,

Námskeið, nýtt loftnet og margt fleira í Skeljanesi

TF3ARI og TF3TNT leiðbeindu og voru með sýnikennslu á hraðnámskeiði í gervihnattafjarskiptum.

Laugardagurinn 20. október var afkastamikill í Skeljanesi. Eftirfarandi fór fram: Hraðnámskeið/sýnikennsla frá TF3IRA í fjarskiptum um gervitungl, uppsetning nýs stangarloftnets fyrir TF3IRA, undirbúningur fyrir flóamarkað Í.R.A. á sunnudag og tiltekt á lóðinni við húsið. Dagurinn leið fljótt og allt saman gekk skínandi vel.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI og Benedikt Guðnason, TF3TNT, leiðbeindu og voru með sýnikennslu á hraðnámskeiði í fjarskiptum um gervitungl radíóamatöra frá félagsstöðinni, TF3IRA. Viðburðurinn var afar fróðlegur og vel heppnaður þrátt fyrir nokkra byrjunarörðugleika. Félgsstöðin er mjög vel búin til þessara fjarskipta sem sýndi sig í þeim samböndum sem höfð voru. Menn tóku almennt undir umsögn eins viðstaddra sem sagði í lok námskeiðsins: „Ég hef lært mikið í dag”. Ekki reyndist unnt að keyra Nova „tracking” forritið sem keypt var fyrir stöðina nýlega, en fram kom hjá leiðbeinendum að menn þurfi meiri tíma til að kynna sér
eiginleika þess. Námskeiðið verður endurtekið þann 17. nóvember n.k.

Baldvin Þórarinsson TF3-Ø33 og Sigurður R. Jakobsson TF3CW
ganga frá festingu nýja Butternut HF6V loftnetsins.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, færði félaginu nýlega að gjöf Butternut HF6V stangarloftnet sem er 6 banda loftnet fyrir 80, 40, 30, 20, 15 og 10 metra böndin. Loftnetið var sett upp laugardaginn 20. október og annaðist Sigurður uppsetningu þess með aðstoð Baldvins Þórarinssonar, TF3-Ø33. Nýja loftnetið var þegar tekið í notkun fyrir TF3IRA í stað eldra stangarloftnets sem tekið var niður vegna bilunar.

Stjórn Í.R.A. þakkar Sigurði rausnarlega gjöf og þeim Baldvin fyrir vinnuna við uppsetningu loftnetsins.

Jón Óskarsson TF1JI aðstoðar við undirbúning flóamarkaðarins ásamt Benedikt Guðnasyni TF3TNT.

Ætíð er nokkur vinna við undirbúning árlegs flóamarkaðar félagins, sem að þessu sinni var haldinn sunnudaginn 21. október. Degi fyrr (laugardaginn 20. október) mætti vaskur hópur í Skeljanes til undirbúnings félagsaðstöðunnar. Uppröðun fór þannig fram, að í fundarsal voru sett upp söluborð fyrir dót á vegum félagsins og aðstaða fyrir félagsmenn sem komu með dót til sölu. Við gönguleið inn í húsið var þeim búnaði síðan komið fyrir (til beggja handa) sem var gefins til félagsmanna. Undirbúningi var að mestu lokið laust fyrir kl. 19 á laugardag.

Lóðin milli hússins og bárujárnsveggjarins sem snýr út að götunni hefur nú að mestu verið hreinsuð.

Guðmundur Sveinsson, TF3SG, hefur unnið stórvirki hvað varðar færslu turneininganna sem voru á milli hússins og bárujárnsveggjarins við götuna. Verkefnið tók rúma þrjá daga og var því lokið að mestu á laugardagsmorguninn þegar Baldvin Þórarinsson, TF3-Ø33, kom til aðstoðar.

Stjórn Í.R.A. þakkar Guðmundi Sveinssyni, TF3SG, fyrir þetta góða framlag.


Ljósmyndir 1, 3 og 4: TF3JB.
Ljósmynd 2: TF3SB.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

twelve − six =