Ritstjóri vekur athygli á að enn er hægt að senda efni í næsta tölublað CQ TF, þar sem tekið verður á móti efni til 18. september.

Allt efni um áhugamálið er vel þegið í blaðið, s.s. frásagnir, ljósmyndir, eða jafnvel aðeins punktar og ábendingar um efni sem vinna má úr.

Nýtt CQ TF kemur síðan út á heimasíðu ÍRA sunnudaginn 2. október.

Ath. að nýjung er, að félagsmönnum er boðið að auglýsa frítt í blaðinu notuð fjarskiptatæki og/eða búnað sem tilheyrir áhugamálinu.

Netfang ritstjóra: tf3sb@ox.is

Fyrirfram þakkir og 73,
TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Ein af stóru keppnum ársins er Worked All Europe (WAE) keppnin. SSB hlutinn er haldinn nú um helgina 10.-11. september. Þetta er 48 klst. keppni, en þátttaka er leyfð í mest 36 klst.

Markmiðið er að hafa sambönd við stöðvar utan Evrópu, þ.e. sambönd innan Evrópu gilda ekki í keppninni.  Skilaboð: RS+raðnúmer. Í keppninni gefa QTC skilaboð punkta aukalega.

Sambönd við hverja nýja DXCC einingu (e. entity) gilda sem margfaldarar, auk sambanda við hvert nýtt kallsvæði í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Suður-Afríku,  Japan og Brasilíu, auk kallsvæðanna RA8 og RA9.

Margfaldarar hafa aukið vægi eftir böndum; á 80 metrum fjórir, á 7 MHz þrír og á 14/21/28 MHz tveir.

Með ósk um gott gengi.

Stjórn ÍRA.

Sjá nánar í reglum:  https://www.darc.de/der-club/referate/conteste/wae-dx-contest/en/

Opið hús var í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 8. september fyrir félagsmenn og gesti.

Skemmtilegt kvöld og góðar umræður á báðum hæðum. Sérstakir gestir okkar voru Wesley M. Baden, NA1ME frá Maine í Bandaríkjunum og Peter Ens, HB9RYV frá Sursee í Sviss.

Mikið var rætt um loftnet. Ágúst H. Bjarnason, TF3OM sagði okkur m.a. frá reynslu sinni af að fjarstýra HF loftnetum frá sumarbústað í Haukadal, en Guðlaugur Ingason, TF3GN hefur einmitt hug á að setja upp loftnet við sinn bústað í Svínadal. Einnig var mikið rætt um skilyrðin á böndunum, QO-100 gervihnöttinn og nýju Yaesu FT-710 SDR 100W HF/50 MHz stöðina. Það er einmitt komið verð á hana; €840 frá EU og $1000 frá NA.

Vel heppnað fimmtudagskvöld í mildu haustveðri í vesturbænum í Reykjavík. Alls 19 félagar og 3 gestir í húsi.

Stjórn ÍRA.

Skeljanesi 8. september. Peter Ens HB9RYV, Mathías Hagvaag TF3MH, Sveinn Goði Sveinsson TF3ID, Þórður Adolfsson TF3DT og Wesley M. Baden, NA1ME.
Wes NA1ME hefur verið leyfishafi frá árinu 1957 og er mikill CW maður. Hann sagði að það væri alltaf jafn góð tilfinning að taka í lykil. Hann hafði nokkur sambönd á morsi frá TF3IRA.
Peter HB9RYV sagði skilyrðin á böndunum á uppleið, en þau hafi ekki verið sérstök að undanförnu.
Ágúst H. Bjarnason TF3OM, Hans Konrad Kristjánsson TF3FG, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS.
Guðlaugur Ingason TF3GN og Georg Kulp TF3GZ.
Sigurður Harðarson TF3WS færði okkur búnað til tengingar við skjávarpa félagsins þannig að nú fást aukin myndgæði á tjaldið. Þakkir til Sigurðar. Ljósmyndir: TF3JB.

Teknar voru saman upplýsingar um TF kallmerki sem fengu skráningu á þyrpingu (e. cluster) vikuna 1.-7. september 2022.

Alls fengu 18 TF kallmerki skráningu. Flestir voru QRV á stafrænum mótunum (FT8 og FT4), en einnig á morsi (CW), tali (SSB), fjarritun (RTTY) og um QO-100 gervitunglið á 2.4 GHz. Bönd: 12, 15, 17, 20, 30, 40, 80, 160 metrar og 70cm.

Kallmerki fær skráningu þegar leyfishafi [eða hlustari] hefur haft samband við [eða heyrt í] TF kallmerki. Upplýsingarnar eru fengnar á http://www.dxsummit.fi/#/ Sambærilegar síður eru í boði á netinu til samanburðar.

