Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 21. mars og flutti erindið „Radíóamatör í meira en 50 ár, reynslusögur úr áhugamálinu frá barnsaldri…“.

Ágústi tókst mjög vel upp og sagði skemmtilega frá áhugamálinu sem hófst þegar á unga aldri. Hann lýsir fyrstu kynnum sínum eftirfarandi: „Fyrstu minningarnar frá því er ég sá rafmagn í fyrsta skipti eru þegar ég skreið að veggtengli í borðstofunni sem tengdur var við brauðrist. Ég var með stóran gosflöskuupptakara í hendi og setti hann milli pinnanna sem glitti í. Bang! Svakalegur bláhvítur blossi, enda öryggið 16 amper eða kannski rúmlega það, því á þessum tíma voru sprungin öryggi lagfærð heima. Flestir kunnu það. Sjálfsagt hef ég rekið upp öskur, en þetta vakti áhuga minn á rafmagni sem lét mig ekki í friði næstu áratugina. Síðan er skarð í upptakaranum þar sem hann komst í námunda við rafmagnið!“.

Hann fékk leyfisbréfið 8. ágúst 1964 og fékk þar með morsleyfi, talleyfi og smíðaleyfi frá Póst- og símamálastofnun, undirritað af Jóni Skúlasyni Póst- og símamálastjóra. Upp frá því varð hann virkur í ÍRA, tók m.a. þátt í refaveiðum, gerðist ritstjóri CQ TF og fleira.

Fyrsta QSO‘ið var við TF3KB á morsi á 40 metrum þann 11.8.1964 kl. 19:45, en Ágúst sýndi mynd úr upphaflegu fjarskiptadagbókinni frá þeim tíma (sem hann á allar enn). Síðan fylgdu sambönd m.a. við TF5TP, TF3CJ, TF3DX, TF3IC og fleiri íslenska leyfishafa og að sjálfsögðu DX-sambönd.

Ágúst keypti notaða Heathkit HW-32A stöð þegar hann flutti til Svíþjóðar til náms 1969-1971 og var þá frjáls með að tala til Íslands eftir því sem skilyrði leyfðu.

Margir taka sér hlé frá áhugamálinu og hann er einn þeirra. Ágúst sagði, að þegar vinnan væri á svipuðum nótum og áhugamálið … þá gengi það aldrei til lengdar. Hann tók aftur til til við amatör radíó fyrir 2 árum (2017) og segist afar ánægður með það í dag.

Mikil ánægja var með erindi Ágústs. Að sögn eins viðstaddra „…hefði mátt heyra saumnál detta …“ slíkur var áhugi og athygli fundarmanna. Um kl. 22:30 var Ágústi þakkað með veglegu lófaklappi fyrir vel undirbúið og vel flutt erindi. Líflegar umræður héldu þó áfram og fram yfir kl. 23. Mæting var góð í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld, alls 25 félagar og 1 gestur. Bestu þakkir til Ágústs H. Bjarnasonar, TF3OM.

Skeljanesi 21. mars. Ágúst H. Bjarnason flytur erindi um 55 ár í amatör radíói. Á meðfylgjandi glæru má lesa að þegar hann var 14 ára fann hann spennubreyti úr víbrator aflgjafa á víðavangi, tók til við að mæla spennuna en gleymdi sér og fékk gríðarmikinn straum. Þegar hann hafði jafnað sig mældi hann aftur (þá með vinstri hönd í vasanum) sýndi mælirinn 620 volt AC…

Ágúst hefur verið duglegur við heimasmíðar í gegnum árin eins og sjá má á eftirfarandi ljósmynd og hann á enn mikið af „dótinu“ sem hann hefur smíðað á vísum stað í bílskúrnum.
Ágúst á DBS hjólinu við refaveiðar, ca. 1965. Með honum á myndinni er Sveinn Guðmundsson TF3SG. Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB tók ljósmyndina.
Frá vinstri (fremst): Stefán Arndal TF3SA, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Yngvi Harðarson TF3YH, Óskar Sverrisson TF3DC, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO, Bjarni Sverrisson TF3GB, Jón Björnsson TF3PW, Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Mathías Hagvaag TF3MH, Georg Kulp TF3GZ, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Bernhard M. Svavarsson TF3BS og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.
Frá vinstri (aftast): Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Bernhard M. Svavarsson TF3BS, Ari þórólfur Jóhannesson TF1A, Vilhjálmur Þór Kjartansson TF3DX, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Guðmundur Ingi Hjálmtýsson TF3IG, Ársæll Óskarsson TF3AO og Bjarni Sverrisson TF3GB. Í hliðarsal til hægri: Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Þórarinn Benediktz TF3TZ og Mathías Hagvaag TF3MH. Ljósmyndir: Kristján Benediktsson TF3KB og Óskar Sverrisson TF3DC.


Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 21. mars kl. 20:30. Þá mætir Ágúst H. Bjarnason, TF3OM, í Skeljanes með erindið „Radíóamatör í meir en 50 ár, reynslusögur úr áhugamálinu frá barnsaldri…“.

Ágúst er handhafi leyfisbréfs nr. 45 og hefur verið radíóamatör í rúmlega hálfa öld. Hann hefur frá mörgu forvitnilegu að segja frá þessum ferli. Hann hefur m.a. gegnt trúnaðarstörfum fyrir ÍRA, tekið þátt í refaveiðum, verið ritstjóri CQ TF og skrifað í blaðið.

Hann var QRV frá Lundi í Svíþjóð á námsárunum (1969-1971) og svo aftur eftir að hann flutti heim. Þess má geta til fróðleiks, að Ágúst á tvo bræður sem einnig eru radíóamatörar, það eru þeir Kjartan (TF3BJ) og Þórarinn (TF3TZ) en allir þrír eru menntaðir rafmagnsverkfræðingar.

Eftir 55 ár í áhugamálinu er fjarskiptaherbergi hans í dag búið nýjustu tækni, s.s. SDR sendi-/viðtæki og tækni til fjarstýringar tækjum í sumarhúsi hans á Suðurlandi.

Stjórn ÍRA hvetur félaga til að mæta tímanlega. Veglegar kaffiveitingar.

Fjarskiptaaðstaða TF3OM heima í Garðabæ. Hér má m.a. sjá stjórnborð Kenwood TS-480SAT stöðvarinnar sem fjarstýrir búnaði á HF böndunum í sumarhúsinu með RemoteRig yfir netið. Ágúst notar Icom IC-7300 stöðina með Icom AH-4 sjálfvirkri loftnetsaðlögunar-rás (fyrir 1.8-54 MHz) við langan vír. Takið eftir glæsilegum Iambic morspöllunum frá Pietro Begali og Kent handmorslyklinum.
TF3OM í loftinu á morsi heima á Hrefnugötu 2, ca. 1967. Sendirinn er heimasmíðaður (150W) og viðtækið er National NC-100A (líklega smíðað í kringum 1940). Ofan á sendinum má sjá Heathkit HD-11 Q-multiplier og Heathkit sveiflusjá. Ljósmynd: TF3OM.
Fjarskiptaaðstaða TF3OM/SM7 í Lundi í Svíþjóð 1969-1971. Meðal búnaðar er Heathkit HW-32A stöð, heimasmíðaður RF magnari og sveiflusjá. Loftnetið var dípóll á 14 MHz. Ljósmynd: TF3OM.
Fjarskiptaaðstaðan í sumarhúsinu. Ágúst notar yfirleitt Kenwood TS-480SAT stöðina og tekur þá með sér (frátengjanlega) stjórn-borðið úr bænum. Kenwood TS-130S stöð er einnig til taks. Loftnet er EFHW-80/10 sem er endafædd hálfbylgja frá MyAntennasCom. Heimasmíðaður Iambic morslykill (með Curtis IC-rásinni) er notaður í bústaðnum ásamt Kent handmorslykli. Ljósmynd: TF3OM.

Skilafrestur á efni í CQ TF rennur út á miðvikudag, 20. mars.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – Sigurbjörn Þór Bjarnason, TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Ritstjóri í góðum félagsskap í Skeljanesi. Frá vinstri: Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Kjartan H. Bjarnason TF3BJ og Sæmundur E. Þorsteinsson TF3UA. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Hraðnámskeiðið „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ byrjaði í morgun, 16. mars kl. 10:15.

Námskeiðið er hugsað til að aðstoða menn við að byrja í loftinu – hvort heldur þeir eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf eða eldri leyfishafar. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið.

Létt var yfir mönnum þegar tíðindamann bar að garði í Skeljanesi í morgun, rétt fyrir kl. 10. Þá voru þátttakendur í kaffi við stóra borðið á meðan beðið var eftir einum til viðbótar. Að sögn Óskars Sverrissonar, TF3DC, leiðbeinanda, er námskeiðið fullbókað, en miðað er við mest fjóra þátttakendur hverju sinni til að það nýtist sem best.

