Í dag sunnudaginn, 19. okt., var SteppIR loftnetið sett upp, aðeins smá tengingar vinna eftir. Þeir sem komu að uppsetningunni voru auk mín: TF3GB, TF3SNN, TF3BNT, TF3SG, TF3PPN, TF3IGN og TF3Y. Móralskan stuðning veittu TF3GC, TF3FK og TF3JA. Á því miður engar myndir af framkvæmdinni, en einhverjar myndir munu vera til og verða væntanlega birtar síðar.

73 de TF3AO

Í gær, fimmtudaginn 16. október, komu loksins varahlutirnir í SteppIR loftnetið.

Stefnt er að uppsetningu turnsins og loftnetsins á n.k. sunnudag, nánar auglýst á ÍRA spjallinu.

de TF3AO

Haraldur Þórðarson TF3HP, varamaður í stjórn ÍRA og fyrrverandi formaður félagsins, verður fulltrúi stjórnar ÍRA á aðalfundi NRAU (norrænu radíóamatörsamtakanna) í Stokkhólmi 10.-12. október. Af þessu tilefni var sett saman PowerPoint-kynning sem áhugasamir geta skoðað hér: IRA NRAU 2008.10

Í gærkvöldi hélt TF3Y Yngvi Harðarson fræðsluerindi um stafræna QSL- og viðurkenningaþjónustu sem nefnist Logbook of the World (LotW). Yngvi fór yfir hvaða hugbúnað þarf að nota, hvernig sótt er um stafræn skilríki til ARRL, hvernig kvittað er undir logskrár og þær sendar inn í LotW kerfið. Einnig sýndi Yngvi hvernig hægt er að fylgjast með DXCC stöðu sinni og sækja um viðurkenningar byggt á LotW upplýsingum, en ARRL tekur þær gildar til DXCC og WAS viðurkenningana.

Greinilegt var að fundarmönnum þótti erindið áhugavert og spennandi. Í.R.A. þakkar TF3Y Yngva fyrir að gefa sér tíma til að deila með okkur af reynslu sinni! Á myndinni má sjá Yngva sýna vefþjónustuhluta LotW.

TF3Y – LotW

Nú er vetrarstarf ÍRA óðum að taka á sig mynd.

Strax í næstu viku, fimmtudagskvöldið þann 25. september ætlar TF3Y Yngvi að halda erindi um staðfestingar á samböndum með stafrænum hætti, með aðstoð Logbook of the World. Þetta er það nýjasta í QSL málum og allir amatörar ættu að þekkja.

Fleira spennandi er á döfunni á næstunni á vegum félagsins. Þar má nefna amatör-bíó, kynningu á nýjum vef (og veflægum samskiptakerfum), fræðsluerindi og fleira og fleira. Þetta mun skýrast fljótlega.

Stjórn mun einnig á næstunni kynna nýjan vef félagsins sem hýstur verður í gagnvirku wiki kerfi ásamt því að kynna nýtt vefspjall. Þessu gætu fylgt einhverjar truflanir á vef félagsins á næstu dögum.

Allir að taka frá fimmtudagskvöldið 25. september næstkomandi!

Sælir félagar

Á næstu dögum mun vefur félagsins, http://www.ira.is/ taka á sig nýja mynd. Hugsanlega geta nú þegar einhverjir séð hann. Ekki einungis mun vefurinn fá nýtt útlit heldur byggir hann á nýrri nálgun: Hann er gagnvirkur, þ.e. félagsmenn ekki bara lesið hann heldur einnig bætt við og breytt!

Flestir þekkja alfræðiorðabókina á netinu Wikipedia. Sá vefur byggir á því að hver sem hefur áhuga getur án sérstakrar þekkingar eða án sérstaks hugbúnaðar bætt við og breytt vefnum. Slíkir vefir nefnast Wiki vefir og af því dregur Wikipedia nafn sitt. Sömu nálgun hefur verið beitt við nýja vef félagsins, hann byggir á Wiki kerfi. Það þýðir að allir félagsmenn sem kæra sig um það geta tekið þátt í að betrumbæta vefinn. Þannig geta áhugasamir séð um að viðhalda og bæta við síðum um viðurkenningar, námsefni, tækjabúnað og hvaðeina án þess að þurfa að fara í gegnum vefumsjónarmann. Menn bara ýta á “Edit” (breyta) hnappinn á vefnum og betrumbæta eins og þeir væru að vinna í ritvinnslu. Stjórn bindur miklar vonir við að félagsmenn verði duglegir að taka þátt í að gera vef félagsins gagnlegan amatörum og öðrum. Allir sem áhuga hafa á að taka þátt í að viðhalda og byggja upp vefinn geta gefið sig fram við stjórnarmenn.
Vefurinn verður eins og áður aðgengilegur í gegnum vefslóðina http://www.ira.is/

