Frá vel heppnuðu erindi Sæmundar E. Þorsteinssonar TF3UA í Skeljanesi fimmtudaginn 25. október.

PowerPoint glærur frá erindi Sæmundar E. Þorsteinssonar, TF3UA, um fæðilínur, sem hann hélt í félagsaðstöðunni í Skeljanesi síðastliðinn fimmtudag, hafa verið settar inn á heimasíðu félagsins. Slóðin er þessi: http://www.ira.is/itarefni/

Bestu þakkir til Sæmundar E. Þorsteinssonar, TF3UA og til Benedikts Sveinssonar, TF3CY,fyrir innsetninguna.

TF3CW notaði 4 og 5 staka einsbands Yagi loftnet. Hann keppti í einmenningsflokki á 14 MHz, háafli.

A.m.k. fimm TF stöðvar voru skráðar á þyrpingu (e. cluster) í CQ World-Wide SSB DX-keppninni helgina 27.-28. október: TF3AM (öll bönd, háafl), TF3AO (21 MHz, háafl, aðstoð), TF3CW (14 MHz, háafl), TF3SG (öll bönd, háafl) og TF3W (öll bönd, háafl, fleirmenningsflokkur).

TF3CW hafði alls 4.336 QSO (á 33 klst.) nú samanborið við 3.871 QSO 2011 og TF3W hafði alls 5.819
QSO (á 48 klst.). Það mun svo koma í ljós á næstu dögum hvernig okkar stöðvum gekk í samkeppninni, en keppendur hafa 5 daga til að skila gögnum til keppnisnefndar CQ eða til 2. nóvember n.k.

TF3W notaði 3 staka SteppIR Yagi loftnet á 10, 15 og 20 metrum, 1/4-bylgju stangarloftnet á 40 og 80 metrum og öfugt L-loftnet á 160 metrum. Á myndinni má sjá loftnetið fyrir 160 metra lengst til vinstri, þá loftnetið fyri 40 metra (í miðju) og loks loftnetið fyrir 80 metra.

Jónas Bjarnason, TF2JB

Guðlaugur Kristinn Jónsson, TF8GX

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Næsti viðburður á vetrardagskrá Í.R.A. verður haldinn í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 1. nóvember n.k. Þá mæta þeir Jónas Bjarnason, TF3JB og Guðlaugur Kristinn Jónsson, TF8GX, í Skeljanes með erindi um helstu viðurkenningarskjöl sem í boði eru fyrir radíóamatöra.

Viðurkenningaskjöl radíóamatöra (stundum nefnd “diplómur”) eru margar og margvíslegar. Talið
er að í boði í heiminum í dag séu allt að 10 þúsund slíkar. Forsendur þeirra allra eru, að radíóamatör þarf að hafa haft gilt samband við annan leyfishafa á einhverju af amatörböndunum (sem oftast þarf að vera staðfest). Þeir TF3JB og TF8GX eru trúnaðarmenn, hér á landi, fyrir þá aðila sem gefa út vinsælustu og mest eftirsóttu viðurkenningarskjölin, þ.e. Jónas fyrir CQ tímaritið og Guðlaugur Kristinn fyrir ARRL, landsfélag radíóamatöra í Bandaríkjunum.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til að mæta tímanlega, erindið hefst stundvíslega kl. 20:30. Kaffiveitingar.

  • Góður gestur í Skeljanesi.
  • J-póll, loftnet félagsins fyrir VHF/UHF, sett upp á ný.
  • Kenwood TS-2000 stöð TF3IRA komin úr viðgerð.
  • Stór sending af QSL kortum.
  • Uppsetning á 1/4-bylgju færanlegu stangarloftneti á 3,7 MHz við Skeljanes.

Á góðri stundu í Skeljanesi. Ingus Selevskis YL2TW (YL9T) og Ársæll Óskarsson TF3AO. Ingus kom í heimsókn í félagsaðstöðuna þann 25. október. Hann var mjög hrifinn af aðstöðunni og sérstaklega að félagarnir hafi tækifæri til að hittast vikulega í eigin aðstöðu (sem ekki er í boði þar sem hann býr í Lettlandi). Hann mun dvelja hér á landi í tæpar tvær vikur.

Benedikt Guðnason TF3TNT stöðvarstjóri TF3IRA, festir upp á ný J-pól loftnet fyrir VHF/UHF böndin
þann 25. október. Loftnetið er afar vandað og var smíðað af Vilhjálmi Ívari Sigurjónssyni, TF3VS, og
gefið félaginu. Það er smíðað úr koparrörum og var orðið verulega tært þegar Benedikt kom höndum yfir
það og þreif upp og pússaði. Síðan var netið úðað með sérstakri málningu sem mun verja koparinn fyrir
söltum sjávarúða Atlantshafsins í hvassviðrum vetrarins.