Neðri ljósmyndin var tekin í fjarskiptaherberginu þegar tíðindamaður kom á ný í hús um kl. 13. Þá var farið í loftið á morsi og FT8.

Aðspurður sagði Óskar að námskeiðið yrði aftur í boði fljótlega, enda mikill áhugi á meðal félagsmanna.

Þátttakendur á hraðnámskeiðinu „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ í Skeljanesi 16. mars. Frá vinstri: Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Óskar Sverrisson TF3DC, Mathías Hagvaag TF3MH (gestur), Reynir Björnsson TF3JL og Haukur Þór Haraldsson TF3NA. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Eftir undirbúning í salnum færðu menn sig upp á efri hæðina í fjarskiptaherbergi félagsins. Frá vinstri: Jón Svavarsson TF3JON, Mathías Hagvaag TF3MH (gestur), Óskar Sverrisson TF3DC, Haukur Þór Haraldsson TF3NA og Reynir Björnsson TF3JL. Á myndina vantar Sigurð Óskar Óskarsson TF2WIN. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 14. mars og flutti erindið “Logger32 dagbókarforritið; auknar vinsældir – nýir möguleikar”.

Hann kynnti forritið og fór yfir uppsetningu þess. Hann sýndi vel hve einfalt og öflugt það er, jafnframt því að vera aðgengilegt fyrir venjulegan leyfishafa að laga að eigin þörfum – án þess að þurfa að vera sérfræðingur í forritun eða tölvumálum.

Það var mál manna að Logger32 væri í raun meira en sérhæft dagbókarforrit þar sem m.a. er hægt að stýra fjarskiptum beint frá forritinu, auk þess sem það býður upp á fjölda möguleika í mismunandi útfærslum. Vilhjálmur sýndi m.a. með dæmum hvernig hann notar forritið sjálfur og tengdist heimastöð sinni yfir netið í því skyni, sem var mjög fróðlegt.

Hann fór yfir getu Logger32 hvað varðar stafrænar tegundir útgeislunar, en færsla í fjarskiptadagbók er viðstöðulaus og án vandræða sem gjarnan fylgja öðrum forritum. Fyrir marga er jafnframt kostur að Logger32 er á íslensku og er forritið boðið ókeypis á netinu til íslenskra radíóamatöra. Það var Vilhjálmur sem þýddi forritið.

Eftir kaffihlé tók Vilhjálmur við fyrirspurnum frá áhugasömum fundarmönnum og héldu menn áfram að spjalla framundir kl. 22:30 þegar honum var þakkað fyrir fróðlegt og skemmtilega flutt erindi með veglegu lófaklappi. Alls mættu 22 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Skeljanesi 14. mars. Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS flutti erindið “Logger32 dagbókarforritið; auknar vinsældir – nýir möguleikar”. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.
Hluti fundarmanna. Frá vinstri: Stefán Arndal TF3SA, Þorvaldur Bjarnason TF3TB, Ársæll Óskarsson TF3AO, Mathías Hagvaag TF3MH, Bjarni Sverrisson TF3GB, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Óskar Sverrisson TF3DC, Heimir Konráðsson TF1EIN, Jón Björnsson TF3PW og Þórður Adolfsson TF3DT. Ljósmynd: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB.

Spennandi hraðnámskeið verður í boði á ný laugardaginn 16. mars kl. 10-12:30. Það nefnist: „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“. Farið verður í loftið í fjarskiptaherbergi félagsins í Skeljanesi – á CW, SSB eða FT8, allt eftir óskum þátttakenda.

Námskeiðið er hugsað til að aðstoða menn við að byrja í loftinu, hvort heldur þeir eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf eða eldri leyfishafar. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið.

Í boði er að menn taki með sér eigin búnað og fái kennslu á hann. Laugardaginn viku síðar (23. mars) verður framhald þar sem nemendur ráða ferðinni og spyrja spurninga eftir að hafa prófað sig áfram í millitíðinni. Námskeiðið var fyrst í boði fyrir áramót og heppnaðist afar vel.

Ath. að fjöldi er takmarkaður. Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig sem fyrst beint hjá leiðbeinanda, Óskari Sverrissyni, TF3DC í síma 862-3151.

