Kaffispjall á laugardegi var í boði í félagsaðstöðu ÍRA þann 4. maí, frá kl. 13:30.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti á staðinn með nýju Icom IC-9700 stöðina, nýjan FeelElec  FY-6800 „signal generator“ og loftnet og mælitæki til móttöku merkja frá nýja Oscar 100 gervitunglinu. Daggeir Pálsson, TF7DHP, mætti einnig á staðinn með nýja Kenwood TS-590SG HF stöð, afmælisútgáfu, þ.e. „Special Edition 70th Anniversary“.

Byrjað var að skoða FY-6800 “signal generator’inn” og bar öllum saman um að miðað við 96 dollara verð (flutningur með DHL innifalinn) þá væru mjög góð kaup í þessu tæki. Það er vandað, með litaskjá og hefur komið vel út í prófunum hjá TF1A.

Daggeir, TF7DHP, sýndi okkur síðan afmælisútgáfu Kenwood TS-590SG stöðvarinnar sem hann hefur átt í nokkurn tíma. Þessi stöð var framleidd í takmörkuðu magni og er búin aukinni tæknilegri getu samanborið við TS-590SG grunnútgáfuna; glæsileg stöð.

Mikil spenna ríkti þegar 40cm diskloftnetið var sett á þrífótinn í salnum (við gluggann) og því beint í austurátt. Og viti menn, ótrúlega gott merki náðist fljótlega eins og sjá má á skjá Promax DVB mælitækisins (sbr. ljósmynd).

Viðstaddir fluttu sig næst upp í fjarskiptaherbergi félagsins á efri hæð og þar var nýja IC-9700 stöðin tengd. Hafi einhver verið í vafa áður, þá var svo ekki eftir að búið var að kveikja á tækinu. Hér vinnur saman afar vel heppnuð hönnun á stjórnborði og glæsileg bandsjá sem er ótrúlega þægileg aflestrar. Höfð voru sambönd á FM og SSB á 2 metrum og 70 cm við þá TF3AK, TF2MSN og TF8YY. Viðtaka var skýr og greinileg og allir gáfu umsögn þess efnis að mótun væri skýr og góð frá stöðinni.

Loks var haldið utanhúss og hugað að heppilegri staðsetningu fyrir diskloftnet fyrir nýja Oscar 100 gervitunglið og fannst sá staður fljótlega á veggnum fyrir neðan fjarskiptaherbergið á 2. hæð. Hugmynd VHF stjóra er, að gengið verði frá nýju loftneti eftir að sýningin í Friedrichshafen er yfirstaðin (í júní) þar sem heppilegt gæti verið að afla ýmissa smáhluta til verksins þar.

Stjórn ÍRA þakkar Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF1A, fyrir að eiga frumkvæði að því að hittast í kaffispjalli á laugardegi í Skeljanesi. Jafnframt eru þakkir til Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, fyrir að lána nýju Icom IC-9700 stöðina og síðast en ekki síst, þakkir til Daggeirs Pálssonar, TF7DHP, fyrir innlitið. Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ánægjulega sumardag.

Skeljanesi 4. maí. Fyrstu menn á staðinn byrjuðu að ræða málin yfir kaffisopa. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Jón E. Guðmundsson TF8-020, Mathías Hagvaag TF3MH, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Daggeir Pálsson TF7DHP.
TF3MH og TF1A voru ábúðarmiklir þegar kom að kynningu á FeelElec FY-6800 “Signal generator’num” sem er framleiddur í Kína. Hann lítur vel út og smíði hans virðist vönduð. Tækið var síðan sett í samband og þá kom í ljós litaskjár með upplýsingum. Ari kynnti getu tækisins sem m.a. getur einnig unnið sem tíðniteljari.
Menn fóru á netið í GSM símunum til að lesa nánar um tæknilega getu FY-6800 tækisins. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórður Adolfsson TF3DT og Jón E. Guðmundsson TF8-020.
40cm diskloftnetið komið á þrífót við austurgluggann í salnum. Merki frá Oscar 100 kom vel inn sbr. næstu mynd. Ari var spurður um þrífótinn og sagði hann að hann væri fáanlegur í BYKO og væri ætlaður til uppsetningar fyrir ljóskastara (og kostaði ekki mikið…).
Sjá má styrk merkisins frá Oscar 100 gervitunglinu á Promax mælitækinu. Mikil ánægja ríkti með þessa fyrstu niðurstöðu í ljósi þess hve lítið diskloftnet var notað.
Menn fylltu aftur á kaffibollana og veltu fyrir sér niðurstöðum mælinga á merkinu frá Oscar 100. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórður Adolfsson TF3DT, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Jón E. Guðmundsson TF8-20, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Mathías Hagvaag TF3MH.
Myndin er af nýju Icom IC-9700 stöðinni. Til skýringar skal þess getið að skjámyndin sem sést á tækinu er aðeins ein af mörgum sem eru í boði. Bandsjáin er t.d. ekki sýnd á þessari mynd.
Góðar umsagnir við prófun á IC-9700 í QSO’um við TF3AK, TF2MSN og TF8YY. Tvær IC-9700 stöðvar eru komnar til landsins (sem vitað er um), þ.e. stöð Ólafs B. Ólafssonar TF3ML og stöð Garðars Valbergs Sveinssonar TF8YY. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Georg Magnússon TF2LL mætti í Skeljanes 2. maí og flutti erindið „Loftnetabúskapur TF2LL í Norðtungu í Borgarfirði“. Eins og flestum er kunnugt, er loftnetsaðstaða TF2LL er ein sú besta hér á landi á meðal radíóamatöra, auk þess sem fjarskiptatæki og annar búnaður stöðvarinnar er í fremstu röð.

