CQ World Wide DX morskeppnin 2019 verður haldin 23.-24. nóvember. Keppnin er 48 klst. og hefst kl. 00:00 á laugardag og lýkur kl. 23:59 á sunnudag.

Keppnin fer fram á 160, 80, 40, 20, 15 og 10 metrum. Í boði eru fjölmargir keppnisriðlar (sjá reglur).

Þátttaka var ágæt frá okkur í fyrra (2018); þá sendu fimm TF kallmerki inn keppnisdagbækur: TF3DC, TF3SG, TF3W, TF3Y og TF8KY. TF3VS og TF4M sendu inn viðmiðunardagbækur (e. check-log).

Með ósk um gott gengi,

Stjórn ÍRA.

Heimasíða keppninnar: https://www.cqww.com/

Keppnisreglur: https://www.cqww.com/rules.htm

Fyrsta sunnudagsopnun á vetrardagskrá ÍRA var sunnudaginn 17. nóvember. Jónas Bjarnason, TF3JB, mætti í Skeljanes og fjallaði um viðurkenningar radíóamatöra.

Fram kom m.a. að viðurkenningar hafa verið í boði til radíóamatöra í a.m.k. 96 ár og að þær eru vinsæll þáttur hjá mörgum sem hluti af áhugamálinu. Fram kom einnig, að margar eru erfiðar eða jafnvel mjög erfiðar að ná og að það getur tekið mörg ár eða jafnvel áratugi að uppfylla kröfurnar.

Þær þekktustu eru DXCC, WAZ, WAC, WAS, IOTA, WAE og EUROPA DIPLOM. Þær eiga það allar sammerkt að það liggur töluverð vinna á bak við þær. Sá leyfishafi sem á flestar viðurkenningar hér á landi nálgast 2000 og er enn jafn áhugasamur og hann var daginn sem hann byrjaði.

Á staðnum voru til sýnis 30 innrammaðar viðurkenningar sem TF3JB hefur safnað í gegnum árin, m.a. DXCC, 5BDXCC, DXCC CHALLENGE, WAZ, WPX, WAS, WAJA, VUCC og fleiri.

Alls mættu 11 félagar og 1 gestur í Skeljanes þennan ágæta sunnudagsmorgun.

Vefslóð á glærur: http://bit.ly/345WdY1

Skeljanesi 17. nóvember. Frá vinstri: Ólafur Örn Ólafsson TF1OL, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ársæll Óskarsson TF3AO, Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS, Jónas Bjarnason TF3JB og Mathías Hagvaag TF3MH (snýr baki í myndavél). Í guggunum má sjá raðað sex af þrettán DXCC viðurkenningum TF3JB. Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.
Hluti af viðurkenningum sem voru til sýnis í Skeljanesi. Frá vinstri sést í VUCC sem er skammstöfun fyrir “VHF/UHF Centruy Club Award” og er hliðstæð DXCC viðurkenningum á HF. Þetta er eina VUCC viðurkenningin sem hefur verið gefin út til TF á 50 MHz. Fyrir miðju er WAJA (Worked All Japan Prefectures Award). TF3JB upplýsti að það hafi tekið hann 38 ár að safna upp í kröfur japanska landsfélagsins þegar hann fékk hana loks í febrúar 2015. Aðrar viðurkenningar sem sjást (eða sést í) eru WAZ (Worked All Zones) og WAS (Worked all States Award). Ljósmynd: Óskar Sverrisson TF3DC.

Fundargerðir stjórnar ÍRA á heimasíðu enda í nóvember 2018. Fundargerðir sem á vantar til dagsins í dag – hafa verið birtar jafn óðum í CQ TF og hengdar upp á tilkynningatöflu í Skeljanesi. Auk þess, má lesa fundargerðir fyrra starfsárs í Ársskýrslu 2018/19. Hvorutveggja skýrsla og CQ TF eru til niðurhals á PDF formi hér á heimasíðunni.

Fundargerðir í Ársskýrslu 2018/19:
– Stjórnarskiptafundur 2018; 20. mars, bls. 92.
– Fundur 1/2018; 4. apríl, bls. 94.
– Fundur 2/2018; 2. maí, bls. 98.
– Fundur 3/2018; 11. júní, bls. 102.
– Fundur 4/2018; 8. ágúst, bls. 107.
– Fundur 5/2018; 3. október, bls. 112.
– Fundur 6/2018; 13. nóvember, bls. 117.
– Fundur 7/2018; 16. janúar, bls. 120.

Fundargerð í 2. tbl. CQ TF 2019:
– Fundur 8/stjórnarskiptafundur 2019; 26. febrúar,  bls. 37-38.

