Áður auglýst fimmtudagserindi um viðurkenningarskjöl radíóamatöra sem fyrirhugað var að halda n.k. fimmtudag, 9. desember, fellur niður. Þess í stað verður opið hús í félagsaðstöðunni.

Fyrirhugað er að erindið verði á vetrardagskrá-II á tímabilinu febrúar-apríl n.k. Vetrardagskrá-I er að öðru leyti óbreytt til áramóta.

Beðist er velvirðingar á þessari breytingu.

TF3JA, TF3AO og TF3HP héldu erindi um APRS 2. desember s.l. Ljósmynd: TF3LMN.

TF3DX flutti erindi um sólbletti og radíóbylgjur 25. nóvember s.l. Ljósmynd: TF3LMN.

Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA; Ársæll Óskarsson, TF3AO; og Haraldur Þórðarson, TF3HP sameinuðust um að flytja erindi um APRS kerfið og reynsluna af því hér á landi fimmtudagskvöldið 2. desember s.l. Umfjöllunarefnið er áhugavert og kom m.a. fram hjá þeim félögum að APRS kerfið verður að fullu uppsett alveg á næstunni – a.m.k. fyrir áramót.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX, flutti áhugavert erindi um sólbletti og útbreiðslu radíóbylgna fimmtudagskvöldið 25. nóvember s.l. Margt áhugavert kom fram, m.a. að búast megi við bættum DX skilyrðum á hærri böndunum í stuttbylgjusviðinu á næstu mánuðum. Vilhjálmur fjallaði jafnframt um skilyrðin á lægri böndunum.

Um 20 félagsmenn sóttu hvort erindi um sig.

Stjórn Í.R.A. þakkar ofangreindum aðilum fyrir framlag þeirra.

 TF3JB

Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA. Ljósm.: TF2JB.

Næsta fimmtudagserindi verður fimmtudaginn 2. desember n.k. kl. 20:30.

Fyrirlesari kvöldsins er Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA, og nefnist erindið “APRS kerfið og reynsla af því á Íslandi”.

Jón Þórodd þarf vart að kynna þar sem hann hefur mikið starfað innan félagsins s.l. áratugi. Hann starfar innan félagsins í dag sem neyðarfjarskiptastjóri Í.R.A.

Félagar, mætum stundvíslega! Kaffiveitingar og vandað meðlæti verða í boði félagssjóðs í fundarhléi kl. 21:15.

Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX. Ljósmynd: TF3LMN.

Næsta fimmtudagserindi á vetrardagskrá félagsins verður haldið fimmtudaginn 25. nóvember n.k. kl. 20:30. Fyrirlesari kvöldsins er Vilhjálmur Þór Kjartansson, TF3DX og nefnist erindið “Sólblettir og útbreiðsla radíóbylgna”.

Vilhjálm þarf vart að kynna félagsmönnum, það mikið hefur hann starfað fyrir félagið s.l. áratugi. Hann starfar innan félagsins í dag sem formaður prófnefndar.

Félagar, mætum stundvíslega! Kaffiveitingar verða í fundarhléi kl. 21:15 og meðlæti verður í boði Mosfellsbakarís, konditoris.

Að undanförnu hafa nokkrir félagsmenn lent í vandræðum við að sækja efni og/eða að tengjast vefum Í.R.A. Hér á eftir er stuttlega fjallað um: (1) Aðgang að þeim hluta heimasíðu félagsins sem er lokaður öðrum en félagsmönnum; (2) póstlista Í.R.A.; og (3) leiðbeiningar um hvernig kalla má fram eldri fréttir á heimasíðunni.

Hvað varðar aðgangskóða, má „biðja” tölvuna um að geyma aðgangsorðin og eftir það er aðgangur hraður og öruggur. Undirritaður mælir með þessari aðferð og hefur t.d. ekki átt í vandræðum hvað þetta áhrærir a.m.k. í 2 ár. Ef aðgangskóði er gleymdur eða ef tölvan hefur ekki verið “beðin” um að geyma kóðann, má einfaldlega smella á gluggann sem opnast (ef aðgangur er ekki heimilaður vegna þess að kóðinn er rangur) og biðja um nýjan. Hann mun berast innan fárra mínútna um tölvupóst. Það sama gildir um aðgang að póstlista Í.R.A. Loks eru það fréttirnar. Ástæða er til að útskýra að auðvelt er að nálgast eldri fréttir sem birst hafa á heimasíðunni allt aftur til júnímánaðar 2008. Til skýringar má geta þess, að undanfarin misseri hefur rennsli frétta verið töluvert mikið og hver frétt hefur ekki nema 2 vikna “líftíma”, þ.e. eftir þann tíma hverfur hún af skjánum. En hún fer í sjálfu sér ekki langt, sbr. leiðbeiningar neðar.

