Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, umsjónarmaður VHF/UHF leikanna, mætti í Skeljanes fimmtudaginn 18. júlí og kynnti reglur leikanna 2019 og svaraði spurningum.

Keli byrjaði stundvíslega kl. 20:30 og sýndi okkur glærur þar sem hann fór vel yfir helstu atriði og útskýrði m.a. reitakerfið, 6 klst. regluna, QSO upplýsingar, stigagjöf og margfaldara. Þá fór hann yfir sérstaka leikasíðu sem hann hefur sett upp á netinu.

Allar upplýsingar eru á þessari vefslóð:
http://vhfleikar.ira.is/2019/?fbclid=IwAR3oXOf20J82wOJPQkljAq27RuZozuPBfhvyAnB7suRYILuERX40d5Ty20w

Keli fékk að lokum gott klapp fyrir áhugaverða, vandaða og vel flutta kynningu. Alls mættu 20 félagsmenn og 1 gestur í Skeljanes þetta frábæra sumarkvöld í vesturbænum í Reykjavík.

Ath. VIÐBÓT 20. JÚLÍ.
QSO skráningarblað fyrir VHF/UHF leikinn.
Linkurinn reyndist brotinn í appinu. Sækið á nýja slóð hér fyrir neðan:

QsoSkraning.pdfPDF

73 de TF8KY.

Skeljanesi 18. júlí. Hrafnkell Sigurðsson TF8KY kynnir upplýsingar um VHF leikana 2019. Á mynd er einnig Þórður Adolfsson TF3DT.
Keli fór vel yfir reglurnar, svaraði spurningum inn á milli og skýrði með dæmum.
Frá vinstri: Eiður Kristinn Magnússon TF-071, Mathías Hagvaag TF3MH, Jón Björnsson TF3PW, Gísli Gissur Ófeigsson TF3G, Baldvin Þórarinsson TF3-033 og Jón Svavarsson TF3JON.
Áfram var rætt um VHF/UHF leikana sem eru framundan um helgina eftir að formlegu erindi lauk. Frá vinstri: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Sigmundur Karlsson TF3VE, Óðinn Þór Hallgrímsson TF2MSN, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Jón Svavarsson TF3JON, Ólafur B. Ólafsson TF3ML og Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A.
Frá vinstri: Mathías Hagvaag TF3MH, Gísli Gissur Ófeigsson TF3G og Kristján Benediktsson TF3KB. Myndir: Jónas Bjarnason TF3JB.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, umsjónarmaður VHF-UHF leikanna, mætir í Skeljanes fimmtudaginn 18. júlí og kynnir og fer yfir reglurnar fyrir leikana sem verða um næstu helgi, 20.-21. júlí.

Leikurinn hefst 20. júlí kl. 00:01. Keli segist gera ráð fyrir að margir muni byrja af krafti á slaginu miðnætti.

Tilkoma nýja Oscar 100 gervitunglsins hefur hvatt amatöra til að koma upp búnaði fyrir 13cm bandið. Þessu bandi verður bætt við í leikjasíðuna ef einhverjir vilja prófa QSO til stiga á 13cm.

Keli segir að þetta verði létt spjall á sumarkvöldi og ætlar að byrja kl. 20:30.

Mætum tímanlega. Vandaðar kaffiveitingar.

Stjórn ÍRA.

Stjórn ÍRA samþykkti á fundi sínum nýlega, að heimila félagssjóði kaup á eftirfarandi búnaði frá Microsat í Póllandi:

Microsat WX3in1 Mini APRS Advanced Digipeater/I-gate (2 stk.)
PLXDigi – APRS Digipeater (2 stk.)

Guðmundur Sigurðsson, TF3GS, setti fram beiðni til félagsins f.h. APRS hópsins. Hann segir, að búnaðurinn muni þétta kerfið og auka gæði og notkunarmöguleika og m.a. nýtast við tengingu Motorola GM-300 stöðva, en hópurinn fékk nýlega átta slíkar stöðvar að gjöf. Í bígerð er m.a. uppsetning I-gate á Akureyri og Digipeater á Þorbjörn við Grindavík.

Á sama fundi voru ennfremur heimiluð kaup á QO100 transverter frá PE1CMO í Hollandi ; „A complete transverter with 25 MHz reference oscillator for the LNB, a lownoise down converter from 739 to 432 MHz and a upconverter from 432 to 2400 MHz, double filtered and a 20 Watt amplifier“. Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, VHF stjóri félagsins, samdi um afsláttarverð fyrir félagið á Ham Radio sýninguni 2019 í Friedrichshafen.

APRS búnaðurinn kostar um 45 þús. krónur og Oscar-100 búnaðurinn um 118 þús. krónur (með aukabúnaði og tengjum). Uppgefið verð er með flutningi og gjöldum á Íslandi.

Myndin sýnir ofan í vatns- og rakaþéttan kassann með transverter’num frá PE1CMO.

Opið hús var í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 11. júlí.

Að venju var mikið rætt yfir kaffinu, m.a. um mismunandi loftnet, hæð yfir jörðu, fæðilínur, útgeislun og útgeislunarhorn, kóaxkapla og tengi (enda er júlímánuður = loftnetamánuður).