Erindi Georgs var vel flutt, áhugavert, fróðlegt og skemmtilegt. Hann opnaði okkur sýn inn í þann heim sem flestir leyfishafar geta aðeins látið sig dreyma um – en fæstir hafa aðstöðu til að koma sér upp, þ.e. að setja upp nær 30 metra háan turn og stór og stefnuvirk loftnet.

Hann lýsti loftnetasögu TF2LL vel, þ.á.m. leyfisferli hjá opinberum aðilum (byggingarfulltrúa o.fl.) sem var langt og kostnaðarsamt, en það var síðan í júní 2010 að verkefnið komst á framkvæmdastig og undirstöður loftnetsturnsins voru steyptar. Eftir veðurtjón árin 2015 og 2016 eru loftnet hans nú orðin nokkuð örugg gagnvart veðrinu (eins og hann segir sjálfur).

Loftnet TF2LL eru frá OptiBeam í Þýskalandi, þ.e. OB 17-4 (40,15,20 og 10m), OB 9-3 (30, 17 og 12m) og OB 5-6 (6m) auk heimasmíðaðra vírneta fyrir 80 og 160m böndin. Erindi Georgs verður til birtingar í heild sinni á heimasíðu ÍRA innan tíðar.

Erindi Georgs var bæði vandað og vel flutt og hann svaraði spurningum félagsmanna greiðlega í líflegum umræðum. Að lokum fékk hann verðskuldað klapp og þakkir viðstaddra. Menn ræddu síðan málin allt fram undir kl. 23:30. Alls mættu 27 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta frábæra fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 2. maí. Georg Magnússon TF2LL flutti erindið „Loftnetabúskapur TF2LL í Norðtungu í Borgarfirði“.
Frá erindi TF2LL þar sem hann skýrði m.a. undirbúning þess að því að taka ákvörðun um loftnetakaup. Á glærunni má sjá samaburð á SteppIR DB-42 og OptiBeam 17-4.
Í fundarhléi. Frá vinstri: Kristján Benediktsson TF3KB, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Mathías Hagvaag TF3MH, Bjarni Sverrisson TF3GB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Jón Björnsson TF3PW, Einar Kjartansson TF3EK, Baldvin Þórarinsson TF3-033, Eiður Kristinn Magnússon TF3-071 og Sigmundur Karlsson TF3VE.
Í fundarhléi. Georg Magnússon TF2LL, Heimir Konráðsson TF1EIN og Ársæll Óskarsson TF3AO.
Í fundarhléi. Kristján Benediktsson TF3KB og Ágúst H. Bjarnason TF3OM.
Í fundarhléi. Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Georg hafði með sér til sýnis loftnetshluta úr loftnetum hans sem skemmdust í óveðrunum árin 2015 og 2016. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Kaffispjall verður í boði í félagsaðstöðunni laugardaginn 4. maí. Húsið opnar kl. 13:30.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætir á staðinn og tekur með sér nýjan kínverskan „generator“ sem nær upp í 60 MHz sem hann segir að sé „ótrúlega góður“ miðað við ótrúlega lágt verð. Sérstakur laugardagsgestur er Daggeir Pálsson, TF7DHP, frá Akureyri.

Margt spennandi er að gerast í áhugamálinu um þessar mundir, m.a.:
 – Nýja Es‘hail 2 / Oscar 100 amatörgervitunglið…
 – Nýja FT4 forritið, sem er 2,5 sinnum hraðara en FT8…
 – Nýja Icom IC-9700 stöðin verður á staðnum…
Margt fleira verður til umræðu (enda af nógu að taka…)

Lavazza kaffi og bakkelsi frá Björnsbakaríi.