Kenwood TS-2000 stöð félagsins bilaði nýlega þannig að hún hætti að senda út. Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI tók að sér að gera við hana og með aðstoð Róberts Harrys Jónssonar TF8TTY sem útvegaði hálfleiðara til viðgerðarinnar, komst hún í lag. Ari kom með TS-2000 stöðina í hús í Skeljanesi þann 25. október og fór fram viðamikil prófun á staðnum sem stöðin stóðst með prýði. Stjórn Í.R.A. þakkar þeim TF3ARI og TF8TTY sérstaklega fyrir verðmæta aðstoð þeirra félaga við að koma stöðinni í lag á ný. Myndin var tekin þegar Ari prófaði stöðina í gervihnattaviðskiptum frá TF3IRA. Frá vinstri: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Mathias Hagvaag TF3-Ø35, Claudio Corcione TF2CL, Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI og Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS.

Bjarni Sverrisson TF3GB, QSL stjóri innkominna korta og QSL stjóri fyrir kallmerki félagsstöðvarinnar, kom færandi hendi í Skeljanes þann 25. október. Um var að ræða bunka innkominna QSL korta til félagsmanna sem hann síðan flokkaði niður og raðaði í hólf þeirra í QSL skápnum í aðstöðu QSL stofu félagsins á 2. hæð. Með Bjarna á myndinni eru þeir Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB og Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS, sem aðstoðuðu hann við flokkunina.

Fimmtudagskvöldið 25. október var einnig mikið að gerast utanhúss. Þá var gengið frá uppsetningu á 1/4-bylgju færanlegu stangarloftneti TF3SG fyrir 80 metra bandið, sem hann lánar félaginu til notkunar í CQ World-Wide keppninni á SSB sem haldin verður nú um helgina 27.-28. október. Þeir sem komu að uppsetningunni voru Jón Ágúst Erlingsson TF3ZA, Benedikt Sveinsson TF3CY, Erling Guðnason TF3EE og Guðmundur Sveinsson TF3SG.

Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA flutti vel heppnað erindi í Skeljanesi þann 25. október.

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, flutti fimmtudagserindið í félagsaðstöðunni í Skeljanesi þann 25. október. Erindi Sæmundar fjallaði um fæðilínur og var mjög áhugavert. Fram kom m.a. að fæðilínur eru jöfnum höndum kallaðar flutningslínur og flytja afl (merki) á milli sendis og loftnets, yfirleitt í báðar áttir. Fram kom einnig, að flutningslínur þykja lítt áhugaverðar þegar bylgjulegdin er miklu lengri en línan sjálf. Farið var yfir mismunandi gerðir lína, standbylgjur og margt fleira. Glærur sem fylgdu erindinu verða fljótlega settar inn á heimasíðu félagsins.

Stjórn Í.R.A. þakkar Sæmundi E. Þorsteinssyni, TF3UA, fyrir erindið og Jóni Svavarsyni, TF3LMN fyrir meðfylgjandi ljósmyndir.

Sæmundur fór á áhugaverðan hátt út í “praktíska” þætti eins og t.d. gerð línuspenna úr kóaxköplum.

Fyrirspurnum úr sal var svarað strax, faglega og án allra málalenginga.

Drjúgur tími fór í yfirferð á standbylgjum, enda áhugi mikill hjá viðstöddum á efninu.

Útskýringar í kaffihléi. Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA og Vilhjálmur Ívar Sigurjónsson TF3VS.

Útskýringar í kaffihléi. Haraldur Þórðarson TF3HP og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA

Jón Ágúst Erlingsson, TF3ZA.

Björn Mohr, SMØMDG

 

 

 

 

 

 

 

 

Félagsstöðin TF3W verður virkjuð í CQ World-Wide SSB keppninni um þessa helgi, 27.-28. október. Alls munu fjórir leyfishafar koma að rekstrinum, einn Íslendingur og þrír Svíar. Stöðin mun taka þátt á öllum böndum í keppnisriðlinum Fleirmenningsstöðvar, fullt afl, einn sendir. Þátttakendur eru: Jón Ágúst Erlingsson, TF3ZA, liðsstjóri; Björn Mohr, SMØMDG (einnig 7SØX og SEØX,); Patrik Pihl, SMØMLZ (einnig SGØX); og Ulf H. Tjerneld, SMØNOR (einnig SFØX).

