L’association Réseau des Émetteurs Français (REF), landsfélag radíóamatöra í Frakklandi, hefur ákveðið að bjóða radíóamatörum um allan heim opinn aðgang að apríl og maíheftum félagsblaðsins Radio-REF.

ÍRA þakkar REF fyrir boðið sem hér með er komið á framfæri við félagsmenn.

Stjórn ÍRA.

ttps://www.r-e-f.org/images/flippingbook/2020_04/2020_04.pdf
https://www.r-e-f.org/images/flippingbook/2020_05/2020_05.pdf

Frumvarpi til til nýrra fjarskiptalaga var dreift á Alþingi í dag, 7. maí. Það er m.a. til innleiðingar á nýjum fjarskiptapakka ESB, auk kynningar á uppfærslu reglugerðar ESB um samstarfsvettvang evrópskra eftirlitsaðila, svonefndar BEREC og TSM reglugerðir ásamt uppfærslu eldri gerða samkvæmt tilskipun ESB nr. 2018/1972.

Uppkast að frumvarpinu var til umfjöllunar á stjórnarfundi í ÍRA þann 3. febrúar s.l. Niðurstaða var, að ekki væri sérstök ástæða til umsagnar eða afskipta félagsins, enda áhyggjur manna um að ferlið hreyfði við CE merkingum og undanþágum fyrir radíóamatöra óþarfar, þar sem ekkert væri fjallað um þau mál í frumvarpsdrögunum.

Fundargerðin er birt í heild á bls. 40-42 í 2. tbl. CQ TF 2020 sem kom út 22. mars s.l., vefslóð: http://www.ira.is/…/2020/03/cqtf_34arg_2020_02tbl.pdf…

Þýskir radíóamatörar fengu bráðabirgðaheimild (e. preliminary provisional implementation) til notkunar á 50 MHz bandinu í gær (6. maí) sem gildir úr árið 2020. Heimildin  byggir á samþykkt radíótíðniráðstefnu ITU (WRC-19).

Heimildin nær til tíðnisviðsins 50.000-52.000 MHz, er á víkjandi grundvelli og leyfir allar tegundir útgeislunar með mest 12 kHz bandbreidd. Skilyrt er að nota loftnet sem senda út lárétt póluð merki.

Aflheimild er tvískipt: 750W fyrir hærra leyfi og 100W fyrir lægra leyfi á tíðnisviðinu 50.000 MHz til 50.400 MHz og mest 25W á tíðnisviðinu fyrir báða leyfisflokka á 50.400-52.000 MHz.

Stjórn ÍRA á í viðræðum við Póst- og fjarskiptastofnun um útfærslu heimilda á 50 MHz hér á landi.

Stjórn félagsins samþykkti í dag, 4. maí, að félagsaðstaðan í Skeljanesi verði lokuð áfram, a.m.k. næstu 3-4 vikur – eða til 1. júní n.k.

Ákvörðunin byggir á tilskipun heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsóttar sem tók gildi í dag, 4. maí, og gildir til 1. júní, um að fjöldatakmörkun á samkomum miðast nú við 50 manns í stað 20, að því tilskyldu að tveggja metra reglu sé fylgt.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra segir, að stefnt sé að frekari afléttingu samkomutakmarkana eftir 3-4 vikur, þ.e. á bilinu 25. maí – 1. júní. Þó er áréttað að taka þurfi mið af stöðu faraldursins hér á landi áður en ákvörðun er tekin.

Það er von okkar að þessari ákvörðun fylgi skilningur.

Stjórn ÍRA.

Niðurstöður í morshluta CQ World Wide DX keppninnar 2019 eru birtar í maíhefti CQ tímaritsins 2020.

Niðurstöður eru eftirfarandi fyrir TF stöðvar:

TF3VS – 20M, einmenningsflokkur, lágafl: EU=84. sæti/heimur=146. sæti.
TF3W –  20M, einmenningsflokkur, háafl, aðstoð: EU=70. sæti/heimur=98. sæti.
TF3JB – 40M, einmenningsflokkur, háafl, aðstoð: EU=86. sæti/heimur=136. sæti.
TF3EO – Öll bönd, einm. flokkur, lágafl, aðstoð: EU=480. sæti/heimur=875. sæti.

