VEL HEPPNAÐ KAFFISPJALL Á LAUGARDEGI
Kaffispjall á laugardegi var í boði í félagsaðstöðu ÍRA þann 4. maí, frá kl. 13:30.
Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, mætti á staðinn með nýju Icom IC-9700 stöðina, nýjan FeelElec FY-6800 „signal generator“ og loftnet og mælitæki til móttöku merkja frá nýja Oscar 100 gervitunglinu. Daggeir Pálsson, TF7DHP, mætti einnig á staðinn með nýja Kenwood TS-590SG HF stöð, afmælisútgáfu, þ.e. „Special Edition 70th Anniversary“.
Byrjað var að skoða FY-6800 “signal generator’inn” og bar öllum saman um að miðað við 96 dollara verð (flutningur með DHL innifalinn) þá væru mjög góð kaup í þessu tæki. Það er vandað, með litaskjá og hefur komið vel út í prófunum hjá TF1A.
Daggeir, TF7DHP, sýndi okkur síðan afmælisútgáfu Kenwood TS-590SG stöðvarinnar sem hann hefur átt í nokkurn tíma. Þessi stöð var framleidd í takmörkuðu magni og er búin aukinni tæknilegri getu samanborið við TS-590SG grunnútgáfuna; glæsileg stöð.
Mikil spenna ríkti þegar 40cm diskloftnetið var sett á þrífótinn í salnum (við gluggann) og því beint í austurátt. Og viti menn, ótrúlega gott merki náðist fljótlega eins og sjá má á skjá Promax DVB mælitækisins (sbr. ljósmynd).
Viðstaddir fluttu sig næst upp í fjarskiptaherbergi félagsins á efri hæð og þar var nýja IC-9700 stöðin tengd. Hafi einhver verið í vafa áður, þá var svo ekki eftir að búið var að kveikja á tækinu. Hér vinnur saman afar vel heppnuð hönnun á stjórnborði og glæsileg bandsjá sem er ótrúlega þægileg aflestrar. Höfð voru sambönd á FM og SSB á 2 metrum og 70 cm við þá TF3AK, TF2MSN og TF8YY. Viðtaka var skýr og greinileg og allir gáfu umsögn þess efnis að mótun væri skýr og góð frá stöðinni.
Loks var haldið utanhúss og hugað að heppilegri staðsetningu fyrir diskloftnet fyrir nýja Oscar 100 gervitunglið og fannst sá staður fljótlega á veggnum fyrir neðan fjarskiptaherbergið á 2. hæð. Hugmynd VHF stjóra er, að gengið verði frá nýju loftneti eftir að sýningin í Friedrichshafen er yfirstaðin (í júní) þar sem heppilegt gæti verið að afla ýmissa smáhluta til verksins þar.
Stjórn ÍRA þakkar Ara Þórólfi Jóhannessyni, TF1A, fyrir að eiga frumkvæði að því að hittast í kaffispjalli á laugardegi í Skeljanesi. Jafnframt eru þakkir til Ólafs B. Ólafssonar, TF3ML, fyrir að lána nýju Icom IC-9700 stöðina og síðast en ekki síst, þakkir til Daggeirs Pálssonar, TF7DHP, fyrir innlitið. Alls mættu 12 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ánægjulega sumardag.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!