s.l.

Að venju voru umræðuefni næg og var m.a. rætt um böndin, skilyrðin, tækin, loftnet og loftnetsturna, tæknina og heimasmíðar. Einnig var rætt um mismunandi gerðir/tegundir HF loftneta, m.a. frá ZeroFive, Fritzel, New-tronics Hustler og VHF/UHF/SHF húsnet frá Diamond og Sirio.

Hans Konrad Kristjánsson, TF3FG kom færandi heldi með ýmist radíódót sem félögunum stendur til boða næstu fimmtudagskvöld. M.a. góðir kassar (til smíða) og mikið af öðru dóti sem kemur til með að nýtast vel, bæði tengi og íhlutir.

Fjarskiptaherbergi félagsins var haft lokað og aðgangur að herbergi QSL stofunnar var takmarkaður við einn félaga í einu. Vel heppnað opnunarkvöld og almenn ánægja með að félagsaðstaðan var opin á ný. Þrátt fyrir ausandi rigningu og rjúkandi vorvinda mættu 14 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta aprílkvöld í vesturbæ Reykjavíkur.

Skeljanesi 15. apríl. Frá vinstri: Sigurður Elíasson TF3-Ø44, Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Garðar Vilberg Sveinsson TF8YY, Georg Kulp TF3GZ, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: TF3JB.
Radíódótið komið í hús. Hans Konrad Kristjánsson TF3FG í ganginum í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Félagsaðstaðan í Skeljanesi verður opin fimmtudaginn 15. apríl frá kl. 20:00. Ákvörðunin um opnun er tekin í ljósi nýrrar reglugerðar heilbrigðisráðherra um tilslökun á  tímabundnum takmörkunum á samkomuhaldi á tímabilinu frá 15. apríl til 5. maí n.k.

Grímuskylda verður í húsnæðinu ásamt þeirri kvöð að leitast verði við að halda 2 metra nálægðarmörkum. Aðgangur að herbergi QSL stofu á 2. hæð verður takmarkaður við 1 félaga í einu, en fjarskiptaherbergi verður lokað. Ekki verður boðið upp á veitingar.

Vegna Covid-19 er þess farið á leit, að félagar sem hafa hug á að mæta í Skeljanes fresti því ef þeir kenna lasleika af einhverju tagi, af virðingu við aðra.

Velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?RecordID=71bd992a-6103-4e67-aaca-dd92422f0e5e

Alþjóðadagur radíóamatöra er 18. apríl. Þann mánaðardag árið 1925 voru alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra, International Amateur Radio Union (IARU) stofnuð, fyrir 96 árum. Aðildarfélög voru í upphafi 25 talsins, en í dag eru starfandi landsfélög radíóamatöra í yfir 160 þjóðlöndum heims, með nær 5 milljónir leyfishafa.

ÍRA mun halda upp á daginn með því að virkja sérstakt kallmerki félagsins, TF3WARD (World Amateur Radio Day). Nú, annað árið í röð, fetum við í fótspor systurfélaganna á Norðurlöndum (og um allan heim), sem starfrækja þennan mánaðardag á ári hverju, kallmerki með hliðstæðu viðskeyti.

IARU skiptist á þrjú svæði: Svæði-1 sem nær yfir Evrópu, Afríku, Miðausturlönd og norður hluta Asíu; Svæði-2 sem þekur Norður- og Suður Ameríku og Svæði-3, sem nær yfir Ástralíu, Nýja Sjáland, Kyrrahafseyjar og stærstan hluta Asíu.

Stjórn ÍRA.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) á HF og um gervitunglið OSCAR-100 vikuna 4.-10. apríl 2021. Samskonar samantektir voru gerðar í tvígang í janúar og einu sinni í febrúar.

Alls voru 17 TF kallmerki skráð á þyrpingu að þessu sinni. Flestar stöðvar voru virkar á stafrænum mótunum (FT8, FT4), en einnig á tali (SSB), morsi (CW) og fjarvélritun (RTTY). Stöðvarnar voru QRV á  17, 20, 30, 40 metrum og um OSCAR-100 gervitunglið.

Kallmerki fær skráningu þegar erlendur leyfishafi hefur haft samband við eða hefur heyrt í viðkomandi TF kallmerki, auk þess sem hlustarar setja stundum inn skráningar. Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/  Fleiri sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á:

TF1A——-SSB á OSCAR-100.
TF1EIN——FT8 á 20 metrum.
TF1OL——-FT8/SSB  á 17 og 20 metrum.
TF2MSN—-FT4 á 20 metrum.
TF3AO——RTTY á 20 og 40 metrum.
TF3DT——-SSB á 40 metrum.
TF3EK/P——FT8 á 20 metrum.
TF3JB——–FT8 á 30 metrum.
TF3LB——FT8 á 20 metrum.
TF3MH——FT8 á 20 og 30 metrum.
TF3PPN—–RTTY á 20 metrum.
TF3SG——-SSB á 40 metrum.
TF3VG——-FT8 á 20 metrum.
TF3Y——-CW á 20 metrum.
TF4M——-CW á 30 metrum.
TF5B———FT8 á 17, 20, 30 og 40 metrum.
TF6JZ———SSB á 20 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Myndin sýnir hluta af búnaði í fjarskiptaherbergi Lárusar Baldurssonar TF3LB í Reykjavík en hann var m.a. QRV á 20 metrum á tilgreindu tímabili. Ljósmynd: TF3LB.