Fyrst er skráð kallmerki, þá tegund/-ir útgeislunar og band/bönd sem kallmerki fær skráningu á:

TF1A                           SSB á 80 metrum.
TF1EIN                        FT8 á 15 metrum.
TF1EM                        FT8 á 40 metrum.
TF2CT                         FT4 á 17 metrum.
TF2MSN                      FT4 og FT8 á 17 og 30 metrum og FM á 70cm.
TF3AO                        RTTY á 20 metrum.
TF3DX/P                     CW á 20 metrum.
TF3IRA                       CW á 20 metrum og um QO 100 gervitunglið á 2.4 GHz,
TF3JB                          CW og FT8 á 30 metrum.
TF3PPN                       FT8 á 20 metrum.
TF3VS                         FT8 á 12 metrum.
TF4WD                        SSB á 160 metrum.
TF5B                           FT8 á 17 og 40 metrum.
TF8KY                        FT8 á 20 metrum.
TF/HB9YV/P               SSB á 20 metrum.
TF/OE9OBV                SSB á 20 metrum.
TF/K4EU                     CW á 17 og 20 metrum.
TF/K5KG                     CW á 15, 17, 20 og 30 metrum.

Til skoðunar er að taka reglulega saman upplýsingar af þessu tagi.

Stjórn ÍRA.

Kristján Gunnarsson TF4WD var virkur vikuna 1.-7. september. Myndin sýnir skemmtilega fjarskiptaaðstöðu hans heima á Sauðárkróki. Ljósmynd: TF4WD.

Ákveðið hefur verið að fresta flóamarkaði ÍRA sem halda átti í Skeljanesi sunnudaginn 11. september. Í ljós hefur komið að þessi dagsetning hentar ekki vel.

Flóamarkaðurinn verður þess í stað haldinn sunnudaginn 9. október n.k.

Fyrir félaga sem eru búsettir úti á landi eða eiga ekki heimangengt í Skeljanes, verður viðburðinum einnig streymt yfir netið. Notkun ZOOM forritsins verður kynnt með góðum fyrirvara.

Stjórn ÍRA.

Myndin er af kallmerki félagsstöðvar ÍRA, TF3IRA við innanng í félagsaðstöðuna í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Georg Kulp, TF3GZ gerði góða ferð í Skeljanes í dag, 6. september.

Verkefni dagsins var að festa upp á ný fæðilínur og stýrikapla fyrir M2  VHF og UHF Yagi loftnet félagsins, formagnarana frá SSB-Electronic og Yaesu G-5400B rótorinn.

Þessir kaplar hafa samám saman verið að losna úr festingunum við þakrennuna á húsinu og lágu undir skemmdum ef ekkert hefði verið að gert, en flutningslínurnar voru settar upp fyrir 12 árum þannig að í raun hafa festingarnar staðið sig vel.

Georg mætti með stóran stiga á staðinn síðdegis í dag. Veður var eins og best verður á kostið, logn og 14°C hiti og tókst að ljúka verkefninu skömmu fyrir kl. 18. Í leiðinni var skipt um plastpoka sem er utan um LNB á gervihnattadiski félagsins til bráðabirgða, en þessi hluti búnaðarins verður uppfærður fljótlega.

Bestu þakkir til Georgs fyrir vel unnið verk.

Stjórn ÍRA.

Verkið u.þ.b. hálfnað. Kaplarnir voru skoðaðir gaumgæfilega áður en þeir voru festir upp á ný og var ekki annað að sjá en þeir væru óskemmdir.
Verkið nánast í höfn. Sjá má á myndinni hvar kaplarnir eru teknir inn í fjarskiptaherbergi TF3IRA á hæðinni fyrir ofan.
Í leiðinni var skipt um plastpoka sem er til verndar LNB búnaðinum við gervihnattadiskinn. Ljósmyndir: TF3JB.

Félagsaðstaða ÍRA í Skeljanesi verður opin fyrir félagsmenn og gesti kl. 20-22 fimmtudaginn 8. september.

Fundarsalur, fjarskiptaherbergi TF3IRA og QSL stofa á 2. hæð verða opin. QSL stjóri verður búinn að tæma pósthólfið og flokka innkomin kort.

Nýjustu tímaritin liggja frammi. Kaffiveitingar.

Verið velkomin í Skeljanes!

Stjórn ÍRA.

Mynd úr fundarsal í Skeljanesi.
Góðir gestir í fjarskiptaherbergi TF3IRA í Skeljanesi 1. september. Alex Senchurov UT4EK, Mathías Hagvaag TF3MH og Roman Bratchyk, UT7UA. Ljósmynd: TF3JB.