Einnig skoðuðu menn dót sem nýlega hefur borist félaginu frá þeim Garðari Gíslasyni TF3IC, Carl Jóhanni Lilliendahl TF3KJ og NN, sbr. myndir.

Alls mættu 14 félagar í Skeljanes þetta ágæta sumarkvöld.

Menn voru sammála um að loftnet eru það sem skiptir öllu máli í DX’inum! Frá vinstri: Hrafnkell Sigurðsson TF8KY, Rúnar Þór Valdimarsson TF3RJ, Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB. Hægra megin borðs: Óskar Sverrisson TF3DC, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS og Baldvin Þórarinsson TF3-033. Fyrir enda borðs; Mathías Hagvaag TF3MH. Mynd: TF3JB.
Dót sem barst til félagsins s.l. mánudag. Gefandi er ókunnur (NN). Margt leyndist í kössunum sem mönnum leist vel á og getur hentað vel til smíða. Mynd: TF3JB.
Þetta Philips viðtæki fylgdi einnig frá NN. Mynd: TF3JB.
Rúllurnar í plastpokunum eru frá Carl Jóhanni Lilliendahl, TF3KJ. Mynd: TF3JB.
Pye Westminster VHF stöðvarnar þrjár eru frá Garðari Gíslasyni TF3IC. Mynd: TF3JB.

Ákveðið hefur verið að seinka VHF leikunum 2019 um eina viku, þ.e. til 20.-21. júlí. Leikarnir verða því ekki um næstkomandi helgi, 13.-14. júlí eins og hafði verið auglýst.

Hrafnkell Sigurðsson, TF8KY, umsjónarmaður leikanna, mun mæta í Skeljanes fimmtudaginn 18. júlí n.k., til að fara keppnisreglur og svara spurningum.

Viðburðurinn verður nánar til kynningar hér á heimasíðunni þegar nær dregur.

Hrafnkell Sigurðsson TF8KY umsjónarmaður VHF-UHF leikanna. Myndin var tekin í Skeljanesi 9. maí s.l. þegar hann kynnti úrslit í Páskaleikunum 2019. Ljósmynd: Jónas Bjarnason, TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 11. júlí.

Opin málaskrá, nýjustu tímaritin og góður félagsskapur. Kaffi, te og meðlæti.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Andrés Þórarinsson TF3AM og Richard Desauliners VE2DX. Richard var á ferðalagi hér á landi ásamt XYL, Michelle. Þau hjón voru afar ánægð með ferðina og stórbrotna fegurð landsins og ekki síst að eiga þess kost að hitta svo marga íslenska leyfishafa í félagsaðstöðunni í Skeljanesi. Myndin var tekin 13.9.2018. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 4. júlí.

Opin málaskrá, nýjustu tímaritin og góður félagsskapur. Kaffi, te og meðlæti.

Stjórn ÍRA.

Úr félagsstarfinu. Glatt á hjalla í Skeljanesi. Frá vinstri: Sigurbjörn Þór Bjarnason TF3SB, Brynjólfur Jónsson TF5B, Örnólfur Hall TF3AH og Mathías Hagvaag TF3MH. Myndin var tekin 9.12.2012. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Sumarið er loftnetatíminn! Þeir Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Georg Magnússon TF2LL og Óskar Sverrisson TF3DC mættu í Skeljanes 2. júlí eftir vinnu og settu upp New-Tronics Hustler 4-BTV stangarloftnet (vertíkal) fyrir TF3IRA.

Loftnetið vinnur á 10, 15, 20, 40 og 80 metrum. Gengið var frá uppsetningu á nýja festingu sem TF2LL smíðaði og hluta af radíölum (en þakið er ryðgað og menn telja tryggara að hafa mótvægið í lagi), auk þess sem netið var vel stagað. 4-BTV kemur í stað vertíkals sem féll og skemmdist í óveðri í nóvember s.l.

Eftir er að ganga frá eigintíðnistillingu og hluta af radíölum sem drifið verður í við fyrsta tækifæri. Framundan er jafnframt uppsetning á vírloftnetum fyrir 30, 40, 60, 80 og 160 metra böndin fyrir félagsstöðina.  Stjórn félagsins þakkar þeim félögum gott framlag.

Frábært veður var í vesturbænum í gær (2. júlí) þegar þeir félagar unnu við loftnetsuppsetninguna, logn og 15°C hiti. Frá vinstri: Óskar Sverrisson TF3DC, Georg Magnússon TF2LL og Guðmundur Sigurðsson TF3GS. Ljósmynd: TF3JB.
Kaffipásan var m.a. notuð til að sníða og ganga frá radíölum fyrir loftnetið. Frá vinstri: Guðmundur Sigurðsson TF3GS, Georg Magnússon TF2LL og Óskar Sverrisson TF3DC. Ljósmynd: TF3JB.
Eftir kaffið var á ný haldið upp á þakið og settir niður radíalar. Sjá má að þakplöturnar eru nokkuð ryðgaðar þannig að skynsamlegt er að strengja radíala fyrir böndin. Ljósmynd: TF3JB.