Samhliða því að nýr vefur er tekinn í gagnið kynnir stjórn nýjan umræðuvettvang á Netinu fyrir félagsmenn: Spjallkerfi á vefnum. Þetta spjallkerfi komast menn í með því að fara á
http://spjall.ira.is/
Þarna er á ferðinni umræðukerfi sambærilegt því sem mörg áhugamannafélög nýta sér. Spjallkerfi eins og þetta býður upp á ýmsa möguleika umfram póstlistann okkar irapostur@yahoogroups.com. Þar má sem dæmi nefna möguleikan á að senda ekki bara inn texta heldur einnig myndir og jafnvel myndbönd. Á spjallkerfinu er búið að stofna nokkra flokka. Þar má sem dæmi nefna flokkinn Föndurhornið þar sem hægt er að ræða um hvaðeina sem félagsmenn eru að smíða eða búa til. Annar flokkur sem áreiðanlega á eftir að koma sér vel fyrir marga er flokkurinn “Til sölu – óskast keypt”. Allir félagsmenn í ÍRA geta sótt um og fengið að ganga að spjallkerfinu. Það er gert á spjallsíðunni sjálfri með því að smella á “Register” hlekkinn ofarlega á hægri kannt spjallsíðunnar.

Það tekur einhverja daga fyrir Netið að taka eftir því að vefurinn okkar hefur verið fluttur til og breytt. Breytingarnar eru því að koma í ljós á næstu dögum en ættu að vera komnar fram hjá öllum á næsta fimmtudagskvöld. Ég skora þó á menn að heimsækja http://www.ira.is/ reglulega næstu daga til að athuga hvort þeir sjá einhverja breytingu.

Gamli vefurinn verður en aðgengilegur fyrst um sinn enda ekki búið að færa allt af því góða efni sem þar er að finna yfir á þann nýja. Hægt verður að komast í gamla vefinn á slóðinni http://gamli.ira.is/ Sá vefur var hýstur hjá Internetþjónustunni Hringiðunni undanfarin rúm 8 ár, félaginu endurgjaldslaust. Það er ekki amalegur styrkur fyrir okkar félag! Við kunnum Hringiðunni hinar bestu þakkir fyrir! Nýji vefurinn gerir töluvert meiri kröfur til hýsingarinnar og nettengingar en sá gamli. Nánast má segja að hann þurfi sér tölvu fyrir sig. Félagið er því lánsamt að hafa fengið að hýsa nýjan vef og spjallkerfi á búnaði og nettengingu sem Benedikt Sveinsson TF3BNT útvegar.

Ég vona að félagsmenn taki þessum breytingum fagnandi. Ég er viss um að þær eiga eftir að verða félaginu lyftistöng. Ég bið einnig menn að sýna því skilning að ekki er allt fullkomið í fyrstu og vera jafnframt ófeimna að benda á það sem betur má fara. Ég vona einnig að félagsmenn taki nýja spjallkerfinu vel. Það er ekki ætlunin að leggja póstlistann okkar irapostur niður, sérstaklega ekki fyrst um sinn.

F.h. stjórnar
73 de TF3HRafnkell

Hrafnkell Eiríksson verkfræðingur getur talað við allan heiminn sama hvað öllu sím- eða tölvusambandi líður.

Hrafnkell Eiríksson verkfræðingur getur talað
við allan heiminn sama hvað öllu sím- eða
tölvusambandi líður.

„Íslenskir radíóamatörar eru samtök áhugamanna um tækni og fjarskipti svo og samskipti. Félagið hefur verið starfrækt frá 1946 og félagar eru um 150 talsins,“ segir Hrafnkell Eiríksson, verkfræðingur og nýskipaður formaður.