Allir hafa reynslu af þátttöku í alþjóðlegum keppnum, auk þess sem þeir Jón og Björn voru báðir þátttakendur í DX-leiðangrinum til JX5O í fyrra. Björn hefur þar að auki farið í DX-leiðangra til JW (2009) og DU (2011). Svíarnir eru allir Stokkhólmsbúar og eru væntanlegir til landsins síðar í dag (fimmtudag).

Stjórn Í.R.A. óskar hópnum góðs gengis og hvetur aðra leyfishafa til þátttöku í keppninni.

 

Patrik Pihl SMØMLZ (SGØX)

Ulf H. Tjerneld SMØNOR (SFØX).

Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA.

Næsti viðburður á vetrardagskrá Í.R.A. verður haldinn fimmtudaginn 25. október kl. 20:30. Þá mætir Sæmundur E. Þorsteinsson, TF3UA, í Skeljanes og flytur erindi um fæðilínur og skylda hluti er snerta aðlögun sendis og loftnets.

Stjórn Í.R.A. hvetur félagsmenn til láta þetta áhugaverða efni ekki fram hjá sér fara og mæta stundvíslega.

CQ World-Wide SSB keppnin 2012 verður haldin um næstu helgi, dagana 27.-28. október. Keppnin er 48 klst. keppni og hefst kl. 00:00 á laugardag og lýkur kl. 23:59 á sunnudag. CQ World-Wide fer fram á öllum böndum, þ.e. 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Í boði eru fjölmargir keppnisriðlar, bæði fyrir einmennings og fleirmenningsþáttöku (sjá reglur). Í keppninni eru skilaboðin: RS + CQ svæði (e. zone), t.d. 59-40.

Þátttaka var mjög góð frá TF í fyrra (2011) og sendu alls 11 stöðvar inn keppnisdagbækur. Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, náði afburðaárangi í sínum keppnisflokki og varð í 1. sæti yfir Evrópu og handhafi Evrópubikarsins. Þessi niðurstaða tryggði honum jafnframt 3. sæti yfir heiminn; bronsverðlaunin. Keppnin er stærsta alþjóðlega keppni ársins á tali og eru þátttakendur tugir þúsunda um allan heim. Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í keppninni.

Sjá keppnisreglur hér: http://www.cqww.com/rules.htm

Heimasíða keppninnar: http://www.cqww.com/

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW

Ágætt úrval var af 100W HF sendi-/móttökustöðvum á flóamarkaðnum, m.a. frá Kenwood og Yaesu.

Flóamarkaður Í.R.A. fór fram sunnudaginn 21. október í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Metaðsókn var, en alls komu 46 félagar og gestir á staðinn. Húsið var opið frá hádegi til kl. 16. Framboð var ágætt, m.a. Kenwood TS-140S HF stöð ásamt PS-430 aflgjafa, Yaesu FT-847 HF stöð ásamt FT-20 loftnetsaðlögunarrás, Yaesu FT-900 HF stöð, Yaesu FT-107M HF stöð með FV-107 VFO, FP-107E sambyggðum aflgjafa/hátalara og FC-107 sambyggðri loftnetsaðlögunarrás/loftnetaskipti, nokkrar Yaesu FT-180A stöðvar, Yaesu FRG-7000viðtæki, Alinco DM-330MVT 30A aflgjafi, mikið magn af eldri VHF og UHF stöðvum, smíðaefni, íhlutir, kassar til smíða, mælitæki og margs konar aukahlutir (m.a. frá MFJ og Yaesu), auk loftneta fyrir HF VHF og UHF böndin frá Diamond, M2, Cushcraft og WiMO. Þá var ágætt framboð af tölvum, lyklaborðum og LCD tölvuskjám. Hápunktur dagsins var uppboð á dýrari hlutum og búnaði sem haldið var stundvíslega kl. 14 og annaðist Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, það af einskærri snilld. Alls voru 15 “númer” á uppboðinu og sala með ágætum. Óhætt er að fullyrða að þeir sem gerðu viðskipti á flóamarkaðnum hafi undantekningarlaust gert góð kaup. Hér á eftir fylgja nokkrar ljósmyndir.

Einar Ívar Eiríksson TF3ZE skoðar Yaesu FT-847 og Yaesu FC-20 loftnetsaðlögunarrás sem fylgdi með.

Uppboð í gangi. Frá vinstri: Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ægir Þór Ólafsson TF2CT, Ársæll Óskarsson TF3AO, Benedikt Guðnason TF3TNT, Guðmundur Sveinsson TF3SG og Stefán Arndal TF3SA.

Uppboð í gangi. Frá vinstri: Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Gunnar Svanur Hjálmarsson TF3FIN og Svanur yngri, Sveinn Bragi Sveinsson TF3SNN, Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33, Garibaldi Sveinsson og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA.

Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN gerði góð kaup á flóamarkaðnum í tölvu, lyklaborði, skjá og mús.

Margt áhugavert var í boði. Frá vinstri: Stefán Arndal TF3SA, Jón Ingvar Óskarsson TF1JI, Ari Þórólfur Jóhannesson TF3ARI og Benedikt Sveinsson TF3CY.

Piotr Brzozowski TF3PLN og Hans Konrad Kristjánsson TF3FG sögðust hafa gert mjög góð viðskpti.

Höskuldur Elíasson TF3RF og Stefán Þórhallsson TF3S voru ekki að leita að neinu sérstöku, en sögðu engu að síður margt áhugavert vera í boði á flóamarkaðnum þetta árið.

TF3ARI og TF3TNT leiðbeindu og voru með sýnikennslu á hraðnámskeiði í gervihnattafjarskiptum.

Laugardagurinn 20. október var afkastamikill í Skeljanesi. Eftirfarandi fór fram: Hraðnámskeið/sýnikennsla frá TF3IRA í fjarskiptum um gervitungl, uppsetning nýs stangarloftnets fyrir TF3IRA, undirbúningur fyrir flóamarkað Í.R.A. á sunnudag og tiltekt á lóðinni við húsið. Dagurinn leið fljótt og allt saman gekk skínandi vel.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Benedikt Guðnason, TF3TNT, leiðbeindu og voru með sýnikennslu á hraðnámskeiði í fjarskiptum um gervitungl radíóamatöra frá félagsstöðinni, TF3IRA. Viðburðurinn var afar fróðlegur og vel heppnaður þrátt fyrir nokkra byrjunarörðugleika. Félgsstöðin er mjög vel búin til þessara fjarskipta sem sýndi sig í þeim samböndum sem höfð voru. Menn tóku almennt undir umsögn eins viðstaddra sem sagði í lok námskeiðsins: „Ég hef lært mikið í dag”. Ekki reyndist unnt að keyra Nova „tracking” forritið sem keypt var fyrir stöðina nýlega, en fram kom hjá leiðbeinendum að menn þurfi meiri tíma til að kynna sér
eiginleika þess. Námskeiðið verður endurtekið þann 17. nóvember n.k.

Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33 og Sigurður R. Jakobsson TF3CW
ganga frá festingu nýja Butternut HF6V loftnetsins.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, færði félaginu nýlega að gjöf Butternut HF6V stangarloftnet sem er 6 banda loftnet fyrir 80, 40, 30, 20, 15 og 10 metra böndin. Loftnetið var sett upp laugardaginn 20. október og annaðist Sigurður uppsetningu þess með aðstoð Baldvins Þórarinssonar, TF3-Ø33. Nýja loftnetið var þegar tekið í notkun fyrir TF3IRA í stað eldra stangarloftnets sem tekið var niður vegna bilunar.

Stjórn Í.R.A. þakkar Sigurði rausnarlega gjöf og þeim Baldvin fyrir vinnuna við uppsetningu loftnetsins.

Jón Óskarsson TF1JI aðstoðar við undirbúning flóamarkaðarins ásamt Benedikt Guðnasyni TF3TNT.

Ætíð er nokkur vinna við undirbúning árlegs flóamarkaðar félagins, sem að þessu sinni var haldinn sunnudaginn 21. október. Degi fyrr (laugardaginn 20. október) mætti vaskur hópur í Skeljanes til undirbúnings félagsaðstöðunnar. Uppröðun fór þannig fram, að í fundarsal voru sett upp söluborð fyrir dót á vegum félagsins og aðstaða fyrir félagsmenn sem komu með dót til sölu. Við gönguleið inn í húsið var þeim búnaði síðan komið fyrir (til beggja handa) sem var gefins til félagsmanna. Undirbúningi var að mestu lokið laust fyrir kl. 19 á laugardag.

Lóðin milli hússins og bárujárnsveggjarins sem snýr út að götunni hefur nú að mestu verið hreinsuð.

Guðmundur Sveinsson, TF3SG, hefur unnið stórvirki hvað varðar færslu turneininganna sem voru á milli hússins og bárujárnsveggjarins við götuna. Verkefnið tók rúma þrjá daga og var því lokið að mestu á laugardagsmorguninn þegar Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33, kom til aðstoðar.

Stjórn Í.R.A. þakkar Guðmundi Sveinssyni, TF3SG, fyrir þetta góða framlag.


Ljósmyndir 1, 3 og 4: TF3JB.
Ljósmynd 2: TF3SB.