Ágætu félagsmenn!

Mér er ánægja að tilkynna um útkomu 3. tölublaðs CQ TF 2019, sem nú kemur út á stafrænu formi hér á heimasíðunni.

Margir hafa lagt hönd á plóg og mörgum ber að þakka, en sér í lagi TF3VS sem annaðist umbrotsvinnu.

CQ TF er að þessu sinni 45 blaðsíður að stærð.

73 – TF3SB, ritstjóri CQ TF.

Hér má nálgast blaðið: http://www.ira.is/wp-content/uploads/2019/06/cqtf_33arg_2019_03tbl.pdf

Forsíðumynd CQ TF, 3 tbl.

Góð mæting var á opið hús í félagsaðstöðunni fimmtudaginn 27. júní. Sérstakur gestur var Daggeir Pálsson, TF7DHP, frá Akureyri.

Mikið var rætt um nýjungar sem kynntar voru á sýningunni í Friedrichshafen sem haldin var um nýliðna helgi, en a.m.k. 17 Íslendingar sóttu hana heim þetta árið. Margir gerðu góð kaup, bæði í sendistöðvum og mælitækjum. M.a. er von á fyrstu Kenwood TS-890S stöðinni til landsins innan tíðar.

Ari Þórólfur Jóhannesson, TF1A, sýndi nýjan búnað til notkunar fyrir sambönd um gervitunglið Es’hail-2/P4A / Oscar 100. Umfjöllun um hann og fleiri nýjungar á sýningunni verður í septemberhefti CQ TF.

Glæsilegar kaffiveitingar voru í boði TF7DHP þetta vel heppnaða fimmtudagskvöld.

Þétt setið við fundarborðið. Frá vinstri (neðra horn): Jón Björnsson TF3PW, Mathías Hagvaag TF3MH, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Jón Guðmundsson TF3LM, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Georg Kulp TF3GZ, Sigmundur Karlsson TF3VE, Karl Birkir Flosason TF3KF, Daggeir Pálsson TF7DHP og Baldvin Þórarinsson TF3-033 (bak í myndavél). Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Frá vinstri: Þórður Adolfsson TF3DT, Wilhelm Sigurðsson TF3AWS, Ari Þórólfur Jóhannesson TF1A, Georg Kulp TF3GZ, Sigmundur Karlsson TF3VE, Daggeir Pálsson TF7DHP og Baldvin Þórarinsson TF3-033 (bak í myndavél). Ljósmynd: TF3JB.
Óskar Sverrisson TF3DC og Kristján Benediktsson TF3KB. Þeir félagar vígðu nýtt leðursófasett félagsins sem var notað í fyrsta sinn þetta fimmtudagskvöld. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.

Fyrir nokkrum árum fékk ÍRA vandaðan 15 m háan turn gefins. Turninn er gerður úr fimm galvaniseruðum einingum sem hver er 3 m að lengd. Á meðfylgjandi mynd sjást þeir TF3BJ og TF3G huga að turninum í portinu við húsakynni félagsins í Skeljanesi.

Nú ber svo við að turninn finnst ekki í Skeljanesi sem er bagalegt. Nokkrir vaskir félagar eru tilbúnir að setja hann upp til að strengja í hann loftnet fyrir 160 m og 80 m. Nú erum við nærri sólblettalágmarki og því eru þessi bönd sérstaklega verðmæt.

Ef einhver veit hvar turninn er eða um afdrif hans væri frábært að fá um það vitneskju. Hægt er að senda tölvupóst til ira@ira.is eða hafa samband við stjórnarmenn.

Með fyrirfram þökkum og 73

Stjórn ÍRA

Opið hús verður í félagsaðstöðu ÍRA í Skeljanesi fimmtudaginn 27. júní kl. 20:00-22:00.

Opin málaskrá, nýjustu tímaritin og góður félagsskapur. Kaffi, te og meðlæti.

Flestir félagsmanna sem heimsóttu Ham Radio sýninguna í Friedrichshafen í Þýskalandi um helgina eru aftur komnir til landsins og ekki ólíklegt að þeir muni mæta í kaffi í Skeljanes og segja nýjustu fréttir.

Íslenski hópurinn var að þessu sinni alls 17 manns, þ.e. 13 leyfishafar og 4 makar.

Stjórn ÍRA.

Myndin sýnir hluta sýningarsvæðisins sem hýsir flóamakað radíóamatöra í Friedrichshafen þar sem leyfishafar alls staðar að úr Evrópu koma með eldri (eða jafnvel nýjan búnað) og bjóða til sölu. Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Mikið magn af notuðum sendi-/móttökustöðvum er ætíð í boði í Friedrichshafen. Heilu Collins línurnar voru t.d. fáanlegar við góðu verði og voru margir sem stöldruðu til að skoða (og kaupa). Ljósmynd: Jónas Bjarnason TF3JB.
Mælitæki eru í boði (oft við ótrúlega hagstæðu verði) og sumir í íslenska hópnum gerðu mjög góð kaup. Ljósmynd: TF3JB.