Hustler G6-144B loftnetið komið upp og tengt við TF3RPC. Ljósmynd: TF3WS

Töluvert “ferðalag” hefur verið á TF3RPC endurvarpsstöðinni undanfarin misseri. Þann 7. janúar var stöðin flutt úr Espigerði að Austurbrún. Þar var stöðin síðan staðsett þar til í dag, 8. september 2010, þegar hún var hún flutt að Hagatorgi 1 í vesturborg Reykjavíkur. Nýja loftnetið sem sett var upp 10. júlí á Austurbrúninni var einnig flutt og sett upp á nýja staðnum. Vonir höfðu verið bundnar við að afar leiðigjarnar truflanir sem náðu að opna “squelch’inn” á Austurbrún, myndu hætta með niðurlagningu NMT kerfisins þann 1. september s.l. Svo varð ekki og var því ákveðið að flytja stöðina að Hagatorgi í dag, strax og færi gafst til þess.

Búnaður TF3RPC. Aflgjafinn var færður eftir að myndin var tekin. Ljósm.: TF3WS.

Allt bendir til að nýja QTH’ið geti orðið til frambúðar fyrir TF3RPC (“Einar”) og eru félagsmenn hvattir til að prófa endurvarpann frá nýja QTH’inu.

Stjórn Í.R.A. færir Sigurði Harðarsyni, TF3WS, sérstakar þakkir fyrir frábæra aðstoð.

TF2JB

Frá 1. september að  telja er nauðsynlegt að hækka verð á þjónustu ÍRA QSL Bureau.  Verð fyrir hvert kort verður 7 krónur.  Þessi hækkun er meðal annars tilkomin vegna hækkunar á gjaldskrá Íslandspósts sem varð 1. mars 2010.

 

73

Guðmundur, TF3SG

Það eru vinsamleg tilmæli QSL managers TF3SG til þeirra sem skila inn QSL kortum til þýskra amatöra,  þ.e. DA, DB, DC o.s.frv. og einnig DL1, DL2, o.s.frv., skuli raðað.  Þessi forvinna auðveldar og flýtir fyrir flokkun korta sem fara eiga til þýskalands. Hið þýska Bureau tekur ekki við óflokkuðum kortum.  73, Guðmundur TF3SG

Minolta 4320 ljósritunarvél félagsins komin á sinn stað á 1. hæð í félagsaðstöðunni. Ljósmynd: TF2JB.

Nýlega var ljósritunarvél félagsins tekin í notkun á ný eftir að hafa verið í geymslu í nokkur ár. Hún er af gerðinni Minolta 4320 og er fjölnota, þ.e. getur bæði ljósritað á hefðbundna stærð pappírs (A4) og A3, auk þess að geta stækkað/minnkað texta frumrits. Það, að vélin getur ljósritað í A3 pappírsstærð gefur t.d. möguleika á að ljósrita á eitt blað opnu úr tímariti eins og QST. Þess má geta, að í félagsaðstöðu Í.R.A. liggja hverju sinni frammi nýjustu tímarit landsfélaga radíóamatöra á Norðurlöndunum, Evrópu (t.d. frá Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu) og frá Asíu og Norður Ameríku. Það var Vilhjálmur Í. Sigurjónsson, TF3VS, sem færði félaginu þessa frábæru vél á sínum tíma. Loks má geta þess, að Heimir Konráðsson, TF1EIN, sá um rafmagnsvinnu, þ.e. lagði rafmagn að vélinni og setti upp sérstakan stýrirofa og eru honum færðar bestu þakkir.

Ljósritunarvélin flutt á milli hæða. Frá vinstri: TF3SNN, TF3SG, TF3AO og TF3PPN. Ljósmynd: TF3LMN.

Það var nokkuð átak að flytja vélina úr geymslunni í kjallara félagsaðstöðunnar upp í samkomusalinn á 1. hæð þar sem vélin er bæði stór og þung (sem nokkuð má merkja má af svipnum á burðarmönnunum á ljósmyndinni hér að ofan).

Guðmundur Sveinsson, TF3SG, QSL Manager Í.R.A. í nýrri vinnuaðstöðu kortastofunnar. Ljósmynd: TF3LMN.

