Mbl: Hvað er amatörradíó?
Haraldur Þórðarson fjallar um radíóamatöra
Haraldur Þórðarson fjallar um radíóamatöra: “Margar björgunarsveitir landsins hafa innan sinna raða einmitt menn sem eru radíóamatörar þannig að við komum víða að.”
RADÍÓAMATÖR ! Hvað er nú það?
Við sem höfum þetta að áhugamáli erum oft spurðir að þessu. Og eins og gefur að skilja er stundum erfitt að segja frá því í stuttu máli. Fyrst og fremst er þetta áhugamál um fjarskipti og fjarskiptatækni. Sumir eru í því að hafa samband við aðra amatöra um allan heim en aðrir hafa meiri áhuga á að smíða alls konar búnað. Allt frá því Marconi tókst að senda loftskeyti hafa radíóamatörar verið til, kannski var hann sá fyrsti! Fljótlega fór þeim fjölgandi sem höfðu áhuga á þessu og þar kom að þeir sem töldu sig vera “alvöru” ákváðu og bundust samtökum um að þessir amatörar ættu ekki tilverurétt á langbylgjunni og úthlutuðu þeim svæðum á stuttbylgjunni, sem væri hvort sem er alveg ónýt til fjarskipta.
Fljótlega fóru þessir amatörar að smíða sér senda og viðtæki og settu upp loftnet til þess að nota sín á milli.
Þróun í fjarskiptum varð mjög hröð á þessum upphafstímum og kom að því að samband við radíóamatöra í öðrum löndum tókst og amatörar fengu því framgengt að þeim var úthlutað smábútum hér og þar á stuttbylgjusviðinu. Og nú í dag hafa amatörar leyfi til að nota tíðnisvið frá langbylgju 1,8 MHz og að 29 MHz og nú í seinni tíð (tilraunaútsendingar) á 137 Hz.
Félagið Íslenskir radíóamatörar, skammstafað ÍRA, var stofnað 14. ágúst 1946, verður því 60 ára á næsta ári, en þá skömmu áður höfðu íslensk yfirvöld sett reglugerð um starfsemi radíóamatöra þar sem nokkuð ströng skilyrði voru sett. Þeim var gert að undirgangast próf til þess að sanna að þeir kynnu eitthvað fyrir sér í þessum fræðum en það var í fullu samræmi við það sem tíðkaðist erlendis. Einnig var sett ákvæði um að þeir sem sóttu um leyfi urðu að vera greiðendur útvarpsgjalds.
ÍRA hefur frá upphafi reynt að standa vörð um starfsemi amatöra á Íslandi og í góðri samvinnu við yfirvöld sem áður voru Landssími Íslands en á seinni árum Póst- og fjarskiptastofnun. Má segja að sú stofnun hafi verið okkur afar hagstæð og menn þar á bæ verið framsýnir á þarfir radíóamatöra. Þess má geta að fyrir u.þ.b. 35 árum var sett reglugerð um starfsemi nýliða og urðum við þar með fyrstir í Evrópu til að leyfa ungu fólki, sem kannski hafði ekki allt þetta á hreinu, að kynnast þessu áhugamáli og með tímanum að tileinka sér þetta. Það er núna fyrst sem það hefur komið til tals í nágrannalöndum okkar að nauðsynlegt væri að taka þetta upp.
En nokkrir frumkvöðlar höfðu þó verið í loftinu hér á landi án leyfis en amatörleyfi höfðu verið útgefin víða í Evrópu. T.d. eru félögin annars staðar á Norðurlöndum komin yfir 80 árin. Enn í dag verða amatörar um allan heim að undirgangast próf til þess að fá að fara í “loftið”. Í seinni tíð hafa kröfur til amatöra verið samræmdar milli landa þannig að nú getur íslenskur radíóamatör farið til flestra landa í heiminum og haft samband þaðan við umheiminn og flestir komið til Íslands. Í tímans rás hefur þó þessum takmörkunum verið aflétt eða þær rýmkaðar verulega. Ekki þarf lengur að kunna að senda og taka á móti morse.
Radíóamatörar um víða veröld hafa veitt radíóþjónustu á hættutímum, til dæmis þegar flóðbylgjan mikla olli miklu manntjóni, þá voru það radíóamatörar frá nálægum löndum sem settu upp radíóþjónustu sína og veittu alla þá hjálp sem þeir gátu. Einnig í BNA hafa þeir verið til staðar vegna hamfara (fellibylja) en þar í landi er mikil hefð fyrir amatörradíói og má geta þess hér að þeir fá ekki leyfi nema undirgangast skilyrði um að veita þessa þjónustu.
Við íslenskir radíóamatörar höfum lengi veitt þessa þjónustu fyrir Almannavarnir ríkisins en því miður hefur nú sem stendur ekki verið óskað eftir okkar aðstoð en þó fer fjöldi manna og kvenna í okkar röðum af stað ef þörf krefur. Margar björgunarsveitir landsins hafa innan sinna raða einmitt menn sem eru radíóamatörar þannig að við komum víða að. ÍRA hefur staðið fyrir námskeiðum í radíófræðum og fyrirhugað er eitt slíkt í byrjun næsta árs.
Ef þú hefur áhuga þá ertu velkomin(n) í félagsheimili okkar að Skeljanesi (endastöð Strætó) en við erum með opið hús alla fimmtudaga frá kl. 20 og oftast heitt á könnunni.
Á heimasíðu okkar www.ira.is eru frekari upplýsingar um félagið.
Sjáumst fljótlega.
TF3HP
Höfundur er tækjavörður við efnafræðiskor HÍ.
Leave a Reply
Want to join the discussion?Feel free to contribute!