Fundargerðir í 3. tbl. CQ TF 2019:
– Fundur 1/2019; 26. febrúar; bls. 40-41.
– Fundur 2/2019; 26. mars, bls. 41-43.

Fundargerðir í 4. tbl. CQ TF 2019:
– Fundur 3/2019; 11. júní, bls. 41-44.
– Fundur 4/2019; 8. júlí; bls. 44-46.

Á meðan unnið er að uppfærslu fundargerða á heimasíðu sem og á fleiri undirsíðum er beðist velvirðingar á því óhagræði sem það kann að valda. Stefnt er að því að ljúka verkefninu fljótlega.

Stjórn ÍRA.

Vefslóðir:

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/02/20190216-arsskrysla-tf3jb.pdf

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/09/cqtf_33arg_2019_04tbl.pdf

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/06/cqtf_33arg_2019_03tbl.pdf

http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/03/cqtf_33arg_2019_02tbl.pdf

Fundargerðir stjórnar eru hengdar upp á tilkynningatöflu í Skeljanesi jafn óðum og þær hafa verið hlotið samþykki sem og í næsta hefti CQ TF. Loks eru allar fundargerðir hvers starfsárs birtar í ársskýrslu. Myndin að ofan var tekin 23. september s.l. í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Ljósmynd: TF3JB.

Félaginu barst að gjöf jeppafylli af radíódóti frá Sigurði Harðarsyni, TF3WS, fimmtudagskvöldið 14. nóvember. Þá lauk Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, við uppfærslu þriðju tölvunnar í fjarskiptaherbergi TF3IRA (Lenovo ThinkCentre). Síðast, en ekki síst, áttu félagsmenn góðar umræður um áhugamálið yfir kaffibolla.

Að venju var mikið rætt um tækin, loftnet, „Sark 110“ loftnetsgreininn (sem einn var nýbúinn að panta), skilyrðin á 80 metrum nú um stundir, verkefni sem menn eru með á vinnuborðinu o.m.fl. Einn félagsmanna kom færandi hendi með stóra dós af jólakonfekti frá Quality Street (Christmas 2019 Edition), og smakkaðist innihaldið vel með kaffinu.

Radíódótið frá TF3WS verður til afhendingar til félagsmanna frá og með 17. nóvember, en á sunnudag verður svokallaður „sófasunnudagur“ í Skeljanesi.

Alls mættu 19 félagar og 1 gestur í Skeljanes í heiðskírri froststillunni þetta ágæta vetrarkvöld.

Hluti af radíódótinu sem barst frá TF3WS 14. nóvember. M.a. mikið af spennum, aflgjöfum, a.m.k. 1 RF magnari o.m.fl. Mynd: TF3JB.
Yfirlitsmynd yfir radíódótið sem TF3WS færði félaginu. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
TF1A gengur frá nýju skjákorti í Lenovo ThinkCentre tölvuna, sem notast við Icom iC-7610 stöð TF3IRA. Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A og Vilhjálmur Í. Sigurjónsson TF3VS. Ljósmynd: Jónas Bjarnason, TF3JB.

Sunnudaginn 17. nóvember kl. 11 árdegis verða svokallaðar „sófaumræður“ í Skeljanesi; þær fyrstu á yfirstandandi vetrardagskrá. Til umfjöllunar verða viðurkenningar radíóamatöra. Jónas Bjarnason, TF3JB, leiðir umræður.

Viðurkenningar hafa fylgt áhugamálinu í tæp 100 ár. Leitast verður við að svara nokkrum grundvallarspurningum, þ.á.m.:

  • Hvað eru viðurkenningar radíóamatöra?
  • Fyrir hvað standa þær til boða?
  • Hvað þurfa menn að gera til að fá þær?
  • Hverjir gefa þær út?
  • Hvað gerir maður síðan við viðurkenningarnar?

Sófaumræður eru það fyrirkomulag, þegar boðið er upp á umræður á messutíma sem eru hugsaðar sem afslappaðar, þ.e. þar sem menn sitja með kaffibolla í stóra sófasettinu og ræða amatör radíó. Tiltekinn leyfishafi sem hefur staðgóða þekkingu á viðkomandi umræðuefni, leiðir síðan umræðuna og svarar spurningum.

Húsið opnar kl. 10:30. Vandaðar kaffiveitingar frá Björnsbakaríi.

Stjórn ÍRA.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi, fimmtudaginn 14. nóvember.

Nýjustu tímaritin, góður félagsskapur, kaffi og meðlæti.

Ný sending af QSL kortum verður komin í hús.