Við sama tækifæri og ljósritunarvél félagsins var flutt upp á 1. hæð í félagsaðstöðunni fékk Guðmundur Sveinsson, TF3SG, QSL Manager bætta vinnuaðstöðu. Á myndinni má sjá Guðmund raða kortum til útsendingar erlendis

Annar nýju stólanna við fjarskiptaborð-A. Ljósmynd: TF2JB.

Nýlega voru fest kaup á tveimur nýjum stólum í fjarskiptaherbergi félagsins samkvæmt sérstakri heimild stjórnarfundar nr. 2 starfsárið 2010/2011. Þeir eru af gerðinni Markus (vörunúmer 40103100) og voru keyptir í IKEA. Þeir koma í stað rúmlega 40 ára gamalla skrifstofustóla sem félaginu voru gefnir notaðir á sínum tíma.

Vörulýsing IKEA fyrir Markus stólana er eftirfarandi: Hentugur fyrir skrifstofuna, þæginlegur að sitja í á löngum vinnudögum. Stilltu hæðina til að sitja þægilega. Festanlegar stillingar til að auka stöðugleikann og til þess að stýra setstöðunni. Með bakstuðningi; léttir á og styður við bakið. Með hálspúða; auka stuðningur við höfuð og háls. Möskvarnir á bakinu hleypa lofti í gegn um sig og að bakinu á þér þegar þú situr lengi. Stóllinn er að hluta til úr gervileðri og bakáklæði er úr pólýester, en áklæði á slitflötum er úr gegnumlituðu nautaleðri. Umsagnir þeirra sem prófað hafa eru afar jákvæðar. Hvor stóll um sig kostaði 32.950 krónur.

TF2JB

Viðtal var við TF3CY í gær í síðdegisútvarpi rás tvö út af EME samböndum. Það var Ragnheiður Thorlasíus sem tók viðtalið við Benedikt og fyrir þá sem áhuga hafa má nálgast það á vef RUV rás 2.

73
Guðmundur, TF3SG

Comment frá TF2JB

Flott viðtal. Benedikt komst vel að orði og talaði myndrænt og létt um áhugamálið. Þakka þér fyrir að setja upplýsingarnar á heimasíðuna Guðmundur. 73 de TF2JB

Comment frá EJ

Hérna liggur viðtalið: http://dagskra.ruv.is/ras2/4519193/2010/08/26/6

Alveg afbragð. Virkilega “smooth” auglýsing fyrir okkur í þessum þrönga hópi. Benni, af hverju er ég ekki hissa? (smile)
73 Jakob LA6QPA (TF3EJ)

Takk fyrir mig Gulli og Smári og allir aðrir sem tóku þátt í að gera þessa helgi eftirminnilega.
73 de TF3JA

Vitahelgin hefst á morgun, laugardag, við Garðskagavita og er allt að verða tilbúið. Vel lítur út með veður. Stórt gasgrill verður á staðnum og geta allir fengið að nota það sem þess óska. Miðað er við að fólk hafi sjálft með sér matföng ásamt meðlæti og drykkjarföngum. Nefndin býr yfir magni af einnota diskum og hnífapörum fyrir þá sem það vilja. Gasgrillið verður tilbúið til afnota kl. 18:00. Nefndin mun reisa stóra samkomutjald félagsins á staðnum.

Kraftmikil kjötsúpa verður ókeypis í boði nefndarinnar frá kl. 12:00 á hádegi á laugardag og fram eftir degi, svo lengi sem hún endist.

Á vegnum nefndarinnar verða starfræktar tvær stöðvar undir kallmerkinu TF8IRA; önnur á CW og hin á SSB. Þær verða staðsettar í gamla vitavarðarhúsinu (örskammt frá vitanum). Þær eru opnar fyrir alla leyfishafa.

Líkt og áður hefur komið fram, er byggðasafn á staðnum og handverkssala (sem er á efri hæð í gamla vitavarðarhúsinu). Þar er í boði úrval af vörum frá handverksfólki á Suðurnesjum (alls um 70 manns). Þá er starfræktur veitingastaður og bar á staðnum (á efri hæð fyrir ofan byggðasafnið). Þaðan er frábært útsýni og er hægt að sitja úti þegar veður er gott. Á staðnum er góð aðstaða fyrir fjölskyldur, m.a. frítt tjaldsvæði og góð aðstaða fyrir hjól- og tjaldhýsi og W.C. aðstaða. Undirbúningsnefndin hvetur félagsmenn til að fjölmenna.