Mynd frá tilraun TF1A og TF3EY/OH2LAK til móttöku á merkjum frá Es‘hail-2 Oscar 100 gervitunglinu í fjarskiptaherbergi TF3IRA 11. apríl s.l. Tilraunin gekk að óskum og komu merkin vel læsileg inn. Ljósmynd: TF3EY/OH2LAK.
Nýja FT4 frá forritið frá K1JT hefur verið í boði í “beta” útgáfu frá 29. apríl s.l. Þetta er spennandi nýung og er FT4 er hugsað til samskipta í keppnum og er t.d. 2,5 sinnum hraðvirkara heldur en FT8 en á móti kemur að það ræður ekki við jafn veik merki og FT8.
Icom IC-9700 VHF/UHF/SHF stöðin kom á markað skömmu fyrir páska. Hún hefur almennt fengið góða umsögn. TF1A hafði eina fyrstu stöðina sem kom til landsins í láni frá TF3ML og ætlar að segja okkur frá reynslu sinni.

Georg Magnússon TF2LL kemur í Skeljanes fimmtudaginn 2. maí og flytur erindi undir heitinu:  „Loftnetabúskapur TF2LL í Norðtungu í Borgarfirði“.

Líkt og flestum er kunnugt, er loftnetsaðstaða TF2LL ein sú besta á meðal radíóamatöra hér á landi, auk þess sem fjarskiptabúnaður stöðvarinnar er í fremstu röð.  Eftir veðurtjón árin 2015 og 2016 hefur hann endurnýjað flest loftnetin. Georg kemur í Skeljanes og segir okkur loftnetasögu sína í máli og myndum.

Ath. að erindi Georgs hefst stundvíslega kl. 20:00 (en ekki kl. 20:30 eins og venjulega). Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta stundvíslega. Kaffi og veglegt meðlæti.

Áður auglýst verðlaunaafhending í Páskaleikunum 2019 frestast um viku, eða til fimmtudagsins 9. maí n.k.

Sælir félagar!

Takk fyrir þátttökuna og frábæra skemmtun í páskaleikunum 2019. Það fréttist af allskonar tilraunum, svaðilförum og uppátækjum…allt til að koma sem mestu í logginn.

Nú verður kerfið opið til leiðréttinga fram að næstu helgi. Lokað verður fyrir leiðréttingar á miðnætti aðfaranótt sunnudags 28. apríl.

Síðan verður verðlaunaafhending í félagsheimili ÍRA í Skeljanesi fimmtudagskvöldið 2. maí.

73, Keli TF8KY.

Ath. nýjar upplýsingar 28. apríl. Af tæknilegum ástæðum er verðlaunaafhendingu Páskaleikanna frestað um viku, eða til 9. maí n.k.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður lokuð fimmtudaginn 25. apríl sem er sumardagurinn fyrsti.

Næsti opnunardagur er fimmtudagurinn 2. maí.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.

“Sumarið er tíminn…”: Sönglag Bubba Morthens.

Vefurinn er kominn upp og hægt að skrá sig til leiks.

Ath. breyttar stigareglur, notum reitakerfið “Maidenhead Locator System” (Grid Locators). Frekari upplýsingar á leikjasíðunni.

P.s. Nokkrir „böggar“ til staðar…ennþá er verið að vinna í verkefninu.

Vefslóð:  http://vhfleikar.ira.is/Paskar2019/

Góða skemmtun de TF8KY.

Viðbótarfréttir 19. apríl kl. 18:00
Leikjasíðan uppfærð rétt í þessu. Listi yfir tíðnir sést í reglunum. Gæti þurft hard-refresh (Ctrl+F5) í sumum vöfrum. Það þarf að vera útskráður til að sjá þetta. 73 de TF8KY.

Páskahátíðin nálgast. Næstkomandi fimmtudag, 18. apríl, er skírdagur. Félagsaðstaða ÍRA verður lokuð þann dag.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegrar páskahátíðar.

Jónas Bjarnason, TF3JB,
formaður.

Mathías Hagvaag, TF3MH, QSL stjóri ÍRA QSL Bureau, tilkynnti á aðalfundi félagsins í febrúar s.l. um fyrirhugaða hækkun á gjaldskrá stofunnar.

Forsendur hafa nú verið skoðaðar og hefur QSL stjóri ákveðið að kostnaður fyrir hvert QSL kort hækki frá og með deginum í dag, 15. apríl 2019, úr 9,50 í 10,00 krónur.

Hækkunin nemur 5,3%, en gjaldskrá hefur ekki breyst í rúm 7 ár eða frá 4. febrúar 2012.