Hann hefur verið radíóamatör í tíu ár en til þess þarf fyrst að sækja námskeið og síðan standast próf hjá Póst- og fjarskiptastofnun. „Þetta áhugamál er sennilega það eina þar sem félagar þurfa leyfi frá ríkinu. Við höldum námskeið einu sinni til tvisvar á ári sem stendur yfir í einn til tvo mánuði og lýkur með prófi,“ segir Hrafnkell.

Þar er farið í grundvallaratriði í rafmagnsfræðum, radíótækni, fjallað um loftnet, lög og reglur, bæði fræðilega og praktískt.

Grunntæknin byggir á talstöðvartækni en radíó- amatörar hafa eingöngu samskipti við aðra radíó- amatöra. Megintilgangurinn er að koma á samskiptum auk þess sem radíóamatörar koma að almannavörnum. „Þegar flóðbylgjan skall á Asíu árið 2004 voru radíóamatörar þeir fyrstu sem komust í samband við umheiminn. Við erum með eigin búnað og komumst í samband þrátt fyrir að símakerfi og internet liggi niðri,“ segir Hrafnkell sem segir í þágu almannavarna að viðhalda hefðinni. Hann segir jafnframt radíóamatöra í Bandaríkjunum vera hluta af þarlendum almannavarnarlögum.

„Félagið hittist einu sinni í viku og síðan erum við alltaf að hittast í loftinu. Þá í gegnum talstöðvarnar eða í gegnum tölvur sem tengjast talstöðvunum. Þá spjöllum við bæði við félaga hérlendis og erlendis sem eru á bilinu fjórar til sex milljónir,“ segir Hrafnkell.

Félagar koma úr öllum áttum og eru reglulega með kynningar, fyrirlestra og aðra viðburði. Eins og á nýaflokinni alþjóðlegri vitahelgi radíóamatöra sem fór fram í áttunda sinn við Knarrarósvita austan við Stokkseyri. Hrafnkell bendir áhugasömum á heimasíðu félagsins. www.ira.is

rh@frettabladid.is

 

Haraldur Þórðarson fjallar um radíóamatöra

Haraldur Þórðarson

Haraldur Þórðarson

Haraldur Þórðarson fjallar um radíóamatöra: “Margar björgunarsveitir landsins hafa innan sinna raða einmitt menn sem eru radíóamatörar þannig að við komum víða að.”

RADÍÓAMATÖR ! Hvað er nú það?

Við sem höfum þetta að áhugamáli erum oft spurðir að þessu. Og eins og gefur að skilja er stundum erfitt að segja frá því í stuttu máli. Fyrst og fremst er þetta áhugamál um fjarskipti og fjarskiptatækni. Sumir eru í því að hafa samband við aðra amatöra um allan heim en aðrir hafa meiri áhuga á að smíða alls konar búnað. Allt frá því Marconi tókst að senda loftskeyti hafa radíóamatörar verið til, kannski var hann sá fyrsti! Fljótlega fór þeim fjölgandi sem höfðu áhuga á þessu og þar kom að þeir sem töldu sig vera “alvöru” ákváðu og bundust samtökum um að þessir amatörar ættu ekki tilverurétt á langbylgjunni og úthlutuðu þeim svæðum á stuttbylgjunni, sem væri hvort sem er alveg ónýt til fjarskipta.

Fljótlega fóru þessir amatörar að smíða sér senda og viðtæki og settu upp loftnet til þess að nota sín á milli.

Þróun í fjarskiptum varð mjög hröð á þessum upphafstímum og kom að því að samband við radíóamatöra í öðrum löndum tókst og amatörar fengu því framgengt að þeim var úthlutað smábútum hér og þar á stuttbylgjusviðinu. Og nú í dag hafa amatörar leyfi til að nota tíðnisvið frá langbylgju 1,8 MHz og að 29 MHz og nú í seinni tíð (tilraunaútsendingar) á 137 Hz.

Félagið Íslenskir radíóamatörar, skammstafað ÍRA, var stofnað 14. ágúst 1946, verður því 60 ára á næsta ári, en þá skömmu áður höfðu íslensk yfirvöld sett reglugerð um starfsemi radíóamatöra þar sem nokkuð ströng skilyrði voru sett. Þeim var gert að undirgangast próf til þess að sanna að þeir kynnu eitthvað fyrir sér í þessum fræðum en það var í fullu samræmi við það sem tíðkaðist erlendis. Einnig var sett ákvæði um að þeir sem sóttu um leyfi urðu að vera greiðendur útvarpsgjalds.