Garðskagaviti er 28,5 metra hár (hæsti viti landsins); reistur árið 1944. Fjarlægð frá Reykjavík er um 57 km.

Það er Ayr Amateur Radio Group í Skotlandi sem stendur fyrir Vita- og vitaskipahelgunum. Sjá hlekk: http://illw.net/

F.h. undirbúningsnefndar (TF3SNN, TF3JA og TF8SM), Sveinn Bragi Sveinsson, TF3SNN, formaður.

(Birt að beiðni TF3SNN).

TF2JB

Hustler G6-144B loftnetið komið upp. Ljósmynd: TF3WS.

Félagsmenn hafa verið duglegir að prófa endurvarpsstöðina TF1RPB í Bláfjöllum eftir að nýtt loftnet var tengt við hana í fyrradag (17. ágúst). Þór Þórisson, TF3GW, hafði samband í kvöld og sagði að Páll (TF1RPB) hefði aldrei verið svona sterkur austur í sumarhús hans, Rjúpnahæð, sem er staðsett á Langholtsfjalli í Árnessýslu.

Hann sagðist líka hafa prófað útbreiðsluna úr bíl sínum alla leiðina austur í dag (frá heimili sínu í Reykjavík) og er mjög ánægður með árangurinn. Að vísu þurfi nauðsynlega að stilla endurvarpann þannig að hann leyfi mönnum að senda út í allt að 5 mínútur, en eins og stöðin er stillt nú, segir Þór, “…leyfir endurvarpinn vart nema 1,5 mínútna sendingartíma – þá rofni sendingin vegna naumt skammtaðrar “time-out” stillingar.

Félagsmenn eru beðnir um að sýna þolinmæði þar til hægt verður að fara upp á fjallið og endurforrita stöðina samkvæmt þessari ábendingu. Loks má geta þess, að Heimir Konráðsson, TF1EIN, sem er búsettur í Hveragerði hefur nú gott samband við TF1RPB úr bílnum, hvar sem er í bænum.

Zodiac RT-4000 endurvarpsstöðin vel fest við vegginn. Ljósm.: TF3WS.

“Cavity” síurnar og PS-1330 aflgjafinn við TF1RPB. Ljósmynd: TF3WS.

Bestu þakkir til Sigurðar Harðarsonar, TF3WS, fyrir ljósmyndirnar.

TF2JB

Comment frá TF3JA

Palli kemur vel út hjá mér austur undir Hestfjalli í Grímsnesi og styrkurinn ekki verri en áður var. Það er ekki sjónlína austur undir Hestfjall frá Palla, merkið brotnar eða beygir á Ingólfsfjalli.
73 de TF3JA

TF1RPB er búinn endurvarpa af gerðini RT-4000 frá Zodiac.

TF1RPB er QRV á ný frá Bláfjöllum. Sigurður Harðarson, TF3WS, lagði á fjallið í dag, setti upp nýtt loftnet og stillti. Stöðin var fullbúin og QRV um kl. 20 í kvöld og virðist koma ágætlega út. Vinnutíðnir: 145.150 MHz RX / 145.750 MHz TX.

Nýja loftnetið er systurloftnet þess sem er tengt við TF3RPC, þ.e. af gerðinni Hustler G6-144B frá New-tronics. Um er að ræða 3 metra háa stöng með 4 kvartbylgju radíölum. Ávinnungur er 6 dB yfir tvípól. Sjá má nánari tæknilegar upplýsingar á heimasíðunni: http://www.dxengineering.com/Products.asp?ID=73&SecID=14&DeptID=8

Gaman væri að sem flestir prófuðu endurvarpann á nýja loftnetinu til að kanna útbreiðslu hans.

Stjórn Í.R.A. þakkar Sigurði fyrir frábæra aðstoð.