TF3DC, TF3SG, TF3Y og TF4M sendu inn viðmiðunardagbækur (e. check-log).           

Eftirtaldir íslenskir leyfishafar kepptu erlendis:

ED8W (TF3CW) – 40M, einmenningsflokkur, háafl: AF=1. sæti/heimur=2. sæti.
OZ1OM (TF3WK) – Öll bönd, lágafl, aðstoð „Classic“:  EU=331. sæti/heimur=568. sæti.

Hamingjuóskir til Sigurðar R. Jakobssonar, TF3CW, sem virkjaði ED8W og náði frábærum árangri: 1. sæti yfir Afríku og 2. sæti yfir heiminn.

Hamingjuóskir til allra þátttakenda.

RSGB, landsfélag radíóamatöra í Bretlandi, hefur ákveðið að bjóða radíóamatörum um allan heim opinn aðgang að maíhefti félagsblaðsins RadCom. Blaðið er að þessu sinni 100 blaðsíður að stærð.

ÍRA þakkar RSGB fyrir boðið sem hér með er komið á framfæri við félagsmenn.

Stjórn ÍRA.

www.rsgb.org/sampleradcom

Ný spá SWPC, sem byggir á niðurstöðum NOAA lotu-25 sérfræðingahópsins gerir ráð fyrir að búast megi við hámarki sólbletta nýrrar lotu 25, á bilinu 105 til 125. Hámaki er spáð á tímabilinu frá nóvember 2024 til mars 2026.

Almenn samstaða virðist vera á meðal vísindamanna um að botni 24. lotu hafi þegar verið náð (í desember 2019) ellegar að það verði í síðasta lagi á þessu ári (2020).

Almennt séð, eru vísindamenn þeirrar skoðunar að fjöldi sólbletta í lotu 25 verði plús/mínus 20% samanborið við þá fyrri.

https://www.swpc.noaa.gov/products/aurora-30-minute-forecast

https://link.springer.com/article/10.1007/s41116-020-0022-z/tables/2

(SWPC = Space Weather Prediction Center)
(NOAA = National Oceanic and Atmospheric Administration)

Línurit: Heimild SpaceWeatherLive.com

Japanskir radíóamatörar fengu í gær (21. apríl) uppfærðar tíðniheimildir á 160 metrum. Tíðnisvið þeirra eru nú: 1800–1810 kHz og 1825–1875 kHz; allar tegundir útgeislunar. Innifalið er m.a. SSB sem þeir hafa ekki haft áður á þessu bandi.

Hingað til hafa sambönd við Japan á bandinu, t.d. á FT8 samskiptahætti, farið fram á skiptri tíðni (e. split frequency) eins margar TF stöðvar hafa reynslu af. Þessi breyting mun hafa verulega einföldum í för með sér á þessu erfiða bandi.

Eftir breytinguna 21.4.2020 er hægt að hafa sambönd við JA stöðvar t.d. á FT8 samskiptahætti á 1840 kHz en áður þurftu slík sambönd að fara fram á skiptri tíðni (hlustað á 1908 kHz). Ljósmynd: TF3JB.

Nýtt kallmerki ÍRA, TF3WARD, var virkjað á Alþjóðadag radíóamatöra laugardaginn 18. apríl. Alls voru höfð 320 QSO á morsi og tali á 20, 30 og 40 metrum við 46 DXCC einingar, þ.á.m. Afganistan og Taíland. Mikil virkni var á böndunum þennan dag í þokkalegum skilyrðum, þ.á.m. alþjóðlegar keppnir.

Meðal stöðva sem kölluðu á okkur var PA8ØØD á 40 metrum, SSB. Á hljóðnemanum var Elín Sigurðardóttir, TF2EQ, en kallmerkið tilheyrir klúbbstöð radíóamatöra í borginni Dordrecht í Hollandi þar sem hún er búsett. Elín bað fyrir kveðjur heim.

Óskar Sverrisson, TF3DC, sá um innsetningu kallmerkisins á LoTW (Logbook of The World) og Yngvi Harðarson, TF3Y, sá um innsetningu á QRZ. Mathías Hagvaag, TF3MH, annast QSL mál; m.a. hönnun á sérstöku QSL korti fyrir kallmerkið.