Mynd frá námskeiðinu „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ sem haldið var í nóvember s.l. Ljósmynd: TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA er erindi Vilhjálms Í. Sigurjónssonar, TF3VS. Erindið nefnir hann “Logger32 dagbókarforritið; auknar vinsældir – nýir möguleikar”.

Vilhjálmur mun kynna forritið, sem hvorutveggja er öflugt og fjölhæft og mun fara yfir og útskýra uppsetningu þess. Hver og einn leyfishafi getur t.d. auðveldlega lagað það að eigin þörfum.

Hann mun sérstaklega fara yfir hversu vel Logger32 kemur til móts við þá sem nota stafrænar tegundir útgeislunar (t.d. FT8), en færsla í fjarskiptadagbók er viðstöðulaus og án vandræða.

Logger32 stenst vel samanburð við önnur forrit sem eru á markaði. Þess má geta, að Logger32 er fyrsta dagbókarforritið sem vitað er um að hafi verið þýtt á íslensku. Það hefur, frá þeim tíma, verið í boði ókeypis til íslenskra radíóamatöra (á íslensku). Það var Vilhjálmur sem þýddi forritið.

Erindið hefst kl. 20:30. Mætum tímanlega, vandaðar kaffiveitingar í boði.

Nú styttist í marshefti CQ TF.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið – frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Skilafrestur efnis er til 20. mars n.k. Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.



Einar Kjartansson, TF3EK, mætti í Skeljanes 7. mars og hélt erindi undir heitinu: “Búnaður og aðferðir sem henta fyrir SOTA”.

Einar fór yfir tilurð SOTA sem var stofnað 2. mars 2002. Málið snýst um að fara á fjöll með fjarskiptatæki og búnað og hafa sambönd við aðra leyfishafa á amatörböndunum. Hann útskýrði hvernig sambönd eru höfð og færð inn í gagnagrunn á heimasíðu SOTA. Fjallatindar eru skilgreindir sérstaklega í hverju landi og hérlendis eru þeir 908.

Vilhjálmur Þ. Kjartansson TF3DX var fyrstur til að „virkja“ fjallatind samkvæmt verkefninu, þann 1. september 2016 þegar Ísland gerist aðili. Þeir Egill Íbsen TF3EO, Einar Kjartansson TF3EK og Þórður Ívarsson TF5PX settu kerfið upp hér á landi.

                                   Fjöldi   Virkjaðir
Austurland        AL       281      3
Norðurland       NL       211      5
Suðurland         SL        216      43
Snæfellsnes      SN       66        5
Suðvesturland   SV       43        43
Vestmannaeyjar VE       6          2
Vestfirðir          VF       85        9
Samtals:                       908      110

Margskonar viðurkenningarskjöl og verðlaunagripir eru í boði, svo sem Fjallageitin (e. Mountain Goat). Aðspurður, sagðist Einar vera u.þ.b. hálfnaður uns hann getur sótt um „Fjallageitina“.

Erindið var vel flutt og Einar svaraði mörgum fyrirspurnum og fékk að lokum gott klapp. Umræður héldu þó áfram og sýndi Einar búnað sinn. Stöðvarnar eru Yaesu FT-857D og Elecraft KX-2 (sem er ný og hann fékk í lok s.l. árs), loftnet eru heimatilbúin, m.a. dípólar og glertrefjastangir sem eru reistar á vettvangi.

Alls mættu 24 félagsmenn og 2 gestir í Skeljanes þetta ágæta fimmtudagskvöld. Þakkir til Einars Kjartanssonar TF3EK fyrir fróðlegt og skemmtilegt erindi.

P.s. Mikil ánægja var með nýju stólana.

Skeljanesi 7. mars. Einar Kjartansson TF3EK flytur erindi um SOTA búnað og aðferðir.
Salurinn var þétt setinn.
Eftir erindið sýndi Einar búnaðinn sem hann notar í SOTA ferðum á fjallatinda. Með honum á myndinni eru þeir Þórður Adolfsson TF3DT og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmyndir: TF3JB.

Félaginu hefur borist að gjöf, 25 stólar til notkunar í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Það var Haukur Þór Haraldsson TF3NA sem færði félaginu þessa nytsömu gjöf í dag, miðvikudaginn 6. mars.