Mathías Hagvaag TF3MH vinnur við flokkun QSL korta í Skeljanesi sumarið 2018. Honum til aðstoðar eru þeir Brynjólfur Jónsson TF5B og Gísli Gissur Ófeigsson TF3G. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Páskaleikarnir 2019 standa yfir í tvo sólarhringa; hefjast laugardaginn 20. apríl kl. 00:01 og lýkur, sunnudaginn 21. apríl kl. 23:59. Markmiðið er að fá menn í loftið og hafa gaman af.

Leikarnir fara fram á 2M – 4M – 6M – 70CM – 23CM og 80M. Allar tegundir útgeislunar (mótanir) eru heimilaðar. Hafa má samband hvenær sem er þessa 2 sólarhringa og við sömu stöð oftar en einu sinni, en a.m.k. 6 klst. þurfa þá að líða á milli QSO‘a til að fá punkta.

Nánari upplýsingar verða til kynningar á þessum vettvangi um leið og þær berast frá umsjónarmanni leikanna, sem leggur síðustu hönd á keppnisreglur og leikjavef þegar þetta er skrifað.


Hrafnkell Sigurðsson TF8KY flutti kynningu í Skeljanesi s.l. fimmtudag, 11. apríl, um Páskaleikana 2019. Ljósmynd: TF3DC.

Alþjóðadagur radíóamatöra er á fimmtudag, 18. apríl. Þann mánaðardag árið 1925 voru alþjóðasamtök landsfélaga radíóamatöra – International Amateur Radio Union, IARU – stofnuð, fyrir 94 árum. Aðildarfélög IARU voru í upphafi 25 talsins, en eru í dag starfandi í yfir 160 þjóðlöndum heims með yfir 4 milljónir leyfishafa.

IARU er skipt niður á þrjú svæði í heiminum: Svæði-1 sem nær yfir Evrópu, Afríku, Miðausturlönd og norður hluta Asíu; Svæði-2 sem þekur Norður- og Suður Ameríku og Svæði-3, sem nær yfir Ástralíu, Nýja Sjáland, Kyrrahafseyjar og stærstan hluta Asíu.

Stjórn ÍRA óskar félagsmönnum til hamingju með alþjóðadag radíóamatöra árið 2019.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, mætti í Skeljanes 11. apríl og sagði okkur ferðasögu frá DX-leiðangri til Seychelles eyja sumarið 2016. Eftir kaffihlé, fór hann yfir og kynnti reglur Páskaleikana 2019.

Keli sagðist hafa verið tiltölulega reynslulítill í DX og keppnum þegar honum var boðið að taka þátt í S79V leiðangrinum 1.-10. júlí 2016. Hann sýndi myndir og myndbönd úr ferðinni, lýsti m.a. undirbúningi og uppsetningu einsbands VDA loftneta og skýrði smíði þeirra og virkni. Hann sagði ferðina vel heppnaða og lærdómsríka, en höfð voru yfir 20 þúsund QSO. Ferðafélagar voru þeir Paul A65DR, Joel A65BX, Martin A65DC, Gerald A65CB og Obaid A61DJ.

Eftir kaffihlé var farið yfir komandi Páskaleika ÍRA. Keli fór yfir „log-viðmót“ og virkni, rifjaði upp reynslu fyrra árs leika, fór yfir tíðnisvið og reglur leikanna. Fjörlegar umræður urðu um reglurnar, samanborið við VHF leikana og 80 metra bandið og skipst á skoðunum. Reglur og leikjavefur verður sett á heimasíðu félagsins á næstu dögum til kynningar.

Erindi Kela var áhugavert og vel flutt. Hann svaraði spurningum greiðlega í líflegum umræðum. Að lokum fékk Hrafnkell verðskuldað klapp og þakkir viðstaddra. Menn ræddu málin síðan áfram allt fram undir kl. 23. Alls mættu 19 félagar og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 11. apríl. Hrafnkell Sigurðsson TF8KY sagði ferðasögu frá S79V DX-leiðangrinum. Aðrir á mynd frá vinstri: Bendikt Sveinsson TF3T, Wilhelm Sigurðsson TG3AWS. Með bak í myndavél: Höskuldur Elíasson TF3RF, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmynd: Kristján Benediktsson TF3KB.
Unnið við samsetningu loftneta fyrir utan Villa Koket, aðsetur DX-leiðangursins á Mahe eyju í Seychelles eyjaklasanum. Ljósmynd: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY.
Hluti viðstaddra. Frá vinstri (fremst): Óskar Sverrisson TF3DC, Höskuldur Elíasson TF3RF, Einar Kjartansson TF3EK, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Benedikt Sveinsson TF3T, Þórður Adolfsson TF3DT, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Jón Björnsson TF3PW og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmynd: Kristján Bendiktsson TF3KB.