(1) Heimasíða. Nýtt 32 blaðsíðna tölublað CQ TF, 4. tbl. 2010 kom út s.l. föstudag (12. nóvember). Ef ofangreindar leiðbeiningar virka ekki, má leita til Sveins Braga Sveinssonar, TF3SNN, um aðstoð og mun hann „kippa” málinu fljótt og vel í lag. Senda má tölvupóst á hann á póstfangið ira@ira.is. Sjá einnig: http://www.ira.is/pages/viewpage.action?pageId=4555515

(2) Póstlisti. Félagsmenn, sem óska eftir aðgangi að Póstlista Í.R.A. geta á sama hátt óskað eftir aðstoð með því að senda Sveini Braga tölvupóst á ofangreint póstfang. Athugið, að aðgangskóði að heimasíðu er annar en sá sem er að póstlista, þar sem póstlistinn er hluti af „Yahoo” en heimasíðan vinnur í „Atlassian Confluence” umhverfi. Ástæða er til að endurtaka, að það góða við þessa kóða er, að eftir að þeir hafa einu sinni verið settir inn í tölvuna, má láta hana muna þá – líkt og t.d. er með heimabanka, aðgang að áskrift dagblaða o.s.frv.

(3) Fréttir. Þegar heimasíða félagsins er opnuð, blasir við orðið „Fréttir” sem er undirstrikað (fyrir neðan bleika kassann „Radíóamatörnámskeið”). Ef bendillinn er færður yfir orðið „Fréttir” og vinstri smellt á músina, kemur upp ný síða og nýjasta fréttin færist til vinstri á síðunni og hægra megin á móti henni birtist mánaðardagatal, þ.e. „Nóvember 2010″ (sem er undirstrikað). Jafnframt birtist lítil ör vinstra megin við orðin „Nóvember 2010″. Ef tvísmellt er á örina, koma upp allar fréttir sem birst hafa á heimasíðunni í nóvembermánuði í tímaröð, þ.e. fyrsta frétt mánaðarins var sett á heimasíðuna 2. dag mánaðarins o.s.frv. Ef áhugi er á að skoða eldri fréttir sem birst hafa á heimasíðunni t.d. í október, er einfaldlega smellt aftur á örina og þá koma upp allar fréttir sem birtust í október o.s.frv. Önnur ör birtist hægra megin við mánaðardagatalið ef t.d. er óskað að fara frá október fram í nóvembermánuð.

Með góðri kveðju frá Hvanneyrarstað,

73 de TF2JB.

Nýjasta hefti félagsblaðsins okkar, CQ TF, er komið út og má nálgast á vef félagsins. Um er að ræða októberheftið, sem er í seinna lagi að þessu sinni en kemur vonandi ekki að sök. Við höfum fengið aðstoð við umbrot og uppsetningu blaðsins, sem hjálpaði til við útgáfuna og fellur lesendum vonandi vel. Skilafrestur janúarheftis er sunnudaginn 19. desember.

Við óskum félagsmönnum ánægjulegs lestrar!

 

Hustler G6-144B loftnetið sem tengt er við TF1RPB. Ljósmynd: TF3WS.

TF1RPB (“Páll”) varð QRV á ný frá Bláfjöllum í dag, 9. nóvember, um kl. 13:00. Sigurður Harðarson, TF3WS, lagði á fjallið í morgun og tengdi Zodiac endurvarpann á ný. Hann hefur verið endurforritaður hvað varðar útsendingartíma (e. time-out) og er hann nú stilltur á 4 mínútur. Til upprifjunar eru vinnutíðnir endurvarpans þessar: 145.150 MHz RX / 145.750 MHz TX.

Í framhaldi uppsentingarinnar, voru gerðar prófanir, m.a. við Heimir Konráðsson, TF1EIN, sem var staddur í bíl í Hveragerði, Jónas Bjarnason, TF2JB, á Hvanneyri í Borgarfirði (heimastöð) og Ara Þór Jóhannesson, TF3ARI, í Reykjavík (heimastöð). Prófanirnar komu mjög vel út.

Stjórn Í.R.A. færir Sigurði Harðarsyni, TF3WS, sérstakar þakkir fyrir frábæra aðstoð.

Ársæll Óskarsson, TF3AO.

Ársæll Óskarsson, TF3AO, gerðist fyrir nokkru fulltrúi UX5UO Print prentsmiðjunnar í Úkraínu hér á landi. Prentsmiðjan er í eigu Gennady V. Treus, UX5UO, sem hefur verið leyfishafi frá 1967. Gennady segir á heimasíðu fyrirtækisins http://www.ux5uoqsl.com/ að hann hafi prentað QSL kort fyrir alls 11.830 mismunandi kallmerki í 300 DXCC löndum (m.v. 1.11. s.l.).