Ath.: Áður auglýst erindi Valgeirs Péturssonar TF3VP þennan dag „Að smíða RF magnara fyrir HF böndin og fleira“ frestast af óviðráðanlegum ástæðum og verður auglýst síðar.

Stjórn ÍRA.

Alltaf fjör í Skeljanesi. Anna Henriksdóttir TF3VB, Guðrún Hannesdóttir TF3GD og Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB. Í fjarlægð: Jón Björnsson TF3PW. Myndin var tekin í félagsaðstöðu ÍRA 25.10.2019. Mynd: TF3JB.

Áður auglýstar “sófaumræður” á morgun, sunnudag 10. nóvember, frestast um viku.

Þess í stað verður viðburðurinn á dagskrá sunnudaginn 17. nóvember kl. 11 árdegis.

Beðist er velvirðingar á þessari breytingu.

Stjórn ÍRA.

Yngvi Harðarson, TF3Y, mætti í Skeljanes á vetrardagskrá ÍRA þann 7. nóvember með erindið „Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum“.

Hann fjallaði um truflanir á HF; mismunandi tegundir, hvernig þær berast í viðtækið og kynnti aðferðir til að minnka þær. Hann upplýsti um helstu uppsprettur og dreifileiðir og sýndi m.a. áhugaverð sýnishorn af truflanavöldum á 40 metrunum frá NK7Z.

Yngvi kynnti og fór yfir sjö leiðir til að fást við vandann: (1) Fjarlæga uppsprettuna (alltaf best); (2) Færa viðtæki frá truflun; (3) Nota stefnuvirkt loftnet (s.s. magnetíska lúppu); (4) Nota fösun merkja; (5) SDR tækni, þ.e. 2 x RX með einum sveifluvaka; (6) DSP tækni; og (7) Aðferðir 3-6 saman.

Síðari hluti erindisins var verklegur. Eftirfarandi búnaður var notaður: NCC-1 (Receive Antenna Variable Phasing Controller fyrir 0.3-30 MHz) frá DxEngineering, RSPDuo SDR viðtæki frá SDRPlay (fyrir 1 kHz til 2 GHz) og Elecraft KX2 sendi-/viðtæki (fyrir 3.5-29.7 MHz), auk MFJ-1025 (Noise cancel/signal enhancer).

Kóaxkaplar höfðu verið lagðir frá fjarskiptaherbergi félagsins niður í fundarsal og var m.a. til afnota 4 staka YAGI loftnet TF3IRA fyrir 20 metrana og sambyggt stangarloftnet TF3IRA fyrir 10, 15, 20, 40 og 80 metra böndin.

Yngvi tengdi þennan búnað og var afar áhrifaríkt að sjá hann virka. Hann svaraði mörgum spurningum fundarmanna og sökum áhuga dróst til kl. 22:30 að taka kaffihlé. Niðurstaða: Það er sumsé hægt að sigrast í truflunum!

Alls mættu 41 félagsmaður og 2 gestir í Skeljanes þetta kyrrláta snemmvetrarkvöld í Vesturbænum. Bestu þakkir til Yngva fyrir áhugavert, fróðlegt, skemmtilegt og vel flutt erindi.

Glærur frá erindi Yngva: http://bit.ly/2PYZFPH

Skeljanesi 7. nóvember. Yngvi Harðarson TF3Y kynnir erindið “Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum”. Ljósmynd: TF3SB.
Aðsókn var mikil á erindi Yngva, alls 43, þannig að menn þurftu að standa (en salurinn rúmar 40 manns í sæti). Ljósmynd: TF3JB.

Óskar Sverrisson, TF3DC, leiðbeindi á námskeiðinu: „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ sem var haldið í Skeljanesi fimmtudaginn 7. nóvember.

Námskeiðið er hugsað til að aðstoða menn við að byrja í loftinu, hvort heldur þeir eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf eða eldri leyfishafar. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið.

Að þessu sinni voru þátttakendur tveir (en tveir til viðbótar þurftu að hætta við vegna vinnu) en reiknað er með fjórum að hámarki. Þegar tíðindamann bar að garði laust fyrir kl. 18:30 var verkefnið í fullum gangi, sbr. meðfylgjandi ljósmynd. Fyrirkomulag var þannig, að farið er yfir grundvallaratriði, s.s. reglugerðina og viðauka hennar, uppsetningu stöðvar og loftnets, tæknileg öryggisatriði, mikilvægi þess að hlusta, skráningu í fjarskiptadagbók o.fl. Síðan er farið yfir stillingar stöðvar á morsi, tali RTTY og FT8.

