,

VEL HEPPNAÐ KAFFISPJALL Á LAUGARDEGI

Kaffispjall á laugardegi var í boði í félagsaðstöðu ÍRA þann 4. maí, frá kl. 13:30.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti á staðinn með nýju Icom IC-9700 stöðina, nýjan FeelElec  FY-6800 „signal generator“ og loftnet og mælitæki til móttöku merkja frá nýja Oscar 100 gervitunglinu. Daggeir Pálsson, TF7DHP, mætti einnig á staðinn með nýja Kenwood TS-590SG HF stöð, afmælisútgáfu, þ.e. „Special Edition 70th Anniversary“.

Byrjað var að skoða FY-6800 “signal generator’inn” og bar öllum saman um að miðað við 96 dollara verð (flutningur með DHL innifalinn) þá væru mjög góð kaup í þessu tæki. Það er vandað, með litaskjá og hefur komið vel út í prófunum hjá TF1A.

Daggeir, TF7DHP, sýndi okkur síðan afmælisútgáfu Kenwood TS-590SG stöðvarinnar sem hann hefur átt í nokkurn tíma. Þessi stöð var framleidd í takmörkuðu magni og er búin aukinni tæknilegri getu samanborið við TS-590SG grunnútgáfuna; glæsileg stöð.

Mikil spenna ríkti þegar 40cm diskloftnetið var sett á þrífótinn í salnum (við gluggann) og því beint í austurátt. Og viti menn, ótrúlega gott merki náðist fljótlega eins og sjá má á skjá Promax DVB mælitækisins (sbr. ljósmynd).

Viðstaddir fluttu sig næst upp í fjarskiptaherbergi félagsins á efri hæð og þar var nýja IC-9700 stöðin tengd. Hafi einhver verið í vafa áður, þá var svo ekki eftir að búið var að kveikja á tækinu. Hér vinnur saman afar vel heppnuð hönnun á stjórnborði og glæsileg bandsjá sem er ótrúlega þægileg aflestrar. Höfð voru sambönd á FM og SSB á 2 metrum og 70 cm við þá TF3AK, TF2MSN og TF8YY. Viðtaka var skýr og greinileg og allir gáfu umsögn þess efnis að mótun væri skýr og góð frá stöðinni.

Loks var haldið utanhúss og hugað að heppilegri staðsetningu fyrir diskloftnet fyrir nýja Oscar 100 gervitunglið og fannst sá staður fljótlega á veggnum fyrir neðan fjarskiptaherbergið á 2. hæð. Hugmynd VHF stjóra er, að gengið verði frá nýju loftneti eftir að sýningin í Friedrichshafen er yfirstaðin (í júní) þar sem heppilegt gæti verið að afla ýmissa smáhluta til verksins þar.

Stjórn ÍRA þakkar Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF1A, fyrir að eiga frumkvæði að því að hittast í kaffispjalli á laugardegi í Skeljanesi. Jafnframt eru þakkir til Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, fyrir að lána nýju Icom IC-9700 stöðina og síðast en ekki síst, þakkir til Daggeirs Pálssonar, TF7DHP, fyrir innlitið. Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ánægjulega sumardag.

Skeljanesi 4. maí. Fyrstu menn á staðinn byrjuðu að ræða málin yfir kaffisopa. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Jón E. Guðmundsson TF8-020, Mathías Hagvaag TF3MH, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Daggeir Pálsson TF7DHP.
TF3MH og TF1A voru ábúðarmiklir þegar kom að kynningu á FeelElec FY-6800 “Signal generator’num” sem er framleiddur í Kína. Hann lítur vel út og smíði hans virðist vönduð. Tækið var síðan sett í samband og þá kom í ljós litaskjár með upplýsingum. Ari kynnti getu tækisins sem m.a. getur einnig unnið sem tíðniteljari.
Menn fóru á netið í GSM símunum til að lesa nánar um tæknilega getu FY-6800 tækisins. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórður Adolfsson TF3DT og Jón E. Guðmundsson TF8-020.
40cm diskloftnetið komið á þrífót við austurgluggann í salnum. Merki frá Oscar 100 kom vel inn sbr. næstu mynd. Ari var spurður um þrífótinn og sagði hann að hann væri fáanlegur í BYKO og væri ætlaður til uppsetningar fyrir ljóskastara (og kostaði ekki mikið…).
Sjá má styrk merkisins frá Oscar 100 gervitunglinu á Promax mælitækinu. Mikil ánægja ríkti með þessa fyrstu niðurstöðu í ljósi þess hve lítið diskloftnet var notað.
Menn fylltu aftur á kaffibollana og veltu fyrir sér niðurstöðum mælinga á merkinu frá Oscar 100. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Þórður Adolfsson TF3DT, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Jón E. Guðmundsson TF8-20, Þorvaldur Bjarnason TF3TB og Mathías Hagvaag TF3MH.
Myndin er af nýju Icom IC-9700 stöðinni. Til skýringar skal þess getið að skjámyndin sem sést á tækinu er aðeins ein af mörgum sem eru í boði. Bandsjáin er t.d. ekki sýnd á þessari mynd.
Góðar umsagnir við prófun á IC-9700 í QSO’um við TF3AK, TF2MSN og TF8YY. Tvær IC-9700 stöðvar eru komnar til landsins (sem vitað er um), þ.e. stöð Ólafs B. Ólafssonar TF3ML og stöð Garðars Valbergs Sveinssonar TF8YY. Ljósmyndir: Jónas Bjarnason TF3JB.
0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

eighteen − seventeen =