TF2JB

Benedikt, TF3CY, við EME tilraunir frá Hliðsnesi á Álftanesi í gær, 11. ágúst. Ljósmynd: Jón Ingvar, TF1JI.

Benedikt Sveinsson, TF3CY, hafði fyrsta EME sambandið sem haft hefur verið frá Íslandi við ZL á 50 MHz í gærkvöldi (11. ágúst). Sambandið var við Rod, ZL3NW, sem býr í Kaipoi á Nýja sjálandi. Hann hafði einnig EME QSO á 6 metrunum við þá John, W1JJ á Rhode Island og Robert, K6QXY í Kaliforníu.

Samböndin voru höfð frá jörðinni Hliðsnesi á Álftanesi. Hann notaði Kenwood TS-570D sendi-/móttökustöð, heimasmíðaðan 600W RF-magnara (en Benedikt fékk nýverið sérstaka heimild PFS til að nota QRO afl á 50 MHz til EME-tilrauna). Tegund útgeislunar var JT65A. Hann notaði heimasmíðað 10 stika Yagi loftnet á 15,5 metra langri bómu, sem hann hafði sérstaklega smíðað fyrir EME-tilraunina sem gerð var 12. júlí s.l. Faðir Benedkts, Sveinn Guðmundsson, TF3T, aðstoðaði við tilraunina nú (sem áður) og Guðmundur Sveinsson, TF3SG, (bróðir hans) lagði til færanlega undirstöðu fyrir loftnetið.

Sjá nánar áhugaverðar ljósmyndir og frásögn á heimasíðu Benedikts: http://www.tf3cy.is/

Stjórn Í.R.A. óskar Benedikt innilega til hamingju með þessa frábæru útkomu.

 TF2JB

Póst- og fjarskiptastofnun hefur úthlutað eftirfarandi nýjum kallmerkjum:

Kallmerki Nafn leyfishafa/upplýsingar Staðsetning stöðvar Aðrar upplýsingar
TF2RR Sameiginleg stöð radíóklúbbsins Radíó refir (1) Borgarbyggð Áb.m.: Ársæll Óskarsson, TF3AO
TF3CAN Ágúst Magni Þórólfsson Kópavogur
TF3RR Sameiginleg stöð radíóklúbbsins Radíó refir Kópavogur Áb.m.: Ársæll Óskarsson, TF3AO
TF3SQN Sigurður Sveinn Jónsson Reykjavík Kallmerki áður: TF3SVN

(1) Radíóklúbburinn Radíó refir (stofnfélagar): Georg Magnússon, TF2LL; Ársæll Óskarsson, TF3AO; Haraldur Þórðarson, TF3HP; Guðmundur Ingi Hjálmtýsson, TF3IG; og Jón Gunnar Harðarson, TF3PPN.

Í.R.A. óskar ofangreindum aðilum til hamingju með ný kallmerki.

TF2JB

Nú er minnt á að skila má inn loggum, eða afritum þeirra, fyrir QSO í útileikum, fyrir lok mánaðarins. Engar kröfur eru um að menn reikni stig sín sjálfir, frekar en þeir vilja, því það verður hvort eð er gert af þeim sem fara yfir loggana. Framsetning logga er tiltölulega frjáls og því er unnt að skila inn ljósriti af pappírsloggum, Excel, textaskrá eða öðru formi sem auðvelt er að prenta sem á pappír. Þeir sem hafa logginn í gagnagrunni eru þó beðnir um að senda ekki ADIF-skrár, heldur velja þá frekar Cabrillo-útgáfu sem sýnir samböndin listuð upp í röð. Munið að láta upplýsingar um stöðina ykkar fylgja (tæki, loftnet, QTH, afl, o.s.frv.) og myndir úr útileikunum eru alltaf vel þegnar fyrir CQ TF og vefsíðu ÍRA.

Allir sem senda inn logg (sama hve fá samböndin voru) fá viðurkenningu fyrir þátttöku og að auki fá stigahæstu menn sérstakar viðurkenningar. Menn eru hvattir til að skila inn loggum hið fyrsta og ekki síðar en 31. ágúst:

Kristinn Andersen, TF3KX
Austurgötu 42
220 Hafnarfjörður

E-mail: tf3kx@simnet.is
Sími: 825-8130