ÍRA hefur frá upphafi reynt að standa vörð um starfsemi amatöra á Íslandi og í góðri samvinnu við yfirvöld sem áður voru Landssími Íslands en á seinni árum Póst- og fjarskiptastofnun. Má segja að sú stofnun hafi verið okkur afar hagstæð og menn þar á bæ verið framsýnir á þarfir radíóamatöra. Þess má geta að fyrir u.þ.b. 35 árum var sett reglugerð um starfsemi nýliða og urðum við þar með fyrstir í Evrópu til að leyfa ungu fólki, sem kannski hafði ekki allt þetta á hreinu, að kynnast þessu áhugamáli og með tímanum að tileinka sér þetta. Það er núna fyrst sem það hefur komið til tals í nágrannalöndum okkar að nauðsynlegt væri að taka þetta upp.

En nokkrir frumkvöðlar höfðu þó verið í loftinu hér á landi án leyfis en amatörleyfi höfðu verið útgefin víða í Evrópu. T.d. eru félögin annars staðar á Norðurlöndum komin yfir 80 árin. Enn í dag verða amatörar um allan heim að undirgangast próf til þess að fá að fara í “loftið”. Í seinni tíð hafa kröfur til amatöra verið samræmdar milli landa þannig að nú getur íslenskur radíóamatör farið til flestra landa í heiminum og haft samband þaðan við umheiminn og flestir komið til Íslands. Í tímans rás hefur þó þessum takmörkunum verið aflétt eða þær rýmkaðar verulega. Ekki þarf lengur að kunna að senda og taka á móti morse.

Radíóamatörar um víða veröld hafa veitt radíóþjónustu á hættutímum, til dæmis þegar flóðbylgjan mikla olli miklu manntjóni, þá voru það radíóamatörar frá nálægum löndum sem settu upp radíóþjónustu sína og veittu alla þá hjálp sem þeir gátu. Einnig í BNA hafa þeir verið til staðar vegna hamfara (fellibylja) en þar í landi er mikil hefð fyrir amatörradíói og má geta þess hér að þeir fá ekki leyfi nema undirgangast skilyrði um að veita þessa þjónustu.

Við íslenskir radíóamatörar höfum lengi veitt þessa þjónustu fyrir Almannavarnir ríkisins en því miður hefur nú sem stendur ekki verið óskað eftir okkar aðstoð en þó fer fjöldi manna og kvenna í okkar röðum af stað ef þörf krefur. Margar björgunarsveitir landsins hafa innan sinna raða einmitt menn sem eru radíóamatörar þannig að við komum víða að. ÍRA hefur staðið fyrir námskeiðum í radíófræðum og fyrirhugað er eitt slíkt í byrjun næsta árs.

Ef þú hefur áhuga þá ertu velkomin(n) í félagsheimili okkar að Skeljanesi (endastöð Strætó) en við erum með opið hús alla fimmtudaga frá kl. 20 og oftast heitt á könnunni.

Á heimasíðu okkar www.ira.is eru frekari upplýsingar um félagið.

Sjáumst fljótlega.

TF3HP

Höfundur er tækjavörður við efnafræðiskor HÍ.

Hópur radíóamatöra fór í svokallaðan DX-leiðangur

Carlos "NP4IW" George-Nascimento, einn leiðangursmanna stundar fjarskipti við radíóamatöra úti í heimi á eyjunni Pétri I.

Carlos “NP4IW” George-Nascimento, einn leiðangursmanna stundar fjarskipti við radíóamatöra úti í heimi á eyjunni Pétri I.

Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is HÓPUR radíóamatöra steig nýverið á land á eyjunni Pétri fyrsta, sem er við Suðurskautslandið. Færri hafa stigið fæti á eyjuna heldur en hafa farið út í geim.

HÓPUR radíóamatöra steig nýverið á land á eyjunni Pétri fyrsta, sem er við Suðurskautslandið. Færri hafa stigið fæti á eyjuna heldur en hafa farið út í geim. Tilgangur ferðar radíóamatöranna var að reka fjarskiptabúðir á eyjunni til að gera öðrum amatörum kleift að ná sambandi þangað. Þetta er í þriðja skiptið sem eyjan er gerð að fjarskiptastöð fyrir amatöra.