Þegar tíðindamaður yfirgaf staðinn var líflegt í fjarskiptaherbergi TF3IRA og menn afar ánægðir með námskeiðið. Þeir munu síðan mæta aftur á sama stað að viku liðinni og treysta sig enn frekar í fjarskiptum á böndunum.

Nemendur Óskars voru að þessu sinni þeir Sigurður Óskar Óskarsson, TF2WIN og Gunnar Bergþór Pálsson, TF-017, sem er einmitt nemandi á námskeiði félagsins til amatörprófs sem haldið er um þessar mundir.

Fjörugt í Skeljanesi. Frá vinstri: Sigurður Óskar Óskarsson TF2WIN, Óskar Sverrisson TF3DC leiðbeinandi og Gunnar Bergþór Pálsson TF3-Ø17. Fullbókað var á námskeiðið (sem miðast við fjóra), en tveir þurftu að hætta við vegna vinnu. Ljósmynd: TF3JB.

Næsta erindi á vetrardagskrá ÍRA verður í boði fimmtudaginn 7. nóvember kl. 20:30. Þá mætir Yngvi Harðarson, TF3Y, í Skeljanes með erindið „Að minnka truflanir í móttöku í HF fjarskiptum“.

Eins og flestir radíóamatörar þekkja, torvelda truflanir/suð í móttöku í fjarskiptum á stuttbylgjunni (og neðar í tíðnisviðinu) því stundum, að menn nái samböndum. Þetta er þó mismunandi eftir hverfum í þéttbýli, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar.

Yngvi mun m.a. taka til umfjöllunar raunveruleg dæmi, bæði frá eigin QTH og annarra leyfishafa, sem sendu honum spurningar við undirbúning erindisins.

Þetta er áhugavert efni og eru félagsmenn hvattir til að mæta tímanlega.

Stjórn ÍRA.

Yngvi Harðarson TF3Y í heimsókn hjá Georg Magnússyni TF2LL í Borgarfirði í apríl fyrra (2018). Ljósmynd: Vilborg Hjartardóttir.

Fyrsta sambandið á milli íslenskra radíóamatöra um Es’hail/Oscar 100 gervitunglið fór fram í dag, sunnudaginn 3. nóvember, kl. 12 á hádegi. Það var á milli þeirra Ara Þórólfs Jóhannessonar, TF1A og Valgeirs Péturssonar, TF3VP.

Valgeir byrjaði að hlusta á tunglið með 120cm diskloftneti þann 17. september en varð svo QRV í gær, 2. nóvember. Hann notar m.a. PlutoSDR transverter og 3 magnara, 40db magnara og svo 2 x 3W sem gefa honum um 3W í sendingu. Hann notar venjulegt LNB fyrir sjónvarp fyrir móttöku.

Hamingjuóskir til þeirra félaga með fyrsta „íslenska“ sambandið um Es’hail/Oscar 100.

https://youtu.be/Tr0icqAnSMA

Námskeiðið „Fyrstu skrefin, farið í loftið með leiðbeinanda“ verður endurtekið í Skeljanesi 7. og 14. nóvember n.k. Ath. að nú er það haldið á fimmtudegi kl. 17-19, bæði kvöldin.

Námskeiðið er hugsað til að aðstoða menn við að byrja í loftinu, hvort heldur þeir eru með nýtt eða nýlegt leyfisbréf eða eldri leyfishafar. Hugmyndin er að skapa andrúmsloft sem er afslappað þar sem menn geta spurt spurninga og prófað sig áfram með reyndum leiðbeinanda til að öðlast öryggi í að fara í loftið. Farið verður í loftið á CW, SSB, RTTY eða FT8, allt eftir óskum þátttakenda.

Í boði er að menn taki með sér eigin búnað og fái kennslu á hann. Fimmtudaginn viku síðar (14. nóvember) verður framhald þar sem nemendur ráða ferðinni og spyrja spurninga eftir að hafa prófað sig áfram í millitíðinni.

Ath. að fjöldi er takmarkaður og námskeiðið er frítt. Áhugasamir beðnir um að skrá sig sem fyrst hjá leiðbeinanda, Óskari Sverrissyni, TF3DC, í síma 862-3151.

Námskeiðið er að þessu sinni haldið í fjórða skipti og eru menn hvattir til að nýta sér þetta vinsæla námskeið. Myndin hér að ofan var tekin á fyrsta námskeiðinu sem haldið var 17. nóvember 2018. Eins og sjá má, var mikið fjör. Frá vinstri: Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Óskar Sverrisson TF3DC, Mathías Hagvaag TF3MH og Þorvaldur Bjarnason TF3TB. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.