Í nýlegu símtali við Sæla kom fram, að hann mun bjóða mönnum að panta hjá sér kort og greiða í íslenskum krónum. Dæmi úr verðlista:

Teg. Bureau: Framhlið: 2 litir: rauður/svartur, blár/svartur eða grænn/ svartur. Bakhlið: Auð. Verð: 36 EUR/1000; ca. pr. stk. 7,85 IKR.
Teg. Ecomic: Framhlið: Litur með mattri áferð. Bakhlið: Grátt letur eða auð. Verð: 49 EUR/1000; ca. pr. stk. 10,51 IKR
Teg. Luxury: Framhlið: Litur með glans áferð. Bakhlið: Grátt letur eða auð. Verð: 59 EUR/1000; ca. pr. stk. 12,55 IKR.

Innifalið í áætluðu verði er 25,5% virðisaukaskattur og flutningur til Íslands. Verð er miðað við gengi EUR kr: 155.

Þetta er þjónusta sem hefur vantað hér á landi og á Sæli þakkir skildar fyrir framtakið.

Sigurður R. Jakobsson, TF3CW, náði frábærum árangri í CQWW SSB DX keppninni sem haldin var helgina 30.-31. október s.l. Hann hafði nær 3.200 QSO, 36 svæði og 160 DXCC einingar á 27 klst. þátttöku á 14 MHz. Hann vann frá eigin QTH í Garðabæ, notaði QRO afl og 4 stika Yagi einsbandsloftnet í bylgjulengdar hæð. Niðurstaðan (e. claimed score) er rúmlega 1 milljón stiga. Þetta er frábær árangur, ekki síst þegar litið er til þess hve skilyrðin á bandinu versnuðu þegar leið á síðari daginn. Hamingjuóskir til Sigurðar með árangurinn.

Aðrar TF stöðvar sem vitað er að hafi tekið þátt í keppninni eru: TF1AM, TF2JB, TF2LL, TF3AO, TF3IG, TF3SG, TF3Y, TF5B og TF8GX. Af þeim höfðu fjórar stöðvar skilað inn keppnisdagbókum í eftirmiðdaginn í dag (laugardag): TF3AO (15m, QRO afl, 37.931 stig); TF3IG (öll bönd, QRO afl, 15.456 stig); TF3SG (160m, QRO afl, 84.360 stig); og TF3Y (öll bönd, QRO afl, 310.284 stig). Samkvæmt þessu hafa a.m.k. 9 TF stöðvar tekið þátt í keppninni.

Tæpar þrjár vikur eru í CW-hluta keppninnar 2010 og verður hún haldin helgina 27.-28. nóvember n.k.

Það kom þegar í ljós við upphaf erindisins að TF3ARI bjó bæði yfir reynslu og þekkingu á umfjöllunarefninu.

Þrátt fyrir frostkalt kvöld í Reykjavík fimmtudaginn 4. nóvember 2010, mættu 22 leyfishafar í félagsaðstöðu Í.R.A. í Skeljanesi til að hlýða á erindi Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF3ARI, um gervitungl radíóamatöra. Þetta yfirgripsmikla efni var sérlega vel afgreitt frá hendi Ara og þegar í upphafi var ljóst að þar fór maður sem talaði af reynslu og þekkingu á umfjöllunarefninu. Ari fjallaði m.a. um helstu gervihnetti sem senda má í gegnum frá Íslandi og benti á sérstöðu okkar (hvað varðar tilgreinda gervihnetti) til samskipta annarsvegar við Evrópustöðvar og hins vegar við stöðvar í Norður-Ameríku.

Þar sem ekki hefur verið mikil virkni frá Íslandi undanfarin misseri, segir hann mikinn áhuga vera á samböndum við TF stöðvar sem eru QRV um gervihnetti. Ari sýndi m.a. netta 5W handstöð með ca. 40 cm löngu loftneti af gerðinni TG-UV2 frá Quansheng, sem hann hefur notað til að hafa DX sambönd um AO-51 gervihnöttinn. Hann sýndi jafnframt áhugavert handloftnet sem lítur út eins og regnhlíf og brjóta má saman þannig að lítið fer fyrir þegar það er ekki í notkun (sjá mynd 1). Erindið er góður undirbúningur yfir þá félagsmenn sem hafa hug á að verða QRV gegnum gervihnetti og/eða hafa í hyggju að sækja verkleg námskeið sem eru framundan á vetrardagskránni um “Hvernig sambönd eru höfð um gervitungl”.

Bestu þakkir til Ara fyrir ánægjulega og fróðlega kvöldstund.

Höskuldur Elíasson, TF3RF; Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG; Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN; Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN; Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS; Matthías Hagvaag, TF3-035; Reynir Björnsson, TF3JL; og Einar Ívar Eiríksson, TF3ZE.

Jón Þóroddur Jónsson, TF3JA; Benedikt Sveinsson, TF3CY; Haraldur Þórðarson, TF3HP; Guðmundur Sveinsson, TF3SG; og Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN.

Umræður héldu áfram í kaffihléi. Frá vinstri: Ari Þórólfur Jóhannesson, TF3ARI; Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS; Einar Ívar Eiríksson, TF3ZE; Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN; og Samúel Þór Guðjónsson, TF2SUT.

TF2JB