Það er metnaðarmál fyrir marga radíóamatöra að ná staðfestu sambandi við sem flesta fjarlæga og sjaldgæfa staði í heiminum, en það er kallað að “DX-a”. Því fara hópar radíóamatöra gjarnan í nokkurs konar DX-leiðangra til að gera öðrum amatörum kleift að takast á við það krefjandi verkefni að ná sambandi við hina framandi staði. Sumir af þeim stöðum sem skilgreinast sem “lönd” í heiminum eru óbyggðir og því gerist það öðru hverju að amatörar taka sig saman, ferðast til viðkomandi lands og reisa þar tjaldbúðir til að veita öðrum amatörum talstöðvarþjónustu.

Leiðangursmenn voru 22 talsins. Leiðangursmenn náðu að mynda alls 87.034 sambönd við radíóamatöra víðs vegar um heim á þeim ellefu dögum sem þeir ráku fjarskiptabúðirnar á eyjunni. Þannig þótti ljóst að mikill áhugi var meðal amatöra að ná sambandi við eyjuna. Leiðangurinn var því ekki til einskis, að sögn Hrafnkels Eiríkssonar, verkfræðings og radíóamtörs, en hann svarar kallmerkinu TF3HR.

Blanda af tækni- og náttúruáhuga

Hrafnkell náði sjálfur ekki sambandi við Pétur fyrsta, en sendistöð hans lá niðri á þessum tíma. Hann hlustaði þó eftir merkjum frá fjarskiptabúðunum. “Það er margt sem spilar inn í hvort maður nær sambandi eða heyrir í fjarlægum stöðvum,” segir Hrafnkell. “Það fer m.a. eftir sólblettum, tíma dags og ástandi himinhvolfa, því radíóbylgjurnar speglast af himinhvolfum.” Hrafnkell segir marga líta á radíóamatöráhugann sem eitthvað gamalt og úrelt sem heyri sögunni til, eins og morsekerfið, en það sé alrangt.

“Þetta er í raun visst birtingarform áhuga á náttúrunni, að spá í stöðu sólar og himinhvolfa,” segir Hrafnkell og bætir við að áhugamálinu tengist líka mikill tækniáhugi, því radíóamatörar eru tæknigrúskarar upp til hópa, sífellt að spá í nýjustu tækni til fjarskipta þótt margir hafi einnig áhuga á gamalli tækni á þessu sviði. Þá eiga samtök radíóamatöra AMSAT gervihnetti sem amatörar eiga margir í tölvusamskiptum gegnum.

Erlendis skiptir starfsemi Radíóamatöra miklu máli í öryggis- og björgunaraðgerðum, að sögn Hrafnkels. “T.d. skiptu viðbrögð radíóamatöra miklu máli þegar fellibylurinn Katrín reið yfir Bandaríkin,” segir Hrafnkell. “Þá voru fyrstu fjarskiptin sem komust á eftir Tsunami bylgjuna í Asíu á vegum radíóamatöra. Radíóamatörar hafa einnig spilað hlutverk í almannavörnum hér á landi.”

Náði sambandi á morse

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og radíóamatör var meðal þeirra Íslendinga sem náðu í gegn til búðanna á Pétri fyrsta og bætti því landinu í sambandabók sína, sem telur nú rúmlega 300 lönd af þeim 335 sem hægt er að ná til í dag. Yngvi náði sambandi með morse skilaboðum. “Morsið er aðalfjörið,” segir Yngvi en bætir við að ólíklegt sé að það komi nokkurn tíma í góðar þarfir, nema mögulega í neyðartilfellum. “En þetta er eins og að kunna tónlist, svona skemmtilegur hæfileiki.”

Yngvi hefur stundað radíósamskipti frá barnsaldri með hléum, en áhuginn kviknaði þegar hann fylgdist með afa sínum sem hafði mikinn áhuga á tilraunum með rafeindatæki. Aðspurður hvað felst í því að ná sambandi við erlenda aðila segir Yngvi málið snúast um að taka niður kallmerki hver hjá öðrum og skiptast á stuttum skilaboðum. “Í dag er þetta ekki upp á marga fiska, tiltölulega stutt og stöðluð skilaboð varðandi merkisstyrk og slíkt.”