Þakkir til Yngva Harðarsonar, TF3Y, fyrir að virkja nýja kallmerkið.

Stjórn ÍRA.

Alþjóðadagur radíóamatöra er laugardaginn 18. apríl. Þann mánaðardag árið 1925 voru alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra, International Amateur Radio Union IARU stofnuð, fyrir 95 árum. Aðildarfélög voru í upphafi 25 talsins, en í dag eru starfandi landsfélög radíóamatöra í 160 þjóðlöndum heims, með yfir 4 milljónir leyfishafa.

Félagið Íslenskir radíóamatörar mun halda upp á daginn með því að virkja í fyrsta skipti, nýtt kallmerki félagsins, TF3WARD (World Amateur Radio Day). ÍRA mun þannig feta í fótspor systurfélaganna á Norðurlöndum (og um allan heim), sem starfrækja þennan mánaðardag á ári hverju, kallmerki með hliðstæðu viðskeyti.

IARU skiptist á þrjú svæði: Svæði-1 sem nær yfir Evrópu, Afríku, Miðausturlönd og norður hluta Asíu; Svæði-2 sem þekur Norður- og Suður Ameríku og Svæði-3, sem nær yfir Ástralíu, Nýja Sjáland, Kyrrahafseyjar og stærstan hluta Asíu.

Stjórn ÍRA.

Glæsilegt loftnet félagsstöðvar ÍRA í Skeljanesi er 4 staka Yagi frá OptiBeam af gerðinni OB4-20OWA. Ljósmynd: TF3JB.

Orðsending frá Hrafnkeli Sigurðssyni TF8KY, umsjónarmanni Páskaleika ÍRA:

Kæru félagar !

Jæja, þá er páskaleikum 2020 lokið.  Ég vil þakka öllum sem tóku þátt fyrir frábæra skemmtun. Vefsíðan verður opin til miðnættis sunnudag 19. apríl.  Þá ættu allir að hafa lokið við að leiðrétta innsláttarvillur.

Það liggur nokkuð ljóst fyrir að TF3ML fór með sigur af hólmi. Óskum Óla til hamingju með sigurinn!  Þetta var verðskuldaður sigur. Hann var víðförull og á skráð QSO í leikunum úr mörgum reitum (HP74, HP84, HP85, HP94, HP93). Úr flestum þessum reitum hafði hann samband við stöðvar í 4-5 öðrum reitum, sem gaf honum alls 21 margfaldara. Auk þess voru flest hans QSO yfir langar vegalengdir á VHF og UHF (64 af 90 QSO‘um yfir 100 km).

Nokkrir þátttakendur áttu fleiri en 100 sambönd…TF2MSN 177 QSO; TF1OL 148 QSO og TF3VE 110 QSO. Þakka þeim fyrir flott starf og mikla yfirsetu. Vel gert!  16 TF kallmerki með skráða þátttöku í ár samanborið við 17 kallmerki sem skiluðu inn gögnum í fyrra (2019).

Frekari úrvinnsla á gögnum leikjavefsins verður eftir lokun kerfisins 19. apríl. Verðlaunaafhending verður kynnt síðar.

Takk aftur fyrir þátttökuna og frábæra skemmtun!

73, TF8KY.

TF3ML/M við Svörtuloftavita yst á Skálasnaga á Svörtuloftum, vestast á Snæfellsnesi (suður frá Öndverðarnesi). Viti hefur verið þarna frá 1914, en núverandi viti frá 1931. Ljósmynd: Ólafur B. Ólafsson TF3ML.
ICOM IC-9700 stöðin QRV á FM og SSB á 2 metrum, 70 sentímetrum og 23 sentímetrum. Ljósmynd: Ólafur B. Ólafsson TF3ML.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum gleðilegrar páskahátíðar.

Við vonum að þessir dagar bjóði upp á góðar stundir í faðmi fjölskyldunnar við þær óvenjulegu aðstæður sem nú ríkja hér á landi sem annars staðar.

Stjórn ÍRA.