Stólarnir eru af Stacco gerð, á krómaðri stálgrind og bólstraðir í bak og setu. Þeim fylgir sérhannaður geymslupallur á hjólum, sem sjá má á meðfylgjandi ljósmynd. Stólarnir eru notaðir en afar vel með farnir.

Eftir endurhönnun og enduruppröðun í fundarsal félagsins sem nú rúmar þægilega 40 manns í sæti, vantaði okkur sárlega fleiri stóla. Gjöfin kemur sér því einkar vel.

Stjórn ÍRA þakkar Hauki Þór höfðinglega gjöf.

Skeljanesi 6. mars 2019. Haukur Þór Haraldsson TF3NA færir ÍRA 20 vandaða fundarstóla að gjöf. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA er í boði fimmtudaginn 7. mars. Þá mætir Einar Kjartansson TF3EK í Skeljanes með erindið “Búnaður og aðferðir sem henta fyrir SOTA”.

Stofnað var til SOTA viðurkenningaverkefnisins (e. Summits On The Air) formlega þann 2. mars 2002.  Stofnendur segja sjálfir, að þar sem SOTA snýst um viðurkenningar (e. Amateur Radio Award Programme) en er ekki klúbbur eða félagasamtök, býðst mönnum ekki að gerast félagi í SOTA.

Málið snýst um að fara á fjöll með fjarskiptatæki og búnað og hafa sambönd við aðra leyfishafa á amatörböndunum. Fjallatindar eru af þessu tilefni skilgreindir sérstaklega í hverju landi og eru þeir yfir 900 hérlendis.

Ísland varð hluti af SOTA verkefninu þann 1. september 2016. Vilhjálmur Þ. Kjartansson TF3DX var fyrstur til að „virkja“ fjallatind samkvæmt verkefninu, þann 1. september 2016. Þeir Egill Íbsen TF3EO, Einar Kjartansson TF3EK og Þórður Ívarsson TF5PX settu kerfið upp hér á landi.

Margskonar viðurkenningarskjöl og verðlaunagripir eru í boði, svo sem Fjallageitin (e. Mountain Goat). Að auki er rekinn gagnagrunnur sem hýsir heiðurslista SOTA o.fl.

Félagsmenn eru hvattir til að mæta tímalega. Kaffiveitingar.

Einar Kjartansson TF3EK sýnir loftnet fyrir utan Skeljanes sem hann notar í SOTA vorið 2017. Sveinn Goði Sveinsson TF3ID og Jón G. Guðmundsson TF3LM fylgjast með. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, mættu í Skeljanes laugardaginn 2. mars. Í handraðanum voru Anan 7000 stöð frá Apache Labs og Flex 6400 stöð frá FlexRadio. Ekki er vitað um fleiri eintök í landinu en þessi tvö.

Stöðvarnar eru báðar SDR stöðvar, vinna á HF + 6 metrum og eru búnar 100W sendum. Báðar þurfa utanaðkomandi tölvu (með skjá) sem aukabúnað. Báðar þurfa ennfremur utanaðkomandi aflgjafa sem þarf að geta gefið 13.8VDC, allt að 25A. ANAN 7000DLE MK-II kostar 433 þúsund krónur komin hingað til lands en FLEX 6400 kostar 315 þúsund krónur (m.v. gengi ísl. krónunnar 1.3.2019).

Það er ætíð spennandi að sjá og snerta stöðvar sem maður hefur ekki séð fyrr og það á svo sannarlega við um þessar. Tilfinningin að stilla viðtöku þeirra beggja er mjög góð og möguleikarnir til að vinna úr merkjum á böndunum geysimargir.

Þeir Ari og Vilhjálmur héldu stutta tölu þar sem þeir ræddu hvora stöð fyrir sig og svöruðu spurningum. Báðir hafa mikla reynslu og hafa átt (og eiga) fleiri stöðvar og báðir eru mjög ánægðir með stöðvarnar.

Alls mættu 14 félagar og 2 gestir í Skeljanes þennan sólríka laugardag í höfuðborginni. Bestu þakkir til þeirra Ara og Vilhjálms fyrir fróðlega og skemmtilega kynningu.

Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A flytur inngangserindi um Anan 7000 stöðina frá Apache Labs. Frá vinstri: TF3DT, TF3TB og TF3AWS.
Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS flytur inngangserindi um Flex 6400 stöðina frá FlexRadio.
Frá vinstri: Jón Björnsson TF3PW, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Óskar Sverrisson TF3DC, Mathías Hagvaag TF3MH, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.