Á Íslandi eru um 200 skráðir radíóamatörar sem hafa lokið prófi og fengið leyfi til að starfrækja sendistöð og segir Hrafnkell það mikilvægt að gott eftirlit sé haft með því hverjir fái að vinna með senda sem mögulega geta truflað útvarpsbylgjur og fleira, enda séu þetta vandmeðfarin fyrirbæri. Íslenskir radíóamatörar eru með opið hús í félagsheimili sínu í þjónustumiðstöð ÍTR við Skeljanes á fimmtudögum kl. 19.

www.peterone.com

Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is

Kvenradíóamatörar hittast á Íslandi

Erlendu gestirnir voru spenntir yfir Íslandskomunni, enda er sérstakt að komast í talstöð hérlendis, þar sem truflanir eru litlar. Konurnar fóru í talstöð IRA (íslenskir radíóamatörar) og sendu í tilefni af þinginu út sérstakt kallmerki, sem amatörar erlendis biðu spenntir eftir. — Morgunblaðið/Þorkell

Erlendu gestirnir voru spenntir yfir Íslandskomunni, enda er sérstakt að komast í talstöð hérlendis, þar sem truflanir eru litlar.
Konurnar fóru í talstöð IRA (íslenskir radíóamatörar) og sendu í tilefni af þinginu út sérstakt kallmerki, sem amatörar erlendis biðu
spenntir eftir. — Morgunblaðið/Þorkell

 

Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is FYRSTA formlega þing SYLRA, sem eru norræn samtök kvenradíóamatöra, var haldið í Reykjavík í vikunni. Á ráðstefnuna mættu nítján konur á aldrinum 38 til 83 ára, frá Norðurlöndunum, Japan, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Eftir Hrund Þórsdóttur hrund@mbl.is

FYRSTA formlega þing SYLRA, sem eru norræn samtök kvenradíóamatöra, var haldið í Reykjavík í vikunni. Á ráðstefnuna mættu nítján konur á aldrinum 38 til 83 ára, frá Norðurlöndunum, Japan, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Helstu áhersluatriði þingsins voru leiðir til fjölgunar kvenna meðal radíóáhugamanna, styrking samtakanna og stefnumótun, en þau voru stofnuð fyrir tveimur árum.

Samskipti um allan heim

Vala Dröfn Hauksdóttir er önnur tveggja virkra kvenamatöra á Íslandi og segir hún að þingið sé frábær kynning fyrir amatöra hérlendis. “Radíóamatörar taka próf og fá formleg leyfi frá póst- og fjarskiptastofnunum um allan heim, til að starfrækja talstöðvar. Þeir eru síðan í samskiptum við fólk úti um allan heim.” Vala segir að markmiðið með að hittast sé að þróa samtökin áfram og fá hugmyndir frá hinum konunum, enda séu svona samtök mjög virk í Þýskalandi, Japan og víðar. “Við erum að reyna að fá kvenlegt innsæi í þetta, við erum til dæmis svo fáar í þessu hérlendis.” Aðspurð af hverju svo sé, segist hún telja að konur álíti þetta vera bara fyrir karla, en það sé auðvitað ekki rétt.

Í dag er þetta fyrst og fremst áhugamál, en þó getur þessi tegund samskipta ennþá skipt sköpum, til dæmis á hamfarasvæðum. Vala segir að eftir flóðbylgjuna í Asíu annan í jólum hafi amatörar til dæmis bjargað öllum samskiptum. “Þeir gegna því ennþá glettilega miklu hlutverki í neyðaraðstoð.” Eins og sjá má á aldursskiptingu þátttakenda þingsins, stundar fjölbreyttur hópur þetta áhugamál. Vala segir að fólk geti verið með mjög mismunandi áhugasvið innan þess. Sumir hafi til dæmis gaman af því að búa til loftnet en hafi lítinn áhuga á að nota þau og aðrir vilji komast í samband við fólk sem lengst í burtu og noti þá til þess mors-tákn.

Oft er talað um spjall netverja sem nýmæli en í raun má segja að samskipti amatöranna séu forveri þess. Fólk fór að vera á spjallrásum fyrir áratugum síðan, en notaði þá talsvöðvarnar sínar. Vala segir að í dag séu tækin orðin mjög fullkomin og að nú noti amatörar tölvur og fleira í samskiptum sínum. Jafnvel sé hægt að senda myndir.