Fjórði fundur í stjórn ÍRA 2022/23 var haldinn í Skeljanesi 1. september. Á fundinum var m.a. gerð samþykkt um kaup á nýju loftneti og rótor fyrir félagsstöðina TF3IRA. Lofnetið er frá OptiBeam, gerð OBDYA9-A fyrir fjögur bönd, 17, 15, 12 og 10 metra. Rótorinn er frá Pro.Sis.Tel. af gerð PST-2501D.

Fram kom á fundinum, að húseigandi hefur staðfest fyrri heimild til uppsetningar á turni fyrir nýtt loftnet í austurhluta portsins í Skeljanesi (við enda gömlu skemmunnar). Notaður verður 12 metra hár turn sem félagið fékk nýlega að gjöf frá Benedikt Sveinssyni, TF3T.

Báðir framleiðendur veita okkur bestu afsláttarkjör. Heildarverð á loftneti, balun, rótor og stýrikapli er 450 þúsund krónur komið til landsins. ÍRA mun á móti selja búnað í eigu félagsins, m.a. á flóamarkaði sem haldinn verður n.k. sunnudag í Skeljanesi. Reiknað er með að nettókostnaður félagssjóðs muni nema um 200 þúsund krónum.

Þetta fyrirkomulag tryggir áframhaldandi nýtingu á Yagi loftneti félagsins á 20 metrum, auk þess sem við bætist nýtt Yagi loftnet fyrir 17, 15, 12 og 10 metrana. Fyrr á árinu var lokið við uppsetningu loftnets fyrir 160 metra og í framhaldi verður sett upp vírloftnet fyrir 80 metrana (sem keypt var 2019). Stefnt er að því að koma nýjum loftnetum upp fyrir veturinn.

Áætlun um heildaruppbyggingu félagsstöðvarinnar verður síðan til kynningar á sérstökum fundi í félagsaðstöðunni í október. Fundurinn er á dagskrá sem hluti af nýrri vetraráætlun fyrir tímabilið október-desember n.k. sem kynnt verður fljótlega.

Stjórn ÍRA.

 OptiBeam OBDYA9-A er 9 elementa Yagi loftnet fyrir 17/15/12/10 metra. Ávinningur: 12,4 / 12,67 / 12,95 / 13,04 dBi. Þyngd er 28 kg og bómulengd er 5.10 metrar. Ljósmynd: OptiBeam.

Elín Sigurðardóttir, TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA var fulltrúi okkar í sumarbúðum IARU Svæðis 1 sem haldnar voru í borginni Karlovac í Króatíu 6.-13. ágúst s.l. Um var að ræða 10. sumarbúðir  „Youngsters On The Air“ verkefnisins.

Í lok dvalar var fulltrúum 25 landsfélaga IARU Svæðis 1 sem viðstaddir voru í Karlovac, afhent vegleg gjöf til ungmennastarfs í löndunum, Dell Vostro 15 3510 ferðatölva.

Elín tók við gjöfinni fyrir hönd ÍRA. Það er systurfélag okkar í Króatíu, Hrvatski Radioamaterski Savez (HRS) sem afhenti gjöfina og er formlega skráð sem gefandi. Elín mætti síðan á stjórnarfund í ÍRA þann 1. september með tölvuna ásamt sérstöku gjafabréfi HRS til félagsins.

Stjórn ÍRA samþykkti sérstakar þakkir til HRS fyrir veglega gjöf til ungmennastarfs félagsins á fundi sínum þann 1. september. Ennfremur voru samþykktar sérstakar þakkir til Elínar fyrir að takast á hendur ferðalagið til Króatíu án aðkomu félagssjóðs.

.

Skeljanesi 1. september. Elín Sigurðardóttir TF2EQ ungmennafulltrúi ÍRA heldur á nýju Dell Vostro fartölvunni. Ljósmynd: TF3JB.

Benedikt Sveinsson, TF3T gaf félaginu 12 metra háan loftnetsturn þann 22. ágúst. Um er að ræða fjórar þrístrendar þriggja metra áleiningar með sæti fyrir rótor og sérsmíðuðu botnstykki.

Georg Kulp, TF3GZ hafði verið í sambandi við Benedikt og varð úr að þeir fóru upp í Álfsnes eftir vinnu mánudaginn 22. ágúst, skrúfuðu turninn í sundur og flutti Georg einingarnar í Skeljanes.

Benedikt ætlar að smíða nýja botneiningu á næstunni og hafa þeir Georg Magnússon, TF2LL verið í sambandi um verkefnið.

Stjórn ÍRA þakkar Benedikt Sveinssyni, TF3T fyrir frábært framlag í þágu félagsins.

.

Georg Kulp TF3GZ kominn í Skeljanes með farminn 22. ágúst.
Tekið til við að taka einingarnar af kerrunni.
Georg raðar einingunum upp við húsið í Skeljanesi þar sem þær verða geymdar um sinn. Ljósmyndir: TF3JB.